Samgönguráðuneyti

97/2009

Reglugerð um verkflug í atvinnuskyni. - Brottfallin

1. gr.

Markmið.

Meginmarkmið reglugerðar þessarar er að setja lágmarkskröfur til starfrækslu verkflugs í atvinnuskyni.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til verkflugs með íslenskum og erlendum loftförum sem íslenskur flugrekandi notar eða ræður yfir.

3. gr.

Orðskýringar.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Aðallisti um lágmarksbúnað (Master minimum equipment list, MMEL): Listi sem gerður er fyrir ákveðna flugvélategund af framleiðanda hennar og samþykktur af flugmálastjórn framleiðslulands. Hann tilgreinir þau atriði, eitt eða fleiri, sem leyfilegt er að séu í ólagi í upphafi flugs. Aðallistinn getur tengst sérstökum flugskilyrðum, takmörkunum eða flugaðferðum.

Afkastageta flugvélar (Aeroplane performance): Útreiknaðir og prófaðir eiginleikar flugvélar að því er varðar getu og takmörk hennar á öllum stigum flugs við aðstæður sem hún kann að vera starfrækt við.

Ábyrgðarmaður (Accountable Manager): Einstaklingur sem Flugmálastjórn getur fallist á og hefur umboð fyrirtækisins til að tryggja fjármagn til rekstrar og viðhalds samkvæmt þeim staðli sem krafist er auk þeirra krafna sem flugrekandaskírteini skilgreinir.

Árekstrarvari (ACAS, Airborne Collision Avoidance System): Búnaður sem komið er fyrir í loftfari og les merki ratsjársvara annarra loftfara. Búnaðurinn segir til um hvort önnur loftför eru í nánd, hvaða hætta er á árekstri og varar flugmann við, ef þörf krefur.

Blindflug (IFR-flight): Flug samkvæmt blindflugsreglum (IFR).

Flughandbók flugvélar (Aeroplane Flight Manual): Handbók sem tengd er loft­hæfi­skírteininu þar sem tilgreint er innan hvaða marka flugvélin er talin lofthæf og gefnar eru nauðsynlegar leiðbeiningar og upplýsingar fyrir flugliða um örugga starfrækslu flugvélarinnar.

Flugrekandi (Operator): Einstaklingur, fyrirtæki eða stofnun sem stundar eða býðst til að stunda rekstur loftfars. Flugrekandi þarf tilskilin leyfi Flugmálastjórnar til þess að stunda atvinnuflug.

Flugrekstrarhandbók (Operations Manual): Handbók, samþykkt af Flugmálastjórn Íslands en samin af flugrekanda, til notkunar og leiðbeiningar fyrir starfslið hans um einstök svið eða þætti flugrekstrarins.

Flugrekstrarleyfi (Operating license): Leyfi sem veitt er til reksturs loftfara í atvinnuskyni, eins og skráð er í flugrekstrarleyfið.

Flugrekstrarstjórn (Operational control): Stjórn á einstökum þáttum flugs, upphafi, áframhaldi, breytingum á framvindu þess eða lokum, með öryggi loftfars, reglufestu á áætlunum og hagkvæmni flugsins í huga.

Geðvirk efni (Psychoactive substances): Alkóhól, ópíumefni, kannabisefni, róandi lyf og svefnlyf, kókaín, önnur geðörvandi lyf, ofskynjunarlyf og rokgjörn leysiefni. Undanskilin eru kaffi og tóbak.

Gæðastjóri (Quality Manager): Gæðastjóri, sem flugmálayfirvöld geta samþykkt, sem ábyrgur er fyrir stjórnun gæðakerfisins, eftirliti þess og eftirfylgni við leiðréttingar.

Listi um lágmarksútbúnað (Minimum equipment list, MEL): Listi sem kveður á um notkun flugvélar með ákveðinn búnað óstarfhæfan, að tilgreindum uppfylltum skilyrðum, er flugrekandi semur samkvæmt aðallista um lágmarksútbúnað fyrir flugvélartegundina eða með strangari takmörkunum en þar eru settar.

Neyðarsendir (Emergency Locator Transmitter, ELT): Almennt heiti á búnaði sem sendir greinileg merki á tíðnisviðum 406MHz og 121,5MHz og sem fer í gang sjálfvirkt við árekstur eða sem settir eru handvirkt í gang eftir notkunargildi. Neyðarsendir getur verið af eftirfarandi gerðum:

 1. Sjálfvirkur fastur (ELT (Automatic Fixed, AF)). Sjálfvirkur neyðarsendir sem er festur við flugvélina til frambúðar.
 2. Sjálfvirkur beranlegur (ELT (Automatic Portable, AP)). Neyðarsendir sem fer í gang sjálfvirkt sem er festur við flugvélina, en sem hægt er að losa auðveldlega frá henni.
 3. Sjálfvirkur sjálflosandi (ELT (Automatic Deployable, AD)). Neyðarsendir sem er festur við flugvélina og sem losnar sjálfvirkt frá flugvélinni og fer í gang við árekstur og í sumum tilvikum með snertingu við vatn. Einnig er hægt að setja hann í gang handvirkt.
 4. Neyðarsendir fyrir þá sem komast af (ELT (Survival, S)). Neyðarsendir sem hægt er að losa úr flugvél og er þannig fyrirkomið að hann er auðveldlega tiltækur í neyð og þeir sem komast lífs af geta notað hann handvirkt.

Verkflug (Aerial work): Starfræksla loftfars í sérhæfðri starfsemi og þjónustu, svo sem í landbúnaði, byggingarvinnu, við ljósmyndun, landmælingar, athuganir og eftirlit úr lofti, leit og björgun, auglýsingaflug o.s.frv.

Samþykkt viðhaldsstofnun (Approved maintenance organization): Stofnun sem fengið hefur samþykki Flugmálastjórnar Íslands til að skoða, grannskoða, viðhalda, gera við og/eða breyta loftförum eða hluta þeirra undir umsjón sem viðurkennd er af Flugmálastjórn og/eða flugmálastjórn hlutaðeigandi lands.

Þyrla (Helicopter): Þyrilvængja sem heldur láréttu flugi aðallega fyrir tilverknað hreyfilknúinna þyrla.

4. gr.

Flugrekandaskírteini.

Forsenda útgáfu flugrekstrarleyfis til verkflugs í atvinnuskyni er gilt flugrekandaskírteini sem gefið er út af Flugmálastjórn Íslands. Ekki má stunda flugrekstur í verkflugi nema að slíkt flugrekandaskírteini sé í gildi.

Í flugrekendaskírteini er tilgreint nákvæmlega hvers konar flugstarfsemi er heimiluð og veitir skírteinið ekki heimild til annars konar flugstarfsemi en þar segir.

Flugrekanda ber að haga flugrekstri sínum í samræmi við þau skilyrði sem sett eru í flugrekendaskírteininu.

Flugrekendaskírteini er veitt til ákveðins tíma sem þar er nánar tilgreindur, að hámarki 3 ár. Handhafi flugrekendaskírteinis skal tafarlaust skýra Flugmálastjórn frá því ef starfsemi hans breytist á þann veg að forsendur flugrekendaskírteinis eru brostnar, t.d. að því er lýtur að starfsliði, loftförum, vátryggingum eða stjórnendum. Flug­rekenda­skírteini verður breytt, fellt úr gildi tímabundið eða afturkallað ef Flugmálastjórn telur sig ekki lengur hafa fulla vissu um að handhafi þess geti haldið uppi öruggum rekstri. Bresti forsendur flugrekendaskírteinis og skilyrði sem kveðið er á um í reglugerð þessari fellur flugrekendaskírteinið úr gildi.

Umsækjandi flugrekandaskírteinis skal uppfylla skilyrði 9. og 10. gr., sbr. 2. gr. í reglugerð (EB) nr. 2407/92 sem innleidd er með reglugerð nr. 969/2008 um veitingu flugrekstrarleyfa, markaðsaðgang flugrekanda, fargjöld og farmgjöld í flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins.

5. gr.

Stjórnun á áframhaldandi lofthæfi.

Umsækjandi um flugrekandaskírteini skal hafa tilhlýðilegt samþykki samkvæmt G-kafla M.A. í fylgiskjali I við reglugerð nr. 206/2007 um viðvarandi lofthæfi loftafara til að annast stjórnun á áframhaldandi lofthæfi loftfars sem hann starfrækir, eða gera verksamning við fyrirtæki sem hlotið hefur slíkt samþykki.

Kjósi flugrekandi að annast sjálfur áframhaldandi lofthæfi og fái samþykki til þess, þá skal hann uppfylla kröfur í G-kafla M.A. um tæknistjóra, sbr. d-lið gr. 206 M.A. í fylgiskjali I.

Einnig skal flugrekandi hafa tilhlýðilegt samþykki samkvæmt F-kafla M.A. í I. eða 145. hluta í I. viðauka við reglugerð nr. 206/2007 eða gera verksamning við fyrirtæki með slíkt samþykki skv. sömu reglugerð.

6. gr.

Flugrekstrarleyfi til verkflugs.

Flugmálastjórn Íslands veitir flugrekstrarleyfi til verkflugs í atvinnuskyni. Nefnist það flugrekstrarleyfi til verkflugs. Forsenda flugrekstrarleyfis til verkflugs er að umsækjandi hafi flugrekandaskírteini gefið út af Flugmálastjórn, sbr. 4. gr. Flugrekstrarleyfi veitir þó ekki sjálfkrafa rétt til tiltekinna flugleiða né markaða.

Umsækjandi um flugrekstrarleyfi til verkflugs skal uppfylla skilyrði 4. gr. - 8. gr., sbr. 2. gr. og viðauka, í reglugerð (EB) nr. 2407/92 sem innleidd er með reglugerð nr. 969/2008 um veitingu flugrekstrarleyfa, markaðsaðgang flugrekanda, fargjöld og farmgjöld í flugþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Flugrekstrarleyfi er veitt til tiltekins tíma að því tilskyldu að handhafi þess uppfylli þau skilyrði sem kveðið er á um í reglugerð þessari. Fyrsta útgáfa flugrekstrarleyfis má vera til allt að 1 árs en til allt að þriggja ára við endurútgáfu. Ef handhafi flugrekstrarleyfis hefur stöðvað rekstur í sex mánuði eða ekki hafið rekstur að sex mánuðum liðnum frá veitingu flugrekstrarleyfis skal Flugmálastjórn ákveða hvort umsókn um flugrekstrarleyfi skuli lögð fram til samþykktar að nýju. Flugrekstrarleyfi fellur úr gildi hafi fyrirtæki, sem fer með handhöfn þess, verið tekið til gjaldþrotaskipta eða sambærilegrar meðferðar og Flugmálastjórn telur engar raunhæfar líkur á að fjárhagsleg endurskipulagning takist svo fullnægjandi sé innan hæfilegs tíma.

Brjóti leyfishafi í mikilvægum atriðum lagaboð, önnur fyrirmæli um starfsemina, skilyrði leyfis eða hann reynist ófær um að reka starfsemina skal svipta hann leyfi.

Heimilt skal að binda flugrekstrarleyfi þeim skilyrðum sem nauðsynleg þykja að því marki sem það samrýmist öðrum lögum eða milliríkjasamningum auk skilyrða skv. ákvæðum þessarar reglugerðar. Flugrekstrarleyfið fellur úr gildi ef einhverju framan­greindra skilyrða er ekki lengur fullnægt.

7. gr.

Umsókn.

Þeir, sem hyggjast sækja um flugrekstrarleyfi til verkflugs, endurnýjun eða breytingar á eldra leyfi, skulu senda Flugmálastjórn umsókn á þar til gerðum eyðublöðum. Fram skulu koma allar þær upplýsingar sem þar er beðið um. Sérstaklega skal veita nákvæmar upplýsingar um eftirfarandi atriði:

 1. Nafn umsækjanda eða fyrirtækis, heimilisfang, kennitölu og símanúmer.
 2. Þjóðerni umsækjanda, viðskiptabanka og/eða fjármögnunaraðila. Ef um félag er að ræða skal tilgreina félagsform og innlent eignarhlutfall, hlutafé og þar af innborgað hlutafé, svo og nafn stjórnarformanns. Einnig komi fram hvort umsækjandi hefur annan atvinnu- eða fjármagnsrekstur með höndum, og þá hvaða.
 3. Skipulag og stjórn fyrirhugaðrar flugstarfsemi þar sem fram koma nöfn framkvæmdastjóra flugdeildar, flugrekstrarstjóra, gæðastjóra og yfirmanns þjálfunar.
 4. Fyrirhugaðan flugrekstur og flugáætlanir, ásamt fyrirhugðum fjölda loftfara, tegund þeirra og nafn skráðs eiganda þeirra. Sanna ber umráðarétt yfir loftförum ef umsækjandi er eigi skráður eigandi þeirra.
 5. Hvar aðalskrifstofur flugrekanda eru eða verða, svo og aðsetur fyrir yfirstjórn og flugrekstur.
 6. Upplýsingar um fjárhagsstöðu, sbr. 6. gr.

8. gr.

Ábyrgð flugrekanda.

Flugrekandi skal sjá til þess að öllum starfsmönnum sé gert ljóst að þeim beri að fara að lögum, reglugerðum og verklagsreglum þeirra ríkja þar sem starfsemin fer fram og lúta að framkvæmd skyldustarfa þeirra.

Flugrekandi skal sjá til þess að allir flugverjar kunni skil á þeim lögum, reglugerðum og verklagsreglum sem lúta að framkvæmd skyldustarfa þeirra.

9. gr.

Ábyrgðarmenn rekstrar.

Flugrekandi skal tilnefna og leita samþykkis á eftirfarandi trúnaðarmönnum Flugmála­stjórnar Íslands:

 1. Flugrekstrarstjóra;
 2. Yfirmanni þjálfunar;
 3. Gæðastjóra; og
 4. Ábyrgðarmanni flugrekstrar.

Hjá starfsmönnum með færri en 5 stöðugildi skal ekki gerð krafa um gæðastjóra.

Flugrekstrarstjóri eða staðgengill hans skal vera flugmaður að mennt eða hafa sambærilega menntun á flugsviði. Flugrekstrarstjóri skal hafa hlotið viðurkenningu Flugmála­stjórnar til starfsins og hafa gengist undir sérstakt próf hjá Flugmálastjórn til þess að sanna hæfni sína. Flugrekstrarstjóri skal bera ábyrgð á flugrekstrarstjórn.

Yfirmaður þjálfunar skal vera flugmaður að mennt eða hafa sambærilega menntun á flugsviði. Yfirmaður þjálfunar skal hafa hlotið viðurkenningu Flugmálastjórnar til starfsins.

Gæðastjóri skal hafa aflað sér þekkingar á gæðastjórnun og gæðamálum sem Flugmála­stjórn metur nægilega. Gæðastjóri ber ábyrgð á gæðakerfi flugrekanda og virkni þess. Flugrekstrarstjóri ber ábyrgð á skipulagningu flugrekstrar. Ef flugrekstrarstjóri eða gæðastjóri láta af störfum hjá flugrekanda eða hyggjast gera það, ber ábyrgðarmanni flugrekanda að tilkynna það tafarlaust til Flugmálastjórnar og sækja jafnframt um viðurkenningu á eftirmanni. Starfsemi flugrekanda má ekki halda áfram án leyfis Flugmálastjórnar fyrr en nýr flugrekstrarstjóri og gæðastjóri hafa hafið störf hjá flugrekanda. Flugrekstrarstjóri eða gæðastjóri mega tilnefna staðgengil í fjarveru sinni. Leita ber viðurkenningar Flugmálastjórnar fyrirfram á hlutaðeigandi staðgengli.

Flugmálastjórn er heimilt að áskilja að fyrirsvarsmenn flugrekanda þ.e. ábyrgðarmaður, flugrekstrarstjóri, yfirmaður þjálfunar og gæðastjóri sanni kunnáttu sína og hæfni með sérstakri próftöku, sbr. 2. og 3. mgr. Að fenginni viðurkenningu Flugmálastjórnar Íslands ber þeim að starfa sem sérstakir trúnaðarmenn stofnunarinnar og skal mat Flugmála­stjórnar varðandi viðurkenningu þeirra meðal annars grundvallast á þeim forsendum. Komi í ljós að kunnáttu eða hæfni fyrirsvarsmanns sem hlotið hefur viðurkenningu sé ábótavant eða fyrirsvarsmaður brýtur trúnað við Flugmálastjórn getur hún fellt viðurkenningu sína niður til bráðabirgða eða að fullu. Flugmálastjórn skal eiga endanlegt mat um viðurkenningu á trúnaðarmönnum.

10. gr.

Flugrekstrarhandbók.

Flugrekandi skal leggja fram til samþykktar flugrekstrarhandbók. Flugrekstrarhandbókin skal innihalda lýsingu á starfsemi flugrekanda, verklagi og starfrækslu verkflugs í atvinnuskyni. Flugrekanda ber að haga starfsemi sinni í samræmi við samþykkta flugrekstrarhandbók. Flugrekstrarhandbók skiptist upp í fjóra hluta, A, B, C og D.

Flugrekstrarhandbók skal uppbyggð í meginatriðum í samræmi við eftirfarandi efnis­skipan:

A-hluti - Almenn ákvæði / Grunnákvæði:

 1. Umsjón og eftirlit með flugrekstrarhandbókinni.
 2. Skipulag og ábyrgð.
 3. Flugrekstrarstjórn og eftirlit.
 4. Gæðakerfi.
 5. Samsetning áhafnar.
 6. Hæfnikröfur.
 7. Varúðarráðstafanir vegna heilsu áhafnar.
 8. Flugtímamörk.
 9. Verklag í flugi.
 10. Hættulegur varningur og vopn.
 11. Flugvernd.
 12. Meðferð, tilkynning og skýrslugerð vegna atvika.
 13. Flugreglur.
 14. Leiga.

B-hluti - Atriði er varða starfrækslu loftfara - (flokkað) eftir tegundum.

C-hluti - Fyrirmæli og upplýsingar um flugleiðir og flugvelli.

D-hluti - Þjálfun.

11. gr.

Listi um lágmarksbúnað.

Flugrekandi skal setja saman lista um lágmarksbúnað fyrir hverja flugvél/þyrlu sem samþykkt er af Flugmálastjórn Íslands. Hann skal byggjast á viðeigandi aðallista um lágmarksbúnað (ef hann er til), sem viðurkenndur er af Flugmálastjórn, en ekki fela í sér minni takmarkanir en hann.

Flugrekandi skal ekki starfrækja flugvél/þyrlu öðruvísi en í samræmi við lista yfir lágmarksbúnað nema hann hafi leyfi flugmálayfirvalda til þess. Þó er starfræksla utan marka grunnlista yfir lágmarksbúnað aldrei heimil.

12. gr.

Gæðakerfi.

Flugrekandi skal setja fram og viðhalda áætlun um slysavarnir og flugöryggi sem fella má inn í gæðakerfið.

 1. Flugrekandi skal koma á fót einu gæðakerfi og tilnefna einn gæðastjóra til að hafa eftirlit með því að tilskilið verklag sé viðhaft til að tryggja öruggan rekstur flugrekanda. Í eftirliti með framkvæmd reksturs skal vera innbyggt kerfi upplýsingastreymis, sem skilar sér til ábyrgðarmanns til að tryggja að gerðar séu nauðsynlegar úrbætur. Í gæðakerfinu verður að vera áætlun um gæðatryggingu með verklagsreglum sem miða að því að sannreyna að öll starfræksla fari fram samkvæmt öllum gildandi kröfum, stöðlum og verklagsreglum.
 2. Flugmálastjórn verður að geta fallist á gæðakerfið og gæðastjórann.
 3. Lýsa verður gæðakerfinu í tilheyrandi skjölum.

13. gr.

Áætlun um slysavarnir og flugöryggi.

Flugrekandi skal setja fram og viðhalda áætlun um slysavarnir og flugöryggi sem fella má inn í gæðakerfið skv. 12. gr., þ.m.t. öll eftirfarandi atriði:

 1. Áætlanir um að allt starfsfólk í rekstrinum verði vel meðvitað um áhættuþætti sem tengjast rekstrinum.
 2. Tilkynningakerfi um atvik til að unnt sé að safna saman skýrslum um viðeigandi flugatvik og slys og meta þær til að bera kennsl á óæskilega þróun eða til að bæta úr annmörkum til að tryggja flugöryggi; kerfið skal halda leyndu nafni þess sem gefur skýrsluna og bjóða upp á þann möguleika að skýrslur séu lagðar fram nafnlaust.
 3. Mat á því hvaða upplýsingar um slys og flugatvik eru áríðandi og koma þeim á framfæri en ekki ákveða hver beri sök.
 4. Eftirlitsáætlun fyrir flugritagögn að því er varðar loftfar sem hafa hámarks­flugtaksmassa sem er meiri en 27.000 kg. Eftirlit með flugritagögnum (FDM) er notkun stafrænna gagna um venjubundna starfrækslu í flugi til að bæta flugöryggi; í eftirlitsáætluninni fyrir flugritagögn skulu ekki vera refsiákvæði og í henni skulu vera ákvæði sem vernda heimildarmann eða -menn gagnanna á viðunandi hátt.
 5. Skipun manns sem ber ábyrgð á stjórnun áætlunarinnar.

Tillögur að aðgerðum til úrbóta, sem lagðar eru fram í kjölfar áætlunarinnar um slysa­varnir og flugöryggi, skulu vera á ábyrgð þess sem ber ábyrgð á stjórnun áætlunarinnar.

Skilvirkni breytinga, sem gerðar eru í kjölfar aðgerða til úrbóta sem tilgreindar eru samkvæmt áætluninni um slysavarnir og flugöryggi, skal vera undir eftirliti gæða­stjórans.

14. gr.

Upplýsingar um neyðar- og björgunarbúnað um borð.

Flugrekandi skal sjá til þess að í stjórnklefa sé greiður aðgangur að nauðsynlegum upplýsingum um leitar- og björgunarþjónustu sem snýr að fyrirhuguðu flugi.

Flugrekandi skal sjá til þess að listar með upplýsingum um neyðar- og björgunarbúnað um borð séu tiltækir í öllum loftförum sínum svo að unnt sé að koma þeim samstundis til björgunarmiðstöðva. Listar skulu liggja fyrir, eftir því sem við á, um fjölda, lit og tegund björgunarbáta og neyðarblysa ásamt nákvæmum upplýsingum um sjúkragögn, vatns­birgðir og tegund og tíðnisvið neyðarhandfjarskiptabúnaðar.

15. gr.

Ábyrgð áhafnar.

Flugverji skal bera ábyrgð á réttri framkvæmd þeirra starfa sinna sem:

 1. Tengjast öryggi loftfarsins og þeirra sem í henni eru.
 2. Tilgreind eru í leiðbeiningunum og verklagsreglunum í flugrekstrarhandbókinni.

Flugverji skal:

 1. gefa flugstjóra skýrslu um hvers kyns annmarka, bilanir, ólag eða galla, sem hann telur að geti haft áhrif á lofthæfi eða öryggi starfrækslu flugvélarinnar/þyrlunnar, að meðtöldum neyðarkerfum,
 2. gefa flugstjóranum skýrslu um öll flugatvik sem stofna eða gætu stofnað öryggi starfrækslunnar í hættu,
 3. nýta sér tilkynningarkerfi flugrekanda um atvik. Í öllum tilvikum skal viðkomandi flugstjóri fá afrit af skýrslunni.

Ekkert í b-lið 2. mgr. hér að framan skal skuldbinda flugverja til að gefa skýrslu um atvik sem annar flugverji hefur þegar gefið skýrslu um.

Flugverji skal ekki gegna skyldustörfum um borð í flugvél/þyrlu:

 1. undir áhrifum lyfja sem kunna að hafa áhrif á andlega og líkamlega getu hans og stofna öryggi í hættu,
 2. eftir djúpköfun, nema að hæfilegum tíma liðnum,
 3. eftir blóðgjöf, nema að hæfilegum tíma liðnum,
 4. ef viðeigandi heilbrigðiskröfur eru ekki uppfylltar eða ef hann er í einhverjum vafa um að geta sinnt skyldustörfum sínum eða
 5. ef hann veit eða grunar að hann sé haldinn ofþreytu eða finnst hann vera svo ófær til vinnu að hann geti stofnað fluginu í hættu.

Flugverji skal uppfylla viðeigandi kröfur er lúta að neyslu áfengis í samræmi við ákvæði laga um loftferðir og skulu þær ekki fela í sér minni takmarkanir en eftirfarandi:

 1. Ekki skal neyta áfengis síðustu átta klukkustundirnar fyrir tilgreindan mætingar­tíma á flugvakt eða upphaf bakvaktar.
 2. Vínandamagn í blóði skal ekki vera yfir 0,2 prómillum við upphaf flugvaktar.
 3. Hvorki skal neyta áfengis á flugvakt né bakvakt.

Flugstjóri:

 1. skal vera ábyrgur fyrir öryggi allra um borð frá því að hann kemur um borð og þangað til að hann fer frá borði flugvélarinnar/þyrlunnar við lok flugs;
 2. skal vera ábyrgur fyrir starfrækslu og öryggi flugvélar frá því að flugvélin er fyrst reiðubúin til hreyfingar til aksturs fyrir flugtak þar til að hún nemur staðar við lok flugs og drepið hefur verið á hreyfli eða hreyflum sem notaðir eru sem aðalhreyflar og þyrlu frá því að þyrilblöð byrja að snúast þar til að þyrla lýkur flugi og þyrilblöð eru stöðvuð;
 3. hefur vald til að gefa allar þær skipanir sem hann telur nauðsynlegar til að tryggja öryggi loftfarsins og fólks eða eigna um borð;
 4. skal sjá til þess að allir fái upplýsingar um staðsetningu neyðarútganga og um geymslustaði og notkun öryggis- og neyðarbúnaðar. Starfsmenn sem taka þátt í verkflugi sem sitja í flugmannssæti valdi ekki ónæði og/eða truflun á flugstörfum og séu kynntar þær takmarkanir og öryggisreglur sem við eiga;
 5. skal sjá til þess að öllum verklagsreglum og gátlistum sé fylgt samkvæmt flugrekstrarhandbók, skal ekki leyfa flugverja að starfa neitt annað en nauðsynlegt er til að tryggja örugga starfrækslu loftfarsins meðan á flugtaki, frumklifri, lokaaðflugi og lendingu stendur;
 6. skal ekki leyfa:
  1. að flugriti sé gerður óvirkur, að slökkt sé á honum eða þurrkað út af honum á flugi og ekki heldur skal hann heimila að skráð gögn séu þurrkuð út að flugi loknu verði slys eða flugatvik sem skylt er að gefa skýrslu um,
  2. að hljóðriti sé gerður óvirkur eða að slökkt sé á honum á flugi nema hann telji að geyma beri skráðu gögnin, sem annars væru þurrkuð út sjálfvirkt, til að nota við rannsókn á flugatviki eða slysi, og ekki heldur skal hann leyfa að skráð gögn séu þurrkuð út handvirkt á meðan á flugi stendur eða að loknu flugi, verði slys eða flugatvik sem skylt er að gefa skýrslu um,
 7. ákveður hvort hann taki við loftfari með óstarfhæfan búnað sem er þó leyfilegt að sé óstarfhæfur samkvæmt lista yfir leyfð frávik frá ytri búnaði loftfars fyrir flug (CDL) eða lista yfir lágmarksbúnað og
 8. skal ganga úr skugga um að fyrirflugsskoðun hafi farið fram.

Í neyðartilvikum, þegar nauðsynlegt er að ákvarðanir séu teknar og brugðist við í skyndingu, skal flugstjórinn, eða sá flugmaður sem hefur verið falin stjórn flugsins, gera allt sem hann telur rétt að gera miðað við aðstæður. Í slíkum tilvikum er honum heimilt í öryggisskyni að víkja frá reglum, verklagsreglum og vinnuaðferðum.

16. gr.

Valdsvið flugstjóra.

Flugrekandi skal gera allar réttmætar ráðstafanir til að tryggja að allir, sem í loftfarinu eru, hlýði lögmætum fyrirskipunum flugstjórans sem miða að því að tryggja öryggi loftfarsins, fólks eða eigna um borð.

17. gr.

Áfengi og geðvirk efni.

Flugrekandi skal gera allar réttmætar ráðstafanir til þess að ekki sé neinum heimilað að fara inn í eða vera í loftfari, undir áhrifum áfengis eða geðvirkra efna í þeim mæli að það stofni öryggi loftfarsins eða þeirra sem í því eru í hættu.

18. gr.

Öryggi stofnað í hættu.

Flugrekandi skal gera allar réttmætar ráðstafanir til að tryggja að enginn aðhafist eða láti vera að aðhafast, af gáleysi eða kæruleysi, neitt það sem:

 1. gæti stofnað loftfari eða þeim sem í því eru í hættu,
 2. gæti valdið því að loftfarið stofni fólki eða eignum í hættu.

19. gr.

Skjöl sem skulu vera um borð.

Flugrekandi skal sjá til þess að eftirfarandi skjöl eða afrit af þeim séu um borð í hverju flugi:

 1. Skráningarskírteini;
 2. Lofthæfivottorð;
 3. Frumrit eða afrit af hljóðstigsvottorði (ef við á);
 4. Frumrit eða afrit af flugrekandaskírteini;
 5. Talstöðvarskírteini loftfars; og
 6. Frumrit eða afrit af ábyrgðartryggingarskírteini loftfars.

Allir flugliðar skulu í hverju flugi hafa með sér gilt flugliðaskírteini með viðeigandi áritun eða áritunum sem gilda í því flugi.

20. gr.

Handbækur sem skulu vera um borð.

Flugrekandi skal sjá til þess að:

 1. Þeir hlutar flugrekstrarhandbókar, sem varða skyldustörf áhafnar og annarra, séu um borð í hverju flugi, og séu í gildi.
 2. Þeir hlutar flugrekstrarhandbókar, sem nota þarf við framkvæmd flugsins, séu auðveldlega tiltækir áhöfninni um borð.
 3. Gildandi flughandbók flugvélarinnar sé um borð, nema Flugmálastjórn hafi viðurkennt að í flugrekstrarhandbókinni séu nægilegar upplýsingar sem eiga við þá flugvél.

21. gr.

Viðbótarupplýsingar og eyðublöð sem skulu vera um borð.

Flugrekandi skal sjá til þess að til viðbótar þeim skjölum og handbókum sem tilgreind eru í 19. og 20. gr., séu eftirfarandi upplýsingar og eyðublöð, er varða viðkomandi tegund flugs og flugsvæði, um borð í hverju flugi:

 1. Leiðarflugáætlun.
 2. Tækniflugbók flugvélar þar sem koma fram a.m.k. þær upplýsingar sem krafist er í lið M.A. 306 í M-hluta.
 3. Nákvæm sundurliðun á skráðri flugáætlun fyrir flugumferðarþjónustuna (ATS).
 4. Viðeigandi upplýsingar til flugmanna (NOTAM/AIS).
 5. Viðeigandi upplýsingar um veður.
 6. Massa- og jafnvægisskrár.
 7. Gildandi landabréf og kort og tilheyrandi skjöl.
 8. Önnur skjöl sem ríki, sem eiga hlut að máli í viðkomandi flugi, kunna að krefjast eins og farmskrá, farþegaskrá o.fl.
 9. Eyðublöð sem skylt er að skila til flugmálayfirvalda og flugrekanda.

Flugmálastjórn getur heimilað að upplýsingarnar, sem um getur í a-lið hér að framan, séu lagðar fram í öðru formi en prentuðu. Það þarf að vera tryggt að þær séu auðveldlega tiltækar, nothæfar og áreiðanlegar.

22. gr.

Upplýsingar sem haldið er eftir á jörðu niðri.

Flugrekandi skal sjá til þess a.m.k. á meðan hver flugferð eða röð ferða stendur yfir:

 1. að upplýsingar, er varða flugferðina og eiga við um þá tegund flugrekstrar sem fer fram, séu geymdar á jörðu niðri og
 2. að upplýsingunum sé haldið eftir á þeim stað þar sem þær verða geymdar uns gert hefur verið eftirrit af þeim.

Til þeirra upplýsinga, sem um getur í 1. mgr. hér að framan, teljast m.a:

 1. afrit af leiðarflugáætlun, ef við á,
 2. afrit af viðeigandi hlutum tækniflugbókar flugvélarinnar,
 3. upplýsingar til flugmanna er varða leiðina sérstaklega, hafi flugrekandi gefið út slíkar upplýsingar,
 4. massa- og jafnvægisskrár, og
 5. tilkynningar um sérstakan farm.

23. gr.

Varðveisla skjala.

Flugrekandi skal sjá til þess:

 1. að frumrit eða afrit af skjölum, sem honum er skylt að varðveita, séu varðveitt eins lengi og krafist er, jafnvel þótt hann sé ekki lengur flugrekandi flug­vélar­innar/þyrlunnar og
 2. að þegar flugverji, þar sem flugrekandi hefur haldið skrá yfir flugvaktir, vinnu- og hvíldartíma hans, gerist flugverji hjá öðrum flugrekanda fái nýi flugrekandinn aðgang að skránni eftir þörfum til þess að unnt sé að sýna fram á að viðeigandi kröfur séu uppfylltar.

24. gr.

Starfræksla eins hreyfils flugvélar/þyrlu.

Eins hreyfils flugvél/þyrlu má aðeins starfrækja í þannig birtu- og veðurskilyrðum og á þannig leiðum að unnt sé að nauðlenda á öruggan hátt, ef bilun verður í hreyfli.

Einshreyfils landflugvélum skal ekki flogið lengra frá landi en svo, að hægt sé að ná til lands í renniflugi. Flugmálastjórn getur þó veitt sérstakt leyfi fyrir ferjuflug yfir haf og milli landa, svo og fyrir einkaflug tímabilið frá apríl til september, að því tilskyldu að:

- flugstjórinn hafi a.m.k. 500 klst. flugreynslu og gilda blindflugsáritun,
- flugvélin sé skráð til blindflugs og meðferðis sé björgunarbátur af viðurkenndri gerð er rúmi alla um borð. Báturinn skal búinn neyðarsendi ELT(S).

25. gr.

Mælitæki, búnaður, fjarskipta- og leiðsögutæki - flugvélar.

Auk þess lágmarksbúnaðar sem nauðsynlegur er til þess að unnt sé að gefa út lofthæfivottorð, skal koma fyrir um borð í flugvélum mælitækjum, búnaði og flugskjölum þeim, sem mælt er fyrir um í eftirfarandi greinum eða þau borin um borð, eftir því sem við á í samræmi við þá flugvél sem notuð er og þær aðstæður sem vélinni skal flogið við. Flugmálastjórn Íslands skal samþykkja og viðurkenna mælitækin og búnaðinn sem mælt er fyrir um, þ.m.t. uppsetningu þeirra.

Flugvél skal búin mælitækjum sem gera áhöfn kleift að stjórna flugslóð hennar, framkvæma samkvæmt starfsháttum öll þau flugbrögð, sem þörf krefur, og fljúga innan starfrækslumarka flugvélarinnar við þau skilyrði sem búast má við í fluginu.

Allar flugvélar skulu búnar:

 1. Aðgengilegum sjúkrakassa.
 2. Handslökkvitækjum af þess konar tegund að þau valdi ekki hættulegri loftmengun inni í flugvélinni við notkun. A.m.k. eitt skal vera staðsett í:
  1. flugstjórnarklefa; og
  2. sérhverju rými sem er aðskilið frá flugstjórnarklefanum og ekki er auðvelt fyrir flugstjóra eða aðstoðarflugmann að ná til.
 3. Öryggisbeltum eða þar sem þau eru fyrir hendi öryggistygjum fyrir hvert sæti og hvert legurúm.
 4. Eftirfarandi handbókum, kortum og upplýsingum:
  1. flughandbók;
  2. gildum og hentugum kortum fyrir fyrirhugaða flugleið og allar þær flugleiðir sem ætla má að hugsanlega yrði flogið ef víkja þyrfti af upphaflegri flugleið;
  3. verklagsreglum sem mælt er fyrir um í flugreglunum (innleiðing 2. viðauka við Chicago-samningin) fyrir flugstjóra um einelti;
  4. sjónmerkjum sem notuð eru við einelti og er að finna í flugreglum;
  5. til vara, þeim bræðivörum af réttum gerðum sem unnt er að ná til og skipta um á flugi.
 5. Allar flugvélar skulu búnar leiðbeiningum um merkjakerfi það sem notað er við samskipti frá jörðu til loftfara við leit og björgun.
 6. Allar flugvélar sem flogið er samkvæmt reglum um sjónflug skulu búnar:
  1. seguláttavita;
  2. nákvæmri klukku sem sýnir klukkustundir, mínútur og sekúndur;
  3. næmum þrýstingshæðarmæli;
  4. hraðamæli; og
  5. þeim viðbótarmælitækjum eða búnaði sem Flugmálastjórn eða erlend yfirvöld sem flogið er til kunna að mæla fyrir um.
 7. Allar einshreyfils landflugvélar sem fljúga yfir hafi eða vatni fjær landi en svo að ná megi til lands í renniflugi, skulu hafa innanborðs björgunarvesti, eða sambærilegan flotbúnað, fyrir sérhvern um borð og sem er komið þannig fyrir að auðveldlega megi ná til þeirra úr sætum eða legurúmum þess sem þau eru ætluð.
 8. Þegar íslenskri einshreyfils flugvél eða flugvél sem ekki getur haldið áfram flugi ef markhreyfill hennar verður óvirkur, er flogið fjær landi þar sem hæglega mætti nauðlenda en 93 km (50NM), búnar tiltækum vatnsþéttum flotbúningi fyrir sérhvern um borð ásamt nærfatnaði sem haldið getur nægum hita á þeim er búninginn notar.
 9. Einshreyfils flugvélar í íslenskri lofthelgi skulu hafa meðferðis búnað sem tryggir öryggi allra um borð í a.m.k. sólarhring ef til nauðlendingar kæmi. Búnaðurinn skal miðaður við aðstæður hverju sinni, t.d. skal hafa meðferðis varmapoka, skjólfatnað og neyðarkost.
 10. Allar flugvélar, sem knúnar eru hverfihreyflum og með skráðan hámarks­flug­taks­massa, sem er yfir 5.700 kg, eða hafa leyfi til að flytja fleiri en níu farþega, og sem eru með lofthæfivottorð, sem gefið var út í fyrsta sinn 1. janúar 2004 eða síðar, skulu búnar jarðvarakerfi með framsýna virkni.
 11. Allar flugvélar, sem knúnar eru hverfihreyflum og með skráðan hámarksflugtaksmassa, sem er yfir 5.700 kg, eða hafa leyfi til að flytja fleiri en níu farþega, búnar jarðvarakerfi með framsýna virkni.
 12. Jarðvarakerfið skal fara sjálfkrafa í gang til að gefa nógu tímanlega og greinilega viðvörun til flugáhafnar þegar flugvélin er hugsanlega hættulega nálægt yfirborði jarðar.
 13. Jarðvarakerfi skal að lágmarki gefa viðvörun við a.m.k. eftirfarandi aðstæður:
  1. of miklum hnighraða;
  2. flugvélin missir flughæð of mikið eftir flugtak eða þegar hætt er við lendingu; og
  3. hindranabil yfir landi er ekki nægjanlegt.
 14. Allar flugvélar með skráðan hámarksflugtaksmassa yfir 5.700 kg skulu búnar flugrita sem Flugmálastjórn skal samþykkja.
 15. Allar flugvélar með skráðan hámarksflugtaksmassa fyrir 27.000 kg skulu búnar hljóðrita en markmiðið með honum er að hljóðrita öll hljóð í stjórnklefa á fartíma.
 16. Hljóðriti sem settur er í flugvélar með skráðan hámarksflugtaksmassa, sem er yfir 5.700 kg og með lofthæfivottorð sem gefið var út í fyrsta sinn 1. janúar 1990 eða síðar skal a.m.k. geta geymt upplýsingar sem hann skráði tvo síðustu klukkutímana sem hann var í gangi.
 17. Íslenskar flugvélar eða flugvélar á vegum íslenskra aðila notaðar til verkflugs skulu búnar sjálfvirkum neyðarsendi, ELT.
 18. Allar flugvélar skulu búnar ratsjársvara sem gefur upp málþrýstingshæð og virkar í samræmi við viðeigandi ákvæði IV. bindis 10. viðauka við Chicago-samninginn nema Flugmálastjórn Íslands hafi veitt þeim undanþágu.
 19. Allar flugvélar, sem knúnar eru hverfihreyflum og með skráðan hámarks­flug­taks­massa, sem er yfir 15.000 kg, eða hafa leyfi til að flytja fleiri en 30 farþega, og sem eru með lofthæfivottorð, sem gefið er út í fyrsta sinn eftir 24. nóvember 2005, skulu vera búnar árekstrarvarakerfi (ACAS II).
 20. Allar flugvélar, sem knúnar eru hverfihreyflum og með skráðan hámarks­flug­taks­massa, sem er yfir 15.000 kg, eða hafa leyfi til að flytja fleiri en 30 farþega, og sem eru með lofthæfivottorð, sem gefið er út í fyrsta sinn eftir 1. janúar 2007, skulu búnar árekstrarvarakerfi (ACAS II).
 21. Allar flugvélar, sem knúnar eru hverfihreyflum og með skráðan hámarks­flug­taks­massa, sem er yfir 5.700 kg en þó ekki yfir 15.000 kg, sem eru með lofthæfivottorð, sem gefið er út í fyrsta sinn eftir 1. janúar 2008, skulu búnar árekstrarvarakerfi (ACAS II).
 22. Allir flugliðar, sem krafist er að séu á vakt í stjórnklefa, skulu eiga samskipti með hljóðnemum sem eru áfastir heyrnartólum eða barkahljóðnemum fyrir neðan skiptilag/- skiptihæð.
 23. Flugvél, sem áætlað er að fljúga samkvæmt sjónflugsreglum skal, nema undanþága hafi fengist frá Flugmálastjórn Íslands, búin fjarskiptatækjum svo að unnt sé að halda uppi fjarskiptum, hvenær sem er á flugi, við þær flugfjarskiptastöðvar, sem hlutaðeigandi yfirvöld mæla fyrir um, á þeirri tíðni sem þau hafa mælt fyrir um samkvæmt fyrirmælum í 1. deild Flugmálahandbókar Íslands (AIP).
 24. Flugvél skal búin leiðsögutækjum svo að unnt sé að fljúga:
  1. í samræmi við flugáætlun;
  2. í samræmi við kröfur flugumferðarþjónustu nema unnt sé að fljúga rétta leið í samræmi við sjónflugsreglur með viðmiðun við kennileiti á jörðu niðri a.m.k. sérhverja 110 km (60 NM) ef slíkt hefur ekki verið bannað af Flugmálastjórn Íslands.

26. gr.

Mælitæki, búnaður, fjarskipta- og leiðsögutæki - þyrlur.

Auk þess lágmarksbúnaðar, sem nauðsynlegur er til að unnt sé að gefa út lofthæfivottorð, skal koma fyrir um borð í þyrlum mælitækjum, búnaði og flugskjölum þeim, sem mælt er fyrir um í eftirfarandi greinum, eða þau borin um borð, eftir því sem við á, í samræmi við þá þyrlu sem notuð er og þær aðstæður sem þyrlunni skal flogið við. Flugmálastjórn Íslands skal samþykkja og viðurkenna mælitækin og búnaðinn sem mælt er fyrir um, þ.m.t. uppsetningu þeirra.

Þyrla skal búin mælitækjum sem gera áhöfn kleift að stjórna flugslóð hennar, framkvæma samkvæmt starfsháttum öll þau flugbrögð sem þörf krefur, og fljúga innan starfrækslumarka þyrlunnar við þau skilyrði sem búast má við í fluginu.

Allar þyrlur skulu búnar:

 1. aðgengilegum sjúkrakassa;
 2. handslökkvitækjum af þess konar tegund að þau valdi ekki hættulegri loftmengun inni í þyrlunni við notkun. A.m.k. eitt skal vera staðsett í:
  1. flugstjórnarklefa; og
  2. sérhverju rými sem er aðskilið frá flugstjórnarklefanum og ekki er auðvelt fyrir flugstjóra eða aðstoðarflugmann að ná til,
 3. öryggisbeltum eða þar sem þau eru fyrir hendi öryggistygjum, fyrir hvert sæti og hvert legurúm;
 4. eftirfarandi handbókum, kortum og upplýsingum:
  1. flughandbók;
  2. gildum og hentugum kortum fyrir fyrirhugaða flugleið og allar þær flugleiðir sem ætla má að hugsanlega yrði flogið ef víkja þyrfti af upphaflegri flugleið;
  3. verklagsreglum sem mælt er fyrir í flugreglum (innleiðing viðauka 2 við Chicago-samninginn) fyrir flugstjóra um einelti; og
  4. sjónmerkjum sem notuð eru við einelti og er að finna í flugreglunum.
 5. Til vara þeim bræðivörum (ef bræðivör eru notuð), af réttum gerðum sem unnt er að ná til og skipta um á flugi.
 6. Leiðbeiningum um merkjakerfi það sem notað er við samskipti frá jörðu til loftfara við leit og björgun.
 7. A.m.k. einum sjálfvirkum neyðarsendi (ELT). Þyrlur starfræktar yfir sjó (off-shore) skulu einnig búnar neyðarsendi (ELT(S)) í björgunarbát eða björgunarvesti.
 8. Allar þyrlur sem flogið er skv. reglum um sjónflug skulu búnar:
  1. seguláttavita;
  2. nákvæmri klukku sem sýnir klukkustundir, mínútur og sekúndur;
  3. næmum þrýstingshæðarmæli;
  4. hraðamæli; og
  5. þeim viðbótarmælitækjum eða búnaði sem Flugmálastjórn eða viðeigandi erlend yfirvöld sem flogið er til kunna að mæla fyrir um.
 9. Flotbúnaði.
  Allar þyrlur sem ætlað er að fljúga yfir sjó eða vötnum skulu búnar flotbúnaði sem er varanlegur eða hægt er að nota með skjótum hætti til að tryggja örugga nauðlendingu þyrlunnar á vatni þegar:
  1. Flogin er vegalengd yfir sjó eða vötnum sem samsvarar meira en 10 mínútum á venjulegum farflugshraða frá landi ef um er að ræða þyrlur í afkastagetuflokki 1 eða 2 eða;
  2. Flogið er vegalengd yfir sjó eða vötnum sem er lengri en sem nemur vegalengd sem flogið er á sjálfsnúningi þyrils (auto-rotational) til öruggs nauðlendingastaðar á landi, ef um er að ræða þyrlur í afkastagetuflokki 3.
 10. Neyðarbúnaði.
  Þyrlur í afkastagetuflokki 1 og 2 sem eru starfræktar í samræmi við i-lið skulu búnar:
  1. einu björgunarvesti eða sambærilegum flotbúnaði fyrir sérhvern um borð sem geymt er á stað þar sem auðvelt er að nálgast það úr sæti eða legurúmi þess sem þau eru ætluð;
  2. björgunarbátum sem rúma alla um borð og komið er þannig fyrir að auðvelt sé að taka þá í notkun í neyðartilvikum og í þeim skal vera nauðsynlegur björgunarbúnaðar, þ.m.t. búnaður til að lifa af og miðast sá búnaður við það flug sem fyrirhugað er hverju sinni;
  3. búnaði til að senda upp neyðarblys eins og lýst er í flugreglum;
  4. þegar flugtaks og aðflugsslóð liggur þannig yfir vatni að líklegt sé að nauðlenda þyrfti á vatni ef óhapp yrði skal þyrlan búin a.m.k. einu björgunarvesti eða sambærilegum flotbúnaði fyrir sérhvern um borð sem geymdur er á stað þar sem auðvelt er að nálgast það úr sæti eða legurúmi þess sem þau eru ætluð.
 11. Í flugi einshreyfils þyrlna í íslenskri lofthelgi skal hafa meðferðis búnað sem tryggir öryggi allra um borð í a.m.k. sólarhring ef til nauðlendingar kæmi. Búnaðurinn skal miðaður við aðstæður hverju sinni, t.d. skal hafa meðferðis varmapoka, skjólfatnað og neyðarkost.
 12. Allar þyrlur með skráðan hámarksflugtaksmassa sem er yfir 7.000 kg skulu búnar flugrita sem samþykktur er af Flugmálastjórn.
 13. Allar þyrlur sem fengu fyrst útgefið lofthæfivottorð 1. janúar 2005 eða síðar með skráðan hámarksflugtaksmassa sem er yfir 3.175 kg skulu búnar flugrita sem samþykktur er af Flugmálastjórn.
 14. Allar þyrlur með skráðan hámarksflugtaksmassa, sem er yfir 7.000 kg, skulu búnar hljóðrita en markmiðið með honum er að hljóðrita öll hljóð í stjórnklefa á fartíma. Að því er varðar þyrlur, sem ekki eru búnar flugrita, skal a.m.k. skrá hraða aðalþyrils á eina af rásum hljóðritans.
 15. Ef slys eða flugatviki verður varðandi starfrækslu þyrlu skal umráðandinn/flugstjórinn tryggja, eftir því sem mögulegt er, að allar ferðritaskrár, sem varða slysið eða flugatvikið og, ef nauðsynlegt er, tilheyrandi ferðritar séu varðveittir og geymdir í öruggri vörslu þar til búið er að ganga frá þeim í samræmi við ákvæði laga um rannsókn flugslysa og reglugerð um rannsókn flugslysa.
 16. Allar þyrlur skulu búnar ratsjársvara sem gefur upp málþrýstingshæð og virkar í samræmi við viðeigandi ákvæði IV. bindis 10. viðauka við Chicago-samninginn nema Flugmálastjórn Íslands hafi veitt undanþágu.
 17. Allar þyrlur skulu búnar fjarskiptatækjum svo unnt sé að halda uppi fjarskiptum hvenær sem er á flugi við flugfjarskiptastöðvar.

27. gr.

Undanþágur.

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að veita undanþágur frá ákvæðum reglugerðar þessarar enda sé sérstökum ástæðum til að dreifa sem réttlæti slíkt og flugöryggi er ekki stefnt í hættu að mati stofnunarinnar.

28. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varðar refsingu skv. 141. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir með síðari breytingum.

29. gr.

Kæruréttur.

Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands sæta kæru samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga.

30. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 7. mgr. 28. gr. og 85. gr. a, sbr. 145. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir og tekur gildi 1. febrúar 2009.

Samgönguráðuneytinu, 30. janúar 2009.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica