Samgönguráðuneyti

1186/2008

Reglugerð um aðgang að flugafgreiðslu á flugvöllum. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um alla flugvelli sem eru opnir fyrir flugumferð í atvinnuskyni við eftirfarandi aðstæður:

 

a)

1. mgr. 7. gr. gildir um alla flugvelli án tillits til umfangs umferðar um þá.

 

b)

2. mgr. 7. gr. gildir um alla flugvelli sem opnir eru fyrir flugumferð í atvinnu­skyni þar sem árleg umferð nemur ferðum að minnsta kosti einnar milljónar farþega eða 25.000 tonnum af farmi.

 

c)

6. gr. gildir um flugvelli þar sem árleg umferð nemur að minnsta kosti ferðum þriggja milljóna farþega eða 75.000 tonnum af farmi; eða þar sem umferð hefur numið að minnsta kosti ferðum tveggja milljóna farþega eða 50.000 tonnum af farmi síðustu sex mánuðina fyrir 1. apríl eða 1. október árið á undan.Með fyrirvara um 1. mgr. gilda ákvæði þessarar reglugerðar fyrir alla flugvelli sem opnir eru fyrir umferð í atvinnuskyni og þar sem árleg umferð nemur að minnsta kosti ferðum tveggja milljóna farþega eða 50.000 tonnum af farmi.

Ef flugvöllur nær einu af lágmarksgildunum fyrir flutning farms án þess að ná sam­svarandi lágmarksgildum fyrir ferðir farþega gilda ákvæði þessarar reglugerðar ekki um þá flokka flugafgreiðslu sem miðast eingöngu við farþega.

Þegar flugvöllur nær einu af þeim lágmarksgildum sem skilgreind eru í 1. og 2. mgr. skulu viðeigandi ákvæði reglugerðarinnar eiga við frá upphafi næsta árs þar á eftir.

Flugmálastjórn Íslands skal fyrir 1. júlí ár hvert senda Eftirlitsstofnun EFTA skrá yfir flugvellina sem um getur í þessari grein.

2. gr.

Skilgreiningar.

Þegar eftirfarandi orð og orðasambönd eru notuð í reglugerð þessari hafa þau þá merkingu sem hér segir:

Flugvöllur (Airport): afmarkað landsvæði, að meðtöldum byggingum og búnaði sem ætlaður er til afnota við komur, brottfarir og hreyfingar loftfara á jörðu niðri auk þeirrar þjónustu og nauðsynlegrar aðstöðu til handa aðilum í flugþjónustu í atvinnuskyni;

Flugvallarkerfi (Airport system): tvo eða fleiri flugvelli sem til samans þjóna tiltekinni borg eða þéttbýlissvæði.

Rekstraraðili flugvallar (Managing body of the airport): aðila sem hefur það verksvið, jafnvel í tengslum við aðra starfsemi, samkvæmt innlendum lögum eða reglugerðum, að annast umsýslu og stjórnun mannvirkja flugvallar og samræma og hafa eftirlit með starfsemi allra flugrekenda á flugvellinum eða í viðkomandi flugvallarkerfi;

Flugvallarnotandi (Airport user): einstakling eða lögaðila sem stundar flutninga í lofti á farþegum, pósti og/eða farmi til eða frá viðkomandi flugvelli;

Flugafgreiðsla (Groundhandling): þjónustu sem flugvallarnotendum er veitt á flugvöllum, eins og lýst er í viðaukanum;

Eigin afgreiðsla (Self-handling): þær aðstæður að notandi annast eigin flugafgreiðslu í einni eða fleiri myndum og gerir ekki samning af neinu tagi við þriðja aðila um þessa þjónustu. Í þessari skilgreiningu teljast flugvallarnotendur ekki þriðju aðilar ef:

 1. annar á meirihlutaeign í hinum, eða
 2. einn aðili á meirihlutaeign í báðum;

Veitandi flugafgreiðslu (Supplier of groundhandling services): einstakling eða lögaðila sem sér um að veita þriðju aðilum flugafgreiðslu í einni eða fleiri myndum.

3. gr.

Eftirlitsstjórnvald.

Tilnefnt eftirlitsstjórnvald samkvæmt reglugerð þessari er Flugmálastjórn Íslands. Flug­mála­stjórn Íslands annast tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli reglu­gerðar­innar, nema annað sé tekið fram.

4. gr.

Rekstraraðili flugvallar.

Ef það er ekki einn heldur margir séraðilar sem reka flugvallarkerfi skal hver þessara aðila teljast hluti af rekstraraðila flugvallar að því er þessa reglugerð varðar.

Ef aðeins ein stjórn er yfir fleiri en einum flugvelli eða flugvallarkerfi telst hver þessara flugvalla eða flugvallarkerfa á sama hátt séraðili að því er þessa reglugerð varðar.

5. gr.

Nefnd flugvallarnotenda.

Rekstraraðili flugvallar skal, fyrir hvern flugvöll sem reglugerð þessi tekur til, stofna nefnd fulltrúa flugvallarnotenda eða fulltrúasamtaka þeirra.

Hver flugvallarnotandi á rétt á að sitja í þessari nefnd eða láta samtök koma þar fram fyrir sína hönd. Rekstraraðili flugvallar skal upplýsa flugvallarnotendur um rétt sinn.

Flugmálastjórn Íslands skal upplýst um fundarstað og tíma hverju sinni af rekstraraðila flugvallar.

6. gr.

Flugafgreiðsla til þriðja aðila.

Rekstraraðili flugvallar skal tryggja veitendum flugafgreiðslu frjálsan aðgang að markaðinum til að veita þriðja aðila þessa þjónustu.

Rekstraraðili flugvallar getur óskað eftir því við Flugmálastjórn Íslands að takmarka fjölda þeirra sem hafa leyfi til að veita eftirfarandi flokka flugafgreiðslu til þriðja aðila:

 1. farangursafgreiðslu,
 2. hlaðafgreiðslu,
 3. afgreiðslu eldsneytis og olíu,
 4. flutning á farmi og pósti milli flugstöðvar og loftfars, hvort sem um er að ræða farm sem er að koma, fara eða er í umflutningi.

Ekki má takmarka fjölda þeirra við færri en tvo fyrir hvern flokk flugafgreiðslu.

Að minnsta kosti einn af leyfishöfum flugafgreiðslu má hvorki vera beint eða óbeint undir stjórn:

 1. rekstraraðila flugvallar,
 2. flugvallarnotanda sem hefur flutt meira en 25% farþega eða farms sem skráð er á flugvellinum árinu áður en framangreindir leyfishafar flugafgreiðslu voru valdir,
 3. aðila sem beint eða óbeint stýrir eða er stýrt af rekstraraðila flugvallar eða slíkum notanda.

Ef Flugmálastjórn Íslands samþykkir umsókn rekstaraðila flugvallar um takmörkun fjölda þeirra sem fá leyfi til að veita þjónustu skal tryggt að flugvallarnotandi, sama hvaða hluta flugvallarins hann hefur til ráðstöfunar, hafi val, fyrir hvern flokk flugafgreiðslu sem háður er takmörkunum, milli að minnsta kosti tveggja veitenda flugafgreiðslu.

7. gr.

Eigin afgreiðsla.

Á flugvöllum sem eru opnir fyrir flugumferð í atvinnuskyni óháð umferðarmagni skal rekstraraðili flugvallar tryggja frelsi til að annast eigin afgreiðslu.

Á flugvöllum þar sem árleg umferð nemur ferðum fleiri en einnar milljónar farþega eða meira en 25.000 tonnum af farmi getur rekstraraðili flugvallar óskað eftir því við Flugmálastjórn Íslands að fækkað verði þeim sem heimild hafa til að annast eigin afgreiðslu, þó ekki í færri en tvo flugvallarnotendur, að því er varðar eftirfarandi flokka flugafgreiðslu:

 1. farangursafgreiðslu,
 2. hlaðafgreiðslu,
 3. afgreiðslu eldsneytis og olíu,
 4. flutning á farmi og pósti milli flugstöðvar og loftfars, hvort sem um er að ræða farm sem er að koma, fara eða er í umflutningi,

að því tilskildu að þeir séu valdir með aðferðum sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar.

Nemi árleg umferð ferðum færri en einnar milljónar farþega eða minni en 25.000 tonnum af farmi er heimilt að takmarka tilgreinda flokka flugafgreiðslu við einn flugvallarnotanda.

8. gr.

Sérstök flugvallarmannvirki.

Þrátt fyrir ákvæði 6.-7. gr. er rekstraraðila flugvallar heimilt að óska eftir því við Flugmálastjórn Íslands að samþykkja að öðrum aðila sé afhent stjórn sérstakra flugvallarmannvirkja sem notuð eru við flugafgreiðslu og getur stofnunin skyldað veitendur flugafgreiðslu og flugvallarnotendur sem annast eigin afgreiðslu til að nota þessi mannvirki. Þetta á einkum við um mannvirki sem eru svo flókin, kostnaðarsöm eða hafa svo mikil umhverfisáhrif í för með sér að ekki er unnt að skipta þeim niður eða hafa fleiri en eitt af þeim, svo sem stjórn farangursflokkunar, afísingar, vatnshreinsunar og eldsneytisdreifingar.

Samþykki Flugmálastjórn Íslands slíka ráðstöfun skv. 1. mgr. skulu flugvallarnotendur nýta þau sérstöku flugvallarmannvirki eingöngu og ekki nota annan búnað til sömu nota, nema rekstraraðili flugvallar heimili slíkt.

Við þær aðstæður þar sem sérstök flugvallarmannvirki hafa verið afhent aðila öðrum en rekstraraðila flugvallar skal stjórnun þessara mannvirkja og gjaldtaka vegna aðgengis að þeim vera gagnsæ, hlutlæg og án mismununar og tryggt skal að aðgangur þeirra aðila sem veita flugafgreiðslu eða flugvallarnotenda sem annast eigin afgreiðslu sé óhindraður að mannvirkinu.

9. gr.

Heimild til takmörkunar á flugafgreiðslu.

Ef takmarkað ráðstöfunarrými eða afkastageta á flugvelli, sem stafar einkum af þrengslum og nýtingu svæðisins, gera það ókleift að koma við eigin afgreiðslu að því marki sem kveðið er á um í þessari reglugerð getur Flugmálastjórn Íslands ákveðið, að beiðni rekstraraðila flugvallar:

 

a)

að takmarka fjölda þeirra sem veita einn eða fleiri flokka flugafgreiðslu, aðra en þá sem um getur í 2. mgr. 6. gr., á öllum flugvellinum eða hluta hans; í þeim tilvikum gilda ákvæði 2. og 3. mgr. 6. gr.;

 

b)

að láta aðeins einn aðila veita einn eða fleiri flokka flugafgreiðslu eins og um getur í 2. mgr. 6. gr.;

 

c)

að leyfa aðeins ákveðnum fjölda flugvallarnotenda að annast eigin afgreiðslu fyrir alla aðra flokka flugafgreiðslu en þá sem um getur í 2. mgr. 7. gr.; að því tilskildu að þessir notendur séu valdir með aðferðum sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar;

 

d)

að banna eigin afgreiðslu eða takmarka hana við einn flugvallarnotanda fyrir þá flokka flugafgreiðslu sem um getur í 2. mgr. 7. gr.Sérhver undanþága samkvæmt 1. mgr. skal:

 

a)

tilgreina flokk eða flokka flugafgreiðslu sem undanþágan nær til og þau vandamál í sambandi við ráðstöfunarrými eða afkastagetu svæðisins sem eru forsenda undanþágunnar;

 

b)

að fylgja áætlun um viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á þessum vanda­málum.Að auki mega undanþágurnar ekki:

 1. ganga á ótilhlýðilegan hátt gegn markmiðum reglugerðar þessarar;
 2. valda röskun á samkeppni milli veitenda flugafgreiðslu annarra og/eða flug­vallar­notenda sem annast eigin afgreiðslu;
 3. ná lengra en nauðsyn krefur.

Hyggist Flugmálastjórn Íslands veita undanþágu á grundvelli þessa ákvæðis skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA þar um a.m.k. þremur mánuðum áður en þær taka gildi og tilgreina rök fyrir þeim.

Eftirlitsstofnun EFTA rannsakar ítarlega ákvarðanir um undanþágur. Með nákvæmri grein­ingu á aðstæðum og rannsókn á viðeigandi ráðstöfunum sem Flugmálastjórn leggur til, sannreynir stofnunin hvort meintar hömlur séu fyrir hendi og ómögulegt sé að opna markaðinn og/eða koma við eigin afgreiðslu að því marki sem kveðið er á um í þessari reglugerð.

Í framhaldi af þessari rannsókn og að höfðu samráði við hlutaðeigandi ríki getur Eftirlitsstofnun EFTA samþykkt ákvörðunina eða staðið gegn henni telji hún að ekki hafi verið færðar sönnur á að meintar hömlur séu fyrir hendi eða að þær séu nógu stangar til að réttlæta undanþágu. Að höfðu samráði við viðkomandi ríki getur Eftirlitsstofnunin einnig krafist þess að umfangi undanþágunnar sé breytt eða hún takmörkuð við þann hluta flugvallarins eða flugvallarkerfisins þar sem sannað hefur verið að meintar hömlur hvíli á.

Eftirlitsstofnun EFTA skal taka ákvörðun ekki síðar en þremur mánuðum eftir að tilkynning berst.

10. gr.

Gildistími undanþágna.

Undanþágur sem veittar eru samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 9. gr. og 3. mgr. 7. gr. mega ekki gilda lengur en þrjú ár. Eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok þess tíma skal Flugmálastjórn Íslands meta á ný þær undanþágur sem veittar hafa verið.

Undanþágur samkvæmt b-lið 1. mgr. 9. gr. mega ekki gilda lengur en tvö ár. Heimilt er á grundvelli ákvæða 1. mgr. 9. gr., að ákveða, að fengnu samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA að þessi frestur verði lengdur um önnur tvö ár í eitt skipti.

11. gr.

Val þeirra sem veita þjónustu.

Í þeim tilvikum þar sem sett eru takmörk fyrir fjölda þeirra er veita þjónustu, sbr. 2. mgr. 6. gr. eða 9. gr., skal val þeirra fara fram á grundvelli 12. gr.

Rekstraraðila flugvallar er heimilt undir þessum kringumstæðum og að höfðu samráði við nefnd flugvallarnotenda samkvæmt 5. gr. að setja stöðluð skilyrði eða tækniforskriftir sem veitendur flugafgreiðslu skulu uppfylla. Hin stöðluðu skilyrði eða tækniforskriftir skulu hljóta samþykki samgönguráðuneytisins. Þær valaðferðir sem mælt er fyrir um í þessum skilyrðum eða forskriftum skulu vera viðeigandi, hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar.

Samgönguráðuneytinu er heimilt, að undangenginni tilkynningu til Eftirlitsstofnunar EFTA, að mæla fyrir um skyldu til opinberrar þjónustu í þessum skilyrðum eða forskriftum sem veitendur flugafgreiðslu skulu uppfylla á flugvöllum sem þjóna jaðarsvæðum eða þróunarsvæðum og hafa ekki viðskiptalega þýðingu.

Rekstraraðili flugvallar skal sjá til að útboð fari fram og skal boð um að gera tilboð lagt fram og birt í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna. Skulu allir þeir sem áhuga hafa og veita flugafgreiðslu eiga þess kost að svara boðinu.

12. gr.

Samráð við val.

Veitendur flugafgreiðslu skulu valdir eftir að rekstraraðili flugvallar hefur haft samráð við nefnd flugvallarnotenda, sbr. þó 2. mgr.

Bjóði rekstraraðili flugvallar fram svipaða flugafgreiðslu eða stjórnar beint eða óbeint fyrirtæki sem veitir slíka þjónustu eða eigi ítök í slíku fyrirtæki skulu veitendur flugafgreiðslu valdir af Flugmálastjórn Íslands að höfðu samráði við nefnd flug­vallar­notenda samkvæmt 5. gr. og rekstraraðila flugvallar.

Veitendur flugafgreiðslu skulu valdir til sjö ára í mesta lagi.

Hætti veitandi flugafgreiðslu starfsemi sinni fyrir lok tímabilsins sem hann var valinn til skal nefna annan í hans stað með sömu aðferð.

13. gr.

Undanþága frá valaðferð.

Ef fjöldi þeirra sem veitir flugafgreiðslu er takmarkaður í samræmi við 2. mgr. 6. gr. eða 9. gr. er rekstaraðila flugvallar heimilt að veita flugafgreiðsluna sjálfur án þess að valaðferðinni sem mælt er fyrir um í 11.-12. gr. sé beitt.

Á sama hátt getur rekstraraðili flugvallar heimilað fyrirtæki að veita flugafgreiðslu á viðkomandi flugvelli án þess að valaðferðinni sé beitt í neðangreindum tilvikum:

 

a)

ef hún stjórnar fyrirtækinu beint eða óbeint; eða

 

b)

ef fyrirtækið stjórnar henni beint eða óbeint.14. gr.

Tilkynning ákvarðana.

Rekstraraðili flugvallar skal tilkynna nefnd flugvallarnotenda um ákvarðanir sem eru teknar samkvæmt 11.-13. gr.

15. gr.

Samráð.

Rekstraraðili flugvallar skal a.m.k. einu sinni á ári eiga samráð um flugafgreiðsluna við nefnd flugvallarnotenda og fyrirtæki sem veita flugafgreiðslu. Þetta samráð skal meðal annars ná til verðs á þeirri flugafgreiðslu sem fengist hefur undanþága fyrir samkvæmt b-lið 1. mgr. 9. gr. og til skipulagningar á þessari þjónustu.

16. gr.

Aðgangur að aðstöðu.

Rekstraraðili flugvallar skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að veitendur flugafgreiðslu og flugvallarnotendur sem hafa hug á að annast eigin afgreiðslu hafi aðgang að flugvallaraðstöðu eins og þeir þurfa starfsemi sinnar vegna.

Ef sett eru skilyrði fyrir þessum aðgangi verða skilyrðin að vera viðeigandi, hlutlæg, gagnsæ og án mismununar.

Það rými sem er til ráðstöfunar fyrir flugafgreiðslu skal skiptast á milli allra veitenda flugafgreiðslu og flugvallarnotenda sem annast eigin afgreiðslu, þar með taldir þeir sem eru að hasla sér völl á þessu sviði, að því marki sem nauðsynlegt er til að þeir geti nýtt sér réttindi sín og til að tryggja skilvirka og réttmæta samkeppni á grundvelli reglna og viðmiða sem eru viðeigandi hlutlæg, gagnsæ og án mismununar.

Ef greiða þarf fyrir aðgang að flugvallaraðstöðu skal ákveða gjöldin samkvæmt viðmiðum sem eru viðeigandi, hlutlæg, gagnsæ og án mismununar.

17. gr.

Gagnkvæmni við þriðju ríki.

Þegar svo virðist sem þriðja ríki, að því er varðar aðgang að markaði fyrir flugafgreiðslu eða eigin afgreiðslu:

 

a)

veitir ekki, að lögum eða í reynd, aðilum sem staðfestu hafa á Evrópska efnahagssvæðinu sem veita flugafgreiðslu eða sjá um eigin afgreiðslu sambærileg kjör og ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins veita þeim sem sjá um flugafgreiðslu og flugvallarnotendum, sem annast eigin afgreiðslu, fá frá viðkomandi ríki; eða

 

b)

veitir ekki, að lögum eða í reynd, aðilum sem staðfestu hafa á Evrópska efnahagssvæðinu sem veita flugafgreiðslu eða sjá um eigin afgreiðslu innlend kjör; eða

 

c)

veitir aðilum, frá öðrum þriðju ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem veita flugafgreiðslu eða flugvallarnotendum sem annast eigin afgreiðslu betri kjör en veitt eru aðilum með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins;er Flugmálastjórn Íslands heimilt, í heild eða að hluta, að veita tímabundna undanþágu frá ákvæðum reglugerðar þessarar gagnvart þeim aðilum sem sjá um flugafgreiðslu og flugvallarnotendur frá viðkomandi þriðja ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, Sviss og Færeyja.

Undanþágur skulu tilkynntar til Eftirlitsstofnunar EFTA.

18. gr.

Öryggi og flugvernd.

Ákvæði reglugerðar þessarar hafa engin áhrif á réttindi og skyldur aðila er snerta lög og reglu, öryggi og flugvernd á flugvöllum.

19. gr.

Aðskilið bókhald.

Veitandi flugafgreiðslu, hvort sem það er rekstraraðili flugvallar, flugvallarnotandi eða annar aðili, skal halda bókhaldi yfir flugafgreiðslu skýrt aðgreindu frá bókhaldi yfir aðra starfsemi, í samræmi við ríkjandi viðskiptavenjur.

Sjálfstæður löggiltur endurskoðandi, samþykktur af Flugmálastjórn Íslands, skal hafa reglubundið eftirlit með aðgreiningu bókhalds vegna flugafgreiðslu frá bókhaldi yfir aðra starfsemi og fylgjast með því að fjármagn flæði ekki milli flugafgreiðslu og annars reksturs flugvallarins.

20. gr.

Málskotsréttur.

Ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands sæta kæru til samgönguráðuneytisins. Um máls­meðferð fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Bera má ákvarðanir Flugmálastjórnar Íslands samkvæmt 2. mgr. 7. gr., 11. - 13. gr. og ákvörðun rekstraraðila flugvalla skv. 16. gr. undir dómstóla. Flugmálastjórn skal leið­beina aðilum um þennan rétt.

21. gr.

Gildistaka og innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi tilskipun ráðsins (EB) nr. 96/67/EB frá 15. október 1996 um aðgang að flugafgreiðslumarkaðinum á flugvöllum bandalagsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2000.

22. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 57. gr. b, sbr. 145. gr. loftferðalaga nr. 60/1998 tekur þegar gildi. Samhliða fellur úr gildi reglugerð nr. 263/2002 um aðgang að flugafgreiðslu á íslenskum flugvöllum.

Samgönguráðuneytinu, 12. desember 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica