Leita
Hreinsa Um leit

Samgönguráðuneyti

601/2008

Reglugerð um kröfur um sjálfvirkt kerfi til að skiptast á fluggögnum milli flugstjórnardeilda.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að mæla fyrir um kröfur um sjálfvirk skipti á fluggögnum að því er varðar tilkynningu, samræmingu og yfirfærslu upplýsinga um flug milli flugstjórnardeilda og að því er varðar samræmingu milli borgaralegra yfirvalda og hermálayfirvalda.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um:

a) fluggagnavinnslukerfi sem þjóna flugstjórnardeildum sem veita þjónustu fyrir almenna flugumferð,

b) kerfi til að skiptast á fluggögnum sem styðja verklagsreglur fyrir samræmingu milli flug­umferðar­þjónustu­deilda og her­flug­umferðar­stjórnar­deilda.

Þessi reglugerð gildir ekki um skipti á fluggögnum milli flugstjórnardeilda, þar sem notuð eru fluggagnavinnslukerfin sem skilgreind eru í 1. mgr., og þar sem fluggögnin, sem falla undir þessa reglugerð, eru samstillt með hjálp sameiginlegs kerfis.

3. gr.

Orðskýringar.

Vísað er til frekari orða og orðskýringa en hér greinir í reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.

Þegar eftirfarandi orð og orðasambönd eru notuð í reglugerð þessari hafa þau þá merkingu sem hér segir:

Loftrýmisreglugerðin (Airspace Regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 551/2004 frá 10. mars 2004 um skipulag og notkun loftrýmis á samevrópska flugumferðarsvæðinu. Sjá fylgiskjal IV með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.
Rammareglugerðin (Framework Regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 549/2004 frá 10. mars 2004 um setningu rammaákvæða um að koma á samevrópsku flugumferðarsvæði, sjá fylgiskjal II með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.
Rekstrarsamhæfisreglugerðin (Interoperability Regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 frá 10. mars 2004 um rekstrarsamhæfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar. Sjá fylgiskjal V með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.
Þjónustureglugerðin (Service Regulation): Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 550/2004 frá 10. mars 2004 um að veita þjónustu á sviði flugleiðsögu á samevrópska flugumferðarsvæðinu. Sjá fylgiskjal III með reglugerð um flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu nr. 870/2007.

4. gr.

Innleiðing gerða.

Með reglugerð þessari öðlast gildi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1032/2006 um kröfur um sjálfvirkt kerfi til að skiptast á fluggögnum að því er varðar tilkynningu, samræmingu og yfirfærslu upplýsinga um flug milli flugstjórnardeilda frá 6. júlí 2006, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka samningsins og bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar nr. 134/2006 frá 27. október 2006. Reglugerðin er birt sem fylgiskjal I með reglugerð þessari.

5. gr.

Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum.

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi sem er sett með heimild í 57. gr. a, 5. mgr. 75. og 76. sbr. 145. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 6. júní 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)
Þetta vefsvæði byggir á Eplica