Samgönguráðuneyti

53/2006

Reglugerð um tilkynningarskyldu flugslysa, alvarlegra flugatvika og atvika. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmiðið með reglugerð þessari er að stuðla að auknu flugöryggi með því að tryggja tilkynningu, söfnun, geymslu, verndun, vinnslu og miðlun á viðeigandi upplýsingum um öryggi.

Meginmarkmiðið með því að kveða á um skyldu til að tilkynna um atvik er til þess að með skoðun á þeim megi auka öryggi í flugi, en ekki til að leggja mat á ábyrgð eða bótaskyldu.

2. gr.

Orðaskýringar.

Þessi orð eða orðasambönd sem eru notuð í reglugerðinni, hafa eftirfarandi merkingu:

Atvik (occurrence). Rekstrartruflun, galli, bilun eða aðrar óeðlilegar aðstæður sem hafa eða kunna að hafa áhrif á flugöryggi en hafa ekki haft í för með sér slys eða alvarlegt flugatvik, hér á eftir nefnt "flugslys eða alvarlegt flugatvik". Sjá viðauka I og II.

Alvarlegt flugatvik (serious incident). Flugatvik sem verður við aðstæður sem benda til þess að legið hafi við slysi. Sjá dæmi í viðauka I.

Flugslys (aircraft accident). Atburður sem gerist í tengslum við starfrækslu loftfars frá því að maður fer um borð í loftfarið í þeim tilgangi að fljúga með því og þar til allir eru farnir frá borði, þar sem:

a) maður lætur lífið eða hlýtur alvarleg meiðsl vegna þess að:

- hann var um borð í loftfarinu, eða

- hann var í beinni snertingu við einhvern hluta loftfarsins, þar á meðal hluta sem hafa losnað frá loftfarinu, eða

- hann varð fyrir útblæstri þotuhreyfils

nema þegar meiðslin eiga sér eðlilegar orsakir, eru af völdum mannsins sjálfs eða annarra, eða þegar meiðsl verða á laumufarþegum sem leynast utan svæðis sem farþegar og áhöfn hafa venjulega aðgang að; eða

b) loftfar verður fyrir skemmdum eða bilun eða brestur verður í burðarvirki þess sem:

- hefur veruleg áhrif á styrkleika þess, afkastagetu eða flugeiginleika og

- myndi að öllu jöfnu krefjast mikillar viðgerðar eða þess að skipt væri um viðkomandi íhluta,

nema um sé að ræða hreyfilbilun eða skemmd sem takmarkast við hreyfil, hlífar hans eða fylgibúnað eða um sé að ræða skemmdir sem takmarkast við loftskrúfur, vængenda, loftnet, hjólbarða, hemla, hlífar, smádældir eða göt á ytra byrði loftfarsins; eða

c) loftfars er saknað eða engin leið er að komast að því.

Flugatvik (incident). Atburður, annað en flugslys, sem tengist starfrækslu loftfars og hefur áhrif á eða getur haft áhrif á starfræksluöryggi.

Flugumferðaratvik (air traffic incident). Flugatvik sem aðallega tengist reglum er varða flugumferðarþjónustu og þar sem loftför fara framhjá hvort öðru í slíkri nánd að hættuástand verður, eða þar sem aðrir erfiðleikar, sem orsakast af ófullnægjandi starfsaðferðum, eða af því að ekki var farið eftir viðurkenndum starfsaðferðum, eða af göllum í tækjabúnaði á jörðu, valda því að hættuástand verður.

Loftfar (aircraft). Sérhvert það tæki sem haldist getur á flugi vegna verkana loftsins, annarra en loftpúðaáhrifa við yfirborð jarðar.

Órekjanleiki (gagna) (disidentification). Þegar allar persónulegar upplýsingar, sem varða tilkynnandann, og tæknilegar upplýsingar, sem gætu varpað ljósi á hver tilkynnandinn eða þriðju aðilar eru, eru felldar brott úr tilkynningu sem lögð er fram.

3. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um flugslys, alvarleg flugatvik og atvik sem stofna loftfari, þeim sem eru um borð eða öðrum einstaklingum í hættu eða kunna að gera það ef ekki eru gerðar ráðstafanir til úrbóta. Dæmi um alvarleg flugatvik og atvik er að finna í viðaukum við reglugerðina.

Reglugerð þessi gildir um:

a) Allt flug, að herflugi undanskildu, á eða yfir íslensku yfirráðasvæði;

b) Öll íslensk loftför hvar sem þau eru stödd;

c) Starfsstöðvar þeirra aðila sem lúta eftirliti Flugmálastjórnar hvar sem þær eru staðsettar;

d) Hið íslenska flugleiðsögu- og flugupplýsingasvæði.

Loftfar er hér talið íslenskt, þegar það er skráð hér á landi eða er rekið í atvinnuskyni samkvæmt íslensku flugrekstrarleyfi.

II. KAFLI

Tilkynningar til rannsóknarnefndar flugslysa.

4. gr.

Tilkynningarskylda.

Hver sá sem veit um flugslys eða alvarlegt flugatvik, þ.m.t. flugumferðaratvik, skal tilkynna það rannsóknarnefnd flugslysa án ástæðulausrar tafar. Alvarlegum flugatvikum er sérstaklega lýst í viðauka I. Sérstaka skyldu í þessu efni hafa Flugmálastjórn Íslands, stjórnendur loftfara, handhafar flugrekstrarleyfis og vaktstöð skv. lögum um samræmda neyðarsímsvörun.

Sama gildir um þann sem finnur loftfar eða aðra hluti við aðstæður er benda til þess að flugslys hafi orðið.

Rannsóknarnefnd flugslysa ákveður sjálf hvenær efni eru til rannsóknar flugslyss í samræmi við lög um rannsókn flugslysa.

Tilkynningarskyldum aðila skv. 9. gr. ber jafnframt að senda samrit af tilkynningu skv. 5. gr., án viðauka, til Flugmálastjórnar Íslands.

5. gr.

Tilkynning.

Tilkynna ber flugslys og alvarleg flugatvik símleiðis, svo fljótt sem kostur er. Tilkynningar skv. 4. gr. skulu gerðar á þar til gerðu eyðublaði með nafni, kennitölu og heimilisfangi tilkynnanda, og sendar með pósti, símbréfi eða rafpósti.

Að jafnaði skal tilkynningu fylgt eftir með skriflegri skýrslu við fyrstu hentugleika.

Nánar er kveðið á um fyrirkomulag tilkynningar á heimasíðu rannsóknarnefndar flugslysa og í upplýsingabréfi AIC á heimasíðu Flugmálastjórnar Íslands.

Rannsóknarnefndinni er ávallt heimilt að leita frekari upplýsinga um tilkynnt atvik.

III. KAFLI

Tilkynningar til Flugmálastjórnar Íslands.

6. gr.

Tilkynningarskylda.

Handhöfum leyfa sem eru gefin út af Flugmálastjórn Íslands, ber að tilkynna til stofnunarinnar hvers konar vik frá aðstæðum og reglum sem útgáfa leyfanna byggir á. Að auki ber að tilkynna til Flugmálastjórnar Íslands um öll önnur atvik sem ekki eru tilkynnt skv. 4. gr. Á þetta m.a. við um flug- eða flugumferðaratvik eða önnur þau atvik sem, ef ekki leiðrétt, hefðu valdið hættu fyrir loftfar, farþega þess og farm eða fyrir aðra utan þess eða ef hætta hefur vofað yfir flugvelli eða flugleiðsögubúnaði eða rekstri þeirra. Nánar er atvikum lýst í II. og III. viðauka við reglugerð þessa.

Tilkynningar skv. þessari grein skulu gerðar tafarlaust eða aldrei síðar en innan 72 klst. frá atviki og skýrsla gefin svo fljótt sem verða má.

7. gr.

Tilkynningar úr kerfum rekstraraðila.

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að taka við tilkynningum úr kerfum eftirlitsskyldra aðila og skal slík tilkynning hafa sama gildi og tilkynning einstaklinga samkvæmt 6. gr.

Ábyrgð á því að tilkynning úr kerfi eftirlitsskylds aðila berist Flugmálastjórn Íslands hvílir á eftirtöldum einstaklingum:

Ábyrgðarmanni flugrekanda (Accountable Manager).

Ábyrgðarmanni viðurkenndrar viðhaldsstöðvar (Accountable Manager).

Ábyrgðarmanni flugleiðsöguþjónustuveitanda (Accountable Manager).

Yfirkennara flugskóla.

Ábyrgðarmaður flugvallar í flokknum Flugvöllur I.

Tíma- og dagsstimpluð viðtökukvittun skal veitt tilkynnanda vegna tilkynningar í kerfi af viðkomandi aðilum, sé þess óskað.

8. gr.

Fyrirkomulag tilkynninga til Flugmálastjórnar Íslands.

Tilkynningar skulu berast sem skýrslur á þar til gerðum eyðublöðum með nafni, kennitölu og heimilisfangi tilkynnanda, með pósti, símbréfi eða rafpósti eða nánar skilgreindum hætti sé tilkynningum miðlað úr kerfi aðila, sbr. 7. gr.

Nánar er kveðið á um fyrirkomulag tilkynningar á heimasíðu Flugmálastjórnar Íslands og í upplýsingabréfi AIC á heimasíðu Flugmálastjórnar Íslands.

Tíma- og dagsstimpluð viðtökukvittun skal veitt vegna tilkynninga til Flugmálastjórnar, sé þess óskað.

Flugmálastjórn er ávallt heimilt að leita frekari upplýsinga um tilkynnt atvik.

III. KAFLI

Ýmis ákvæði.

9. gr.

Tilkynningarskyldir aðilar.

Tilkynningarskylda, skv. 4. og 6. gr., hvílir á eftirtöldum rekstaraðilum og einstaklingum sem lið í starfi þeirra:

a) Aðila sem starfrækir loftfar með hverfihreyfli eða flugstjóra þess eða loftfars sem starfrækt er til atvinnuflugs.

b) Einstaklingi sem hannar, framleiðir, viðheldur eða breytir loftfari með hverfihreyfli eða loftfari sem starfrækt er til atvinnuflugs eða búnaði eða hluta þess.

c) Einstaklingi sem undirritaðar vottorð um lofthæfiskoðun eða viðhaldsvottorð fyrir loftfar með hverfihreyfli eða loftfar sem starfrækt er til atvinnuflugs eða búnað eða hluta þess.

d) Rekstraraðila flugleiðsögu- og upplýsingaþjónustu og einstaklingi sem sinnir starfi flugumferðarstjóra eða flugfjarskiptamanns.

e) Rekstraraðila flugvallar sem starfræktur er í atvinnuskyni.

f) Einstaklingi sem sinnir starfi sem tengist uppsetningu, breytingu, viðhaldi, viðgerð, grannskoðun, flugeftirliti eða eftirliti með flugleiðsöguvirkjum sem rekin eru í atvinnuskyni.

g) Einstaklingi sem sinnir starfi sem tengist afgreiðslu loftfars, þ.m.t. eldsneytisáfylling, þjónusta, undirbúningur hleðsluskrár, hleðsla, afísun og dráttur loftfars á flugvelli sem rekinn er í atvinnuskyni.

h) Flugmanni eða aðila sem starfrækir loftfar í almannaflugi sem skal tilkynna um flugslys og alvarleg flugatvik, sbr. I. viðauka við reglugerð þessa.

i) Hverjum þeim sem finnur loftfar eða aðra hluti við aðstæður sem benda til þess að flugslys hafi orðið.

Öðrum aðilum og einstaklingum en þeim er taldir eru upp í 1. mgr. er heimilt að tilkynna Flugmálastjórn Íslands af eigin hvötum um atvik á sviði flugmála sem ekki er skylt að tilkynna skv. 6. gr. þar sem tilkynnandinn metur sem raunverulega eða hugsanlega hættu.

10. gr.

Söfnun tilkynninga o.fl.

Flugmálastjórn Íslands og rannsóknarnefndar flugslysa annast söfnun, úrvinnslu, greiningu og vistun upplýsinga sem til verða á grundvelli tilkynninga skv. reglugerð þessari í sérstökum gagnagrunni.

Flugmálastjórn Íslands skal hverju sinni skrá og tilkynna um atvik, sé þess talin þörf, til viðeigandi stjórnvalda þess ríkis þar sem atvik á sér stað, loftfar er skráð, loftfar framleitt og/eða sem flugrekstrarleyfi var gefið út.

Flugmálastjórn Íslands er tengiliður Íslands vegna upplýsingaskipta við erlend ríki á gögnum sem vistuð eru í gagnagrunninum.

11. gr.

Þagnarskylda.

Starfsmenn aðila, sem taka við tilkynningum samkvæmt reglugerð þessari, eru bundnir þagnarskyldu um það sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um efni tilkynninga og úrvinnslu og tilkynnanda hverju sinni. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

12. gr.

Vernd upplýsinga.

Hvort sem um er að ræða skráningu á flugslysi, flugatviki eða atviki þ.m.t. flugumferðaratvik skal óheimilt að skrá í gagnagrunn skv. 10. gr. upplýsingar um nafn einstaklinga, kennitölu og heimilisfang.

Óheimilt er að veita óskyldum þriðja aðila aðgang að tilkynningum sem berast skv. reglugerð þessari.

13. gr.

Miðlun upplýsinga.

Heimilt er að miðla upplýsingum, sem safnað er saman og skráðar eru í gagnagrunninum, til lögbærra yfirvalda erlendra ríkja, alþjóðastofnana, Eftirlitsstofnunar EFTA og annarra aðila sem falið er að setja reglur um öryggi í almenningsflugi eða rannsaka slys og flugatvik í almenningsflugi innan EES-ríkja í þeim tilgangi að unnt sé að draga lærdóm af tilkynntum atvikum í því skyni að auka öryggi.

Heimilt er að veita eftirlitsskyldum aðila aðgang að upplýsingum sem skráðar eru í gagnagrunninn er varða starfsemi hans. Ekki skal miðla upplýsingum umfram það sem telst nauðsynlegt til að tryggja viðeigandi leynd þeirra.

Rannsóknarnefnd flugslysa og Flugmálastjórn Íslands er heimilt að gefa árlega út skýrslu sem inniheldur upplýsingar um tegundir atvika sem safnað er, til upplýsingar fyrir almenning um flugöryggi í almenningsflugi, sem geyma órekjanlegar upplýsingar.

14. gr.

Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 141. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir.

Aðili sem tilkynnir, í samræmi við ákvæði 47. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 og 6. gr., sbr. 8. gr. reglugerðar þessarar, innan 72 klst. um atvik sem ekki hafa leitt til flugslyss eða alvarlegs flug- eða flugumferðaratviks, verður ekki refsað eða hann beittur viðurlögum þótt um sé að ræða brot á ákvæðum laganna eða reglum settum á grundvelli heimilda í þeim, nema um sé að ræða ásetning, stórfellt gáleysi, neyslu áfengis, örvandi eða deyfandi lyfja.

Hið sama gildir um viðurlög af hálfu vinnuveitanda gagnvart þeim starfsmanni sínum sem tilkynnir um atvik.

Tilkynningu um atvik skv. 2. mgr., skal ekki beitt sem sönnunargagni í opinberu máli.

15. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari er innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/42/ESB frá 13. júní 2003 um tilkynningu atvika í almenningsflugi sem tekin var inn í XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 41/2004 frá 23. apríl 2004 og aðlöguð að samningnum í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans.

16. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 24. gr. laga nr. 35/2004 um rannsókn flugslysa og 47. gr., sbr. 145. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir og tekur gildi þann 1. febrúar 2006. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 126/1998 um tilkynningarskyldu í flugi.

Samgönguráðuneytinu, 19. janúar 2006.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica