Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

552/2017

Reglugerð um breytingu á reglugerð um flutning á hættulegum farmi á landi nr. 1077/2010.

1. gr.

32. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Vegaeftirlit vegna flutnings á hættulegum farmi skv. reglugerðinni skal vera í samræmi við tilskipun 95/50/EB og skal eftirlitsaðili notast við gátlistann í I. viðauka tilskipunarinnar. Eftirlitsaðili skal taka afrit af gátlistanum fyrir ökumann eða afhenda ökumanni vottorð um niðurstöður eftirlits til þess að einfalda megi eða komast hjá frekara eftirliti, þar sem því verður við komið.

Eftirlitið skal ekki taka óhóflegan tíma og vera í formi slembiúrtaks og, ef unnt er, ná til mikils hluta vegakerfisins.

Eftirlit skal fara fram á stöðum þar sem lagfæra má ólögleg ökutæki til samræmis við reglur telji eftirlitsaðili nauðsynlegt að stöðva flutning ökutækisins eða á stað sem er til þess ætlaður án þess að af því hljótist hætta.

Ef við á og skapi það ekki hættu má taka sýni úr farmi sem verið er að flytja og senda á rannsóknarstofu sem viðurkennd er af lögbæru yfirvaldi.

2. gr.

Við VII. kafla bætist ný grein, 32. gr. a. sem verður svohljóðandi:

Ef ökutæki og búnaður þess er ekki í samræmi við eitt eða fleiri atriði í II. viðauka tilskipunar 95/50/EB er eftirlitsaðila heimilt að stöðva flutning þess á hættulegum farmi á vegum eða senda það á stað sem eftirlitsaðili tilgreinir og skal ökutækið lagfært þar til samræmis við reglur áður en akstri er haldið áfram. Að öðrum kosti má grípa til annarra nauðsynlegra ráðstafana með tilliti til aðstæðna eða af öryggisástæðum.

3. gr.

Við VII. kafla bætist ný grein, 33. gr. a. sem verður svohljóðandi:

Fyrir hvert almanaksár, og eigi síðar en tólf mánuðum eftir lok almanaksárs, skal senda Eftirlitsstofnun EFTA skýrslu um framkvæmd vegaeftirlits skv. þessum kafla. Skýrslan skal vera í samræmi við fyrirmyndina í III. viðauka tilskipunar 95/50/EB og innihalda upplýsingar um eftirfarandi:

  1. ef mögulegt er skal magn hættulegs farms sem á að flytja á vegum tilgreint eða áætlað í fluttum tonnum eða tonnum á kílómetra,
  2. hversu oft eftirlit fer fram,
  3. fjölda ökutækja sem skoðuð hafa verið, flokkuð eftir skráningarstað (ökutæki skráð eftir löndum, í öðrum aðildarríkjum eða þriðju löndum),
  4. fjölda og tegundir skráðra brota og
  5. hve oft og hvaða viðurlögum var beitt.

4. gr.

Við 2. mgr. 38. gr. bætist nýr stafliður, c. sem verður svohljóðandi:

Tilskipun Evrópuráðsins 95/50/EB frá 6. október 1995 um samræmt eftirlit með flutningi á hættulegum farmi, ásamt viðaukum. Vísað er til tilskipunarinnar í XIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/96, þann 26. mars 1996. Tilskipunin, ásamt viðaukum er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 23/1996, 23. maí 1996, bls. 44-50.

5. gr.

Reglugerðin er sett með heimild í 1. mgr. 60. gr., 6. mgr. 68. gr. og 5. mgr. 73. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993, og öðlast þegar gildi.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 6. júní 2017.

Jón Gunnarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica