Leita
Hreinsa Um leit

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti

652/2010

Reglugerð um fallhlífarstökk.

I. HLUTI

Almennt um fallhlífarstökk.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að kveða á um þær lágmarksreglur sem gilda um fallhlífarstökk svo hægt sé að tryggja öryggi þátttakenda og almennings við fallhlífar­stökk.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til fallhlífarstökks, sem fram fer á íslensku yfirráðasvæði með íslenskum eða erlendum loftförum sem starfa í samræmi við lög um loftferðir nr. 60/1998 ásamt síðari breytingum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.

3. gr.

Orðskýringar.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Fallhlífarstökk: Með fallhlífarstökki í reglugerð þessari er átt við það þegar stokkið er með fallhlíf úr loftfari án þess að um neyðartilvik sé að ræða.

Fallhlífarstökksskírteini: Fallhlífarstökkvarar geta sótt um skírteini til viðurkennds fallhlífaklúbbs sem endurspeglar reynslu þeirra og réttindi. Skírteini skulu gefin út fyrir sex stig, A (byrjendastig) - F (efsta stig). Upplýsingar um stig skírteina og skírteiniskröfur skal vera að finna í verklagsreglum viðurkenndra fallhlífasamtaka.

Lendingarsvæði (Drop zone): Fyrirfram skilgreint svæði sem fallhlífarstökkvari ætlar að lenda á í stökki.

Samkoma: Hátíð eða viðburður þar sem saman kemur hópur fólks til að taka þátt í eða fylgjast með skipulagðri dagskrá, t.a.m. 17. júní hátíð, íþróttaviðburðir, tónleikar o.s.frv.

Stökkstjóri (Jumpmaster): Aðili sem hefur réttindi til að stökkva með og/eða setja út nemendur og ber ábyrgð á öryggi og framkvæmd fallhlífarstökks úr loftfari.

Sýningarstökksréttindi, 1. gráðu: Skilgreind réttindi í verklagsreglum viðurkennds fallhlífaklúbbs til að stökkva sýningarstökk á erfið og þröng svæði.

Sýningarstökksréttindi, 2. gráðu: Skilgreind réttindi í verklagsreglum viðurkennds fallhlífaklúbbs sem C-skírteinishafar geta sótt um.

Varasvæði: Svæði sem skilgreint hefur verið til vara ef fallhlífarstökkvara tekst ekki að lenda á skilgreindu lendingarsvæði.

Viðurkenndur fallhlífaklúbbur: Félag fallhlífarstökkvara sem hlotið hefur viður­kenningu Flugmálastjórnar Íslands til að koma fram fyrir hönd meðlima sinna og beita sér gagnvart þeim í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar auk ákvæða laga og verklagsreglna klúbbsins.

4. gr.

Viðurkenndur fallhlífaklúbbur.

Til þess að hljóta viðurkenningu Flugmálastjórnar Íslands skal umsækjandi, félag eða fyrirtæki, leggja fram umsókn þar sem fram koma eftirfarandi atriði:

 1. Nafn umsækjanda, heimilisfang, kennitala og símanúmer.
 2. Þjóðerni umsækjanda, félagaform og nöfn stjórnenda. Sé um hlutafélag að ræða skal greina hluti og nöfn stjórnarmanna. Sé eignaraðild að hluta erlend skal sérstök grein gerð fyrir henni.
 3. Skipulag fyrirhugaðrar fallhlífarstökkskennslu og gerð skal grein fyrir hæfni tilnefnds ábyrgðaraðila, kennara og dómara.
 4. Stofnreglur félagsins og/eða samþykktir.
 5. Gera skal grein fyrir þeim loftförum sem nota skal við kennslu og þjálfun og eigna- eða umráðarétti þeirra.

Með umsókn skulu ennfremur eftirfarandi gögn fylgja:

 1. Handbók fallhlífaklúbbs þar sem lýsa skal eftirfarandi:
  1. skipulagi kennslu og þjálfunar;
  2. starfsreglum og hæfniskröfum fyrir kennara og dómara;
  3. starfsreglum og hæfniskröfum fyrir stökkstjóra;
  4. öryggisreglum;
  5. reglum um skírteini og réttindi;
  6. reglum um fallhlífarstökk, námskeið, kennslu og þjálfun;
  7. reglum um útbúnað og aðstæður.
 2. Staðfesting á lögbundnum vátryggingum.
 3. Tilnefning ábyrgðaraðila sem ber ábyrgð á kennslu, prófum, útgáfu skírteina og eftirliti. Tilnefning er háð samþykki Flugmálastjórnar Íslands og telst ábyrgðaraðili sérstakur trúnaðarmaður stofnunarinnar til starfsrækslu viðurkennds fallhlífa­klúbbs.

5. gr.

Viðurkenning.

Þegar umsókn ásamt öllum þeim gögnum sem krafist er að fylgi berst Flugmálastjórn fer stofnunin yfir hana og gerir úttekt á væntanlegri starfsemi. Viðurkenning Flugmála­stjórnar má binda þeim takmörkunum sem stofnunin telur nauðsynleg hverju sinni. Telji Flugmálastjórn að forsendur bresti til viðurkenningar á trúnaðarmanni og/eða starfsemi félagsins að einhverju leyti er Flugmálastjórn heimilt að afturkalla viður­kenningu sína til bráðabirgða eða að öllu leyti telji það grundvöll starfrækslu félags eða samtaka brostinn að verulegu leyti.

6. gr.

Flug með fallhlífarstökkvara.

Stjórnandi vélknúins loftfars, sem notað er fyrir fallhlífarstökk, skal hafa skráða a.m.k. 200 klst. fartíma. Hann skal þekkja reglur um fallhlífarstökk og vera upplýstur af stökk­stjóra um fyrirkomulag fallhlífarstökks og stökkvara.

Við fallhlífarstökk mega auk flugliða vera um borð í loftfari aðeins þeir sem þar þurfa að vera við framkvæmd stökksins svo og nemendur sem eru í þjálfun fyrir fallhlífarstökk.

7. gr.

Framkvæmd fallhlífarstökks.

Allt fallhlífarstökk skal framkvæmt samkvæmt reglugerð þessari og verklagsreglum viðurkennds fallhlífaklúbbs sem birtar skulu á vegum félagsins.

Sjálfstætt fallhlífarstökk skal aðeins framkvæmt af einstaklingum sem náð hafa 16 ára aldri og hlotið hafa viðeigandi kennslu og þjálfun hjá viðurkenndum fallhlífaklúbbi.

Áður en heimilt er að framkvæma fallhlífarstökk skal, eftir því sem við á, afla allra nauðsynlegra leyfa, svo sem leyfis viðkomandi flugstjórnarþjónustu ef fallhlífarstökk er framkvæmt í stjórnuðu loftrými. Jafnframt skal afla leyfis umráðanda þess landsvæðis sem stökkva á yfir, eftir því sem við á.

8. gr.

Lágmarksöryggisreglur.

Óheimilt er að framkvæma fallhlífarstökk eða leyfa fallhlífarstökk úr loftfari ef það skapar hættu fyrir flugumferð eða fólk og/eða eignir á jörðu niðri.

Allir fallhlífarstökkvarar skulu vera útbúnir tveimur fallhlífum; aðalfallhlíf og stýranlegri varafallhlíf.

Lendingarsvæði fallhlífarstökks skal ekki vera minna en 100 metra radíus.

Utan lendingarsvæðisins skal vera varasvæði, a.m.k. 100 metra breitt þar sem ekki er djúpt vatn, raflínur, byggingar hærri en ein hæð né álíka hindranir.

Fyrir björgunarþjónustu skal vera nærtækt við lendingarsvæði fjarskiptatæki, bíll, bátur o.s.frv., eftir því sem við á.

Lágmarksopnunarhæð fyrir fallhlíf skal aldrei vera minni en 2.000 fet frá jörðu.

Fallhlífarstökkvari skal nota súrefni í stökkinu ef stokkið er úr 21.000 feta (7.000 m) hæð eða meira. Nota skal súrefni um borð í loftfarinu í klifri upp í stökkhæð meðan flogið er í meiri hæð en 13.000 fetum (4.000 m) og einnig ef flogið er í meiri hæð en 10.000 fetum umfram 30 mínútur.

Fallhlífarstökkvari skal ganga úr skugga um ríkjandi vinda, áður en stokkið er. Óheimilt er að stökkva ef vindstyrkur við jörðu er 11 m/sek (22 hnútar) eða meira. Ef stokkið er ofan í vatn má vindur við jörð ekki vera minni en 2 m/sek og ekki meiri en l0 m/sek.

Ef stökkva á í vatn eða í nágrenni vatna eða sjávar þannig að hætta er á að lent sé í vatni eða sjó skulu stökkvarar vera útbúnir flotbúnaði.

Ef stökkva á í myrkri skal tilkynna það til viðkomandi flugstjórnardeildar með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Jafnframt skal stökkvari vera útbúinn ljósum og öðrum búnaði sem gerð er krafa um í verklagsreglum viðurkennds fallhlífaklúbbs.

Fallhlífarstökkvarar skulu vera líkamlega og andlega færir um að stökkva. Enginn má stökkva undir áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna.

9. gr.

Búnaður.

Hver fallhlífarstökkvari skal útbúinn búnaði sem mælt er fyrir um í verklagsreglum viður­kennds fallhlífaklúbbs. Stökkvari skal hafa tvær fallhlífar tengdar sömu ólum. Vara­fallhlífin skal vera af viðurkenndri gerð og tengsli hennar við ólar aðalfallhlífarinnar mega engin áhrif hafa á hana að neinu leyti.

Við val, meðhöndlun, pökkun og viðhald á fallhlífarútbúnaði skal fara eftir verklagsreglum viðurkennds fallhlífaklúbbs.

Loftför, sem notuð eru við fallhlífarstökk, skulu vera útbúin fyrir fallhlífarstökk og viður­kennd til slíkrar notkunar. Þegar loftfar er sérútbúið fyrir fallhlífarstökk þá má skrá athuga­semd þar að lútandi í lofthæfivottorði eða flughandbók hlutaðeigandi loftfars ef eigandi óskar þess.

Farið skal eftir reglum framleiðsluríkis þegar gerðar eru á loftfari breytingar sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að nota það fyrir fallhlífarstökk. Allar breytingar sem gerðar eru á loftfari umfram þær sem tilteknar eru í flughandbók loftfarsins skulu hljóta samþykki Flugmálastjórnar Íslands.

10. gr.

Skírteini og réttindi.

Viðurkenndur fallhlífaklúbbur gefur út fallhlífarstökksskírteini til þeirra aðila sem uppfylla viðkomandi skilyrði í verklagsreglum klúbbsins. Viðurkenndur fallhlífaklúbbur gefur jafn­framt út réttindi til kennslu, sýningarstökks og dómgæslu til þeirra aðila sem uppfylla viðkom­andi skilyrði í verklagsreglum klúbbsins.

II. HLUTI

Fallhlífarstökk á sýningum eða samkomum.

11. gr.

Leyfi til fallhlífarstökks.

Þeir sem hyggjast stökkva fallhlífarstökk á sýningu eða samkomu skulu sækja um leyfi til Flugmálastjórnar Íslands með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara. Umsókn um leyfi til að stökkva fallhlífarstökk skal innihalda eftirfarandi upplýsingar til að teljast tæk til meðferðar Flugmálastjórnar:

 1. nafn, kennitala, lögheimili, símanúmer og netfang þess sem sækir um leyfi til fallhlífarstökks og ber ábyrgð gagnvart Flugmálastjórn;
 2. nafn, kennitala, lögheimili, símanúmer og netfang stökkstjóra ásamt afriti af fallhlífarstökksskírteini og réttindum;
 3. nafn, kennitala, lögheimili, símanúmer og netfang flugmanna;
 4. staður og stund fyrirhugaðs fallhlífarstökks;
 5. skrásetningarmerki þess loftfars sem nota á til að stökkva úr;
 6. nöfn, kennitölur og upplýsingar um réttindi þeirra sem eiga að stökkva;
 7. lýsing á neyðar- og björgunaráætlun og upplýsingar um hver sjái um neyðar- og björgunarþjónustu;
 8. lýsing og kort af fallhlífarstökkssvæði, varasvæði og næsta nágrenni. Á þetta kort skulu helstu hindranir merktar, svo sem raflínur o.s.frv. Ef gert er ráð fyrir áhorfendum skal merkja skilmerkilega áhorfendasvæði og öll viðkvæm svæði sem áhorfendur mega ekki fara á. Jafnframt skal merkja stæði fyrir loftför og aðflugs- og lendingarsvæði;
 9. staðfesting frá viðkomandi flugstjórnarþjónustu, ef stokkið er innan stjórnaðs loftrýmis, um að leyfi hafi verið veitt fyrir fyrirhuguðu fallhlífarstökki;
 10. afrit af umsókn til lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi um leyfi til að stökkva þar fallhlífarstökk; og
 11. staðfesting frá umráðanda þess landsvæðis sem stökkva á yfir, eftir því sem við á, um að ekki sé gerð athugasemd við fyrirhugað fallhlífarstökk.

Flugmálastjórn Íslands gefur út leyfi til fallhlífarstökks að fullnægðum skilyrðum reglu­gerðar þessarar. Um gjaldtöku fyrir útgáfu leyfa til fallhlífarstökks fer samkvæmt gjald­skrá Flugmálastjórnar Íslands.

12. gr.

Stökkstjóri.

Fallhlífarstökk á sýningu eða samkomu má aðeins fara fram undir umsjón stökkstjóra sem uppfyllir kröfur um C-skírteini samkvæmt verklagsreglum viðurkennds fallhlífa­klúbbs og er með stökkstjóraréttindi. Stökkstjóri skal vera ábyrgur fyrir því að:

 1. farið sé að reglum um fallhlífarstökk;
 2. fallhlífarstökkvarar hafi tilskilin réttindi;
 3. skipuleggja fallhlífarstökkið og fara yfir það með þátttakendum;
 4. skoða og samþykkja lendingarsvæði og varasvæði;
 5. ganga úr skugga um að ásættanleg veðurskilyrði séu til staðar;
 6. kynna fyrir flugmönnum hvernig og hvert fljúga skuli loftfari sem notað er fyrir fallhlífarstökk;
 7. tryggja að dýpi og botnlag skapi ekki hættu þegar stokkið er ofan í vatn; og
 8. tryggja að aflað hafi verið allra nauðsynlegra leyfa til að framkvæma fallhlífar­stökk.

13. gr.

Lágmarksöryggisreglur.

Aðeins fallhlífarstökkvarar sem uppfylla kröfur fyrir C-skírteini samkvæmt verklags­reglum viðurkennds fallhlífaklúbbs og eru með 1. eða 2. gráðu sýningar­stökks­réttindi mega stökkva á sýningum eða samkomum.

Þegar fallhlífarstökk er framkvæmt á sýningum eða samkomum skal lendingarsvæðið ekki vera minna en 25 metra radíus og varasvæði skal ekki vera í lengra en 150 metra fjarlægð frá lendingarsvæði. Ef ekkert varasvæði er fyrir hendi skal lendingarsvæði fyrir 1. gráðu réttindahafa vera a.m.k. 50 metra radíus og 80 metra radíus fyrir 2. gráðu réttindahafa.

Aðeins fallhlífarstökkvarar með 1. gráðu sýningarstökksréttindi og útbúnir vara­vængfallhlíf mega stökkva sýningarstökk þar sem vindstyrkur við jörðu er 15 hnútar eða meira.

14. gr.

Fallhlífarstökk á flugsýningum.

Þegar stokkið er á flugsýningum skal einnig farið eftir ákvæðum reglugerðar um flug­sýningar sem og öðrum ákvæðum reglugerðar þessarar.

III. HLUTI

Eftirlit og gildistaka.

15. gr.

Eftirlit og upplýsingaskylda.

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að framkvæma eftirlit á fallhlífarstökki á sýningum og samkomum og aðilar sem hyggjast stökkva fallhlífarstökk skulu verða við öllum kröfum Flugmálastjórnar um upplýsingar vegna eftirlits í samræmi við 5. gr. laga um Flugmála­stjórn Íslands nr. 100/2006 með síðari breytingum.

17. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varðar refsingu samkvæmt 141. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir með síðari breytingum.

18. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 145. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Samhliða fellur úr gildi reglugerð nr. 440/1976 um fallhlífarstökk með síðari breytingum.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 3. júní 2010.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica