Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Stofnreglugerð

590/2010

Hafnarreglugerð fyrir Landeyjahöfn, Rangárþingi eystra.

1. gr. Markmið.

Með rekstri Landeyjahafnar er leitast við að tryggja örugga aðstöðu til ferjusamgangna milli lands og Vestmannaeyja. Áætlunarsigling Vestmannaeyjaferju hefur fortakslausan forgang umfram aðra starfsemi eða rekstur á hafnarsvæðinu.

2. gr. Stærð og takmörk hafnarinnar.

Takmörk á sjó eru frá fjöru Bakkalóðar landnr. 219-2259 og út að 20 metra dýpi, sbr. I. viðauka

Takmörk á landi er Bakkalóð landnr. 219-2259 auk landfyllinga, hafnarsvæða, innri hafnagarða og brimvarnargarða, sbr. I. viðauka.

Landsvæði hafnarinnar skiptast í:

  1. Hafnarbakka og bryggjur.
  2. Farmstöðvar og önnur afgreiðslusvæði.
  3. Götur.
  4. Brimvarnargarða.
  5. Innri garða.

3. gr. Eignarhald og stjórn hafnarinnar.

Íslenska ríkið er eigandi hafnarinnar. Siglingastofnun Íslands fer með málefni hennar undir yfirumsjón samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samræmi við ákvæði laga nr. 66/2008 um Landeyjahöfn.

Siglingastofnun Íslands fer með hlutverk hafnarstjórnar í samræmi við ákvæði hafnalaga.

4. gr. Starfs- og valdsvið Siglingastofnunar Íslands.

Siglingastofnun Íslands hefur umsjón með fjármálum, rekstri, viðhaldi og nýbyggingum hafnarinnar. Landeyjahöfn er byggð og rekin fyrir framlög úr ríkissjóði eins og þau eru ákveðin í samgönguáætlun og á fjárlögum hverju sinni og skv. gjaldskrá sem ráðherra setur.

Stofnunin fer með daglega stjórn hafnarinnar, hefur ákvörðunarvald um rekstur hafnarinnar, svo sem ráðstöfun á aðstöðu, þ.m.t. leigu á húsnæði í eigu hafnarinnar og landi hennar. Stofnunin sér um að gætt sé reglu á öllu hafnarsvæðinu hvort sem er á sjó eða landi. Er öllum skylt að hlýða fyrirmælum hennar eða þeirra sem hún felur framkvæmd eftirlits og aðgæslu.

Siglingastofnun Íslands veitir leyfi til starfsemi á hafnarsvæðinu og hefur vald til að banna eða takmarka afnot og umferð á hafnarsvæðinu, sem hún telur torvelda eðlilega hafnarstarfsemi eða sem hún telur að raski öruggum og tryggum ferjusiglingum um höfnina. Sama gildir ef mönnum og umhverfi er talin stafa hætta af afnotum og umferð um hafnarsvæðið.

Stofnuninni er heimilt að gera þjónustusamning um rekstur hafnarinnar og hefur eftirlit með framkvæmd hans.

5. gr. Um starfsmenn hafnarinnar.

Þeir starfsmenn sem hafa umsjón með eignum og rekstri hafnarinnar, gæta reglu og sinna skipaþjónustu skulu bera skilríki eða einkenni því til sönnunar samkvæmt ákvörðun Siglingastofnunar eða þess aðila sem stofnunin felur rekstur hafnarinnar. Skylt er að fara að fyrirmælum starfsmanna er varðar hafnarstarfsemi.

6. gr. Hafnsaga, önnur þjónusta við skip og umferð á hafnarsvæði.

Höfnin útvegar, eftir atvikum, aðstoð dráttarbáta, sér um bindingu skipa, sölu og afgreiðslu vatns og rafmagns og móttöku úrgangs eins og lög gera ráð fyrir.

Dráttarbátar eru í þjónustu og á ábyrgð þess skips, er þeir aðstoða, frá því þeir taka við taug eða fyrirmælum stjórnanda skipsins, er aðstoðar nýtur, og þar til taug er sleppt eða fyrirmæli gefin um að aðstoð sé lokið. Hafnsögumaður skal vera í skipi er það nýtur aðstoðar dráttarbáts. Landeyjahöfn hefur ekki yfir dráttar- eða þjónustubáti að ráða.

Siglingar sjófara á hafnarsvæði Landeyjahafnar skv. I. viðauka, þ.e. ferju, fiskibáta, báta og opinna báta, takmarkast við ölduhæð á Bakkafjörudufli, skv. II. viðauka og fyrirmæli Siglingastofnunar Íslands skv. 4. gr. Ef ölduhæð á duflinu er yfir mörkum viðkomandi sjófars skv. II. viðauka eru siglingar þess óheimilar innan hafnarsvæðisins. Hafnaryfirvöld geta veitt undanþágu frá viðmiðunarmörkum II. viðauka til tiltekinna skipa og báta enda sé sýnt fram á að öryggis sé gætt að mati hafnaryfirvalda.

Öll umferð farartækja utan gatna og merktra bílastæða á hafnarsvæði er óheimil.

7. gr. Löggæsla á hafnarsvæði.

Sýslumaðurinn á Hvolsvelli hefur á hendi almenna löggæslu á hafnarsvæðinu.

Þeim sem ekki eiga lögmætt erindi á hafnarsvæðinu er bannað að dvelja þar ef þeir með því tálma lestun, losun eða önnur störf, sem þar eru unnin. Ónauðsynlegur akstur hvers konar ökutækja og ónauðsynleg umferð gangandi fólks um bryggju, hafnarbakka, farmstöðvar og önnur afgreiðslusvæði á hafnarsvæðinu er bönnuð. Fólk sem fer um hafnarsvæðið er þar ávallt á eigin áhættu og ábyrgð.

Bannað er að skjóta af byssum eða öðrum skotvopnum við höfnina eða á henni án leyfis. Sömuleiðis er bannað að skjóta flugeldum á hafnarsvæðinu án leyfis.

Sand- og malarnám og önnur slík starfsemi er bönnuð á hafnarsvæðinu án leyfis hafnarstjórnar. Fiskveiðar á hafnarsvæðinu mega ekki trufla eðlilega umferð og afgreiðslu. Bannað er að leggja veiðarfæri á merktar siglingaleiðir og er heimilt að fjarlægja slík veiðarfæri bótalaust.

Rekstraraðila hafnarinnar skal þegar í stað tilkynnt um það sem bjargað er í höfninni en hún gefur lögreglunni skýrslu, telji hún þess þörf.

8. gr. Bryggjur, skipsflök og hlutir í hirðuleysi.

Ef skip lendir á grynningum eða sekkur þar sem það, að áliti Siglingastofnunar Íslands, tálmar greiðri notkun hafnarinnar, skal það fært burtu svo fljótt sem auðið er af eiganda, umráðamanni eða öðrum sem málið varðar. Verði dráttur á því, má hafnarstjórn láta færa skipið burt á ábyrgð og kostnað eiganda og/eða umráðamanns og skal það flutt á öruggan stað, að vali og eftir mati hafnarstjórnar.

Skipsflök má ekki draga á land á hafnarsvæðinu án leyfis hafnarstjórnar.

Ef skip, bátar, bryggjur, flutningstæki á landi eða annar búnaður, í eigu annarra en hafnarinnar er í hirðuleysi á hafnarsvæðinu og/eða veldur óþrifnaði eða hættu, þá skal hafnarstjóri fyrirskipa eiganda og/eða umráðamanni að gera nauðsynlegar úrbætur innan ákveðins frests. Sé slíkum fyrirmælum ekki sinnt, má fjarlægja viðkomandi hlut á ábyrgð og kostnað eiganda og/eða umráðamanns og koma fyrir í geymslu á öruggum stað, eftir vali og mati Siglingastofnunar Íslands.

9. gr. Varnir gegn mengun og óþrifnaði.

Engum úrgangi eða rusli má kasta í höfnina eða ytri hluta hennar.

Eigi má draga, reka eða flytja á annan hátt inn í höfnina skipsflök eða neitt það sem valdið getur óþrifnaði, umferðartruflun eða óþægindum í höfninni nema leyfi hafnarstjórnar komi til.

Öllum skipum, farartækjum svo og verksmiðjum og öðrum atvinnurekstri er stranglega bannað að dæla eða láta renna í höfnina olíu, lýsi, olíusora eða öðru sem valdið getur mengun.

Þegar skip tekur fljótandi eldsneyti skal gera ráðstafanir sem tryggja að eldsneyti renni ekki í sjóinn af þilfari ef óhapp verður við eldsneytistökuna.

10. gr. Beiðni um þjónustu.

Allir þeir sem óska eftir afgreiðslu fyrir skip, láni á tækjum eða þjónustu á einn eða annan hátt hjá höfninni skulu snúa sér beint til starfsmanna rekstraraðila hafnarinnar skv. 4. gr. með beiðni þar að lútandi.

11. gr. Hverjum gefa skal fyrirmæli.

Fyrirmæli samkvæmt reglugerð þessari skulu gefin skipstjóra en stýrimanni ef skipstjóri er fjarverandi. Ef stýrimaður er einnig fjarverandi má gefa hverjum öðrum í skipshöfninni skipanir og er það jafngilt sem skipstjóri hefði sjálfur tekið við skipunum.

12. gr. Um skaðabótaskyldu.

Um skaðabótaskyldu þeirra sem leið eiga um höfn og hafnarsvæði, vegna skemmda á höfninni, mannvirkjum hennar eða áhöldum fer eftir almennum skaðabótareglum.

13. gr. Brot.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila má gera lögaðila sekt skv. II. kafla A almennra hegningarlaga.

Um mál út af brotum á reglugerð þessari skal fara að hætti opinberra mála.

14. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 6. gr. laga um Landeyjahöfn nr. 66/2008, og 4. gr. hafnalaga nr. 61/2003, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytinu, 14. júlí 2010.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.