Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

607/2001

Reglugerð um öryggisráðgjafa við flutning á hættulegum farmi á vegum. - Brottfallin

I. Skilgreiningar og gildissvið.
1. gr.

Í reglum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Fyrirtæki: Einstaklingur eða lögaðili, samtök eða hópur einstaklinga, hvort sem viðkomandi starfar með hagnaðarvon eða ekki, svo og opinber stofnun, sem flytur, fermir eða affermir hættulegan farm.

Hættulegur farmur: Farmur sem inniheldur hættuleg efni sem ekki má flytja á vegum eða sem einungis má flytja með tilteknum skilyrðum samkvæmt gildandi reglum hverju sinni.

Öryggisráðgjafi: Hver sá sem tilnefndur er af fyrirtæki til að sinna þeim verkefnum og gegna þeim skyldum sem skilgreindar eru í 4. gr. og er handhafi vottorðs um starfsmenntun og hæfi sem kveðið er á um í 6. gr.


2. gr.

Ákvæði um öryggisráðgjafa gilda um fyrirtæki er annast flutning, fermingu eða affermingu á hættulegum farmi á vegum, og utan vega, eftir því sem við á.

Ákvæðin gilda þó ekki ef flutningurinn er einungis innan afmarkaðs athafnasvæðis fyrirtækis eða stofnunar eða byggingarsvæðis þar sem almenningur hefur takmarkaðan aðgang og tengist ekki flutningi að öðru leyti. Þau gilda heldur ekki um fyrirtæki er flytja einingar sem undanþegnar eru ákvæðum reglugerðar um flutning á hættulegum farmi, nr. 984 27. desember 2000, sbr. 15. gr. og IX. og X. viðauka við reglugerðina.


II. Tilnefning og hlutverk öryggisráðgjafa.
3. gr.

Fyrirtæki skal tilnefna einn eða fleiri öryggisráðgjafa og ber ábyrgð á að öryggisráðgjafinn fullnægi skyldum sem á ráðgjafa hvíla samkvæmt reglugerð þessari.

Öryggisráðgjafi má vera yfirmaður fyrirtækisins, einstaklingur sem hefur aðrar skyldur innan fyrirtækisins eða einstaklingur sem starfar ekki hjá því fyrirtæki, að því tilskildu að hann sé fær um að sinna skyldustörfum öryggisráðgjafa. Öryggisráðgjafi skal fá tíma og tækifæri til að gegna hlutverki sínu sem öryggisráðgjafi.

Fyrirtækið skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um hver öryggisráðgjafi þess er hverju sinni.


4. gr.

Öryggisráðgjafi skal leita viðeigandi leiða og grípa til viðeigandi aðgerða, innan marka starfsemi fyrirtækisins, sem eru til þess fallnar að auðvelda framkvæmd starfseminnar í samræmi við gildandi reglur á eins öruggan hátt og kostur er. Hann skal gegna þeim verkefnum sem tilgreind eru í I. viðauka. Ef tilnefndir eru fleiri en einn öryggisráðgjafi innan fyrirtækis skal einn þeirra tilnefndur sem samræmingarráðgjafi.


5. gr.

Verði slys eða óhapp við flutning, fermingu eða affermingu á hættulegum farmi sem veldur tjóni á fólki, eignum eða umhverfi skal öryggisráðgjafinn taka saman skýrslu um atvikið eftir að hafa aflað viðeigandi gagna og leggja fyrir stjórnendur fyrirtækisins. Skýrsla þessi kemur ekki í stað skýrslugerðar sem kann að vera krafist samkvæmt öðrum reglum eða lögum.


III. Próf og vottorð um starfsmenntun og gildistími vottorðs.
6. gr.

Öryggisráðgjafi skal vera handhafi gilds vottorðs um starfsmenntun sem gefið skal út af Vinnueftirliti ríkisins í samræmi við III. viðauka.

Til þess að fá vottorð um starfsmenntun skal umsækjandi hafa notið kennslu í því námsefni sem greinir í II. viðauka og standast próf í samræmi við IV. viðauka.

Starfsmenntunarvottorð, sem gefið er út í öðru ríki sem er aðili að EES-samningnum, gildir til jafns við vottorð gefið út hér á landi, með þeim takmörkunum sem vottorðið ber með sér.


7. gr.

Vottorð um starfsmenntun gildir í fimm ár. Vottorðið skal bera með sér fyrir hvaða flutningastarfsemi (flutninga á vegum) prófið náði.

Gildistíma vottorðs má framlengja um fimm ár í senn ef handhafi þess hefur á síðasta gildisári vottorðsins sótt upprifjunarnámskeið eða staðist próf.

Prófið skal vera í samræmi við IV. viðauka.


8. gr.

Um námskeið, framkvæmd prófa og útgáfu vottorða, þ.á m. um greiðslu kostnaðar af námskeiði, prófi og útgáfu vottorðs, fer skv. 19.-21. gr. reglugerðar um flutning á hættulegum farmi.


IV. Gildistaka.
9. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 5. mgr. 73. gr. umferðarlaga, nr. 50 30. mars 1987, og að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið hvað varðar þátt Vinnueftirlits ríkisins, öðlast þegar gildi.

Reglugerðin er einnig sett með hliðsjón af XIII. viðauka við EES-samninginn, 13.a tölul. (tilskipun 96/35/EB, sbr. ákvörðun nr. 6/97 og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB, 29. hefti 1997, bls. 19-26) og 13.b tölul. (tilskipun 2000/18/EB, sbr. ákvörðun nr. 110/2000).

Fyrirtæki skal hafa tilnefnt öryggisráðgjafa vegna starfsemi þess í samræmi við reglugerð þessa fyrir 1. janúar 2002.


Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 24. júlí 2001.

Sólveig Pétursdóttir.
Björn Friðfinnsson.I. VIÐAUKI
Verkefni öryggisráðgjafa, sbr. 4. gr.

Öryggisráðgjafinn skal einkum sinna eftirfarandi verkefnum:
- að fylgjast með því að farið sé að reglum um flutning á hættulegum farmi,
- að veita fyrirtæki sínu ráðgjöf um flutning á hættulegum farmi,
- að taka saman ársskýrslu fyrir stjórnendur fyrirtækisins um starfsemi fyrirtækisins er varðar flutning á hættulegum farmi. Ársskýrslan skal ennfremur hafa að geyma upplýsingar um verkefni öryggisráðgjafans á liðnu ári. Ársskýrslur skal fyrirtækið geyma í fimm ár og skulu yfirvöld sem samkvæmt gildandi löggjöf annast eftirlit, rannsókn o.þ.h. vegna slysa eða óhappa hafa aðgang að þeim verði farið fram á það.

Öryggisráðgjafinn skal einnig hafa eftirlit með eftirfarandi starfsaðferðum er varða flutningastarfsemi fyrirtækisins á hættulegum farmi:
- framkvæmd reglna um merkingu á hættulegum farmi sem á að flytja,
- með hvaða hætti fyrirtækið fullnægir sérstökum kröfum vegna flutnings á hættulegum farmi þegar fest eru kaup á flutningstæki,
- eftirlit með búnaði sem notaður er í tengslum við flutning, fermingu eða affermingu á hættulegum farmi,
- nauðsynlega þjálfun starfsmanna fyrirtækisins og að sú þjálfun sé skráð,
- framkvæmd neyðaráætlunar verði slys eða komi upp önnur atvik sem gætu haft áhrif á öryggi við flutning á hættulegum farmi,
- rannsókn og skýrslugerð, ef við á, um alvarleg slys, önnur atvik eða alvarleg brot sem verða við flutning á hættulegum farmi,
- framkvæmd ráðstafana til að komast hjá því að slys, önnur atvik eða alvarleg brot endurtaki sig,
- hvort tekið sé mið af reglum og sérstökum kröfum er varða flutning á hættulegum farmi við val á undirverktökum eða öðrum aðilum,
- sannprófun á því að starfsmenn sem vinna að flutningi á hættulegum farmi starfi samkvæmt nákvæmum verklagsreglum,
- að teknar séu upp ráðstafanir til að auka meðvitund um þá áhættu sem felst í flutningi á hættulegum farmi,
- sannprófun á því að í ökutæki séu skjöl og öryggisbúnaður sem skylt er að hafa við flutning á hættulegum farmi og að hvoru tveggja sé í samræmi við reglur,
- sannprófun til að tryggja að farið sé að reglum um fermingu og affermingu.


II. VIÐAUKI
Námsgreinar sem um getur í 3. mgr. 6. gr.

Til að fá vottorð um starfsmenntun er krafist í það minnsta þekkingar á eftirfarandi:
A. Almennar forvarnar- og öryggisráðstafanir:
- þekking á afleiðingum slyss þar sem við sögu kemur hættulegur farmur,
- þekking á helstu orsökum slysa.

B. Ákvæði reglna um flutning á hættulegum farmi á vegum, einkum með hliðsjón af eftirfarandi:

1. Flokkun hættulegs farms:
- aðferð við flokkun á lausnum og blöndum,
- kerfi fyrir lýsingu á efnum,
- flokkar hættulegs farms og meginreglur um flokkun slíks farms,
- eðli hættulegra efna og hluta sem fluttir eru,
- eðlisfræðilegir, efnafræðilegir og eiturefnafræðlegir eiginleikar.
2. Almennar kröfur um pökkun, þ.á m. í farmgeymum og gámageymum:
- umbúðategundir, skráning ("kóðun") og merking,
- kröfur varðandi umbúðir og reglur um prófun umbúða,
- ástand umbúða og reglubundið eftirlit.
3. Varúðarmerki og hættuskilti:
- merking varúðarmerkja,
- hvenær varúðarmerki verða sett á eða fjarlægð (hulin),
- áfesting varúðarmerkja og hættuskilta.
4. - Farmbréf:
- upplýsingar í farmbréfi,
- vottorð sendanda,
5. Sendingaraðferð og takmarkanir á afgreiðslu:
- fullfermi (frá sama sendanda),
- búlkafarmar,
- búlkaflutningar í stórum gámum,
- gámaflutningar,
- flutningar í föstum eða lausum farmgeymum.
6. Flutningur farþega.
7. Bann og varúðarráðstafanir við samlestun.
8. Aðskilnaður efna.
9. Takmarkanir á flutningsmagni og magn sem er undanskilið.
10. Meðhöndlun og hleðsla:
- ferming og afferming (fyllingarhlutfall),
- hleðsla og aðgreining.
11. Hreinsun og/eða tæming gastegunda fyrir fermingu og eftir affermingu.
12. Áhöfn:
- starfsþjálfun.
13. Skjöl sem fylgja skulu flutningnum:
- farmbréf,
- flutningsslysablað,
- vottorð um viðurkenningu ökutækisins,
- starfsþjálfunarvottorð ökumanns ökutækisins,
- afrit af undanþágum,
- önnur skjöl.
14. Öryggisleiðbeiningar:
- notkun leiðbeininganna og búnaðar til verndar ökumanni.
15. Eftirlitsskyldur:
- lagning ökutækis (vöktun).
16. Reglur og takmarkanir varðandi akstur og fylgd.
17. Losun mengunarefna í kjölfar aðgerðar eða fyrir slysni.
18. Kröfur um flutningsbúnað.


III. VIÐAUKI
Eyðublað sem um getur í 1. mgr. 6. gr.

EES vottorð um þjálfun öryggisráðgjafa við flutning á hættulegum farmi.

Númer vottorðs: .....................................................................................................................................................................

Þjóðernismerki útgáfulands vottorðsins: ...........................................................................................................................

Kenninafn: ..............................................................................................................................................................................

Eiginnafn (nöfn): ....................................................................................................................................................................

Fæðingardagur: .....................................................................................................................................................................

Ríkisfang: ................................................................................................................................................................................

Undirskrift handhafa: ............................................................................................................................................................

Gildir til: ............................... vegna fyrirtækja sem flytja hættulegan farm:

p á vegum

p með járnbrautum

p á skipgengum vatnaleiðum

eða fyrirtækja sem sjá um tilheyrandi fermingu og affermingu.

Útgefið af: ...............................................................................................................................................................................

Dagsetning: ............................................................................................................................................................................

Undirskrift: ..............................................................................................................................................................................

Framlengist til: ........................................................................................................................................................................

Af: ............................................................................................................................................................................................

Dagsetning: ............................................................................................................................................................................

Undirskrift: ..............................................................................................................................................................................


IV. VIÐAUKI
Próf og prófspurningar, sbr. 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 7. gr.

Prófið skal vera skriflegt og samanstanda af a.m.k. 20 opnum spurningum úr efnisinnihaldi I. og II. viðauka. Leggja má fyrir krossapróf og skulu þá tvær krossaspurningar samsvara einni opinni spurningu.

Til að standast próf skal viðkomandi sýna fram á að hann kunni m.a. skil á eftirfarandi efni:

- Almennar forvarnar- og öryggisráðstafanir.
- Flokkun hættulegs farms.
- Almennar kröfur um pökkun, þ.á m. í farmgeymum og gámageymum,
- Varúðarmerki og hættuskilti.
- Farmbréf.
- Meðhöndlun og hleðsla.
- Starfsþjálfun áhafnar.
- Skjöl sem fylgja skulu flutningnum.
- Öryggisleiðbeiningar.
- Kröfur um flutningsbúnað.

Við endurnýjunarpróf skal ennfremur leggja áherslu á breytingar sem orðið hafa á gildandi reglum síðustu fimm árin.

Prófið skal innihalda raunverkefni úr starfssviði sem fellur undir skyldustörf öryggisráðgjafa skv. I. viðauka. Við lausn verkefnisins skal próftaki sýna fram á að hann hafi þá þekkingu sem nauðsynleg er til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til öryggisráðgjafa.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica