I. KAFLI
Höfundaréttarnefnd.
1. gr.
Höfundaréttarnefnd er nefnd sjö sérfróðra manna á sviði höfundaréttar sem menntamálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn og er ráðherra til ráðuneytis um höfundaréttarmál í samræmi við 58. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum.
2. gr.
Formaður höfundaréttarnefndar boðar fundi eftir því sem þurfa þykir og stýrir fundum nefndarinnar. Jafnan skal boða varamenn, séu þeir skipaðir, jafnt og aðalmenn á fundi nefndarinnar. Höfundaréttarnefnd fjallar um málefni sem varða höfundarétt, þar á meðal tekur nefndin fyrir erindi sem ráðherra vísar til nefndarinnar og veitir álit um slík erindi. Formaður höfundaréttarnefndar sker úr um hvort nefndin teljist vera ályktunarhæf. Afl atkvæða ræður niðurstöðu nefndarinnar.
3. gr.
Höfundaréttarnefnd skal halda gerðabók. Nefndin skal árlega senda menntamálaráðherra skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári.
4. gr.
Menntamálaráðherra ákveður þóknun nefndarmanna.
II. KAFLI
Höfundaréttarráð.
5. gr.
Höfundaréttarráð er vettvangur fyrir kynningu og umræðu um höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á samfélagið.
6. gr.
Rétt til setu í höfundaréttarráði eiga fulltrúar eftirtalinna hagsmunaaðila:
Þeir sem sæti eiga í höfundaréttarnefnd, skulu og eiga sæti í ráðinu, svo og þeir aðilar sem ráðherra skipar sérstaklega í ráðið.
7. gr.
Menntamálaráðherra eða sá sem hann nefnir í sinn stað skal vera í forsæti á fundum höfundaréttarráðs. Boða skal til fundar í höfundaréttarráði einu sinni á ári, að jafnaði.
8. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er skv. heimild í 58. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum, öðlast þegar gildi.
Menntamálaráðuneytinu, 21. apríl 2008.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Guðmundur Árnason.