Menntamálaráðuneyti

340/1996

Reglugerð um framkvæmd vélgæslunámskeiða fyrir vélgæslumenn (VM) - Brottfallin

1. gr.

Rétt til þess að sækja námskeið í vélgæslufræðum fyrir vélgæslumenn á skipum allt að 20 rúmlestum með aðalvél minni en 221 kw. hafa þeir sem náð hafa 18 ára aldri.

2. gr.

Vélskóli Íslands hefur yfirumsjón með framkvæmd námskeiðanna og sér um samningu námsefnis í samræmi við innihald þeirra. Um útgáfu námsefnisins skal skólinn hafa samráð við hagsmunaaðila.

3. gr.

Til þess að fylgjast með að ekki verði misræmi í kennslu og kennsluaðstöðu við framkvæmd námskeiðanna skal ráðuneytið skipa fjögurra manna nefnd sem sjái um nauðsynlega samræmingu. Landssamband smábátaeigenda, Vélstjórafélag Íslands og Vélskóli Íslands skulu tilnefna hver sinn fulltrúa í nefndina og ráðuneytið þann fjórða og skal hann vera formaður. Nefndina skal skipa til þriggja ára.

4. gr.

Lengd námskeiðanna skal vera 60 kennslustundir og fjalla skal um eftirfarandi atriði:

1. Vélin

vinnumáti.

  uppbygging díselvéla, bæði fjórgengis- og tvígengisvéla

einstakir vélahlutar.

  hreyfihlutar véla, stimplar, sveifarás, lokar, stimpilstangir, strokkfóðringar og strokklok.

afgaskerfi.

  virkni skolloftsblásara, skolloftskæla og frágangur afgasgreina.

frágangur véla.

  kynning á undirstöðum og afréttingu véla.

eldsneytiskerfi.

  eldsneytisgeymar, vatnsskilja, síur, dælur eldsneytislokar og lagnir. Lofttæming: helstu atriði um bilanaleit og meðferð eldsneytiskerfis.

smurkerfi.

  val og umhirða á smurolíu og síubúnaði, smurolíudælur, smurolíukælar og ferill smurolíu.

kælikerfi.

  helstu gerðir kælikerfa, kælar/utanáliggjandi kælar, innanborðskælar, tæringavarnir, vatnslás og kælivatnshitastig, hlutverk varnarskauta í kælikerfum, kælivatnsdælur, lokar og efni í lokum.

keyrsla véla.

                kynning á ástimpluðum stærðum á vélum, varmayfirlestun véla, eyðslukúrfur og skrúfulínurit.

2. Drifbúnaður

gír.

                helstu gerðir gíra, niðurfærslugíra, hældrifa og skiptigíra. Olía og umhirða.

skrúfa.

                fastar skrúfur og skiptiskrúfur. Umgengni og helstu viðgerðir.

3. Ýmis kerfi

austurkerfi.

                farið yfir síur, dælur og loka og val á efni og búnaði kynnt.

stýri.

                nemendum kynnt stýrisvél og umhirða hennar einnig stýrisblað og frágangur þess.

4. Rafkerfi

tenging kerfis.

                kynning á einlínumyndum af rafmagnskerfum bátsins, tengingar, frágangur, umhirða og gerð grein fyrir helstu bilunum.

rafkerfi fyrir handfærarúllur.

                kynning á einlínumynd og tengingum á algengustu tegundum af handfærarúllum.

rafgeymar.

                uppbygging rafgeyma, umhirða, rað- og hliðtenging, varúðarráðstafanir, hleðsla og afhleðsla og eðlisþyngd geymasýru.

startari.

                uppbygging og tengingar.

glóðakerti.

                helstu gerðir glóðakerta og gerð grein fyrir öðrum aðferðum til upphitunar lofts við gangsetningu.

5. Reglugerðir varðandi vélakerfi smábáta

- reglugerðir um varahluti, rafkerfi, vélakerfi og mengun sjávar. Gerð grein fyrir úttekt og viðurkenningu flokkunarfélaga á vélum, bátum og búnaði.

6. Varahlutir og verkfæri

- fjallað um meðferð og geymslu varahluta og helstu gerðir hand-verkfæra kynntar og notkun þeirra.

7. Vökvakerfi

- vökvageymar, dælur, síur, öryggisbúnaður og annar búnaður.

8. Vetrargeymsla

- frágangur vélar og skrokks og gerð grein fyrir frostþoli vökva.

 

5. gr.

Námsárangur nemenda skal metinn með prófi í lok námskeiðs. Einkunnir skal gefa í heilum tölum 1 - 10 og lágmarkseinkunn til að standast próf er 5. Kennari metur úrlausnir nemenda. Ef upp kemur ágreiningur á milli kennara og nemanda um mat úrlausnar skal námskeiðshaldari kalla til prófdómara sem menntamálaráðuneytið samþykkir og skal úrskurður hans gilda. Með heimild ráðuneytisins getur nefnd sú, sem mælt er fyrir í 3. gr. látið gera úttekt á námskeiðunum í því skyni að fylgjast með gæðum þeirra og námskröfum.

6. gr.

Heimilt er námskeiðshaldara að meta fyrra nám nemenda þannig að þeim sé heimilt að gangast undir próf án þess að sækja tíma á námskeiðinu ef talið er að fyrra nám samsvari efni námskeiðsins.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í A-lið ákvæðis til bráðabirgða laga nr. 113/1984, sbr. lög nr. 60/1995, með hliðsjón af 2. málsgrein 36. gr. laga nr. 57/1988 með síðari breytingum.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 19. júní 1996.

Björn Bjarnason.

Hörður Lárusson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica