Menntamálaráðuneyti

549/1982

Reglugerð fyrir Þjóðleikhús - Brottfallin

1. gr.

Hlutverk Þjóðleikhússins.

Í Þjóðleikhúsinu skal iðka leiklist og þær listgreinar aðrar sem leiksviði eru tengdar.

Aðalhlutverk leikhússins skal vera flutningur íslenskra og erlendra sjónleikja.

Jafnframt skal það árlega flytja óperu og söngleiki og sýna listdans. Á hverju leikári skulu eitt eða fleiri viðfangsefni sérstaklega ætluð börnum.

Þjóðleikhúsið heyrir undir menntamálaráðuneytið. Stjórn þess er að öðru leyti í höndum

þjóðleikhússtjóra og þjóðleikhúsráðs.

2. gr.

Þjóðleikhússtjóri.

Þjóðleikhússtjóri er stjórnandi leikhússins og hefur forystu um að móta listræna stefnu þess. Hann stjórnar leikhúsinu samkvæmt samþykktri starfs- og fjárhagsáætlun og ber ábyrgð á rekstri þess, bæði listrænum og fjárhagslegum.

Þjóðleikhússtjóra til ráðuneytis um rekstur og yfirstjórn leikhússins eru fjármálafulltrúi, leiklistar- og bókmenntaráðunautur og skipulagsstjóri. Sömuleiðis tónlistarstjóri, sem er í hlutastarfi, og listdansstjóri, um þau efni er að þeim listgreinum snúa.

Á leiktímabilinu ber þjóðleikhússtjóra að vera til viðtals á ákveðnum tíma, sem tilgreindur sé við skrifstofu hans, enda sé hann eigi fjarverandi úr bænum í erindum leikhússins eða forfallaður á annan hátt. Í fjarveru eða forföllum þjóðleikhússtjóra er fjármálafulltrúi leikhússins staðgengill hans.

3. gr.

Þjóðleikhúsráð.

Hlutverk þjóðleikhúsráðs er að hafa eftirlit með starfsemi og rekstri þjóðleikhússins.

Starfs- og fjárhagsáætlun hvers leikárs skal borin upp í þjóðleikhúsráði og samþykkt þar, svo og reikningar hvers liðins starfsárs.

Leita skal tillagna þjóðleikhúsráðs um öll mál, er varða leikhúsbygginguna sjálfa og önnur húsnæðismál leikhússins, öll stefnumarkandi mál, öll nýmæli, ákvarðanir um leikferðir innan lands og utan, allar fastráðningar listamanna og aðrar meiri háttar mannaráðninga, svo og ráðningar leikstjóra til einstakra verkefna, rekstur veitingahúss og mötuneytis, gestaleiki og margvísleg önnur mál er að hag hússins snúa.

Fundir skulu haldnir sem næst hálfsmánaðarlega meðan leikhúsið starfar og auk þess ef formaður ráðsins, þjóðleikhússtjóri eða meiri hluti ráðsins telur þess þörf. Formaður ráðsins kveður þjóðleikhúsráð til funda og stýrir þeim. Þjóðleikhússtjóri og fjármálafulltrúi sitja fundi ráðsins að öðru jöfnu. Þjóðleikhúsráð og starfsmannaráð geta óskað þess að fulltrúi starfsmannaráðs sitji einstaka fundi þjóðleikhúsráðs.

Halda skal gerðabók um störf þjóðleikhúsráðs.

4. gr.

Fjármálafulltrúi.

Fjármálafulltrúi annast fjárreiður Þjóðleikhússins, reikningsskil og skrifstofustjórn. Hann semur starfs- og fjárhagsáætlun leikhússins ásamt þjóðleikhússtjóra, hann gerir og fjárhagsáætlun fyrir hverja einstaka sýningu í samvinnu við skipulagsstjóra, leiksviðsstjóra og yfirleikmyndateiknara.

Fjármálafulltrúi setur reglur um frágang skriflegra heimilda vegna aðkaupa einstakra deilda leikhússins á vörum og þjónustu, svo sem notkun sérstakra vinnukaupa- og akstursbeiðna; hann fylgist með því að greiðslur séu ekki inntar af hendi nema fullnægt sé settum reglum um aðkaupsheimildir og áritanir deildarstjóra á greiðsluskjöl.

5. gr.

Skipulagsstjóri.

Skipulagsstjóri hefur með höndum skipulagsstarf innan leikhússins, yfirumsjón með vinnuhagræðingu hinna ýmsu deilda og fylgist með innkaupum þeirra, raðar niður æfingum og æfingatímum, skipuleggur leikferðir innanbæjar og utan og annast önnur skyld störf. Hann hefur þannig á hendi starfsmannastjórn ásamt þjóðleikhússtjóra og fjármálafulltrúa.

6. gr.

Leiklistar- og bókmenntaráðunautur.

Leiklistar- og bókmenntaráðunautur Þjóðleikhússins annast könnun leikrita og annars bókmenntaefnis er að verkefnum leikhússins lýtur eða kynni að lúta. Honum ber að kynna sér innlend og erlend leikverk, er leikhúsinu berast, og segja álit sitt á þeim, skriflega ef þjóðleikhússtjóri æskir þess. Hann skal yfirfara þýðingar erlendra verka sem ætluð eru til flutnings í leikhúsinu. Hann skal vera höfundum til ráðuneytis við samningu leikverka ef þjóðleikhússtjóri og höfundur gera með sér samkomulag þar um. Hann skal auk þess vera leikstjórum og leikmyndateiknurum til halds um greiningu verka og gagnasöfnun.

7. gr.

Tónlistarráðunautur.

Tónlistarráðunautur er ráðinn 1/3 hluta starfs. Hann skal vera leikhússtjóra og leikhússtjórn til ráðuneytis um allan tónlistarflutning í leikhúsinu, val ópera, söngleikja, balletttónlistar og alls annars tónlistarefnis og gera tillögur þar að lútandi og skila umsögnum. Hann á sæti í dómnefnd þegar teknir eru nýir félagar í kór leikhússins.

8. gr.

Listdansstjóri.

Listdansstjóri Þjóðleikhússins skal veita Íslenska dansflokknum forstöðu og sjá um þjálfun hans, hafa takmarkaða kennsluskyldu við Listdansskóla Þjóðleikhússins og taka að sér sviðssetningar og æfingar balletta eftir því sem þjóðleikhússtjóri og stjórn Íslenska dansflokksins ákveða. Fyrir samningu hugverka á þessu sviði ber honum sérstök greiðsla.

Hann er þjóðleikhússtjóra og stjórn dansflokksins til ráðuneytis um val verkefna, svo og önnur þau atriði er að listdansi lúta í öðrum verkefnum leikhússins.

9. gr.

Aðrir starfsmenn.

Um verksvið og skyldur annarra starfsmanna en tilgreindir eru í reglugerð þessari fer eftir starfssamningi við þá og almennum reglum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

10. gr.

Leikritavalsnefnd.

Þjóðleikhússtjóri ákveður í samráði við leikritavalsnefnd og leiklistar- og bókmenntaráðunaut hvaða leikverk skulu flutt í leikhúsinu.

Í leikritavalsnefnd skulu sitja einn fulltrúi kjörinn af þjóðleikhúsráði, einn af fastráðnum leikurum hússins og einn af leikstjórum starfandi innan stofnunarinnar; skal í síðastnefnda tilvikinu miðað við að viðkomandi leikstjórar hafi haft leikstjórn á hendi a. m. k. einu sinni undangengin tvö ár fyrir kosningu. Fulltrúar og varamenn þeirra í leikritavalsnefnd skulu kjörnir til tveggja ára í senn.

Leikritavalsnefnd kemur saman reglulega og fjallar ásamt þjóðleikhússtjóra og leiklistar- og bókmenntaráðunauti um þau verkefni sem til greina koma.

Þá skulu tónlitarráðunautur og listdansstjóri kvaddir á fund nefndarinnar þegar til umræðu eru verk sem krefjast sérþekkingar þeirra.

11. gr.

Samning verkefnaskrár.

Verkefni skulu ákveðin með góðum fyrirvara og þeim raðað í verkefnaskrá þannig að skipulagning og nýting starfsmanna verði sem hagkvæmust. Leikstjórar og leikmyndateiknarar einstakra verkefna skulu valdir eigi síðar en í lok næsta leikárs á undan og skili leikstjóri tillögum sínum um hlutverkaskipan og leikmyndateiknari drögum að leikmynd eigi síðar en 1. september.

Gerð starfs- og fjárhagsáætlunar verkefnaskrár skal lokið fyrir 1. október.

Þó ekki reynist unnt að ákveða alla þætti verkefnaskrár á tilskildum tíma skal hún þó ákveðin í aðalatriðum og óákveðnir þættir takmarkast af þeirri ákvörðun.

Öllum ákvörðunum, svo og gerð starfs- og fjárhagsáætlunar allra viðfangsefna fram að jólaverkefni, skal þó skilyrðislaust lokið fyrir 11. maí.

Áætla skal vinnutíma og frumsýningardag allra verkefna og gera ráð fyrir mögulegum gestasýningum, ballettsýningum o. fl. þess háttar utan aðalverkefnaskrár og ætla slíku stað og tíma.

Til þess að síðbúin ákvörðun raski ekki heildarskipulagi skal hún tekin í síðasta lagi tíu vikum fyrir áætlaða frumsýningu og sé þá hlutverkaskipan endanlega ákveðin og leikmyndateiknari hafi skilað líkani af leikmyndinni.

Verkefnaskrá skal lögð fyrir framkvæmdafund til umsagnar um röðum verkefna og vinnuhagræðingu áður en hún er borin upp í þjóðleikhúsráði.

12. gr.

Rekstrarfundir.

Rekstrarfundir skulu að jafnaði haldnir vikulega. Þá sitja auk þjóðleikhússtjóra: fjármálafulltrúi, skipulagsstjóri, leiksviðsstjórar beggja leiksviða, leikhúsritari, miðasölustjóri, yfirleikmyndateiknari og ljósameistari.

Rekstrarfundir fjalla um ýmsar ákvarðanir varðandi rekstur leikhússins, svo sem sýningaskrá, leikferðir og fleiri skyld mál.

13. gr.

Framkvæmdafundir.

Framkvæmdafundir skulu haldnir reglulega og fjalla um framkvæmd hverrar sviðssetningar fyrir sig og gera vinnuáætlanir.

Fyrstu áætlun skal gera þegar drög að leikmynd og búningum liggja fyrir.

Aðra áætlun og nákvæmari skal gera 10 vikum fyrir frumsýningu.

Þeir sem sitja framkvæmdafundi skulu gæta þess að vinnu- og kostnaðaráætlanir einstakra sýninga standist. Þótt slíkar áætlanir hafi sveigjanleika má ekki víkja frá þeim án þess að breytingar séu ræddar á framkvæmdafundi og öllum aðilum hans séu þær ljósar.

Framkvæmdafundi sitji þjóðleikhússtjóri, fjármálafulltrúi, skipulagsstjóri, leiksviðsstjórar, sýningarstjórar, yfirleikmyndateiknari, viðkomandi deildarstjórar, fulltrúi starfsmannaráðs og leikstjóri og leikmyndateiknari viðkomandi verkefnis.

14. gr.

Skipulagsfundir.

Skipulagsfundir skulu að jafnaði haldnir vikulega undir stjórn leiksviðsstjóra eða skipulagsstjóra. Þá fundi sitja fulltrúar allra deilda, þjóðleikhússtjóri, fjármálafulltrúi, leikhúsritari, sýningarstjórar, leikstjórar, leikmyndateiknarar og búningateiknarar þeirra verkefna sem eru í undirbúningi eða á sýningarskrá, auk fulltrúa starfsmannaráðs. Einnig eiga trúnaðarmenn leikara í þeim verkefnum, sem eru í æfingu eða á sýningarskrá, rétt til fundarsetu.

Hlutverk þeirra sem sitja þessa fundi er að skipa niður vinnu á sem hagkvæmastan hátt í leikhúsinu, gefa fólki yfirsýn yfir hvernig verkið gengur, fylgjast með framgangi sýninga og ræða vandamál sem upp kunna að koma við sýningar.

15. gr.

Starfsmannaráð.

Starfsmannaráð kýs sér fulltrúa til þess að sitja fundi þjóðleikhúsráðs, sbr. 3. gr. reglugerðar þessarar, og framkvæmda- og skipulagsfundi.

Þjóðleikhússtjóri haldi fundi með starfsmannaráði þegar þurfa þykir, þó eigi sjaldnar en fjórum sinnum á leikári.

Starfsmannaráð skal starfa við Þjóðleikhúsið í samræmi við reglur um starfsmannaráð ríkisstofnana frá 14. september 1981.

16. gr.

Þjóðleikhúskórinn.

Við Þjóðleikhúsið starfar blandaður kór. Kórfélagar eru lausráðnir og fara laun þeirra

að gildandi kjarasamningum, en kórfélagar skulu ganga fyrir um kórsöng í leikhúsinu jafnframt því sem þeir skuldbinda sig til að taka ekki að sér að syngja í öðrum kórum nema með leyfi þjóðleikhússtjóra.

Úr hópi kórfélaga skal á hverju leikári kjósa einn fulltrúa sem skal vera þjóðleikhússtjóra og tónlistarráðunaut til fulltingis við val óperu og söngleikja. Sami kórfulltrúi eða annar til þess kosinn af stjórn kórsins skal sitja í dómnefnd þegar teknir eru inn nýir kórfélagar með reynslusöng.

Reynslusönginn dæmir dómnefnd skipuð þjóðleikhússtjóra, tónlistarráðunaut leikhússins, fulltrúa kórsins og tveimur söngfróðum mönnum sem þjóðleikhússtjóri og kórfulltrúi koma sér saman um.

17. gr.

Reynslusöngur í óperuhlutverk.

Ef ástæða þykir til að hafa reynslusöng í einstök óperuhlutverk skal sérstök dómnefnd starfa. Í henni sitja, auk þjóðleikhússtjóra og tónlistarráðunauts, hljómsveitarstjóri fyrirhugaðrar sýningar og leikstjóri eða staðgenglar þeirra, svo og tveir söngfróðir menn sem þjóðleikhússtjóri kallar til.

Þátttakendur í slíkum reynslusöng skulu hafa minnst 10 daga undirbúningstíma og skal undirleikari og kórstjóri leikhússins vera til aðstoðar og undirleiks sé þess óskað.

18. gr.

Um hlutverkaskipan.

Leikara er skylt að leika hvert það hlutverk sem þjóðleikhússtjóri og leikstjóri ákveða hverju sinni. Telji leikari sér hins vegar ekki fært að taka að sér hlutverk sem honum hefur verið úthlutað og færir þau rök fyrir, sem þjóðleikhússtjóri og leikstjóri taka gild, má veita honum undanþágu frá því fari hann fram á það eigi síðar en á 3. samlestri. Krefjast má skriflegrar greinagerðar frá leikara þar sem hann tilgreinir ástæðu fyrir því að hann neitar eða biðst undan að leika hlutverkið.

19. gr.

Trúnaðarmál.

Óheimilt er starfsmönnum að skýra frá trúnaðarmálum leikhússins, svo sem fyrirhuguðum leiksýningum, skiptingu hlutverka eða öðru, er leikhúsið varðar.

Starfsmönnum Þjóðleikhússins bera að sýna Þjóðleikhúsinu fulla trúmennska. Þjóðleikhússtjóri eða sá sem hann til þess kýs lætur fréttastofnunum í té upplýsingar varðandi leikhúsið og starfsemi þess.

20. gr.

Íslenski dansflokkurinn.

Meðan Íslenski dansflokkurinn starfar sem sjálfstæður aðili í tengslum við leikhúsið skulu settar sérstakar reglur um starfsemi hans.

21. gr.

Samstarf Þjóðleikhúss og Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Um samstarf Þjóðleikhúss og Sinfóníuhljómsveitar Íslands við óperusýningar og annan tónlistarflutning skal gera sérstakan samning þar sem tilgreindur er hugsanlegur gagnkvæmur forgangur og önnur framkvæmdaatriði.

22. gr.

Starfsmenn.

Við val og röðun verkefna skal þess gætt að nýting starfskrafta stofnunarinnar sé sem best og vinnuálag sem jafnast. Auk þess skal þess gætt að hver listamaður fái tækifæri til að þroskast í list sinni en staðni ekki í einhæfum verkefnum eða ónógum.

Gefist starfsmanni kostur á að sinna verkefni, sem tengt er listsköpun eða stuðlar að starfsþroska hans utan stofnunarinnar eða innan hennar, utan hans aðalstarfssviðs, skal reynt að veita honum tækifæri til þess. Leita skal umsagnar þjóðleikhúsráðs í slíkum málum.

23. gr.

Gestalistamenn.

Þjóðleikhússtjóra er heimilt að ráða innlenda og erlenda leiklistarmenn sem gesti í einstök verkefni þegar þess er talin þörf eða æskilegt, enda brjóti það ekki í bága við 11. gr. laga um þjóðleikhús eða 11. og 21. gr. reglugerðar þessarar.

Á sama hátt er þjóðleikhússtjóra heimilt að ráða leikflokka sem gesti til að flytja leikrit, söngleiki eða leikdansa í Þjóðleikhúsinu, enda sé gert ráð fyrir þeim í starfs- og fjárhagsáætlun.

24. gr.

Leikhandrit.

Umfjöllun og skilafrestur handrita, sem leikhúsinu berast, skulu fara eftir samningum milli Þjóðleikhússins og Félags íslenskra leikritahöfunda.

Starfsmönnum er skylt að afhenda sýningarstjóra handrit að aflokinni notkun ellegar kaupa þau á kostnaðarverði ef þeir æskja.

25. gr.

Almennir fundir.

Þjóðleikhússstjóri getur, ef hann telur þess þörf, kallað til fundar einstaka hópa, deildir eða starfsfólk stofnunarinnar til að ræða málefni hússins.

Á sama hátt geta einstakir hópar, deildir eða starfsfólk hússins óskað funda með þjóðleikhússtjóra til að ræða málefni hússins.

26. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 20. gr. laga nr. 58 12. maí 1978 um Þjóðleikhús og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 162 23. september 1949 með áorðnum breytingum.

Menntamálaráðuneytið, 1. september 1982.

Ingvar Gíslason.

Birgir Thorlacius.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica