Menntamálaráðuneyti

103/1956

Reglugerð um bindindisfræðslu - Brottfallin

1. gr.

                Bindindisfræðsla er hvers konar fræðsla um eðli áfengra drykkja og áhrif þeirra á mannlegan líkama og sálarlíf, svo og útskýring þeirra áhrifa, sem áfengisnautn hefur á einstaklinga þjóðfélagsins og samfélagið í heild. Enn fremur skal rækilega frætt um þær leiðir, sem reyndar hafa verið til útrýmingar áfengisnautn og skýrt frá baráttunni gegn áfenginu utanlands og innan.

2. gr.

Bindindisfræðsla (sbr. 1. gr.) skal fara fram í öllum skólum ríkisins og öðrum skólum, sem styrks njóta af ríkisfé.

3. gr.

Tilgangur bindindisfræðslunnar er:

1. að fræða nemendur um eðli áfengra drykkja og áhrif þeirra á einstaklinginn og þjóðfélagið í heild.

2. að draga svo sem verða má úr þeirri hættu, sem áfengisnautninni er samfara,

3. að benda á leiðir til að firra þjóðfélagið því böli, er leiðir af eiturnautnum, og þá einkum áfengisnautn og skýra frá starfsemi í því skyni fyrr og nú.

4. gr.

Sérstaka áherzlu skal leggja á að upplýsa, hvaða áhrif ofnautn áfengis hefur á líkama mannsins, vinnuþrek, siðferðisþroska hans og sálarlíf, á heimili manns, umgengnisvenjur og almenna siðfágun, á fjárhag einstaklinga og þjóðarinnar, á öryggi í vandasömu starfi og atvinnu manna almennt. Enn fremur skal veita fræðslu um það, hver sé öruggsta leiðin til að forðast ofnautn áfengis.

5. gr.

Bindindisfræðslan skal vera hlutdræg (objektiv), fara fram eftir áræðanlegum heimildum, og vera hlutlaus um stjórnmál.

Kennslunni skal haga eftir þroska nemendanna. Í lægri skólum, svo sem barnaskólum, ber að leggja sérstaka áherzlu á áhrif áfengis á einstaklinginn og heimilið, en í æðri skólum skal auk þess stefnt að því að gera nemendum skiljanlegt hið margháttaða þjóðfélagsböl, er leiðir af áfengisnautn.

6. gr.

Fræðsla um áfengi skal fara fram í sambandi við þessar námsgreinar: heilsufræði, líffræði, líffærafræði, íþróttir, félagsfræði, náttúrufræði, siðfræði, kristinfræði, efnafræði, átthagafræði og sagnfræði, einkum í framhaldsskólum, þar sem nemendur hafa enga sérstaka námsbók í bindindisfræðslu.

Í barnaskólum skal fara fram skipulagsbundin fræðsla í þessari grein í öllum 12 ára bekkjum, þó skulu kennarar í öðrum bekkjum koma þessari fræðslu að, svo sem verða má, í sambandi við aðrar námsgreinar, eins og sögu, kristinfræði, heilsufræði og átthagafræði.

Eigi skal verja minni tíma til bindindisfræðslu í hverjum skóla en sem svarar því, að hver nemandi fái tveggja kennslustunda fræðslu á hverjum mánuði á kennslutímanum.

Í kennaraskólanum skal sérstaklega lesa með kennaraefnum "Handbók kennara um áfengi og tóbak" til þess að búa þá sem bezt undir fræðslustarfið.

7. gr.

Fræðslumálastjórninni skal skylt að sjá svo um, að alltaf sé völ á góðri handbók fyrir kennara í þessum fræðum og sömuleiðis lestrar- eða námsbók fyrir barna- og miðskóla, svo og öðrum kennsluáhöldum og gögnum, sem áfengisvarnaráðunautur telur nauðsynleg til þess að bindindisfræðslan komi að sem beztum notum, eftir því sem að við á í hverjum aldursflokki. Má þar til nefna línurit eftir hagskýrslum, myndir af líffærum, sem eru orðin skemmd af eiturnautnum, og þá einkum áfengisnautn, svo og heilbrigðum líffærum til samanburðar, og síðast en ekki sízt kvikmyndir og skuggamyndir, og ber þá ekki aðeins að leggja áherzlu á hin neikvæðu áhrif eiturnautnanna, heldur einnig hin jákvæðu áhrif bindindis.

Áður en námsbókanefnd ákveður kennslubækur í þeim námsgreinum, sem taldar eru í 6. gr., skal hún leita álits áfengisvarnaráðunautar um það, hvort þær fullnægi þeim kröfum um bindindisfræðslu, sem gerðar eru í reglugerð þessari.

8. gr.

                Kennarar og skólastjórar ríkisskóla og annarra skóla, sem styrks njóta úr ríkissjóði, skulu í störfum sínum gefa nemendum sínum gott fordæmi um bindindi á áfengi.

Skulu námsstjórar, skólanefndir og fræðsluráð ganga ríkt eftir því, að skólastjórar og kennarar nefndra skóla séu til fyrirmyndar í því efni, og hvílir þar alveg sérstök ábyrgð á skólastjórunum.

9. gr.

Fræðslumálastjóri skal hafa nákvæmt eftirlit með því, að bindindisfræðsla fari fram í skólunum, svo sem lög mæla fyrir, og að þau rit og kennsluáhöld séu til í hverjum skóla, sem hann og áfengisráðunautur telja nauðsynleg til þess að kennslan komi að sem beztum notum. Áfengisvarnaráð og nefndir skulu vera hér til aðstoðar fræðslumálastjóra, svo og námsstjórar. Áfengisvarnaráðunaut ber að vekja athygli kennaranna á öllum nýjungum í vísindalegri áfengisfræði og kennslutilhögun í henni.

10. gr.

Fræðslumálastjóri skal senda reglugerð þessa öllum skólanefndum og fræðsluráðum, enn fremur öllum skólastjórum, til útbýtingar meðal kennara í landinu.

11. gr.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Í menntamálaráðuneytinu, 21. júlí 1956.

Bjarni Benediktsson.

________________

Birgir Thorlacius.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica