Menntamálaráðuneyti

372/1998

Reglugerð um kennslu fatlaðra nemenda í framhaldsskólum. - Brottfallin

1. gr.

Fatlaðir nemendur í framhaldsskólum, samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu fatlaður í 2. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra, eiga rétt á kennslu og sérstökum stuðningi í námi. Stuðningurinn getur verið veittur af sérhæfðum starfsmönnum, aðstoðarfólki og/eða í formi tækjabúnaðar.

Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.

Víkja má frá almennum reglum um framkvæmd námsmats og fyrirlögn prófa eftir því sem fötlun nemanda gefur tilefni til samkvæmt ákvæðum í aðalnámskrá framhaldsskóla.

2. gr.

Kennsla fatlaðra byggir á rökstuddri námsáætlun fyrir nemendahóp eða einstakling. Námsáætlunin skal byggð á meginmarkmiðum aðalnámskrár framhaldsskóla og upplýsingum um þarfir nemenda og mati á stöðu þeirra í námi og þroska. Tilgreind skulu langtíma- og skammtímamarkmið með kennslunni. Námsáætlun skal endurskoða reglulega.

Skipuleggi skóli sérstakt námsframboð fyrir fatlaða skal það birt í skólanámskrá. Gerð skal grein fyrir markmiðum námsins, tímalengd miðað við lok þess og aðstöðu til kennslu.

3. gr.

Kennsla fatlaðra nemenda getur farið fram með eftirfarandi hætti:

 a.            Með stuðningi inni í nemendahópi/bekkjardeild.

 b.            Með stuðningi utan nemendahóps eða í sérstökum námshópum að hluta eða að öllu leyti.

 c.            Í sérstökum deildum við framhaldsskóla.

4. gr.

Skólameistari metur þörf fyrir stuðning við fatlaða nemendur í skóla sínum og skipuleggur hann í samráði við starfslið skólans m.a. með hliðsjón af greiningu sérfræðinga á fötlun sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra. Áætlun um framkvæmd skal taka mið af námsáætlun fyrir námshópa og/eða einstaka nemendur eftir því sem við á.

Í starfsáætlun skólans skal sérstaklega gera grein fyrir námsframboði fyrir fatlaða nemendur, ráðningu sérhæfðs starfsliðs, sérfræðilegri aðstoð, sérstökum búnaði og námsefni og breytingu á húsnæði ef fötlun nemanda krefst þess. Skólameistari skal sækja um sérgreinda fjárveitingu vegna kostnaðar sem af þessu hlýst.

5. gr.

Menntamálaráðherra getur heimilað stofnun sérstakra deilda fyrir fatlaða nemendur er ekki geta nýtt sér almennt námsframboð framhaldsskóla, sbr. c-lið 3. greinar. Í sérdeildum getur námsframboð og kennslufyrirkomulag vikið frá því sem aðalnámskrá gerir ráð fyrir og starfið farið að sérstakri námskrá sem menntamálaráðherra samþykkir og miðuð er við sérþarfir nemenda viðkomandi deildar. Námið skal veita nemendum almennan undirbúning fyrir lífið og búa þá undir þátttöku í atvinnulífinu eða frekara nám eftir því sem kostur er.

6. gr.

Gögn í vörslu skóla og/eða yfirvalda menntamála sem hafa að geyma persónulegar upplýsingar um nemendur skal farið með í samræmi við ákvæði laga um meðferð og skráningu persónuupplýsinga og upplýsingalaga eftir því sem við á.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 19. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 9. júní 1998.

Björn Bjarnason.

Stefán Baldursson.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica