Menntamálaráðuneyti

244/1993

Reglugerð um fylgiréttargjald og Myndlistarsjóð Íslands. - Brottfallin

1. gr.

Við sölu myndlistarverka og listmuna á listmunauppboðum og við endursölu þeirra í atvinnuskyni ber að greiða 10% fylgiréttargjald af andvirði hins selda er falli í hlut höfundar viðkomandi listaverks eða erfingja hans að honum látnum. Réttindi þessi eru ekki framseljanleg.

Myndlistarsjóður Íslands annast innheimtu fylgiréttargjalds og skil þess til höfundar eða erfingja hans eftir þeim reglum sem nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.

Ef höfundaréttur að listaverki, sem selt er á listmunauppboði er fallinn niður sbr. 43. gr. höfundalaga nr. 73/1972, íslenska ríkið á höfundarétt að listaverki, sem selt er á listmunauppboðum eða í atvinnuskyni eða þegar fylgiréttargjaldinu verður ekki ráðstafað til höfundar eða erfingja hans sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar þessarar, rennur fylgiréttargjaldið til Myndlistarsjóðs Íslands.

2. gr.

Listaverk sem falla undir gjaldskyldu skv. 3. gr. laga um listmunauppboð nr. 36/1987 eða 25. gr. b. höfundalaga nr. 73/1972 sbr. lög nr. 57/1992 eru:

a) Öll málverk, þ.e. frumverk, sem gerð eru með olíulitum, akryllitum, tempera, vatnslitum, gouache og pastellitum svo og myndverk, sem gerð eru með annarri tækni.

b) Höggmyndir, ef um er að ræða frummynd eða merkta afsteypu í bronze, gips, terrakotta, leir, stein, marmara, tré, járn eða sérhvert annað efni.

c) Merktar og ómerktar teikningar listamanna, þ.e. blýants-, blek-, tusch-, krítar- og kolateikningar svo og annars konar teikningar og hvers konar grafísk listaverk, svo sem lithografíur, koparstungur, ætingar, raderingar, tréþrykk, svo og hvers konar önnur grafíkverk, enda séu verkin merkt af viðkomandi listamanni.

d) Myndvefnaður, textilverk, gler- og mósaikmyndir svo og leir, keramik, postulíns-, silfurog gullverk sem teljast til listiðnaðar, enda sé um frumverk að ræða og það merkt af viðkomandi listamanni.

3. gr.

Fylgiréttargjald ber að greiða af sölu allra listaverka sem getið er um í 2. gr. hafi listaverkið verið selt á listmunauppboði eða það endurselt í atvinnuskyni með öðrum hætti, enda sé höfundur þess íslenskur ríkisborgari eða ríkisborgari eins af aðildarríkjum alþjóðlegra sáttmála um höfundarétt sem Ísland er jafnframt aðili að og sem veitir íslenskum höfundum sams konar réttindi í því ríki.

4. gr.

Uppboðshaldarar listmunauppboða þ.e. þeir sem að lögum hafa fengið leyfi til að halda listmunauppboð og þeir sem annast endursölu listaverka í atvinnuskyni skulu inna greiðslu fylgiréttargjalds til Myndlistarsjóðs Íslands og eru þeir ábyrgir fyrir greiðslu fylgiréttargjaldsins.

Ásamt greiðslu fylgiréttargjalds skulu þeir jafnframt skila Myndlistarsjóði Íslands skilagrein um alla sölu listaverka ásamt nafni og auðkennum verks, stærð þess ásamt öðrum upplýsingum úr uppboðsskrá svo og um höfund verksins og söluverð þess.

Fylgiréttargjaldi og skilagrein skal skila í síðasta lagi 30 dögum eftir að listamunauppboð fór fram, ef um sölu á listmunauppboði er að ræða en ársfjórðungslega ef um endursölu í atvinnuskyni er að ræða.

5. gr.

Myndlistarsjóður Íslands annast innheimtu fylgiréttargjalds og skil þess til viðkomandi listamanns. Stjórn Myndlistarsjóðs Íslands er heimilt að ákveða hæfilegt endurgjald vegna innheimtu og skila á fylgiréttargjaldi, en sé þó aldrei hærra en 25% af því fylgiréttargjaldi sem innheimt er.

Nú er ekki unnt að hafa upp á viðkomandi listamanni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þ.m.t. auglýsingu í dagblöðum og Lögbirtingablaði og skal þá fylgiréttargjaldið renna til Myndlistarsjóðs Íslands, enda séu liðin tvö ár frá greiðslu viðkomandi fylgiréttargjalds til sjóðsins.

Séu erfingjar látins höfundar, sem njóta skulu fylgiréttargjalds fleiri en einn, skulu þeir koma sér saman um að veita einum þeirra umboð til þess að taka við greiðslu úr sjóðnum.

Menntamálaráðherra getur ákveðið að fengnum tillögum sjóðsstjórnar að sjóðurinn taki að sér innheimtu annars konar endurgjalds fyrir höfundarétt.

6. gr.

Menntamálaráðherra skipar stjórn Myndlistarsjóðs Íslands til tveggja ára í senn. Skal stjórnin þannig skipuð: Tveir samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra myndlistarmanna og einn án tilnefningar. Menntamálaráðherra skipar formann stjórnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Fundur stjórnar Myndlistarsjóðs Íslands er lögmætur ef löglega er til hans boðað og allir stjórnarmenn eða varamenn þeirra sitja fundinn. Afl atkvæða ræður úrslitum mála hjá sjóðsstjórn. Halda skal gerðarbók um stjórnarfundi. Stjórninni er heimilt að leita sérfræðiálits við úthlutun úr sjóðnum.

Stjórninni er heimilt að ráða starfsmann gegn hæfilegri þóknun til þess að annast framkvæmd á innheimtu fylgiréttargjaldsins og skilum á því til viðkomandi listamanna eða fela samtökum myndhöfunda slíka umsýslu.

7. gr.

Eigið fé sjóðsins skal nýta til reksturs sjóðsins og til annarra málefna, sem að mati sjóðsstjórnar stuðla að framgangi hagsmunamála myndlistarmanna, svo sem með styrkjum og/eða starfslaunum til einstakra listamanna eða styrkjum til samtaka þeirra.

Stjórnin skal árlega taka saman skýrslu um starfsemi sjóðsins, sem skal geyma endurskoðaðan ársreikning og skrá um úthlutanir úr sjóðnum. Skýrslan skal send menntamálaráðuneytinu og Sambandi íslenskra myndlistarmanna.

8. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu að lögum.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 3. og 7. gr. laga nr. 36/1987 um listmunauppboð og 25. gr. b. höfundalaga nr. 73/1972 sbr. lög nr. 57/1992 um breytingu á þeim lögum og öðlast þegar gildi. Felld er úr gildi reglugerð nr. 97/1988 um fylgiréttargjald og Starfslaunasjóð myndlistarmanna.

Menntamálaráðuneytið, 7. júní 1993.

Ólafur G. Einarsson.

Guðríður Sigurðardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica