Menntamálaráðuneyti

249/1999

Reglugerð um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um störf sem löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu þarf til og falla undir tilskipanir 89/48/EBE, 92/51/EBE svo og tilskipanir 94/38/EB, 95/43/EB og 97/38/EB sem allar tilgreina breytingar á viðaukum C og D við tilskipun ráðsins 92/51/EBE um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE. Tilskipanirnar eru birtar sem fylgiskjöl með reglugerð þessari.

2. gr.

Ríkisborgarar í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins sem uppfylla skilyrði þeirra tilskipana sem nefndar eru í 1. gr. eiga rétt á að gegna hér á landi starfi sem löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu þarf til, hvort heldur er sjálfstætt eða sem launþegar, með sömu skilmálum og gilda um íslenska ríkisborgara.

3. gr.

Sérstakur fulltrúi menntamálaráðherra stuðlar að því að framkvæmd tilskipana skv. 1. gr. sé samræmd hér á landi og að þeim sé beitt með sama hætti í öllum hlutaðeigandi starfsgreinum. Veiting starfsleyfa er í höndum viðkomandi fagráðuneyta. Leitað skal eftir tilnefningu þeirra á samráðsfulltrúa um framkvæmd tilskipananna.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 5. gr. laga nr. 83/1993 með áorðnum breytingum og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 16. mars 1999.

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.

 

 

Fylgiskjal 1.

TILSKIPUN RÁÐSINS 89/48/EBE

frá 21. desember 1988

um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem

veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem

staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár

RÁÐ EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, einkum 49., 57. (1. mgr.) og 66. gr., með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar (1), í samvinnu við Evrópuþingið (2), með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar (3), og að teknu tilliti til eftirfarandi:

Eitt af markmiðum bandalagsins er samkvæmt c-lið 3. gr. sáttmálans að afnema höft á frelsi til flutninga fólks og þjónustu milli aðildarríkja. Þetta þýðir meðal annars að ríkisborgarar í aðildarríkjunum geta lagt stund á starfsgrein sína, á eigin vegum eða annarra, í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi.

Þau ákvæði sem ráðið hefur hingað til samþykkt og eru grundvöllur að gagnkvæmri viðurkenningu aðildarríkja á prófskírteinum fyrir æðra nám ná aðeins til fáeinna starfsgreina. Búið er að setja svipaðar reglur í öllum aðildarríkjum um námskröfur og lengd náms og þjálfunar sem krafist er til þess að öðlast starfsréttindi í þessum greinum eða samræma lágmarkskröfur sem þörf er á til að koma á kerfi til gagnkvæmrar viðurkenningar á prófskírteinum í tilteknum starfsgreinum.

Önnur aðferð við viðurkenningu á prófskírteinum ætti líka að koma til, í því skyni að verða fljótt við óskum ríkisborgara sem búa í bandalagslöndunum og hafa hlotið prófskírteini við lok sérfræðimenntunar og starfsþjálfunar í öðru ríki en því sem þeir ætla að stunda starfsgrein sína í, svo að þeir sem þess óska geti lagt stund á alla þá starfsemi sem í gistiríkinu er háð því að lokið hafi verið æðra námi og þjálfun til undirbúnings, enda hafi sá hinn sami hlotið vitnisburð um fullnægjandi undirbúning til starfans í öðru aðildarríki að loknu minnst þriggja ára námi.

Hægt er að ná þessu markmiði með því að innleiða almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun eða starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár.

Aðildarríkin eiga þess kost að ákveða lágmarkskröfur um menntun og hæfi fyrir starfsgreinar hafi bandalagið ekki gert slíkt, með það að markmiði að tryggja að sem best þjónusta verði veitt á þeirra yfirráðasvæði. Þau geta þó ekki, án þess að brjóta í bága við kvaðir 5. gr. sáttmálans, krafist þess af ríkisborgara í aðildarríki að hann verði sér úti um þá menntun og hæfi sem þau viðurkenna yfirleitt einungis með tilvísan til eigin menntakerfis, hafi hlutaðeigandi aðili þegar öðlast þessa menntun og hæfi í heild eða að hluta í öðru aðildarríki. Gistiríki sem hafa lögverndaðar starfsgreinar verða af þessum sökum að taka tillit til menntunar og hæfis sem áunnin eru í öðru aðildarríki og ákveða hvort sú menntun og hæfi svari til þess sem hlutaðeigandi aðildarríki krefst.

Samstarf milli aðildarríkja er við hæfi til að auðvelda þeim að fara eftir þessum skuldbindingum. Skipuleggja þarf leiðir til að koma slíku samstarfi á.

Skilgreina ætti hugtakið "lögvernduð starfsemi" á þann hátt að það taki mið af mismunandi þjóðfélagslegum aðstæðum í aðildarríkjunum. Hugtakið ætti ekki að ná eingöngu yfir þá starfsemi þar sem aðgangur er háður prófskírteini heldur einnig yfir starfsemi sem fellur undir sérstakt starfsheiti og engin aðgangshöft eru bundin við þegar um er að ræða fólk sem hefur tiltekna menntun og hæfi. Fagsamtök og -félög sem veita meðlimum sínum rétt til téðra starfsheita og eru viðurkennd af opinberum yfirvöldum geta ekki vikist undan því með skírskotun til stöðu sinnar að fyrirkomulagi því sem kveðið er á um í þessari tilskipun verði beitt.

Einnig er nauðsynlegt að kveða nánar á um hvers konar starfsreynslu eða aðlögunartíma gistiríkið kann að krefjast af viðkomandi aðila til viðbótar við prófskírteini af æðra skólastigi, þegar menntun og hæfi hlutaðeigandi samræmast ekki því sem mælt er fyrir um í innlendum ákvæðum.

Hæfnispróf getur komið í stað aðlögunartíma. Hvorutveggja er ætlað að bæta núverandi ástand hvað gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina milli

aðildarríkja áhrærir og þannig stuðla að óheftum flutningum fólks innan bandalagsins. Tilgangur þeirra er að meta hæfni farandlaunþega, sem þegar hefur hlotið starfsþjálfun í öðru aðildarríki, til að aðlagast nýju starfsumhverfi. Frá sjónarhóli farandlaunþegans hefur hæfnisprófið þann jákvæða kost að það styttir þjálfunartímann. Æskilegt væri að valið milli aðlögunartíma og hæfnisprófs gæti verið í hendi farandlaunþegans. Eðli sumra starfsgreina er þó slíkt að heimila verður aðildarríkjunum að fyrirskipa annaðhvort aðlögunartímann eða prófið undir vissum kringumstæðum. Mismunur á réttarkerfum aðildarríkja réttlætir sérstök ákvæði þar sem prófskírteini, vottorð eða annar formlegur vitnisburður um menntun og hæfi á sviði laga sem

gefin eru út af upprunaríkinu ná alla jafna ekki yfir þá lagaþekkingu sem krafist er í gistiríkinu á hliðstæðu lagasviði.

Almenna kerfinu til viðurkenningar á prófskírteinum fyrir æðri menntun er hvorki ætlað að breyta reglum, að meðtöldum siðareglum starfsgreina sem gilda um alla þá sem leggja stund á starfsgrein á yfirráðasvæði

aðildarríkis né undanskilja farandlaunþega frá þessum reglum. Því kerfi er ætlað að mæla fyrir um viðeigandi fyrirkomulag til að tryggja að farandlaunþegar hlíti starfsreglum sem gilda í gistiríkinu.

Í 1. mgr. 49. gr., 57. og 66. gr. sáttmálans er bandalaginu veitt heimild til að samþykkja þau ákvæði sem nauðsynleg eru til stofnunar og starfrækslu slíks kerfis.

Almenna kerfið til viðurkenningar á prófskírteinum fyrir æðri menntun skerðir á engan hátt gildi 4. mgr. 48. gr. og 55. gr. sáttmálans.

Slíkt kerfi eflir og styrkir rétt ríkisborgara í bandalaginu til að nota starfsfærni sína þar sem þeir kjósa, með því að auðvelda þeim að starfa í því aðildarríki sem þeir sjálfir kjósa.

Endurskoða ætti kerfið þegar það hefur verið í gildi um tiltekinn tíma til að meta hversu skilvirkt það er og kanna hvernig megi bæta það og víkka gildissvið þess.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a) prófskírteini: öll skírteini, vottorð eða annar vitnisburður um formlega menntun og hæfi eða safn slíkra skírteina, vottorða eða annars vitnisburðar:

- sem gefin hafa verið út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki sem til þess hefur verið nefnt í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli,

- sem sanna að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið æðra námi sem staðið hefur í minnst þrjú ár eða samsvarandi tíma hafi verið um hlutanám að ræða við háskóla eða æðri menntastofnun eða aðra stofnun á svipuðu stigi og hefur eftir atvikum lokið starfsþjálfun sem krafist er til viðbótar náminu,

- sem sanna að handhafi búi yfir þeirri sérhæfðu menntun og hæfi sem krafist er til að hann geti tekið upp starf í lögverndaðri starfsgrein í aðildarríkinu,

að því tilskildu að hann hafi hlotið þá menntun og þjálfun sem skírteinin, vottorðin eða vitnisburðurinn um formlega menntun og hæfi greina frá aðallega innan bandalagsins, eða hlutaðeigandi búi yfir þriggja ára starfsreynslu sem vottfest er af aðildarríkinu sem tók gilt prófskírteini, vottorð eða annan vitnisburð um formlega menntun og hæfi frá landi utan bandalagsins.

Eftirfarandi skal metið til jafns við prófskírteini í skilningi fyrstu undirgreinar: öll prófskírteini, vottorð eða annar vitnisburður um formlega menntun og hæfi, eða safn slíkra prófskírteina, vottorða eða annars vitnisburðar sem gefinn er út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki, ef þau eru gefin út að lokinni menntun og þjálfun sem veitt er í bandalaginu og viðurkennd af lögbæru yfirvaldi í því aðildarríki sem jafngild og veita að auki rétt til að hefja og stunda starf í lögverndaðri starfsgrein í því aðildarríki;

b) gistiríki: hvert það aðildarríki þar sem ríkisborgari í aðildarríki sækist eftir að leggja stund á starfsgrein sem er lögvernduð, annað en ríkið þar sem hann tók próf eða hóf fyrst að stunda viðkomandi starfsgrein;

c) lögvernduð starfsgrein: lögvernduð starfsemi eða starfsemi á tilteknu sviði sem telst til þeirrar starfsgreinar í aðildarríki;

d) lögvernduð starfsemi: sú starfsemi sem í aðildarríki er beint eða óbeint háð því samkvæmt ákvæðum í landslögum og stjórnsýslufyrirmælum að viðkomandi hafi lokið tilteknu prófi áður en hann hefur störf í greininni. Eftirfarandi telst að leggja stund á lögverndaða starfsemi:

- þegar starfsemi er iðkuð undir starfsheiti sem þeir einir mega bera sem hlotið hafa til þess prófskírteini sem lýtur lögum eða stjórnsýslufyrirmælum,

- þegar starfsemi er iðkuð í heilbrigðiskerfinu og þóknun og/eða endurgreiðsla fyrir slíka starfsemi er að tryggingalögum háð því skilyrði að hlutaðeigandi hafi til þess prófskírteini.

Í þeim tilvikum sem ekki heyra undir fyrstu undirgrein skal starfsemi teljast lögvernduð ef hún er stunduð af félagsmönnum í samtökum eða félögum sem hafa það meðal annars að markmiði að stuðla að og viðhalda gæðakröfum í viðkomandi starfsstétt og hafa til þess fengið sérstaka útnefningu aðildarríkis og:

-veita félagsmönnum sínum viðurkenningu,

-tryggja að meðlimirnir virði þær siðareglur starfsgreinar sem þau mæla fyrir um, og

-veitir þeim rétt til að bera starfsheiti eða nafnbót eða að njóta góðs af þeirri stöðu sem slíku starfsheiti eða nafnbót fylgir.

Í viðaukanum er ófullkominn listi yfir samtök og félög sem við samþykkt þessarar tilskipunar uppfylla skilyrði annarrar undirgreinar. Hvenær sem aðildarríki veitir samtökum eða félögum viðurkenningu þá sem um getur í annarri undirgrein skal það tilkynnt framkvæmdastjórninni sem birtir upplýsingar þar að lútandi í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.

e) starfsreynsla: raunveruleg og lögmæt iðkun viðkomandi starfsgreinar í aðildarríki;

f) aðlögunartími: iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki undir eftirliti aðila sem viðurkenndur er hæfur í þeirri starfsgrein, auk hugsanlega frekari þjálfunar. Sá tími sem unninn er undir eftirliti skal metinn. Nánari reglur um aðlögunartíma og mat á honum svo og á stöðu farandlaunþega, sem er undir eftirliti, skulu ákveðnar af lögbæru yfirvaldi í gistiríkjunum;

g) hæfnispróf: prófun á fagþekkingu umsækjanda, lagt fyrir af lögbæru yfirvaldi í gistiríki með það fyrir augum að meta hæfni umsækjanda til að iðka lögverndaða starfsgrein í því aðildarríki.

Til þess að hægt sé að leggja prófið fyrir skulu lögbær yfirvöld taka saman skrá yfir þær greinar sem, að gerðum samanburði á þeim hluta úr námi umsækjanda og námskröfum í aðildarríkinu, hefur ekki verið fjallað um samkvæmt því prófskírteini eða öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi sem umsækjandi hefur undir höndum.

Miða verður hæfnisprófið við þá staðreynd að umsækjandinn er fullgildur fagmaður í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem hann kemur frá. Það verður að ná yfir greinar sem teknar eru með í áðurnefnda skrá og nauðsynlegt er að kunna skil á til þess að geta iðkað þá starfsgrein í gistiríkinu. Enn fremur má prófið reyna á þekkingu á reglum sem gilda um viðkomandi starfsemi í gistiríkinu. Lögbær yfirvöld í aðildarríkinu ákveða frekari notkun hæfnisprófsins með fullu tilliti til laga bandalagsins.

Staða umsækjanda er æskir að undirbúa sig fyrir hæfnispróf í gistiríki skal ákveðin af lögbærum yfirvöldum í því ríki.

2. gr.

Tilskipun þessi gildir um sérhvern ríkisborgara aðildarríkis sem æskir þess að leggja stund á lögverndaða starfsgrein í gistiríki á eigin vegum eða annarra.

Tilskipun þessi skal ekki ná til starfsgreina sem eru viðfangsefni annarrar tilskipunar um fyrirkomulag gagnkvæmrar viðurkenningar aðildarríkja á prófskírteinum.

3. gr.

Þegar iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í aðildarríki er háð því að viðkomandi aðili hafi prófskírteini, getur lögbært yfirvald ekki neitað ríkisborgara aðildarríkis um heimild til að hefja eða stunda þá starfsemi með sömu skilyrðum og eigin ríkisborgarar og borið við vanhæfni hans:

a.       ef umsækjandi hefur undir höndum prófskírteini sem krafist er í öðru aðildarríki til að

leggja stund á viðkomandi starfsgrein þar, enda hafi prófskírteinið verið gefið út í aðildarríki, eða

b) ef umsækjandinn hefur lagt stund á viðkomandi starfsgrein í fullu starfi í tvö ár á undangengnum tíu árum í öðru aðildarríki sem ekki lögverndar starfsgreinina samkvæmt skilningi c-liðar 1. gr. og fyrstu undirgreinar d-liðar 1. gr. og hefur undir höndum eitt eða fleiri vottorð um menntun og hæfi:

- sem gefin hafa verið út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki sem tilnefnt hefur verið í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum þess ríkis,

- sem sýna að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið æðri menntun sem staðið hefur í að minnsta kosti þrjú ár eða sambærilegan tíma hafi verið um hlutanám að ræða, við háskóla eða æðri menntastofnun eða aðra stofnun á sama stigi í aðildarríki og hefur, þar sem um slíkt er að ræða, lokið starfsþjálfun sem krafist er til viðbótar við námið og

- sem sýna að handhafi hafi hlotið lögmætan undirbúning til að stunda starfsgrein sína.

Eftirfarandi skal metið til jafns við þann formlega vitnisburð um menntun og hæfi sem um getur í fyrstu undirgrein: sérhver formlegur vitnisburður um menntun og hæfi eða safn slíks vitnisburðar sem gefinn er út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki ef hann er veittur að lokinni þjálfun sem sótt er innan bandalagsins og viðurkennd er sem jafngild, þó að því tilskildu að öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni hafi verið tilkynnt um þessa viðurkenningu.

4. gr.

1. Þrátt fyrir 3. gr., geta gistiríki einnig krafist þess að umsækjandi:

a) leggi fram vitnisburð um starfsreynslu þar sem náms- og þjálfunartíminn sem umsóknin greinir frá, svo sem mælt er fyrir um í a- og b-lið 3. gr., er að minnsta kosti einu ári skemmri en krafist er í gistiríkinu. Komi til þessa má starfsreynsla sú sem krafist er:

- eigi vera lengri en tvisvar sinnum sá tími sem upp á vantar í menntun og þjálfun ef það sem krafist er lýtur að æðri menntun og/eða þjálfunartíma undir handleiðslu fagmanns og lýkur með prófi,

- eigi vera lengri en sá tími sem upp á vantar ef hann lýtur að fagþjálfun sem viðkomandi hefur áunnið sér með aðstoð fullmenntaðs félagsmanns úr starfsgreininni.

Ef um er að ræða prófskírteini í skilningi síðustu undirgreinar a-liðar 1. gr. skal lengd menntunar og þjálfunar sem metin er á sama stigi ákvarðast út frá menntun og þjálfun samkvæmt fyrstu undirgrein a-liðar 1. gr.

Þegar þessum ákvæðum er beitt verður að taka tillit til þeirrar starfsreynslu sem getið er í b-lið 3. gr.

Ekki má í neinu tilviki krefjast lengri starfsreynslu en sem nemur fjórum árum;

b) ljúki aðlögunartíma sem varir ekki lengur en þrjú ár eða taki hæfnispróf:

- ef menntun og þjálfun sem viðkomandi hefur hlotið í samræmi við a- og b-liði 3. gr. er verulega frábrugðin þeim kröfum sem gerðar eru um slíkt í gistiríkinu, eða

- ef starfsgrein sem er lögvernduð í gistiríkinu og vikið er að í a-lið 3. gr. nær til einnar eða fleiri lögverndaðrar starfsemi sem tilheyra ekki starfsgreininni sem lögverndar nýtur í upprunaríki umsækjanda eða aðildarríkinu sem hann kemur frá og sá munur sem fyrir hendi er samsvarar tiltekinni menntun eða þjálfun sem krafist er í gistiríkinu og nær til þátta sem eru verulega frábrugðnir því sem að baki prófskírteini umsækjanda liggur, eða

- ef starfsgrein sem er lögvernduð í gistiríkinu og vikið er að í b-lið 3. gr., nær til einnar eða fleiri lögverndaðrar starfsemi sem tilheyra ekki starfsgreininni sem umsækjandi stundar í upprunaríki sínu eða aðildarríkinu sem hann kemur frá og sá munur sem fyrir hendi er samsvarar tiltekinni menntun og þjálfun sem krafist er í gistiríkinu og nær til þátta sem eru verulega frábrugðnir því sem að baki prófskírteini umsækjanda liggur.

Ef gistiríkið færir sér þetta í nyt, verður að gefa umsækjandanum færi á að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs. Þrátt fyrir þessa meginreglu getur gistiríkið kveðið á um annaðhvort aðlögunartíma eða hæfnispróf ef um er að ræða starfsgreinar þar sem nákvæm þekking á landslögum er nauðsynleg og þar sem ráðgjöf eða aðstoð í tengslum við landslög er mikilvægur og stöðugur þáttur starfseminnar. Hyggist gistiríki beita slíkum fráviksreglum fyrir aðrar starfsgreinar þar sem umsækjanda er gefinn kostur á að velja, skal tilhögun sú sem mælt er fyrir um í 10. gr. gilda.

2. Gistiríki geta þó ekki beitt ákvæðum a- og b-liða 1. gr. hverju á eftir öðru.

5. gr.

Með fyrirvara um 3. og 4. gr., getur gistiríki heimilað umsækjanda, í því skyni að aðlagast betur starfsumhverfi í viðkomandi ríki, að taka til jafns við aðra þann hluta sérfræðimenntunar og starfsþjálfunar sem hann hefur ekki hlotið í upprunaríki sínu eða í ríkinu sem hann kemur frá og fólginn er í verklegri þjálfun undir handleiðslu kunnáttumanns í starfsgreininni.

6. gr.

1. Krefji lögbært yfirvald í gistiríki þann sem æskir að hefja störf í lögverndaðri starfsgrein um meðmæli eða yfirlýsingu um að hann hafi ekki orðið gjaldþrota, eða frestar eða bannar iðkun þeirrar starfsgreinar vegna alvarlegra ávirðinga í starfi eða vegna afbrots, skal það ríki taka sem fullgilda sönnun, að því er varðar ríkisborgara aðildarríkja sem æskja þess að leggja stund á þá starfsgrein á yfirráðasvæði þess, framvísun skjala sem lögbær yfirvöld í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá gefa út og votta að þessi skilyrði hafi verið uppfyllt.

Gefi lögbær yfirvöld í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá ekki út þau skjöl sem um getur í fyrstu undirgrein, skal eiðsvarin yfirlýsing koma í stað þeirra - eða þar sem engin ákvæði eru til um eiðsvarnar yfirlýsingar, drengskaparheit - sem viðkomandi gefur frammi fyrir þar til bæru yfirvaldi á sviði dómgæslu eða stjórnsýslu eða eftir atvikum lögbókanda eða þar til bærri stofnun í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem viðkomandi kemur frá, umrætt yfirvald eða lögbókandi skal gefa út vottorð sem staðfestir áreiðanleika yfirlýsingarinnar eða drengskaparheitsins.

2. Ef lögbært yfirvald í gistiríki krefst þess af eigin

ríkisborgurum sem æskja þess að hefja eða stunda störf í lögverndaðri starfsgrein að þeir leggi fram vottorð um líkamlegt og andlegt heilbrigði ber því yfirvaldi að taka sem fullgilda sönnun framvísun á

skjalinu sem krafist er í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá.

Ef upprunaríkið eða aðildarríkið sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá gerir engar slíkar kröfur til þeirra sem æskja þess að hefja störf í umræddri starfsgrein ber gistiríkinu að taka við vottorði frá slíkum ríkisborgurum sem lögbært yfirvald í því ríki hefur gefið út og er sambærilegt við vottorð sem gistiríkið gefur út.

3. Lögbær yfirvöld í gistiríki geta farið fram á það að skjölin og vottorðin sem um getur í 1. og 2. mgr. séu lögð fram eigi síðar en þremur mánuðum frá útgáfudegi þeirra.

4. Ef lögbært yfirvald í gistiríki fer fram á það að þarlendir ríkisborgarar sem æskja þess að hefja störf í lögverndaðri starfsgrein sverji eiða eða gefi drengskaparheit og þar sem eiðurinn eða heitið er þess eðlis að ríkisborgarar annarra aðildarríkja geta

ekki nýtt það skal aðildarríkið tryggja að viðeigandi og jafngilt form til eiðtökunnar sé í boði fyrir hlutaðeigandi einstakling.

7. gr.

1. Lögbær yfirvöld í gistiríkjum skulu viðurkenna réttindi ríkisborgara í aðildarríkjum, sem uppfylla skilyrði til að hefja störf í lögverndaðri starfsgrein til að bera það starfsheiti í gistiríkinu sem starfsgreininni ber.

2. Lögbær yfirvöld í gistiríkjum skulu viðurkenna réttindi ríkisborgara í aðildarríkjum sem uppfylla skilyrði til að hefja störf í lögverndaðri starfsgrein í landi þeirra, til að nota lögmætan námstitil sinn eða, eftir því sem við á, skammstöfun á honum sem er notuð í upprunaríki þeirra eða aðildarríkinu sem þeir koma frá, á máli þess ríkis. Gistiríki geta krafist þess að titlinum fylgi upplýsingar um heiti og staðsetningu stofnunarinnar eða prófanefndarinnar sem veitti hann.

3. Ef samtök eða félag í gistiríki sem getið er um í d-lið 1. gr. veitir starfsgrein lögvernd skal borgurum annarra aðildarríkja einvörðungu heimilt að nota starfsheitið eða skammstöfunina sem téð félag eða samtök veita, gegn félagsaðild.

Ef samtökin eða félagið gera ákveðin hæfisskilyrði að forsendum fyrir félagsaðild mega þau aðeins beita þeirri reglu gagnvart borgurum annarra aðildarríkja í samræmi við þessa tilskipun, einkum 3. og 4. gr. hennar, enda hafi þeir undir höndum fullgild prófskírteini samkvæmt skilningi a-liðar 1. gr. tilskipunarinnar eða formlegan vitnisburð um menntun og hæfi samkvæmt b-lið 3. gr.

8. gr.

1. Gistiríkið skal taka vottorð og skjöl sem gefin eru út af lögbærum yfirvöldum í aðildarríkjum sem fullgilda sönnun þess að sá sem sækir um heimild til að leggja stund á viðkomandi starfsgrein fullnægi þeim skilyrðum sem sett eru í 3. og 4. gr.

2. Taka skal fyrir umsókn um starf í lögverndaðri starfsgrein svo skjótt sem verða má og skulu lögbær yfirvöld í gistiríkinu greina frá rökstuddri niðurstöðu eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að hlutaðeigandi aðili hefur lagt fram öll viðeigandi skjöl. Fáist ekki

niðurstaða eða sé hún öndverð óskum umsækjanda, skal honum gert kleift að áfrýja til dómstóls í samræmi við ákvæði landslaga.

9. gr.

1. Aðildarríkin skulu tilnefna lögbært yfirvald sem hefur umboð til að veita viðtöku umsóknum og taka þær ákvarðanir sem um getur í þessari tilskipun, innan þess tíma sem kveðið er á um í 12. gr.

Þau skulu koma þessum upplýsingum á framfæri við hin aðildarríkin og framkvæmdastjórnina.

2. Aðildarríkin skulu tilnefna þann aðila sem ábyrgur er fyrir samræmingu á starfsemi þeirra yfirvalda sem getið er um í 1. mgr. og tilkynna það hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni. Hlutverk

hans skal vera að stuðla að því að tilskipun þessari sé beitt á sama hátt í öllum hlutaðeigandi starfsgreinum. Skipa skal samræmingarhóp á vegum framkvæmdastjórnarinnar sem þeir aðilar sem tilnefndir

hafa verið af aðildarríkjunum eða fulltrúar þeirra eiga sæti í og skal hann lúta formennsku fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar.

Starf þessa hóps skal vera:

-að auðvelda framkvæmd þessarar tilskipunar,

- að safna saman upplýsingum sem að gagni mega koma við beitingu hennar í aðildarríkjunum.

Framkvæmdastjórnin getur haft samráð við samræmingarhópinn um fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulaginu.

3. Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að veita nauðsynlegar upplýsingar um viðurkenningu prófskírteina á grundvelli þessarar tilskipunar. Upplýsingamiðstöð sú um viðurkenningu prófskírteina og námstíma er sett var á stofn með ályktun ráðsins og menntamálaráðherranna hinn 9. febrúar 1976 (1) getur veitt aðstoð í þessu sambandi og, eftir því sem við á, viðkomandi fagsamtök eða -félög. Framkvæmdastjórnin skal hafa forgöngu um þróun og samræmingu á miðlun þessara upplýsinga.

10. gr.

1. Ef aðildarríki hyggst ekki, samkvæmt þriðja málslið annarrar undirgreinar b-liðar 1. mgr. 4. gr., heimila umsækjendum að velja á milli aðlögunartíma og hæfnisprófs hvað varðar starfsgrein í skilningi tilskipunar þessarar, skal það þegar í stað senda framkvæmdastjórninni drög að hlutaðeigandi ákvæði sem það hyggst beita. Það skal jafnframt gera framkvæmdastjórninni grein fyrir ástæðum þess að nauðsynlegt er talið að setja slíkt ákvæði.

Framkvæmdastjórnin skal þegar í stað tilkynna hinum aðildarríkjunum um öll slík drög sem henni berast; hún getur einnig ráðfært sig við samráðshópinn sem getið er í 2. mgr. 9. gr. um drögin.

2. Með fyrirvara um rétt framkvæmdastjórnarinnar og hinna aðildarríkjanna til að tjá sig um uppkastið getur aðildarríkið samþykkt ákvæðið að því tilskildu að framkvæmdastjórnin hafi eigi tekið ákvörðun um hið gagnstæða innan þriggja mánaða.

3. Komi fram ósk um slíkt frá aðildarríki eða framkvæmdastjórninni skulu aðildarríki tafarlaust senda þeim endanlegan texta ákvæðis sem sett er með beitingu þessarar greinar.

11. gr.

Þegar sá tími rennur út sem kveðið er á um í 12. gr., skulu aðildarríkin, á tveggja ára fresti, senda framkvæmdastjórninni skýrslu um framkvæmd þess fyrirkomulags sem upp er tekið.

Jafnframt því sem skýrslan fjallar almennt um málið, skal hún einnig veita tölfræðilegt yfirlit yfir ákvarðanir sem teknar hafa verið og lýsa þeim vanda sem upp kann að koma við beitingu tilskipunarinnar.

12. gr.

Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að fara að tilskipun þessari innan tveggja ára frá birtingu hennar (2). Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Aðildarríkin skulu sjá til þess að framkvæmdastjórninni berist helstu ákvæði úr landslögum sem samþykkt verða um málefni sem tilskipun þessi nær til.

13. gr.

Eigi síðar en fimm árum eftir þann dag sem tiltekinn er í 12. gr. skal framkvæmdastjórnin upplýsa Evrópuþingið og ráðið um framkvæmd almenna fyrirkomulagsins til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni starfsmenntun eða þjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár.

Framkvæmdastjórnin skal af þessu tilefni, og eftir að hún hefur leitað ráða svo sem nauðsynlegt er, segja hvaða breytinga sé þörf á fyrirkomulaginu. Á sama tíma skal framkvæmdastjórnin, eftir því sem við á, leggja fram tillögur sínar um endurbætur á fyrirkomulaginu er stuðli að því að draga enn frekar úr höftum á frelsi til flutninga, á staðfesturétti og rétti til að veita þjónustu gagnvart þeim sem tilskipun þessi nær til.

14. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 21. desember 1988.

Fyrir hönd ráðsins,

V. PAPANDREOU

forseti.

 

10. Faculty of Actuaries

11. Chartered Institute of Bankers

12. Institute of Bankers in Scotland

13. Royal Institution of Chartered Surveyors

14. Royal Town Planning Institute

15. Chartered Society of Physiotherapy

16. Royal Society of Chemistry

17. British Psychological Society

18. Library Association

19. Institute of Chartered Foresters

20. Chartered Institute of Building

21. Engineering Council

22. Institute of Energy

23. Institution of Structural Engineers

24. Institution of Civil Engineers

25. Institution of Mining Engineers

26. Institution of Mining and Metallurgy

27. Institution of Electrical Engineers

28. Institution of Gas Engineers

29. Institution of Mechanical Engineers

30. Institution of Chemical Engineers

31. Institution of Production Engineers

32. Institution of Marine Engineers

33. Royal Institution of Naval Architects

34. Royal Aeronautical Society

35. Institute of Metals

36. Chartered Institution of Building Services Engineers

37. Institute of Measurement and Control

38. British Computer Society

 

YFIRLÝSING FRÁ RÁÐINU OG FRAMKVÆMDASTJÓRNINNI

Vegna 1. mgr. 9. gr.

,,Ráðið og framkvæmdastjórnin eru sammála um að sérfræðistofnanir og æðri menntastofnanir skuli með viðeigandi hætti hafðar með í ráðum við ákvarðanir".

 

 

RÁÐ EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, einkum 49., 57. (1. mgr.) og 66. gr., með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar (1), í samvinnu við Evrópuþingið (2), með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar (3), og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1) Samkvæmt 8. gr. a í sáttmálanum skal innri markaðurinn ná til svæðis án innri landamæra og samkvæmt c-lið 3. gr. sáttmálans er eitt af markmiðum bandalagsins að afnema höft á frjálsum fólksflutningum og frjálsri þjónustustarfsemi milli aðildarríkja. Þetta þýðir meðal annars að ríkisborgarar í aðildarríkjunum geta lagt stund á starfsgrein sína, á eigin vegum eða annarra, í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi.

2) Í þeim starfsgreinum þar sem bandalagið hefur ekki ákveðið hvaða lágmarkskröfur um menntun og hæfi þarf að uppfylla til að iðka þær geta aðildarríkin engu að síður ákveðið slíkar lágmarkskröfur með það að markmiði að tryggja að sem best þjónusta verði veitt á þeirra yfirráðasvæði. Þau geta þó ekki, án þess að brjóta í bága við kvaðir 5., 48., 52. og 59. gr. sáttmálans, krafist þess af ríkisborgara í aðildarríki að hann verði sér úti um þá menntun og hæfi sem þau viðurkenna yfirleitt einungis með tilvísan til eigin menntakerfis, hafi hlutaðeigandi einstaklingur þegar öðlast þessa menntun og hæfi í heild eða að hluta í öðru aðildarríki. Gistiríki sem hafa lögverndaðar starfsgreinar verða af þessum sökum að taka tillit til menntunar og hæfis sem áunnin

eru í öðru aðildarríki og ákveða hvort sú menntun og hæfi svari til þess sem hlutaðeigandi aðildarríki krefst.

3) Með tilskipun ráðsins 89/48/EBE frá 21. desember 1988, um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár (4), er gert auðveldara að fullnægja þessum kvöðum. Hún er hins vegar bundin við æðri skólastig.

4) Til að auðvelda mönnum að stunda hverja þá atvinnustarfsemi sem er í gistiríki háð því að viðkomandi hafi lokið menntun og þjálfun á ákveðnu stigi ber að koma á öðru almennu kerfi til viðbótar hinu fyrra.

5) Almenna viðbótarkerfið verður að byggjast á sömu meginreglum og fela í sér að breyttu breytanda sömu reglur og upphaflega almenna kerfið.

6) Þessi tilskipun gildir ekki um lögverndaðar starfsgreinar er heyra undir sértilskipanir sem gegna einkum því hlutverki að koma á gagnkvæmri viðurkenningu á starfsnámi sem lokið er áður en atvinnuþátttaka hefst.

7) Hún gildir heldur ekki um starfsemi er heyrir undir sértilskipanir sem hafa einkum það hlutverk að viðurkenna fagþekkingu grundvallaða á reynslu sem hefur fengist í öðru aðildarríki. Sumar þessara tilskipana gilda einungis um sjálfstæða atvinnustarfsemi. Til að komast hjá því að slík starfsemi falli undir gildissvið þessarar tilskipunar, þegar um launþega er að ræða, sem leiddi til þess að sama atvinnustarfsemi félli undir ólíkar réttarreglur eftir því hvort hún er stunduð á eigin vegum eða annarra, ætti að láta þessar tilskipanir ná til einstaklinga sem stunda viðkomandi atvinnustarfsemi sem launþegar.

8) Almenna viðbótarkerfið hefur alls engin áhrif á beitingu 4. mgr. 48. gr. og 55. gr. sáttmálans.

9) Viðbótarkerfið verður að ná til þeirra skólastiga sem upphaflega almenna kerfið tók ekki til, einkum annars æðra náms og samsvarandi náms, auk annars lengra eða styttra náms á framhaldsskólastigi sem hugsanlega felur einnig í sér starfsþjálfun eða starfsreynslu.

10) Þegar krafist er í gistiríki við iðkun lögverndaðrar starfsgreinar annaðhvort mjög skammvinnrar þjálfunar eða tiltekinna persónulegra eiginleika eða einungis almennrar menntunar getur verið erfiðleikum bundið að meta nám samkvæmt þeim viðmiðunarreglum sem kveðið er á um í þessari tilskipun. Í slíkum tilvikum þarf að koma á einfölduðu kerfi.

11) Einnig ber að taka tillit til starfsmenntakerfisins í Breska konungsríkinu þar sem allar viðmiðunarreglur varðandi námskröfur í atvinnulífinu eru settar innan ramma ,,National Framework of Vocational

Qualifications".

12) Í sumum aðildarríkjum eru aðeins tiltölulega fáar lögverndaðar starfsgreinar. Þó eru dæmi þess að starfsmenntun sé sérstaklega sniðin að starfsgreinum sem eru ekki lögverndaðar og að uppbygging og námskröfur séu undir eftirliti og viðurkennd af lögbærum yfirvöldum hlutaðeigandi aðildarríkis. Þetta veitir sams konar tryggingu og veitt er í tengslum við lögverndaða starfsgrein.

13) Heimila ber lögbærum yfirvöldum gistiríkisins að setja, í samræmi við viðeigandi ákvæði bandalagsins, nauðsynlegar framkvæmdarreglur vegna aðlögunartímans og hæfnisprófsins.

14) Þar sem almenna viðbótarkerfið tekur til tveggja skólastiga og upphaflega almenna kerfið tekur til þriðja skólastigsins verður með fyrrnefnda kerfinu að mæla fyrir um hvort og undir hvaða kringumstæðum einstaklingi með tiltekna menntun er heimilt að iðka í öðru aðildarríki starfsgrein þar sem gerðar eru kröfur um lögverndaða menntun og hæfi á öðru stigi.

15) Í sumum aðildarríkjum er þess krafist að viðkomandi hafi prófskírteini í skilningi tilskipunar 89/48/EBE til að hann geti iðkað ákveðnar starfsgreinar en í öðrum aðildarríkjum er krafist annars konar starfsmenntunar eða starfsþjálfunar fyrir sömu starfsgreinar. Sumt nám er þannig upp byggt að enda þótt ekki sé um að ræða æðra nám af lágmarkslengd í skilningi þessarar tilskipunar leiðir það engu að síður til sambærilegrar faglegrar hæfni og býr viðkomandi undir störf sem fela í sér sambærilega ábyrgð. Flokka ætti slíkt nám og þjálfun með námi sem er staðfest með prófskírteini. Nám og þjálfun af þessu tagi er mjög breytileg og því getur slík flokkun einungis farið fram með því að taka saman skrá yfir umrætt nám. Með þessari flokkun er hægt, eftir því sem við á, að koma á sams konar viðurkenningu á slíku námi og þjálfun og þeirri sem tilskipun 89/48/EBE tekur til. Sumt annað lögverndað nám og þjálfun ber einnig að flokka samkvæmt annarri skrá með námi sem leiðir til prófskírteinis.

16) Með það í huga að skipulag starfsmenntunar er stöðugum breytingum undirorpið ætti að ákveða reglur um breytingar á skránum.

17) Þar sem almenna viðbótarkerfið tekur til starfsgreina sem ekki er hægt að stunda nema viðkomandi búi yfir starfsmenntun og starfsþjálfun af framhaldsskólastigi, þar sem yfirleitt er krafist verklegrar hæfni, verður framangreint kerfi einnig að fela í sér

viðurkenningu á slíkri menntun og hæfi, jafnvel þegar slíkrar menntunar hefur alfarið verið aflað í aðildarríki þar sem starfsgreinarnar eru ekki lögverndaðar.

18) Markmiðið með almenna kerfinu sem hér er fjallað um er, eins og með fyrra almenna kerfinu, að ryðja úr vegi hindrunum á því að hefja og stunda lögverndaðar starfsgreinar. Enda þótt markmiðið með þeirri vinnu sem fram fór samkvæmt ákvörðun ráðsins 85/368/EBE frá 16. júlí 1985, um samanburð á kröfum um starfsmenntun og hæfi milli aðildarríkja Evrópubandalagsins (1), hafi ekki verið að ryðja úr vegi lagalegum hindrunum á frelsi til flutninga, heldur fremur að auka gagnsæi vinnumarkaðarins, er eftir atvikum hægt að hagnýta hana við beitingu þessarar tilskipunar einkum að því er varðar upplýsingar um kennslugreinar, námsefni og lengd starfsmenntunar.

19) Eftir atvikum ber að leita álits hjá sérfræði- og

menntastofnunum eða þær ættu, eftir því sem við á, að taka þátt í ákvarðanatökuferlinu.

20) Slíkt kerfi, sem líkt og upphaflega kerfið rennir stoðum undir rétt ríkisborgara í bandalaginu til að nota starfsfærni sína í hvaða aðildarríki sem er, eflir og styrkir rétt hans til að ávinna sér slíka færni þar sem hann sjálfur kýs.

21) Endurskoða ætti bæði kerfin þegar þau hafa verið í gildi um tiltekinn tíma, til að metaskilvirkni þeirra og kanna meðal annars hvernig megi bæta þau.

 

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I . KAFLI

1. gr.

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a) prófskírteini: sérhver vitnisburður um menntun og þjálfun eða safn slíks vitnisburðar:

- sem gefinn hefur verið út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki sem til þess hefur verið nefnt í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli þess ríks,

-sem sannar að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið:

i) annaðhvort æðra námi, öðru en því sem um getur í öðrum undirlið a-liðar í 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE, sem staðið hefur í minnst eitt ár, eða samsvarandi tíma hafi verið um hlutanám að ræða, þar sem eitt inntökuskilyrðið er, sem meginregla, að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt því námi á framhaldsskólastigi sem krafist er við inntöku í háskóla eða æðri menntastofnun, auk starfsþjálfunarinnar sem hugsanlega er krafist til viðbótar námi á æðra skólastigi,

ii) eða einhverju því námi og þjálfun sem er tilgreind í viðauka C, og

- sem sannar að handhafi búi yfir þeirri sérhæfðu menntun og hæfi sem krafist er til að hann geti tekið upp starf í lögverndaðri starfsgrein í viðkomandi aðildarríki,

að því tilskildu að hann hafi hlotið þá menntun og þjálfun sem vitnisburðurinn tekur til aðallega innan bandalagsins, eða utan bandalagsins í menntastofnunum þar sem nám er í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkis, eða hlutaðeigandi hafi þriggja ára starfsreynslu sem vottfest er af aðildarríkinu sem hefur viðurkennt vitnisburð um menntun og þjálfun í þriðja landi.

Eftirfarandi skal metið til jafns við prófskírteini í skilningi fyrstu undirgreinar: sérhver vitnisburður um menntun og þjálfun, eða safn slíks vitnisburðar sem gefinn er út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki, enda sé hann gefinn út að lokinni menntun og þjálfun sem veitt er í bandalaginu og viðurkennd af lögbæru yfirvaldi í því aðildarríki sem jafngild og veiti að auki rétt til að hefja og stunda lögverndaða starfsgrein í því aðildarríki;

b) vottorð: sérhver vitnisburður um menntun og

þjálfun eða safn slíks vitnisburðar:

- sem gefinn hefur verið út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki sem til þess hefur verið nefnt í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli þess ríks;

- sem sannar að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið:

annaðhvort námi, öðru en því sem um getur í öðrum undirlið a-lið, frá mennta- eða þjálfunarstofnun eða á vinnustað, eða bæði frá mennta- eða þjálfunarstofnun og á vinnustað, og eftir atvikum verklegri reynslu eða starfsreynslu sem krafist er til viðbótar náminu,

eða verklegri reynslu eða starfsreynslu sem krafist er til viðbótarnámi á framhaldsskólastigi, eða

- sem sannar að handhafi hafi lokið, að loknu tækninámi eða starfsnámi á framhaldsskólastigi, eftir því sem þörf krefur,

annaðhvort menntun eða þjálfun eins og um getur í fyrri undirlið

eða verklegri reynslu eða starfsreynslu sem krafist er til viðbótar þessu tækninámi eða starfsnámi á framhaldsskólastigi og

-- sem sannar að handhafi búi yfir þeirri sérhæfðu menntun og hæfi sem krafist er til að hann geti tekið upp starf í lögverndaðri starfsgrein í viðkomandi aðildarríki,

að því tilskildu að hann hafi hlotið þá menntun og þjálfun sem vitnisburðurinn tekur til aðallega innan bandalagsins, eða utan bandalagsins í menntastofnunum þar sem nám er í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkis, eða hlutaðeigandi hafi tveggja ára starfsreynslu sem vottfest er af aðildarríkinu sem hefur viðurkennt vitnisburð um menntun og þjálfun í þriðja landi.

Eftirfarandi skal metið til jafns við prófskírteini í skilningi fyrstu undirgreinar: sérhver vitnisburður um menntun og þjálfun, eða safn slíks vitnisburðar sem gefinn er út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki, enda sé hann gefinn út að lokinni menntun og þjálfun sem veitt er í bandalaginu og viðurkennd af lögbæru yfirvaldi í því aðildarríki sem jafngild og veiti að auki rétt til að hefja og stunda lögverndaða starfsgrein í því aðildarríki;

c) hæfnisvottorð: sérhver vitnisburður um menntun og hæfi:

- til staðfestingar á menntun og þjálfun sem ekki er hluti af heildarnámi er leiðir til prófskírteinis í skilningi tilskipunar 89/48/EBE eða prófskírteinis eða vottorðs í skilningi þessarar tilskipunar, eða

- sem er veittur að loknu mati á persónulegum eiginleikum, hæfni eða þekkingu sem yfirvald tilnefnt í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkis telur nauðsynlegt að umsækjandi hafi til að stunda starfsgrein, án þess að krafist sé sönnunar á undangenginni menntun eða þjálfun;

d) gistiríki: hvert það aðildarríki þar sem ríkisborgari aðildarríkis sækist eftir að leggja stund á starfsgrein sem er lögvernduð í því aðildarríki, annað en ríkið þar sem hann fékk vitnisburð um menntun og þjálfun eða hæfnisvottorð eða hóf fyrst að stunda viðkomandi starfsgrein;

e) lögvernduð starfsgrein: lögvernduð starfsemi eða starfsemi á tilteknu sviði sem telst til þeirrar starfsgreinar í aðildarríki;

f)lögvernduð starfsemi: sú starfsemi sem í aðildarríki er beint eða óbeint háð því samkvæmt ákvæðum í landslögum og stjórnsýslufyrirmælum að viðkomandi hafi yfir að ráða vitnisburði um menntun og þjálfun eða hæfnisvottorði. Til lögverndaðrar starfsemi telst meðal annars:

- þegar starfsemi er iðkuð undir starfsheiti sem þeir einir mega bera sem hafa yfir að ráða vitnisburði um menntun og þjálfun eða hæfnisvottorði sem lýtur lögum eða stjórnsýslufyrirmælum,

- þegar starfsemi er iðkuð í heilbrigðiskerfinu og þóknun og/eða endurgreiðsla fyrir slíka starfsemi er að tryggingalögum háð því skilyrði að hlutaðeigandi hafi yfir að ráða vitnisburði um menntun og þjálfun eða hæfnisvottorði.

Í þeim tilvikum sem ekki heyra undir fyrstu undirgrein skal starfsemi teljast lögvernduð ef hún er stunduð af félagsmönnum í samtökum eða félögum sem hafa það meðal annars að markmiði að stuðla að og viðhalda gæðakröfum í viðkomandi starfsstétt og hafa til þess fengið sérstaka viðurkenningu aðildarríkis og:

- veita félagsmönnum sínum vitnisburð um menntun og þjálfun,

- tryggja að félagsmenn virði þær siðareglur starfsgreinar sem þau mæla fyrir um, og

- veita þeim rétt til að bera starfsheiti eða nafnbót eða njóta góðs af þeirri stöðu sem slíkri menntun og þjálfun fylgir.

Hvenær sem aðildarríki veitir þá viðurkenningu sem um getur í annarri undirgrein samtökum eða félögum sem uppfylla skilyrði þeirrar undirgreinar skal það tilkynnt framkvæmdastjórninni;

g) lögvernduð menntun og þjálfun: sérhver menntun og þjálfun sem:

- er sérstaklega sniðin að iðkun ákveðinnar starfsgreinar, og

- tekur til náms sem felur jafnframt í sér, eftir því sem við á, starfsþjálfun, starfsreynslu eða verklega reynslu þar sem uppbygging og námskröfur ákvarðast af lögum og stjórnsýslufyrirmælum þess aðildarríkis eða eru undir eftirliti eða viðurkennd af yfirvaldi sem er tilnefnt í því skyni;

h) starfsreynsla: raunveruleg og lögmæt iðkun viðkomandi starfsgreinar í aðildarríki;

i) aðlögunartími: iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki undir eftirliti aðila sem hefur réttindi í þeirri starfsgrein, hugsanlega auk frekari þjálfunar. Sá tími sem unninn er undir eftirliti skal metinn. Nánari reglur um aðlögunartíma og mat á honum skulu ákveðnar af lögbæru yfirvaldi gistiríkisins.

Sú staða sem viðkomandi nýtur í gistiríkinu á eftirlitstímanum, einkum að því er varðar búseturétt og skuldbindingar þar að lútandi, félagsleg réttindi og bætur, greiðslur og endurgreiðslur, skal ákveðin af lögbærum yfirvöldum í því aðildarríki í samræmi við gildandi lög bandalagsins;

j) hæfnispróf: prófun á fagþekkingu umsækjanda, lagt fyrir af lögbæru yfirvaldi í gistiríki með það fyrir augum að meta hæfni umsækjanda til að iðka lögverndaða starfsgrein í því aðildarríki.

Til þess að hægt sé að leggja prófið fyrir skulu lögbær yfirvöld taka saman skrá yfir þær greinar sem, samkvæmt samanburði á menntun umsækjanda og þeirri menntun og þjálfun sem krafist er í aðildarríkinu, vitnisburður umsækjanda um menntun og hæfi tekur ekki til. Þessar greinar geta bæði tekið til fræðilegrar þekkingar og verklegrar hæfni sem krafist er í viðkomandi starfsgrein.

Miða verður hæfnisprófið við þá staðreynd að umsækjandinn er fullgildur fagmaður í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem hann kemur frá. Það verður að ná yfir greinar sem teknar eru með í skrána sem um getur í annarri undirgrein og nauðsynlegt er að kunna skil á til þess að geta iðkað þá starfsgrein í gistiríkinu. Enn fremur má prófið reyna á þekkingu á reglum sem gilda um viðkomandi starfsemi í gistiríkinu. Lögbær yfirvöld í ríkinu ákveða frekari notkun hæfnisprófsins.

Staða umsækjanda í gistiríkinu er æskir að undirbúa sig fyrir hæfnispróf í því ríki skal ákveðin af lögbærum yfirvöldum þess ríkis í samræmi við gildandi lög bandalagsins.

 

II. KAFLI

Gildissvið.

2. gr.

Þessi tilskipun gildir um sérhvern ríkisborgara aðildarríkis sem æskir þess að leggja stund á lögverndaða starfsgrein í gistiríki á eigin vegum eða annarra.

Þessi tilskipun gildir hvorki um starfsgreinar sem heyra undir sértilskipun um fyrirkomulag gagnkvæmrar viðurkenningar aðildarríkja á prófskírteinum né starfsemi sem heyrir undir tilskipun sem er tilgreind í viðauka A.

Tilskipanirnar sem eru taldar upp í viðauka B skulu látnar gilda um iðkun á launuðu starfi af því tagi sem þessar tilskipanir taka til.

III. KAFLI

Kerfi til viðurkenningar þegar gistiríki krefst

prófskírteinis í skilningi þessarar tilskipunar eða tilskipunar 89/48/EBE

3. gr.

Þegar iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki er háð því að viðkomandi aðili hafi prófskírteini, eins og skilgreint er í þessari tilskipun eða tilskipun 89/48/EBE, getur lögbært yfirvald ekki, með fyrirvara um ákvæði tilskipunar 89/48/EBE, neitað ríkisborgara aðildarríkis um heimild til að hefja eða stunda þá starfsgrein með sömu skilyrðum og eigin ríkisborgarar og borið við vanhæfni hans:

a) ef umsækjandi hefur undir höndum prófskírteini, eins og skilgreint er í þessari tilskipun eða tilskipun 89/48/EBE, sem krafist er í öðru aðildarríki til að leggja stund á viðkomandi starfsgrein þar, enda hafi prófskírteinið verið gefið út í aðildarríki; eða

b) ef umsækjandi hefur lagt stund á viðkomandi starfsgrein í fullu starfi í tvö ár, eða samsvarandi tíma hafi verið um hlutastarf að ræða, á undangengnum 10 árum í öðru aðildarríki sem ekki lögverndar starfsgreinina samkvæmt skilningi e-liðar 1. gr. og fyrstu undirgreinar f-liðar 1. gr. þessarar tilskipunar, eða c-liðar 1. gr. og fyrstu undirgreinar d-liðar 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE, og hefur undir höndum vitnisburð um menntun og þjálfun sem:

- gefinn hefur verið út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki sem tilnefnt hefur verið í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum þess ríkis, og

- annaðhvort sýnir að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið æðra námi, öðru en því sem um getur í a-lið 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE, sem staðið hefur í að minnsta kosti eitt ár, eða sambærilegan tíma hafi verið um hlutanám að ræða, þar sem eitt inntökuskilyrðið er, sem meginregla, að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt því námi á framhaldsskólastigi sem krafist er við inntöku í háskóla eða æðri menntastofnun, auk starfsþjálfunarinnar sem hugsanlega er krafist til viðbótar námi á æðra skólastigi, eða

- vottar lögverndaða menntun og þjálfun sem um getur í viðauka D, og

- sýnir að handhafi hafi hlotið lögmætan undirbúning til að stunda starfsgrein sína.

Ekki er þó heimilt að krefjast tveggja ára starfsþjálfunar sem um getur að framan þegar vitnisburður umsækjanda um menntun og þjálfun sem um getur í þessum staflið er gefinn til staðfestingar á lögverndaðri menntun og þjálfun.

Eftirfarandi skal metið til jafns við þann formlega vitnisburð um menntun og þjálfun sem um getur í fyrstu undirgrein þessa stafliðar: sérhver vitnisburður um menntun og þjálfun eða safn slíks vitnisburðar sem gefinn er út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki ef hann er veittur að lokinni menntun og þjálfun sem sótt er innan bandalagsins og viðurkennd er sem jafngild, þó að því tilskildu að öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni hafi verið tilkynnt um þessa viðurkenningu.

Þrátt fyrir fyrstu undirgrein þessarar greinar er gistiríkið ekki skuldbundið til að beita þessari grein þegar þar er krafist prófskírteinis, eins og skilgreint er í tilskipun 89/48/EBE, til að fá að hefja og stunda lögverndaða starfsgrein og þegar eitt af skilyrðunum fyrir útgáfu slíks prófskírteinis er að viðkomandi hafi lokið æðra námi sem tekur meira en fjögur ár.

4. gr.

1. Þrátt fyrir 3. gr. getur gistiríkið einnig krafist þess að umsækjandi:

a) leggi fram vitnisburð um starfsreynslu þar sem náms- og þjálfunartíminn sem umsóknin greinir frá, svo sem mælt er fyrir um í a- og b-lið fyrstu undirgreinar 3. gr., er að minnsta kosti einu ári skemmri en krafist er í gistiríkinu. Komi til þessa má starfsreynsla sú sem krafist er ekki vera lengri:

- en tvisvar sinnum sá tími sem á vantar í menntun og þjálfun ef það sem krafist er lýtur að æðri menntun og/eða þjálfunartíma undir handleiðslu fagmanns og lýkur með prófi,

- en sá tími sem á vantar ef hann lýtur að fagþjálfun sem viðkomandi hefur áunnið sér með aðstoð fullmenntaðs félagsmanns úr viðkomandi starfsgrein.

Ef um er að ræða prófskírteini í skilningi síðustu undirgreinar a-liðar 1. gr. skal lengd menntunar og þjálfunar sem metin er á sama stigi ákvarðast út frá menntun og þjálfun samkvæmt fyrstu undirgrein a-liðar 1. gr.

Þegar þessum ákvæðum er beitt ber að taka tillit til þeirrar starfsreynslu sem um getur í b-lið fyrstu undirgreinar 3. gr.

Ekki má í neinu tilviki krefjast lengri starfsreynslu en sem nemur fjórum árum.

Ekki er þó heimilt að krefjast starfsreynslu af umsækjanda sem hefur yfir að ráða prófskírteini til staðfestingar á æðra námi, eins og um getur í öðrum undirlið a-liðar 1. gr., eða prófskírteini eins og skilgreint er í a-lið 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE, og æskir þess að stunda starfsgrein sína í gistiríki þar sem krafist er prófskírteinis eða vitnisburðar um menntun og þjálfun er jafngildir einhverju því námi sem um getur í viðaukum C og D;

b) ljúki aðlögunartíma sem varir ekki lengur en þrjú ár eða taki hæfnispróf ef:

- fræðilegir og/eða verklegir þættir menntunar og þjálfunar sem viðkomandi hefur hlotið í samræmi við a- eða b-lið fyrstu undirgreinar 3. gr. eru verulega frábrugðnir þeim sem felast í prófskírteininu sem er skilgreint í þessari tilskipun eða tilskipun 89/48/EBE og krafist í gistiríkinu, eða

- starfsgrein, sem er lögvernduð í gistiríkinu og um getur í a-lið 1. mgr. 3. gr., felur í sér eina eða fleiri tegundir lögverndaðrar starfsemi sem tilheyra ekki starfsgreininni er nýtur lögverndar í upprunaríki umsækjanda eða aðildarríkinu sem hann kemur frá, og sá munur sem fyrir hendi er samsvarar tiltekinni menntun og þjálfun sem krafist er í gistiríkinu og nær til fræðilegra og/eða verklegra þátta sem eru verulega frábrugðnir þeim sem liggja að baki prófskírteini, eins og það er skilgreint í þessari tilskipun eða tilskipun 89/48/EBE, er umsækjandi leggur fram, eða

- starfsgrein, sem er lögvernduð í gistiríkinu og um getur í b-lið 1. mgr. 3. gr., felur í sér eina eða fleiri tegundir lögverndaðrar starfsemi sem tilheyra ekki starfsgreininni sem umsækjandi stundar í upprunaríki sínu eða aðildarríkinu sem hann kemur frá og sá munur sem er fyrir hendi samsvarar tiltekinni menntun og þjálfun sem krafist er í gistiríkinu og nær til fræðilegra og/eða verklegra þátta sem eru verulega frábrugðnir þeim sem að baki vitnisburði umsækjanda um menntun og þjálfun liggur.

Ef gistiríkið færir sér þetta í nyt, verður að gefa umsækjandanum færi á að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs. Hyggist gistiríki, þar sem krafist er prófskírteinis eins og skilgreint er í tilskipun 89/48/EBE eða í þessari tilskipun, víkja frá rétti umsækjanda til að velja skulu reglur þær sem mælt er fyrir um í 14. gr. gilda.

Þrátt fyrir aðra undirgrein þessa liðar er gistiríki heimilt að viðhalda rétti til að velja á milli aðlögunartíma og hæfnisprófs ef:

- um er að ræða starfsgrein þar sem krafist er að þeir sem leggja stund á hana hafi nákvæma þekkingu á innlendum lögum og þar sem ráðgjöf og/eða aðstoð varðandi innlend lög er verulegur eða fastur þáttur í atvinnustarfseminni, eða

- iðkun eða aðgangur að starfsgrein er í gistiríki háð því að viðkomandi hafi prófskírteini eins og það er skilgreint í tilskipun 89/48/EBE, og þegar eitt af skilyrðunum fyrir útgáfu þessa prófskírteinis er að lokið hafi verið æðra námi sem tekur minnst þrjú ár, eða sambærilegan tíma hafi verið um hlutanám að ræða, og umsækjandi hafi annaðhvort prófskírteini eins og skilgreint er í þessari tilskipun eða vitnisburð um menntun og þjálfun í skilningi b-liðar fyrstu málsgreinar 3. gr. og sem fellur ekki undir b-lið 3. gr. í tilskipun 89/48/EBE.

2. Gistiríki geta þó ekki beitt ákvæðum a- og b-liðar 1. gr. hverju á eftir öðru.

 

IV. KAFLI

Kerfi til viðurkenningar þegar gistiríki krefst

prófskírteinis og umsækjandi hefur undir höndum vottorð eða hefur hlotið

samsvarandi menntun og þjálfun

5. gr.

Þegar iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki er háð því að viðkomandi aðili hafi prófskírteini getur lögbært yfirvald ekki neitað ríkisborgara aðildarríkis um heimild til að hefja eða stunda þá starfsgrein með sömu skilyrðum og eigin ríkisborgarar og borið við vanhæfni hans:

a) ef umsækjandi hefur undir höndum vottorð sem krafist er í öðru aðildarríki til að leggja stund á sömu starfsgrein þar, enda hafi vottorðið verið gefið út í aðildarríki; eða

b) ef umsækjandi hefur lagt stund á sömu starfsgrein í fullu starfi í tvö ár á undangengnum 10 árum í öðru aðildarríki sem ekki lögverndar starfsgreinina samkvæmt skilningi e-liðar 1. gr. og fyrstu undirgreinar f-liðar 1. gr., og hefur undir höndum vitnisburð um menntun og þjálfun:

- sem gefinn hefur verið út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki sem tilnefnt hefur verið í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum þess ríkis, og

- sýnir að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið á framhaldsskólastigi:

annaðhvort sérhæfðu starfsnámi eða þjálfun, annarri en þeirri sem um getur í a-lið, frá mennta- eða þjálfunarstofnun eða á vinnustað, eða bæði frá mennta- eða þjálfunarstofnun og á vinnustað, og eftir atvikum verklegri reynslu eða starfsreynslu sem er óaðskiljanlegur hluti af náminu,

eða verklegri reynslu eða starfsreynslu sem er óaðskiljanlegur hluti af þessu námi á framhaldsskólastigi, eða

- sem sýnir að handhafi hafi, eftir að hafa verið í tækni- eða starfsnámi á framhaldsskólastigi, lokið eftir því sem þörf krefur,

annaðhvort starfsnámi eða þjálfun sem um getur í fyrri undirlið,

eða verklegri reynslu eða starfsreynslutíma sem er óaðskiljanlegur hluti af þessu tækni- eða starfsnámi á framhaldsskólastigi, og

-sem hefur búið handhafa undir iðkun þessarar starfsgreinar.

Ekki er þó heimilt að krefjast tveggja ára starfsþjálfunar sem um getur að framan þegar vitnisburður umsækjanda um menntun og þjálfun sem um getur í þessum staflið er gefinn til staðfestingar á lögverndaðri menntun og þjálfun.

Þó er gistiríkinu heimilt að krefjast þess að umsækjandi taki út aðlögunartíma sem sé þó ekki lengri en þrjú ár eða taki hæfnispróf. Gistiríkið verður að gefa umsækjanda rétt á að velja á milli aðlögunartíma og hæfnisprófs.

Hyggist gistiríki víkja frá rétti umsækjanda til að velja skulu reglur þær sem mælt er fyrir um í 14. gr. gilda.

V. KAFLI

Kerfi til viðurkenningar þegar gistiríki

krefst vottorðs

6. gr.

Þegar iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki er háð því að viðkomandi aðili hafi vottorð getur lögbært yfirvald ekki neitað ríkisborgara aðildarríkis um heimild til að hefja eða stunda þá starfsgrein með sömu skilyrðum og eigin ríkisborgarar og borið við vanhæfni hans:

a) f umsækjandi hefur undir höndum prófskírteini, eins og það er skilgreint í þessari tilskipun eða í tilskipun 89/48/EBE, eða vottorð sem krafist er í öðru aðildarríki til að leggja stund á viðkomandi starfsgrein þar, enda hafi prófskírteinið verið gefið út í aðildarríki; eða

b) ef umsækjandi hefur lagt stund á sömu starfsgrein í fullu starfi í tvö ár, eða sambærilegan tíma hafi verið um hlutanám að ræða, á undangengnum 10 árum í öðru aðildarríki sem ekki lögverndar starfsgreinina samkvæmt skilningi e-liðar 1. gr. og fyrstu undirgreinar f-liðar 1. gr., og hefur undir höndum vitnisburð um menntun og þjálfun:

-sem gefinn hefur verið út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki sem tilnefnt hefur verið í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum þess ríkis, og

- sem sýnir að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið æðra námi, öðru en því sem um getur í öðrum undirlið a-liðar 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE, sem staðið hefur í að minnsta kosti eitt ár, eða sambærilegan tíma hafi verið um hlutanám að ræða, þar sem eitt inntökuskilyrðið er, sem meginregla, að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt því námi á framhaldsskólastigi sem krafist er við inntöku í háskóla eða æðri menntastofnun, auk starfsþjálfunarinnar sem hugsanlega er krafist til viðbótar námi á æðra skólastigi, eða

- sýnir að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið á framhaldsskólastigi:

annaðhvort sérhæfðu starfsnámi eða þjálfun, annarri en þeirri sem um getur í a-lið, frá mennta- eða þjálfunarstofnun eða á vinnustað, eða bæði frá mennta- eða þjálfunarstofnun og á vinnustað, og eftir atvikum verklegri reynslu eða starfsreynslu sem er óaðskiljanlegur hluti af náminu,

eða verklegri reynslu eða starfsreynslu sem er óaðskiljanlegur hluti af þessu námi á framhaldsskólastigi, eða

- sem sýnir að handhafi hafi, eftir að hafa verið í tækni- eða starfsnámi á framhaldsskólastigi, lokið eftir því sem þörf krefur,

annaðhvort starfsnámi eða þjálfun sem um getur í fyrri undirlið,

eða verklegri reynslu eða starfsreynslutíma sem er óaðskiljanlegur hluti af þessu tækni- eða starfsnámi á framhaldsskólastigi, og

- sem hefur búið handhafa undir iðkun þessarar starfsgreinar.

Ekki er þó heimilt að krefjast tveggja ára starfsþjálfunar sem um getur að framan þegar vitnisburður umsækjanda um menntun og þjálfun sem um getur í þessum staflið er gefinn til staðfestingar á lögverndaðri menntun og þjálfun.

c) ef umsækjandi, sem hefur ekki undir höndum prófskírteini, vottorð eða annan vitnisburð um menntun og þjálfun í skilningi b-liðar 3. gr. eða b-liðar í þessari grein, hefur stundað viðkomandi starfsgrein í fullu starfi í þrjú ár samfellt, eða sambærilegan tíma hafi verið um hlutastarf að ræða, á umliðnum 10 árum í öðru aðildarríki sem ekki lögverndar starfsgreinina samkvæmt skilningi e-liðar 1. gr. og fyrstu undirgreinar f-liðar 1. gr.

Eftirfarandi skal metið til jafns við þann formlega vitnisburð um menntun og þjálfun sem um getur í b-lið fyrstu undirgreinar: sérhver vitnisburður um menntun og þjálfun eða safn slíks vitnisburðar sem gefinn er út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki ef hann er veittur að lokinni menntun og þjálfun sem sótt er innan bandalagsins og viðurkennd er sem jafngild, þó að því tilskildu að öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni hafi verið tilkynnt um þessa viðurkenningu.

7. gr.

Með fyrirvara um ákvæði 6. gr. getur gistiríki einnig krafist þess að umsækjandi:

a) ljúki aðlögunartíma sem sé þó ekki lengri en tvö ár eða taki hæfnispróf þegar menntun sú og þjálfun sem hann hefur hlotið samkvæmt a- eða b-lið fyrstu undirgreinar 5. gr. tekur til fræðilegra eða hagnýtra þátta sem eru verulega frábrugðnir þeim sem liggja að baki vottorðinu sem krafist er í gistiríkinu, eða þegar um ólíkan starfsvettvang er að ræða þar sem í gistiríkinu er krafist sérhæfðrar menntunar og þjálfunar sem tekur til fræðilegra eða hagnýtra þátta sem eru verulega frábrugðnir þeim sem liggja að baki vitnisburði umsækjanda um formlega menntun og hæfi.

Notfæri gistiríkið sér þennan kost verður það að veita umsækjandanum rétt til að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs. Hyggist gistiríki þar sem krafist er vottorðs víkja frá rétti umsækjanda til að velja skulu reglur þær sem mælt er fyrir um í 14. gr. gilda;

b) ljúki aðlögunartíma sem sé þó ekki lengri en tvö ár eða taki hæfnispróf, enda hafi hann í því tilviki sem um getur í c-lið fyrstu undirgreinar 6. gr. ekki undir höndum prófskírteini, vottorð eða annan vitnisburð um menntun og þjálfun. Gistiríkið getur áskilið sér rétt til að velja á milli aðlögunartíma og hæfnisprófs.

VI. KAFLI

Sérstök kerfi til viðurkenningar á

annarri menntun og hæfi

8. gr.

Þegar iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki er háð því að viðkomandi geti vottað hæfni sína getur lögbært yfirvald ekki neitað ríkisborgara aðildarríkis um heimild til að hefja eða stunda þá starfsgrein með sömu skilyrðum og eigin ríkisborgarar og borið við vanhæfni hans:

a) ef umsækjandi getur vottað hæfni sem krafist er í öðru aðildarríki til að hefja eða stunda sömu starfsgrein þar, enda hafi slík vottun verið gefin út í aðildarríki; eða

b) ef umsækjandi leggur fram sönnun um menntun og hæfi sem hann hefur hlotið í öðrum aðildarríkjum, sem veitir samsvarandi tryggingu, einkum að því er varðar heilbrigði, öryggi, umhverfis- og neytendavernd, og gefin er í ákvæðum laga og stjórnsýslufyrirmæla gistiríkisins.

Ef umsækjandinn leggur ekki fram sönnun um að hann hafi slíkt vottorð eða slíka menntun og hæfi skulu ákvæði laga og stjórnsýslufyrirmæla gistiríkisins gilda.

9. gr.

Þegar iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki er einungis háð því að viðkomandi hafi yfir að ráða vitnisburði um menntun til staðfestingar á almennri menntun á grunn- eða framhaldsskólastigi getur lögbært yfirvald ekki neitað ríkisborgara aðildarríkis um heimild til að hefja eða stunda þá starfsgrein með sömu skilyrðum og eigin ríkisborgarar og borið við vanhæfni hans ef umsækjandi býr yfir formlegri menntun og hæfi af samsvarandi stigi sem hann hefur hlotið í öðru aðildarríki.

Þessi vitnisburður um formlega menntun og hæfi verður að vera gefinn út af lögbæru yfirvaldi sem er tilnefnt samkvæmt ákvæðum laga og stjórnsýslufyrirmæla í því aðildarríki.

VII. KAFLI

Aðrar ráðstafanir til að auðvelda árangursríka framkvæmd staðfesturéttar, réttar til að veita þjónustu og frelsi launþega til flutninga

10. gr.

1. Krefji lögbært yfirvald í gistiríki þann sem æskir að hefja störf í lögverndaðri starfsgrein um meðmæli eða yfirlýsingu um að hann hafi ekki orðið gjaldþrota, eða frestar eða bannar iðkun þeirrar starfsgreinar vegna alvarlegra ávirðinga í starfi eða vegna afbrots, skal það ríki taka sem fullgilda sönnun, að því er varðar ríkisborgara aðildarríkja sem æskja þess að leggja stund á þá starfsgrein á yfirráðasvæði þess, framvísun skjala sem gefin eru út af lögbærum yfirvöldum í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá og votta að þessi skilyrði hafi verið uppfyllt.

Gefi lögbær yfirvöld í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá ekki út þau skjöl sem um getur í fyrstu undirgrein, skal eiðsvarin yfirlýsing koma í stað þeirra - eða í aðildarríkjum þar sem engin ákvæði eru til um eiðsvarnar yfirlýsingar, drengskaparheit - sem viðkomandi gefur frammi fyrir þar til bæru yfirvaldi á sviði dómgæslu eða stjórnsýslu eða eftir atvikum lögbókanda eða þar til bærri stofnun í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem viðkomandi kemur frá; umrætt yfirvald eða lögbókandi skal gefa út vottorð sem staðfestir áreiðanleika yfirlýsingarinnar eða drengskaparheitsins.

2. Ef lögbært yfirvald í gistiríki krefst þess af eigin

ríkisborgurum sem æskja þess að hefja eða stunda störf í lögverndaðri starfsgrein að þeir leggi fram yfirlýsingu um líkamlegt og andlegt heilbrigði ber því yfirvaldi að taka sem fullgilda sönnun framvísun á skjalinu sem krafist er í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá.

Ef upprunaríkið eða aðildarríkið sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá gerir engar slíkar kröfur til þeirra sem æskja þess að hefja störf í umræddri starfsgrein ber gistiríkinu að taka við yfirlýsingu frá slíkum ríkisborgurum sem lögbært yfirvald í því ríki hefur gefið út og er sambærileg við yfirlýsingu sem gistiríkið gefur út.

3. Lögbær yfirvöld í gistiríki geta farið fram á það að skjölin og yfirlýsingarnar sem um getur í 1. og 2. mgr. séu lögð fram eigi síðar en þremur mánuðum frá útgáfudegi þeirra.

4. Ef lögbært yfirvald í gistiríki fer fram á það að þarlendir ríkisborgarar sem æskja þess að hefja störf í lögverndaðri starfsgrein sverji eiða eða gefi drengskaparheit og þar sem eiðurinn eða heitið er þess eðlis að ríkisborgarar annarra aðildarríkja geta

ekki nýtt það skal aðildarríkið tryggja að viðeigandi og jafngilt form til eiðtökunnar sé í boði fyrir hlutaðeigandi einstakling.

11. gr.

1. Lögbær yfirvöld í gistiríkjum skulu viðurkenna rétt ríkisborgara í aðildarríkjum, sem uppfylla skilyrði til að hefja og stunda störf í lögverndaðri starfsgrein, til að bera það starfsheiti í gistiríkinu sem svarar til þeirrar starfsgreinar.

2. Lögbæra yfirvaldið í gistiríkinu skal viðurkenna rétt ríkisborgara í aðildarríkjum, sem uppfylla skilyrði til að hefja og stunda störf í lögverndaðri starfsgrein á yfirráðasvæði þeirra, til að nota lögmætan námstitil sinn og, eftir því sem við á, skammstöfun á honum sem er notuð í upprunaríki þeirra eða aðildarríkinu sem þeir koma frá, á máli þess ríkis. Gistiríkið getur krafist þess að titlinum fylgi upplýsingar um heiti og staðsetningu stofnunarinnar eða prófanefndarinnar sem veitti hann.

3. Ef samtök eða félag í gistiríki sem um getur í f-lið 1. gr. veitir starfsgrein lögvernd skal ríkisborgurum aðildarríkja einvörðungu heimilt að nota starfsheitið eða skammstöfunina sem téð félag eða samtök veita gegn sönnun um félagsaðild.

Ef samtökin eða félagið gera ákveðin hæfisskilyrði að forsendu fyrir félagsaðild má það aðeins beita þeirri reglu gagnvart ríkisborgurum annarra aðildarríkja í samræmi við þessa tilskipun, einkum 3., 4. og 5. gr. hennar, enda hafi þeir undir höndum prófskírteini í skilningi a-liðar 1. gr., vottorð í skilningi b-liðar 1. gr. eða vitnisburð um menntun og þjálfun eða hæfi í skilningi b-liðar 1. mgr. 3. gr.,

b-liðar 1. mgr. 5. gr. eða 9. gr.

12. gr.

1. Gistiríkið skal taka sem fullgilda sönnun fyrir því að skilyrðum, sem eru sett í 3. til 9. gr., sé fullnægt, skjöl sem gefin eru út af lögbærum yfirvöldum í aðildarríkjum og hlutaðeigandi einstaklingur skal leggja fram til stuðnings umsókn sinni um að leggja

stund á viðkomandi starfsgrein.

2. Taka skal fyrir umsókn um starf í lögverndaðri starfsgrein svo skjótt sem verða má og skulu lögbær yfirvöld í gistiríkinu greina frá rökstuddri niðurstöðu eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að lögð hafa verið fram öll viðeigandi skjöl um hlutaðeigandi aðila. Fáist ekki niðurstaða eða sé hún öndverð óskum umsækjanda skal honum gert kleift að áfrýja til dómstóls í samræmi við ákvæði landslaga.

 

VIII. KAFLI

Tilhögun samræmingar

13. gr.

1. Aðildarríkin skulu, innan þess frests sem kveðið er á um í 17. gr., tilnefna lögbær yfirvöld sem hafa umboð til að veita viðtöku umsóknum og taka þær ákvarðanir sem um getur í þessari tilskipun. Þau skulu koma þessum upplýsingum á framfæri við hin aðildarríkin og framkvæmdastjórnina.

2. Aðildarríkin skulu tilnefna þann aðila sem er ábyrgur fyrir samræmingu á starfsemi þeirra yfirvalda sem um getur í 1. mgr. og tilkynna það hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni. Hlutverk

hans skal vera að stuðla að því að tilskipun þessari sé beitt á sama hátt í öllum hlutaðeigandi starfsgreinum. Þessi samræmingaraðili skal vera félagi í samræmingarhóp sem komið er á fót á vegum framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt 2. mgr. 9. gr. tilskipunar 89/48/EBE.

Starf þessa samræmingarhóps sem komið er á fót samkvæmt framangreindu ákvæði tilskipunar 89/48/

EBE skal vera:

- að auðvelda framkvæmd þessarar tilskipunar,

- að safna saman öllum upplýsingum sem að gagni mega koma við beitingu hennar í aðildarríkjunum, einkum upplýsingum um gerð viðmiðunarskrár yfir lögverndaðar starfsgreinar og frávik í menntun og hæfi sem veitt er í aðildarríkjunum með það í huga að aðstoða lögbær yfirvöld aðildarríkjanna við að meta hvort þarna sé verulegur munur á.

Framkvæmdastjórnin getur haft samráð við samræmingarhópinn um fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulaginu.

3. Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að veita nauðsynlegar upplýsingar um viðurkenningu prófskírteina og vottorða og um önnur skilyrði sem varða iðkun lögverndaðra starfsgreina á grundvelli þessarar tilskipunar. Þau geta í þessu sambandi nýtt sér þau

upplýsinganet sem fyrir eru og, eftir því sem við á, viðkomandi fagsamtök eða -félög. Framkvæmdastjórnin skal hafa forgöngu um þróun og samræmingu á miðlun nauðsynlegra upplýsinga.

 

IX. KAFLI

Reglur um undanþágur vegna réttar til að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs

14. gr.

1. Ef aðildarríki hyggst ekki, samkvæmt öðrum málslið annarrar undirgreinar b-liðar 1. mgr. 4. gr., þriðju undirgrein 5. gr., eða öðrum málslið annarrar undirgreinar a-liðar 7. gr., veita umsækjendum rétt til að velja á milli aðlögunartíma og hæfnisprófs skal

það þegar í stað senda framkvæmdastjórninni drög að viðkomandi fyrirmælum. Það skal jafnframt gera

framkvæmdastjórninni grein fyrir ástæðum þess að nauðsynlegt er talið að setja slík fyrirmæli.

Framkvæmdastjórnin skal þegar í stað tilkynna hinum aðildarríkjunum um öll slík drög sem henni berast; hún getur einnig ráðfært sig um drögin við samráðshópinn sem um getur í 2. mgr. 13. gr.

2. Með fyrirvara um möguleika framkvæmdastjórnarinnar og hinna aðildarríkjanna til að tjá sig um drögin getur aðildarríkið samþykkt fyrirmælin að því tilskildu að framkvæmdastjórnin hafi eigi tekið ákvörðun um hið gagnstæða innan þriggja mánaða.

3. Komi fram ósk um slíkt frá aðildarríki eða framkvæmdastjórninni skulu aðildarríki tafarlaust senda þeim í endanlegri gerð fyrirmælin sem eru sett með beitingu þessarar greinar.

 

X. KAFLI

Reglur um breytingar á viðaukum C og D

15. gr.

1. Skránum yfir nám sem koma fram í viðaukum C og D má breyta á grundvelli rökstuddrar beiðni viðkomandi aðildarríkis til framkvæmdastjórnarinnar. Allar viðeigandi upplýsingar, einkum texti viðkomandi ákvæða landslaga, skulu fylgja beiðninni. Aðildarríkið sem leggur fram beiðnina skal einnig tilkynna hinum aðildarríkjunum um hana.

2. Framkvæmdastjórnin skal athuga nánar umrætt nám og nám sem krafist er í hinum aðildarríkjunum. Hún skal einkum ganga úr skugga um að prófskírteini sem veitt eru vegna umræddrar menntunar og hæfis veiti handhafa:

- menntun eða þjálfun á sambærilegu stigi við það æðra nám sem um getur í i-lið annars undirliðar fyrstu undirgreinar a-liðar 1. gr.,

- sambærilega ábyrgð og verkefni.

3. Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar sem er skipuð fulltrúum aðildarríkjanna og fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar veitir forstöðu.

4. Fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar leggur fyrir nefndina drög að þeim ráðstöfunum sem gera skal. Nefndin skal skila áliti sínu á drögunum fyrir þau tímamörk sem formaðurinn setur eftir því hversu brýnt málið er. Álitið skal samþykkt með þeim meirihluta sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 148. gr. sáttmálans þegar um er að ræða ákvarðanir sem ráðið á að samþykkja samkvæmt tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Atkvæði fulltrúa aðildarríkjanna í nefndinni vega eins og mælt er fyrir um í þeirri grein. Formaðurinn greiðir ekki atkvæði.

5. Framkvæmdastjórnin skal samþykkja ráðstafanirnar sem öðlast gildi þegar í stað. Séu aðgerðirnar ekki í samræmi við álit nefndarinnar skal framkvæmdastjórnin þó láta ráðið vita af þeim án tafar. Í því tilviki skal framkvæmdastjórnin fresta því um tvo mánuði að ráðstafanirnar komi til framkvæmda.

6. Ráðinu er heimilt að taka aðra ákvörðun með auknum meirihluta innan þeirra tímamarka sem um getur í fyrri málsgrein.

7. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna viðkomandi aðildarríki um ákvörðunina og skal, eftir því sem við á, birta breyttu skrána í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.

 

XI. KAFLI

Önnur ákvæði

16. gr.

Þegar sá tími rennur út sem kveðið er á um í 17. gr. skulu aðildarríkin, á tveggja ára fresti, senda framkvæmdastjórninni skýrslu um framkvæmd fyrirkomulagsins sem er tekið upp.

Auk almennrar umfjöllunar um málið skal skýrslan einnig veita tölfræðilegt yfirlit fyrir ákvarðanir sem teknar hafa verið og lýsa þeim vanda sem upp kann að koma við beitingu tilskipunarinnar.

17. gr.

1. Aðildarríkin skulu samþykkja lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 18. júní 1994. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2. Aðildarríkin skulu sjá til þess að framkvæmdastjórninni berist helstu ákvæði úr landslögum sem samþykkt verða um málefni sem tilskipun þessi nær til.

18. gr.

Eigi síðar en fimm árum eftir þann dag sem tiltekinn er í 17. gr. skal framkvæmdastjórnin upplýsa Evrópuþingið, ráðið og efnahags- og félagsmálanefndina um framkvæmd þessarar tilskipunar.

Framkvæmdastjórnin skal, eftir að hún hefur leitað ráða svo sem nauðsynlegt er, segja til um hvaða breytingar þarf að gera á þessari tilskipun. Á sama tíma skal framkvæmdastjórnin, eftir því sem við á, leggja fram tillögur sínar um endurbætur á gildandi reglum er stuðli að því að draga enn frekar úr höftum á frelsi til flutninga, á staðfesturétti og rétti til að veita þjónustu.

19. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Lúxemborg 18. júní 1992.

Fyrir hönd ráðsins,

VITOR MARTINS

forseti.

 

 

VIÐAUKI A

Skrá yfir tilskipanir sem um getur í annarri undirgrein 2. gr.

1. 64/429/EBE (1)

Tilskipun ráðsins frá 7. júlí 1964 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu á sviði framleiðslu- og vinnsluiðnaðar er heyrir undir ISIC yfirflokka 23-40 (Iðnaður og handverk).

64/427/EBE (2)

Tilskipun ráðsins frá 7. júlí 1964 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga á sviði framleiðslu- og vinnsluiðnaðar sem fellur undir ISIC yfirflokka 23-40 (Iðnaður og handverk).

2. 68/365/EBE (3)

Tilskipun ráðsins frá 15. október 1968 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu á sviði matvæla- og drykkjarvöruframleiðslu (ISIC yfirflokkar 20 og 21).

68/366/EBE (4)

Tilskipun ráðsins frá 15. október 1968 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga á sviði matvæla- og drykkjarvöruframleiðslu (ISIC yfirflokkar 20 og 21).

3. 64/223/EBE (5)

Tilskipun ráðsins frá 25. febrúar 1964 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti til að veita þjónustu vegna starfsemi á sviði heildsölu.

64/224/EBE (6)

Tilskipun ráðsins frá 25. febrúar 1964 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti til að veita þjónustu vegna starfsemi milliliða á sviði verslunar, iðnaðar og handverks.

64/222/EBE (7)

Tilskipun ráðsins frá 25. febrúar 1964 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi á sviði heildsölu og milliliða í verslun, iðnaði og handverki.

4. 68/363/EBE (8)

Tilskipun ráðsins frá 15. október 1968 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu á sviði smásöluverslunar (ISIC úr flokki 612).

68/364/EBE (9)

Tilskipun ráðsins frá 15. október 1968 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga á sviði smásöluverslunar (ISIC úr flokki 612).

5. 70/522/EBE (10)

Tilskipun ráðsins frá 30. nóvember 1970 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu á sviði heildsölu og umboðsverslunar með kol (ISIC úr flokki 6112).

70/523/EBE (11)

Tilskipun ráðsins frá 30. nóvember 1970 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga á sviði heildsölu og umboðsverslunar með kol (ISIC úr flokki 6112).

6. 74/557/EBE (1)

Tilskipun ráðsins frá 4. júní 1974 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga og milliliða til að veita þjónustu á sviði verslunar með og dreifingar á eiturefnum.

74/556/EBE (2)

Tilskipun ráðsins frá 4. júní 1974 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi, verslunar með og dreifingar á eiturefnum og vegna starfsemi sem felur í sér notkun slíkra efna í atvinnuskyni, að meðtalinni starfsemi milliliða.

7. 68/367/EBE (3)

Tilskipun ráðsins frá 15. október 1968 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu vegna starfsemi innan þjónustugeirans (ISIC úr yfirflokki 85); 1. Veitingahús, kaffihús, ölstofur og aðrir veitingastaðir (ISIC flokkur 852), 2. Hótel, gistiheimili, tjaldstæði og aðrir gististaðir (ISIC flokkur 853).

68/368/EBE (4)

Tilskipun ráðsins frá 15. október 1968 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga í þjónustugeiranum (úr ISIC yfirflokki 85); 1. Veitingahús, kaffihús, ölstofur og aðrir veitingastaðir (ISIC flokkur 852), 2. Hótel, gistiheimili, tjaldstæði og aðrir gististaðir (ISIC flokkur 853).

8. 77/92/EBE (5)

Tilskipun ráðsins frá 13. desember 1976 um ráðstafanir til að greiða fyrir því að umboðsmenn í vátryggingum og vátryggingamiðlarar (úr ISIC flokki 630) geti nýtt sér staðfesturétt og rétt til að stunda þjónustustarfsemi á því sviði, svo og sérstakar bráðabirgðaráðstafanir varðandi þá starfsemi.

9. 82/470/EBE (6)

Tilskipun ráðsins frá 29. júní 1982 um ráðstafanir til að auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt hvað varðar starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga í ákveðnum greinum sem tengjast flutningum og ferðaskrifstofum (ISIC flokkur 718) og geymslu og vöruskemmum (ISIC flokkur 720).

10. 82/489/EBE (7)

Tilskipun ráðsins frá 19. júlí 1982 um ráðstafanir til að auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt í háriðn.

11. 75/368/EBE (8)

Tilskipun ráðsins frá 16. júní 1975 um ráðstafanir til að auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt að því er varðar ýmsa starfsemi (úr ISIC deildum 1 til 85) og einkum bráðabirgðaráðstafanir með tilliti til þessarar starfsemi.

12. 75/369/EBE (9)

Tilskipun ráðsins frá 16. júní 1975 um ráðstafanir til að auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt á sviði farandsölu og einkum bráðabirgðaráðstafanir er varða starfsemi af þessu tagi.

Athugasemd

Það skal tekið fram að með lögum um aðild Danmerkur, Írlands og Breska konungsríkisins (Stjtíð. EB nr. L 73, 27. 3. 1972), Grikklands (Stjtíð. EB nr. L 291, 19. 11. 1979) og Spánar og Portúgals (Stjtíð. EB nr. L 302, 15. 11. 1985) hefur verið bætt við sumar framangreindar tilskipanir.

 

VIÐAUKI B

Skrá yfir tilskipanir sem um getur í þriðju undirgrein 2. gr.

Hér er átt við tilskipanir sem eru taldar upp í 1. til 7. lið viðauka A, að tilskipun 74/556/EBE sem er tiltekin í 6. lið undantekinni.

VIÐAUKI C

Skrá yfir nám sem er byggt upp á sérstakan hátt eins og

um getur í ii-lið annars undirliðar í a-lið 1. gr.

1. Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna

Í Þýskalandi

nám fyrir:

- barnalækningahjúkrunarfræðinga (Kinderkrankenschwester/Kinderkrankenpfleger),

- sjúkraþjálfara (Krankengymnast(in)),

- iðjuþjálfa (Beschäftigungs- und Arbeitstherapeut(in)),

- talkennara (Logopäde/Logopädin'),

- augnþjálfa (Orthoptist(in)),

- fóstrur viðurkenndar af ríkinu (Staatlich anerkannte(r) Erzieher(in)),

- endurhæfingarþjálfa viðurkennda af ríkinu (Staatlich anerkannte(r) Heilpädagoge(-in)).

Á Ítalíu

nám fyrir:

- tannfræðinga (odontotecnico),

- sjóntækjafræðinga (ottico),

- fótsnyrta (podologo).

Í Lúxemborg

nám fyrir:

- tæknimenn á sviði geislalækninga (assistant(e) technique médical(e) en radiologie),

- tæknimenn á læknarannsóknarstofum (assistant(e) technique médical(e) de laboratoire).

- geðhjúkrunarfræðingur (infirmier/ière psychiatrique),

- tæknimenn á sviði skurðlækninga (assistant(e) technique médical(e) en chirurgie),

- barnalækningahjúkrunarfræðinga (infirmier/ière puériculteur/trice),

- svæfingahjúkrunarfræðingur (infirmier/ière anesthésiste),

- sérmenntaða nuddara (masseur/euse diplômé(e)),

- fóstrur (éducateur/trice),

sem felur í sér nám sem stendur í 13 ár hið minnsta, meðal annars:

- annaðhvort minnst þriggja ára starfsnám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem í sumum tilvikum bætist við eins eða tveggja ára sérnám sem lýkur með prófi,

- eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst sex mánuði eða minnst sex mánaða starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

- eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst eitt ár eða minnst eins árs starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð.

2. Meistaranám ("Mester/Meister/Maître") á sviði iðnnáms er fellur ekki undir tilskipanir sem eru taldar upp í viðauka A

Í Danmörku

nám fyrir:

- sjóntækjafræðinga (optometrist),

þetta nám tekur alls 14 ár, að meðtalinni fimm ára starfsþjálfun sem skiptist í tveggja og hálfs árs fræðilegt nám í fagskóla og tveggja og hálfs árs starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í iðninni sem veitir rétt til að nota meistaratitilinn;

- bæklunartækna (ortopædimekaniker),

þetta nám tekur alls 12,5 ár, að meðtalinni þriggja og hálfs árs starfsþjálfun sem skiptist í sex mánaða fræðilegt nám í fagskóla og þriggja ára starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í iðninni sem veitir rétt til að nota meistaratitilinn;

- bæklunarskósmiði (ortopædiskomager),

þetta nám tekur alls 13,5 ár, að meðtalinni fjögurra og hálfs árs starfsþjálfun sem skiptist í tveggja ára fræðilegt nám í fagskóla og tveggja og hálfs árs starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í iðninni sem veitir rétt til að nota meistaratitilinn.

Í Þýskalandi

nám fyrir:

- sjóntækjafræðinga (Augenoptiker),

- tannfræðinga (Zahntechniker),

- framleiðendur og seljendur gervilima og umbúða (Bandagist),

- heyrnartækna (Hörgeräte-Akustiker),

- bæklunartækna (Orthopädiemechaniker),

- bæklunarskósmiði (Orthopädieschuhmacher).

Í Lúxemborg

nám fyrir:

- sjóntækjafræðinga (opticien),

- tannfræðinga (mécanicien dentaire),

- heyrnarfræðinga (audioprothésiste),

- bæklunartækna/gervilimafræðinga (mécanicien orthopédiste/bandagiste),

- bæklunarskósmiði (orthopédiste-cordonnier),

þetta nám tekur alls 14 ár, að meðtalinni minnst fimm ára þjálfun sem er liður í skipulögðu námi, og fer að hluta til fram á vinnustað og að hluta til í fagskóla, og lýkur með prófi sem viðkomandi verður að standast til að geta stundað starfsemi í þeirri iðn, annaðhvort á eigin vegum eða annarra með sambærilegri ábyrgð.

3. Sjómennska

a) Sjóflutningar

Í Danmörku

nám fyrir:

- skipstjóra (skibsfører),

- yfirstýrimenn (overstyrmand),

- stýrimenn sem eru einir, vaktstýrimenn (enestyrmand, vagthavende styrmand),

- vaktstýrimenn (vagthavende styrmand),

- yfirvélstjóra (maskinchef),

- fyrstu vélstjóra (1. maskinmester),

- fyrstu vélstjóra/vaktvélstjóra (1. maskinmester/vagthavende maskinmester).

Í Þýskalandi

nám fyrir:

- skipstjóra, stór strandferðaskip (Kapitän AM),

- skipstjóra, strandferðaskip (Kapitän AK),

- vaktstýrimenn, stór strandferðaskip (Nautischer Schiffsoffizier AMW),

- vaktstýrimenn, strandferðaskip (Nautischer Schiffsoffizier AKW),

- yfirvélstjóra, þrep C (Schiffsbetriebstechniker CT - Leiter von Maschinenanlagen),

- vélstjóra, þrep C (Schiffsmaschinist CMa - Leiter von Maschinenanlagen),

- yfirvélstjóra, þrep C (Schiffsbetriebstechniker CTW),

- vélstjóra, þrep C - vélstjóra sem eru einir (Schiffsmaschinist CMaW - Technischer Alleinoffizier).

Á Ítalíu

nám fyrir:

- vaktstýrimenn (ufficiale di coperta),

- yfirvélstjóra (ufficiale di macchina).

Í Hollandi

nám fyrir:

- yfirstýrimenn (strandferðaskip) (með viðbótarnám) [stuurman kleine handelsvaart (met aanvulling)],

- vélstjóra (með prófskírteini) (diploma motordrijver),

sem er sambærilegt við eftirfarandi nám:

- í Danmörku, níu ára grunnskólanám ásamt frekara faglegu grunnnámi og/eða þjónustu á sjó sem varir í 17 til 36 mánuði, en við það bætist:

- eins árs sérhæft starfsnám fyrir vaktstýrimenn,

- þriggja ára sérhæft starfsnám fyrir aðra,

- í Þýskalandi, heildarnám sem tekur 14 til 18 ár, að meðtöldu þriggja ára faglegu grunnnámi ásamt einu ári á sjó, auk eins eða tveggja ára sérhæfðs starfsnáms en við það bætist, eftir því sem við á, tveggja ára reynslutími við stjórn siglinga,

- á Ítalíu, heildarnám sem tekur alls 13 ár, þar af eru minnst fimm ár sem fara í faglegt nám sem lýkur með prófi en við það bætist eftir atvikum starfsþjálfunartími,

- í Hollandi, 14 ára nám, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf ára starfsþjálfunartími.

Námið skal viðurkennt innan ramma hins alþjóðlega STCW-samningsins (International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers, 1978).

b) Veiðar á rúmsjó

Í Þýskalandi

nám fyrir:

- skipstjóra, úthafsveiðar (Kapitän BG/Fischerei),

- skipstjóra, strandveiðar (Kapitän BK/Fischerei),

- vaktstýrimenn, úthafskip (Nautischer Schiffsoffizier BGW/Fischerei),

- vaktstýrimenn, strandferðaskip (Nautischer Schiffsoffizier BKW/Fischerei).

Í Hollandi

nám fyrir:

- yfirstýrimenn/vélstjóra V (stuurman werktuigkundige V),

- vélstjóra IV (fiskiskip) (werktuigkundige IV visvaart),

- yfirstýrimenn IV (fiskiskip) (stuurman IV visvaart),

- yfirstýrimenn/vélstjóra VI (stuurman werktuigkundige VI),

sem er sambærilegt við eftirfarandi nám:

- í Þýskalandi, heildarnám sem tekur 14 til 18 ár, að meðtöldu þriggja ára faglegu grunnnámi ásamt einu ári á sjó, auk eins eða tveggja ára sérhæfðs starfsnáms en við það bætist, eftir því sem við á, tveggja ára reynslutími við stjórn siglinga,

- í Hollandi, nám sem varir í 13 til 15 ár, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf ára starfsþjálfunartími.

Námið skal viðurkennt innan ramma Torremolinos-samningsins (1977 International Convention for the Safety of Fishing Vessels).

4. Tækninám

Á Ítalíu

nám fyrir:

- landmælingamenn (geometra),

- landbúnaðarráðgjafa (perito agrario),

- endurskoðendur (ragioniero) og viðskiptaráðgjafa (perito commerciale),

- starfsráðgjafa (consulente del lavoro),

er felur í sér minnst 13 ára nám á framhaldsskólastigi, þar af eru átta ár skyldunám auk fimm ára náms á framhaldsskólastigi, þar af eru þrjú ár í starfsnámi er lýkur með stúdentsprófi á tæknisviði, en við það bætist

- þegar um er að ræða nám fyrir landmælingamenn:

annaðhvort starfsreynslutími í minnst tvö ár á fagstofu,

eða fimm ára starfsreynsla,

- þegar um er að ræða nám fyrir landbúnaðarráðgjafa, endurskoðendur, viðskiptaráðgjafa og starfsráðgjafa að lokinni minnst tveggja ára starfsreynslu,

ásamt prófi sem er viðurkennt af ríkinu.

Í Hollandi

nám fyrir:

- fógetafulltrúa (gerechtsdeurwaarder),

sem felur í sér almennt nám og starfsnám er í allt tekur 19 ár, þar af eru átta ár í skyldunámi ásamt átta árum á framhaldsskólastigi (en fjögur þeirra skulu vera á tæknisviði), og lýkur með prófi viðurkenndu af ríkinu en við það bætist þriggja ára fræðilegt og verklegt starfsnám.

5. Nám í Breska konungsríkinu sem er viðurkennt sem "National Vocational Qualifications or Scottish Vocational Qualifications"

Nám fyrir:

- vísindalega aðstoðarmenn við læknarannsóknarstofur (Medical Laboratory Scientific Officer),

- námurafmagnsverkfræðinga (Mine Electrical Engineer),

- námuvélaverkfræðinga (Mine Mechanical Engineer),

- viðurkennda félagsráðgjafa - á sviði geðheilbrigðis (Approved Social Worker - Mental Health),

- tilsjónarmenn (Probation Officer),

- tannfræðinga (Dental Therapist),

- tannhirða (Dental Hygienist),

- sjóntækjafræðinga (Dispensing optician),

- aðstoðarmenn námuverkfræðinga (Mine Deputy),

- skiptastjóra (Insolvency Practitioner),

- viðurkennda lögbókendur við afsal og fasteignagjörninga (Licensed Conveyancer),

- gervilimasmiði (Prosthetist),

- fyrstu stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað (First Mate - Freight/Passenger ships - Unrestricted),

- aðra stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað (Second Mate - Freight/Passenger ships - Unrestricted),

- þriðju stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað (Third Mate - Freight/Passenger ships - Unrestricted),

- vaktstýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað (Deck Officer - Freight/Passenger ships - Unrestricted),

- yfirvélstjóra á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað viðskiptasvæði (Engineer Officer - Freight/Passenger ships - Unlimited Trading Area),

- umboðsaðila vörumerkja (Trade Mark Agent),

er felur í sér menntun og hæfi sem er viðurkennt sem ,,National Vocational Qualifications" (NVQ) eða sem ,,National Council for Vocational Qualifications" samþykkir og viðurkennir sem jafngilt, eða er viðurkennt í Skotlandi sem ,,Scottish Vocational Qualifications", á 3. og 4. stigi í ,,National Framework of Vocational Qualifications" í Breska konungsríkinu.

Þessi stig eru skilgreind sem hér segir:

- 3. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða bæði flókin störf og störf sem eru ekki venjubundin. Um verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð er að ræða og jafnframt er oft krafist umsjónar eða leiðsagnar með öðrum.

- 4. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs, bæði er varðar tæknileg og fagleg atriði, og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð. Oft er jafnframt um að ræða ábyrgð á störfum annarra og úthlutun verkefna.

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDA-

LAGANNA HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,

með hliðsjón af tilskipun ráðsins 92/51/EBE frá 18. júní 1992 um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE (1), einkum 15. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

Þegar rökstudd beiðni um að starfsnámi eða starfsþjálfun verði bætt við eða tekið út af skránni í viðaukum C eða D er skoðuð ber framkvæmdastjórninni, samkvæmt 2. mgr. 15. gr. tilskipunar 92/51/EBE, einkum að ganga úr skugga um að prófskírteini sem eru veitt vegna umrædds náms séu vitnisburður um að viðkomandi búi yfir menntun eða

hæfi á sambærilegu stigi við það æðra nám sem um getur í i-lið annars undirliðar fyrstu undirgreinar a-liðar 1. gr. og hafi sambærilega ábyrgð og verksvið.

Ríkisstjórn Þýskalands hefur lagt fram rökstudda beiðni um breytingu á viðaukum C og D við tilskipunina og ríkisstjórn Ítalíu hefur lagt fram rökstudda beiðni um breytingu á viðauka C.

Einkum þarf að breyta tilvísun til starfsheitisins sjúkraþjálfara ("Krankengymnast(in)") í Þýskalandi í kjölfar breytingar á innlendri löggjöf þar sem nýtt starfsheiti er samþykkt án þess þó að uppbyggingu starfsnáms og starfsþjálfunar hafi verið breytt.

Það starfsnám sem bæta á við skrána í viðauka C, að því er varðar Þýskaland, er byggt upp á sama hátt og það sem þegar er skráð, að því er varðar Þýskaland, Ítalíu og Lúxemborg, í 1. lið (,,Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna") í sama viðauka.

Ítalía hefur breytt starfsnámi og starfsþjálfun fyrir endurskoðendur ("ragioniero") og viðskiptaráðgjafa (,,perito commerciale") með þeim hætti að ákvæði tilskipunar ráðsins 89/48/EBE (2) gilda nú um þetta

nám. Að því er varðar starfsráðgjafa ("consulente del lavoro") hefur sýnt sig að uppbygging námsins eins og hún er skilgreind í tilskipun 89/48/EBE er það námsfyrirkomulag sem helst tíðkast í þessari starfsgrein. Af þessu leiðir að fella ber námsfyrirkomulag þessara tveggja starfsgreina brott úr viðauka C, þar eð þeir sem búa yfir menntun og hæfi samkvæmt ákvæðum tilskipunar 92/51/EBE geta farið fram á að ákvæði a-liðar 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE gildi um þá.

Eins og fram kemur í 2. gr. tilskipunar 92/51/EBE gilda ákvæði þeirrar tilskipunar ekki um störf sem fjallað er um í tilskipunum sem eru taldar upp í viðauka A við þá tilskipun, að meðtöldum tilskipunum sem eru látnar gilda um iðkun á launuðum störfum, sem eru talin upp í viðauka B, jafnvel þó að ríkisborgari aðildarríkis hafi lokið ,,námi sem er byggt upp á sérstakan hátt" og um getur í viðauka D.

Starfsnámið sem bæta á við skrána í viðauka D að því er varðar Þýskaland er að uppbyggingu líkt tilteknu starfsnámi í viðauka C og varir ævinlega allt minnst 13 ár, þar af starfsmenntun minnst þrjú ár.

Aðildarríkjum sem eiga starfsnám og starfsþjálfun skráð í viðauka D ber, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 17. gr. tilskipunar 92/51/EBE og í þeim tilgangi að auka skilvirkni almenna kerfisins, að senda framkvæmdastjórninni skrá yfir viðkomandi prófskírteini.

Birta ber skrárnar með áorðnum breytingum til að auðveldara sé að lesa viðauka C og D.

Þær ráðstafanir sem kveðið er á um í þessari tilskipun eru í samræmi við álit nefndarinnar sem komið var á fót samkvæmt 15. gr. tilskipunar 92/51/EBE.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Viðaukum C og D við tilskipun 92/51/EBE er hér með breytt eins og fram kemur í I. viðauka við þessa tilskipun.

2. gr.

Skrárnar yfir starfsnám og starfsþjálfun í viðaukum C og D við tilskipun 92/51/EBE er að finna með áorðnum breytingum í II. viðauka við þessa tilskipun.

3. gr.

1. Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og

stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 1. október 1994. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau verða birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem samþykkt verða um málefni sem tilskipun þessi nær til.

4. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á 20. degi frá því að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins

Gjört í Brussel 26. júlí 1994.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,

Raniero VANNI D'ARCHIRAFI

framkvæmdastjóri.

VIÐAUKI I

1. Eftirfarandi breytingar eru gerðar á viðauka C:

1. Undir fyrirsögninni ,,Í Þýskalandi" í ,,1. Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna":

a) verði annar undirliður sem hér segir:

,,- sjúkraþjálfara (,,Krankengymnast(in)/Physiotherapeut(in)")(1)";

b) bætast eftirtaldir undirliðir við:

,,- aðstoðartæknimenn á læknarannsóknarstofum (,,medizinisch-technische(r) Laboratoriums-Assistent(in)"),

- aðstoðartæknimenn á sviði geislalækninga (,,medizinisch-technische(r) Radiologie-Assistent(in)"),

- aðstoðartæknimenn á sviði sjúkdómsgreiningar (,,medizinisch-technische(r) Assistent(in) für Funktionsdiagnostik"),

- aðstoðartæknimenn á sviði dýralækninga (,,veterinärmedizinisch-technische(r) Assistent(in)"),

- næringarfræðinga (,,Diätassistent(in)"),

- tæknimenn á sviði lyfjafræði (,,Pharmazieingenieur"), lokið fyrir 31. mars 1994 í fyrrum Þýska alþýðulýðveldinu eða á yfirráðasvæði hinna nýju sambandsríkja,

- geðhjúkrunarfræðinga (,,Psychiatrische(r) Krankenschwester/Krankenpfleger"),

- talkennara (,,Sprachtherapeut(in)")."

2. Undir ,,Á Ítalíu" í ,,4. Tækninám":

- falli niður þriðji undirliður: ,,- endurskoðendur (ragioniero) og viðskiptaráðgjafa (perito commerciale)",

- falli niður fjórði undirliður: ,,- starfsráðgjafa (consulente del lavoro)",

- hljóði sjötti undirliður sem hér segir: ,,- þegar um er að ræða nám fyrir landbúnaðarráðgjafa, að lokinni minnst tveggja ára starfsreynslu."

2. Eftirfarandi þáttur bætist við viðauka D:

,,Í Þýskalandi:

eftirfarandi lögverndað nám:

- lögverndað nám til undirbúnings störfum aðstoðarmanns á tæknisviði (,,technische(r) Assistent(in)"), aðstoðarmanns á viðskiptasviði (,,kaufmännishce(r) Assistent(in)"), starfsgreinum á vettvangi félagsmála (,,soziale Berufe") og starfsgreininni öndunar-, tal- og raddþjálfari viðurkenndri af ríkinu (,,staatlich geprüfte(r) Atem-, Sprech- und Stimmlehrer(in)"), sem felur í sér nám sem stendur í 13 ár hið minnsta, meðal annars próf úr framhaldsskóla (,,mittlerer Bildungsabschluß"), og nær yfir:

- minnst þriggja ára(2) starfsnám í sérskóla (,,Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem í sumum tilvikum bætist við eins eða tveggja ára sérnám sem einnig lýkur með prófi,

- eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla (,,Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst sex mánuði eða minnst sex mánaða starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

- eða minnst tveggja ára nám í sérskóla (,,Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst eitt ár eða minnst eins árs starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

- lögverndað nám fyrir starfsgreinarnar iðnfræðingur viðurkenndur af ríkinu (,,staatlich geprüfte(r) Techniker(in)"), rekstrarhagfræðingur (,,Betriebswirt(in)"), hönnuður (,,Gestalter(in)") og heimilishjálparmaður (,,Familienpfleger(in)") sem felur í sér nám sem stendur í 16 ár hið minnsta, þar sem þess er krafist að viðkomandi hafi lokið skyldunámi með fullnægjandi hætti eða sambærilegu námi og þjálfun (sem stendur í níu ár hið minnsta) og námi við fagskóla (,,Berufsschule") sem stendur í þrjú ár hið minnsta, og að lokinni minnst tveggja ára starfsreynslu felur í sér minnst tveggja ára nám og þjálfun í fullu starfi eða nám og þjálfun í hlutastarfi af samsvarandi lengd,

- lögverndað nám og lögvernduð starfsþjálfun, sem varir alls 15 ár hið minnsta, þar sem þess er krafist, almennt orðað, að viðkomandi hafi lokið skyldunámi með fullnægjandi hætti (sem stendur í níu ár hið minnsta) og starfsnámi (venjulega þriggja ára), og felur að jafnaði í sér minnst tveggja ára starfsreynslu (oftast þriggja ára) og próf sem er hluti starfsþjálfunar, en undirbúningur fyrir það felst í námi sem annaðhvort fer fram samhliða starfsþjálfuninni (minnst 1000 klukkustundir) eða er sjálfstætt fullt nám (minnst eitt ár).

Þýsk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og öðrum aðildarríkjum skrá yfir starfsnám sem fjallað er um í þessum viðauka."

II. VIÐAUKI

Skrá yfir nám sem er byggt upp á sérstakan hátt eins og um getur í ii-lið annars

undirliðar í fyrstu undirgrein a-liðar 1. gr.

1. Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna

Nám fyrir:

í Þýskalandi

- barnalækningahjúkrunarfræðinga (,,Kinderkrankenschwester/Kinderkrankenpfleger"),

- sjúkraþjálfara (,,Krankengymnast(in)/Physiotherapeut(in)")(1),

- iðjuþjálfa (Beschäftigungs- und Arbeitstherapeut(in)"),

- talkennara (,,Logopäde/Logopädin"),

- augnþjálfa (,,Orthoptist(in)"),

- fóstrur viðurkenndar af ríkinu (,,Staatlich anerkannte(r) Erzieher(in)"),

- endurhæfingarþjálfa viðurkennda af ríkinu (,,Staatlich anerkannte(r) Heilpädagoge(-in)").

- aðstoðartæknimenn á læknarannsóknarstofum (,,medizinisch-technische(r) Laboratoriums-Assistent(in)"),

- aðstoðartæknimenn á sviði geislalækninga (,,medizinisch-technische(r) Radiologie-Assistent(in)"),

- aðstoðartæknimenn á sviði sjúkdómsgreiningar (,,medizinisch-technische(r) Assistent(in) für Funktionsdiagnostik"),

- tæknimenn á sviði dýralækninga (,,veterinärmedizinisch-technische(r) Assistent(in)"),

- næringarfræðinga (,,Diätassistent(in)"),

- tæknimenn á sviði lyfjafræði (,,Pharmazieingenieur"), lokið fyrir 31. mars 1994 í fyrrum Þýska alþýðulýðveldinu eða á yfirráðasvæði hinna nýju sambandsríkja,

- geðhjúkrunarfræðinga (,,Psychiatrische(r) Krankenschwester/Krankenpfleger"),

- talkennara (,,Sprachtherapeut(in)"),

á Ítalíu

- tannfræðinga (,,odontotecnico"),

- sjóntækjafræðinga (,,ottico"),

- fótsnyrta (,,podologo"),

í Lúxemborg

- tæknimenn á sviði geislalækninga (,,assistant(e) technique médical(e) en radiologie"),

- tæknimenn á læknarannsóknarstofum (,,assistant(e) technique médical(e) de laboratoire"),

- geðhjúkrunarfræðingur (,,infirmier/ière psychiatrique"),

- tæknimenn á sviði skurðlækninga (,,assistant(e) technique médical(e) en chirurgie"),

- barnalækningahjúkrunarfræðinga (,,infirmier/ière puériculteur/trice"),

- svæfingahjúkrunarfræðingur (,,infirmier/ière anesthésiste"),

- sérmenntaða nuddara (,,masseur/euse diplômé(e)"),

- fóstrur (,,éducateur/trice"),

sem felur í sér nám sem stendur í 13 ár hið minnsta, meðal annars:

- annaðhvort minnst þriggja ára starfsnám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem í sumum tilvikum bætist við eins eða tveggja ára sérnám sem lýkur með prófi,

- eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst sex mánuði eða minnst sex mánaða starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

- eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst eitt ár eða minnst eins árs starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð.

2. Meistaranám (,,Mester/Meister/Maître") á sviði iðnnáms er fellur ekki undir tilskipanir sem eru taldar upp í viðauka A

Nám fyrir:

í Danmörku

- sjóntækjafræðinga (,,optometrist"),

þetta nám tekur alls 14 ár, að meðtalinni fimm ára starfsþjálfun sem skiptist í tveggja og hálfs árs fræðilegt nám í fagskóla og tveggja og hálfs árs starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í iðninni sem veitir rétt til að nota meistaratitilinn,

- bæklunartækna (,,ortopædimekaniker"),

þetta nám tekur alls 12,5 ár, að meðtalinni þriggja og hálfs árs starfsþjálfun sem skiptist í sex mánaða fræðilegt nám í fagskóla og þriggja ára starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í iðninni sem veitir rétt til að nota meistaratitilinn,

- bæklunarskósmiði (,,ortopædiskomager"),

þetta nám tekur alls 13,5 ár, að meðtalinni fjögurra og hálfs árs starfsþjálfun sem skiptist í tveggja ára fræðilegt nám í fagskóla og tveggja og hálfs árs starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í iðninni sem veitir rétt til að nota meistaratitilinn.

Nám fyrir:

í Þýskalandi

- sjóntækjafræðinga (,,Augenoptiker"),

- tannfræðinga (,,Zahntechniker"),

- framleiðendur og seljendur gervilima og umbúða (,,Bandagist"),

- heyrnartækna (,,Hörgeräte-Akustiker"),

- bæklunartækna (,,Orthopädiemechaniker"),

- bæklunarskósmiði (,,Orthopädieschuhmacher"),

í Lúxemborg

- sjóntækjafræðinga (,,opticien"),

- tannfræðinga (,,mécanicien dentaire"),

- heyrnarfræðinga (,,audioprothésiste"),

- bæklunartækna/gervilimafræðinga (,,mécanicien orthopédiste/bandagiste"),

- bæklunarskósmiði (,,orthopédiste-cordonnier").

Þetta nám tekur alls 14 ár, að meðtalinni minnst fimm ára þjálfun sem er liður í skipulögðu námi, og fer að hluta til fram á vinnustað og að hluta til í fagskóla, og lýkur með prófi sem viðkomandi verður að standast til að geta stundað starfsemi í þeirri iðn, annaðhvort á eigin vegum eða annarra með sambærilegri ábyrgð.

3. Sjómennska

a) Sjóflutningar

Nám fyrir:

í Danmörku

- skipstjóra (,,skibsfører"),

- yfirstýrimenn (,,overstyrmand"),

- stýrimenn sem eru einir, vaktstýrimenn (,,enestyrmand, vagthavende styrmand"),

- vaktstýrimenn (,,vagthavende styrmand"),

- yfirvélstjóra (,,maskinchef"),

- fyrstu vélstjóra (,,1. maskinmester"),

- fyrstu vélstjóra/vaktvélstjóra (,,1. maskinmester/vagthavende maskinmester"),

í Þýskalandi

- skipstjóra, stór strandferðaskip (,,Kapitän AM"),

- skipstjóra, strandferðaskip (,,Kapitän AK"),

- vaktstýrimenn, stór strandferðaskip (,,Nautischer Schiffsoffizier AMW"),

- vaktstýrimenn, strandferðaskip (,,Nautischer Schiffsoffizier AKW"),

- yfirvélstjóra, þrep C (,,Schiffsbetriebstechniker CT - Leiter von Maschinenanlagen"),

- vélstjóra, þrep C (,,Schiffsmaschinist CMa - Leiter von Maschinenanlagen"),

- yfirvélstjóra, þrep C (,,Schiffsbetriebstechniker CTW"),

- vélstjóra, þrep C - vélstjóra sem eru einir (,,Schiffsmaschinist CMaW - Technischer Alleinoffizier"),

á Ítalíu

- vaktstýrimenn (,,ufficiale di coperta"),

- yfirvélstjóra (,,ufficiale di macchina"),

í Hollandi

- yfirstýrimenn (strandferðaskip) (með viðbótarnám) (,,stuurman kleine handelsvaart (met aanvulling)"),

- vélstjóra (með prófskírteini) (,,diploma motordrijver"),

sem er sambærilegt við eftirfarandi nám:

- í Danmörku, níu ára grunnskólanám ásamt frekara faglegu grunnnámi og/eða þjónustu á sjó sem varir í 17 til 36 mánuði, en við það bætist:

- eins árs sérhæfð starfsþjálfun fyrir vaktstýrimenn,

- þriggja ára sérhæfð starfsþjálfun fyrir aðra,

- í Þýskalandi, heildarnám sem tekur 14 til 18 ár, að meðtöldu þriggja ára faglegu grunnnámi ásamt einu ári á sjó, auk eins eða tveggja ára sérhæfðrar starfsþjálfunar en við það bætist, eftir því sem við á, tveggja ára reynslutími við stjórn siglinga,

- á Ítalíu, heildarnám sem tekur alls 13 ár, þar af eru minnst fimm ár í faglegu námi sem lýkur með prófi en við það bætist eftir atvikum starfsþjálfunartími,

- í Hollandi, 14 ára nám, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf mánaða starfsþjálfunartími.

Námið skal viðurkennt samkvæmt alþjóðlega STCW-samningnum (International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers, 1978).

b) Veiðar á rúmsjó

Nám fyrir:

í Þýskalandi

- skipstjóra, úthafsveiðar (,,Kapitän BG/Fischerei"),

- skipstjóra, strandveiðar (,,Kapitän BK/Fischerei"),

- vaktstýrimenn, úthafsveiðiskip (,,Nautischer Schiffsoffizier BGW/Fischerei"),

- vaktstýrimenn, strandveiðiskip (,,Nautischer Schiffsoffizier BKW/Fischerei"),

í Hollandi

- yfirstýrimenn/vélstjóra V (,,stuurman werktuigkundige V"),

- vélstjóra IV (fiskiskip) (,,werktuigkundige IV visvaart"),

- yfirstýrimenn IV (fiskiskip) (,,stuurman IV visvaart"),

- yfirstýrimenn/vélstjóra VI (,,stuurman werktuigkundige VI"),

sem er sambærilegt við eftirfarandi nám:

- í Þýskalandi, heildarnám sem tekur 14 til 18 ár, að meðtöldu þriggja ára faglegri grunnþjálfun ásamt einu ári á sjó, auk eins eða tveggja ára sérhæfðrar starfsþjálfunar en við það bætist, eftir því sem við á, tveggja ára reynslutími við stjórn siglinga,

- í Hollandi, nám sem varir í 13 til 15 ár, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf mánaða starfsþjálfunartími.

Námið skal viðurkennt samkvæmt Torremolinos-samningnum (1977 International Convention for the Safety of Fishing Vessels).

4. Tækninám

Nám fyrir:

á Ítalíu

- landmælingamenn (,,geometra"),

- landbúnaðarráðgjafa (,,perito agrario"),

er felur í sér minnst 13 ára tækninám á framhaldsskólastigi, þar af eru átta ár skyldunám auk fimm ára náms á framhaldsskólastigi, þar af eru þrjú ár í starfsnámi er lýkur með stúdentsprófi á tæknisviði, en við það bætist,

- þegar um er að ræða nám fyrir landmælingamenn: annaðhvort starfsreynslutími í minnst tvö ár á fagstofu, eða fimm ára starfsreynsla,

- þegar um er að ræða nám fyrir landbúnaðarráðgjafa, minnst tveggja ára starfsreynsla ásamt prófi sem er viðurkennt af ríkinu.

Nám fyrir:

í Hollandi

- fógetafulltrúa (,,gerechtsdeurwaarder"),

sem felur í sér almennt nám og starfsþjálfun er í allt tekur 19 ár, þar af eru átta ár í skyldunámi ásamt átta árum á framhaldsskólastigi, en fjögur þeirra skulu vera á tæknisviði, og lýkur með prófi viðurkenndu af ríkinu en við það bætist þriggja ára fræðilegt og verklegt starfsnám.

5. Nám í Breska konungsríkinu sem er viðurkennt sem ,,National Vocational Qualifications or Scottish Vocational Qualifications"

Nám fyrir:

- vísindalega aðstoðarmenn við læknarannsóknarstofur (,,Medical Laboratory Scientific Officer"),

- námurafmagnsverkfræðinga (,,Mine Electrical Engineer"),

- námuvélaverkfræðinga (,,Mine Mechanical Engineer"),

- viðurkennda félagsráðgjafa - á sviði geðheilbrigðis (,,Approved Social Worker - Mental Health"),

- tilsjónarmenn (,,Probation Officer"),

- tannfræðinga (,,Dental Therapist"),

- tannhirða (,,Dental Hygienist"),

- sjóntækjafræðinga (,,Dispensing optician"),

- aðstoðarmenn námuverkfræðinga (,,Mine Deputy"),

- skiptastjóra (,,Insolvency Practitioner"),

- viðurkennda lögbókendur við afsal og fasteignagjörninga (,,Licensed Conveyancer"),

- gervilimasmiði (,,Prosthetist"),

- fyrstu stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - án takmarkana (,,First Mate - Freight/Passenger ships - Unrestricted"),

- aðra stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - án takmarkana (,,Second Mate - Freight/Passenger ships - Unrestricted"),

- þriðju stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - án takmarkana (,,Third Mate - Freight/Passenger ships - Unrestricted"),

- vaktstýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - án takmarkana (,,Deck Officer - Freight/Passenger ships - Unrestricted"),

- yfirvélstjóra á flutninga- og farþegaskipum - viðskiptasvæði án takmarkana (,,Engineer Officer - Freight/Passenger ships - Unlimited Trading Area"),

- umboðsaðila vörumerkja (,,Trade Mark Agent"),

er felur í sér menntun og hæfi sem er viðurkennt sem ,,National Vocational Qualifications" (NVQ) eða sem ,,National Council for Vocational Qualifications" samþykkir og viðurkennir sem jafngilt, eða er viðurkennt í Skotlandi sem ,,Scottish Vocational Qualifications", á 3. og 4. stigi í ,,National Framework of Vocational Qualifications" í Breska konungsríkinu.

Þessi stig eru skilgreind sem hér segir:

- 3. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða bæði flókin störf og störf sem eru ekki venjubundin. Um verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð er að ræða og jafnframt er oft krafist umsjónar með öðrum eða leiðsagnar.

- 4. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs, bæði er varðar tæknileg og fagleg atriði, og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð. Oft er jafnframt um að ræða ábyrgð á störfum annarra og skipulagningu starfseminnar.

Skrá yfir nám sem er byggt upp á sérstakan hátt eins og um getur

í þriðja undirlið b-liðar í fyrstu undirgrein 3. gr.

Í Breska konungsríkinu

Lögverndað nám er felur í sér menntun og hæfi sem ,,National Council for Vocational Qualifications" viðurkennir sem ,,National Vocational Qualifications" (NVQ), eða er viðurkennt í Skotlandi sem ,,Scottish

Vocational Qualifications", á 3. og 4. stigi í ,,National Framework of Vocational Qualifications" í Breska konungsríkinu.

Þessi stig eru skilgreind sem hér segir:

- 3. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða bæði flókin störf og störf sem eru ekki venjubundin. Um verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð er að ræða og jafnframt er oft krafist umsjónar með öðrum eða leiðsagnar.

- 4. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs, bæði er varðar tæknileg og fagleg atriði, og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð. Oft er jafnframt um að ræða ábyrgð á störfum annarra og skipulagningu starfseminnar.

Í Þýskalandi

Eftirfarandi lögverndað nám:

- lögverndað nám til undirbúnings störfum aðstoðarmanns á tæknisviði (,,technische(r) Assistent(in)"), aðstoðarmanns á viðskiptasviði (,,kaufmännishce(r) Assistent(in)"), starfsgreinum á vettvangi félagsmála (,,soziale Berufe") og starfsgreininni öndunar-, tal- og raddþjálfari viðurkenndri af ríkinu (,,staatlich geprüfte(r) Atem-, Sprech- und Stimmlehrer(in)"), sem felur í sér nám sem stendur í 13 ár hið minnsta, meðal annars próf úr framhaldsskóla (,,mittlerer Bildungsabschluß"), og nær yfir:

- minnst þriggja ára(1) starfsnám í sérskóla ("Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem í sumum tilvikum bætist við eins eða tveggja ára sérnám sem einnig lýkur með prófi,

- eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla (,,Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst sex mánuði eða minnst sex mánaða starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

- eða minnst tveggja ára nám í sérskóla (,,Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst eitt ár eða minnst eins árs starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDA-

LAGANNA HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,

með hliðsjón af tilskipun ráðsins 92/51/EBE frá 18. júní 1992 um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE(1), eins og henni var breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 94/38/EB(2), einkum 15. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

Þegar framkvæmdastjórnin fjallar um rökstudda beiðni um að námi verði bætt við eða tekið út af skránni í viðaukum C eða D ber henni, samkvæmt

2. mgr. 15. gr. tilskipunar 92/51/EBE, einkum að ganga úr skugga um að prófskírteini sem eru veitt vegna umrædds náms séu vitnisburður um að starfsmenntun eða starfsþjálfun viðkomandi sé á sambærilegu stigi við það æðra nám sem um getur í i-lið annars undirliðar fyrstu undirgreinar a-liðar 1. gr. og að hann geti tekist á við sambærilega ábyrgð og verksvið.

Ríkisstjórn Hollands hefur lagt fram rökstudda beiðni um breytingu á viðaukum C og D við tilskipun 92/51/EBE og ríkisstjórn Austurríkis hefur lagt fram rökstudda beiðni um breytingu á viðauka D.

Námið sem bæta á við skrána í viðauka C við tilskipun 92/51/EBE, að því er varðar Holland, er sambærilegt bæði hvað varðar uppbyggingu og lengd og ábyrgð og verksvið við það sem þegar er skráð í viðaukanum.

Í samræmi við 2. gr. tilskipunar 92/51/EBE gilda ákvæði þessarar tilskipunar ekki um störf sem heyra undir tilskipanir sem eru taldar upp í viðauka A, að meðtöldum tilskipunum sem eru látnar gilda um iðkun launaðra starfa sem eru talin upp í viðauka B, jafnvel þó að ríkisborgari aðildarríkis hafi lokið "námi sem er byggt upp á sérstakan hátt" er um getur í viðauka D.

Námið sem bæta á við skrána í viðauka D við tilskipun 92/51/EBE, að því er varðar Holland og Austurríki, er sambærilegt að uppbyggingu og lengd við tiltekið nám sem er tilgreint í viðauka C og við sumt af því námi sem fyrir er í viðauka D og varir ævinlega í minnst 13 ár.

Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 17. gr. tilskipunar 92/51/EBE og í þeim tilgangi að auka skilvirkni almenna kerfisins ber þeim aðildarríkjum sem hafa nám á skrá í viðauka D að senda framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum skrá yfir viðkomandi prófskírteini.

Birta ber skrárnar með áorðnum breytingum til að auðveldara sé að lesa viðauka C og D við tilskipun 92/51/EBE.

Ráðstafanirnar sem kveðið er á um í þessari tilskipun eru í samræmi við álit nefndarinnar sem komið var á fót samkvæmt 15. gr. tilskipunar 92/51/EBE.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Viðaukum C og D við tilskipun 92/51/EBE er hér með breytt eins og fram kemur í I. viðauka við þessa tilskipun.

2. gr.

Skrárnar yfir nám í viðaukum C og D við tilskipun 92/51/EBE er að finna með áorðnum breytingum í II. viðauka við þessa tilskipun.

3. gr.

1. Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og

stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 31. október 1995. Þau skulu tilkynna það framvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau verða birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem samþykkt verða um málefni sem tilskipun þessi nær til.

4. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi frá því að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 20. júlí 1995.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,

Mario MONTI

framkvæmdastjóri.

I. VIÐAUKI

A. Eftirfarandi breytingar eru gerðar á viðauka C:

1. a) Í liðnum "1. Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna", á eftir fyrirsögninni "Í Lúxemborg er eftirfarandi fyrirsögn og undirlið bætt við á eftir síðasta undirlið "kennslu- og uppeldisfræðinga ("éducateur/trice"):

"Í Hollandi:

- aðstoðarmenn dýralækna ("dierenartassistent")".

b) Í liðnum "1. Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna", undir fyrirsögninni "sem felur í sér nám sem stendur í 13 ár hið minnsta, meðal annars:" er eftirfarandi undirlið bætt við á eftir síðasta undirlið:

"- eða, ef um ræðir aðstoðarmann dýralæknis ("dierenartassistent") í Hollandi, annaðhvort þriggja ára starfsnám í sérskóla ("MBO"-kerfið) eða þriggja ára samþættingarnám á námssamningi ("LLW"), sem hvoru tveggja lýkur með prófi."

2. a) Í liðnum "3. Sjómennska a) Sjóflutningar", undir fyrirsögninni "Í Hollandi" er eftirfarandi undirlið bætt við:

"- skipaumferðarstjóra ("VTS-functionaris")".

b) Í liðnum "3. Sjómennskaa) Sjóflutningar", undir fyrirsögninni "sem er sambærilegt við eftirfarandi nám:" komi eftirfarandi í stað undirliðarins "- í Hollandi, 14 ára nám, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf mánaða starfsþjálfunartími,":

"- í Hollandi:

- að því er varðar yfirstýrimenn (á strandferðaskipum) (með viðbótarnám) ("stuurman kleine handelsvaart (met aanvulling)") og vélstjóra (með prófskírteini) ("diploma motordrijver"), 14 ára nám, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf mánaða starfsþjálfunartími,

- að því er varðar skipaumferðarstjóra ("VTS-functionaris"), minnst 15 ára nám alls, þar af er minnst þriggja ára æðra starfsnám ("HBO") eða starfsnám í sérskóla á miðstigi ("MBO"), þar sem við bætast sérhæfð námskeið, innanlands eða bundin við tiltekin svæði, sem fela hvert um sig í sér minnst 12 vikna fræðilegt starfsnám og lýkur hverju um sig með prófi."

3. a) Í liðnum "4. Tæknisvið", undir fyrirsögninni "Í Hollandi" er eftirfarandi undirlið bætt við:

"- klíníska tannsmiði ("tandprotheticus")".

b) Í liðnum "4. Tæknisvið", undir fyrirsögninni "Í Hollandi" komi eftirfarandi í stað núverandi kafla

sem kemur á eftir undirliðnum "fógetafulltrúa":

" sem felur í sér almennt nám og starfsnám

- að því er varðar fógetafulltrúa ("gerechtsdeurwaarder"), sem tekur 19 ár alls, þar af eru átta ár í skyldunámi ásamt átta árum á framhaldsskólastigi, en fjögur þeirra skulu vera á tæknisviði, og sem lýkur með prófi viðurkenndu af ríkinu en við það bætist þriggja ára fræðilegt og verklegt starfsnám,

- að því er varðar klíníska tannsmiði ("tandprotheticus"), sem tekur 15 ár alls í fullu námi og þrjú ár í hlutanámi, þar af eru átta ár í skyldunámi ásamt fjórum árum á almennu framhaldsskólastigi, þrjú ár í starfsnámi, þar með talið fræðilegt og verklegt nám sem tannsmiður, að viðbættu þriggja ára hlutanámi sem klínískur tannsmiður, er lýkur með prófi."

B. Eftirfarandi þættir bætast við viðauka D:

a) "Í Hollandi:

Eftirfarandi lögverndað nám:

- Lögverndað nám sem tekur minnst 15 ár alls og þar sem það er gert að skilyrði að fyrst hafi verið lokið átta ára skyldunámi ásamt fjögurra ára almennu framhaldsskólanámi á miðstigi ("MAVO") eða fjögurra ára undirbúningsstarfsnámi ("VBO") eða almennu framhaldsskólanámi á seinna stigi, svo og að lokið sé við þriggja eða fjögurra ára starfsnám í sérskóla á miðstigi ("MBO"), sem lýkur með prófi,

- lögverndað nám sem tekur minnst 16 ár alls og þar sem það er gert að skilyrði að fyrst hafi verið lokið átta ára skyldunámi ásamt fjögurra ára undirbúningsstarfsnámi ("VBO") eða seinna stigi almennrar framhaldsskólamenntunar, svo og að lokið sé við minnst fjögurra ára nám á námssamningi, sem felur í sér fræðilegt nám í skóla í minnst einn dag í hverri viku og verklegt nám í starfsþjálfunarstöð eða hjá fyrirtæki aðra daga, og sem lýkur með annars eða þriðja stigs prófi.

Hollensk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum skrá yfir það nám sem fellur undir þennan viðauka."

b)"Í Austurríki:

- Nám í starfsmenntaskóla á æðra stigi ("Berufsbildende Höhere Schulen") og menntastofnunum á æðra skólastigi á sviði landbúnaðar og skógræktar ("Höhere Land- und Forstwirtschaftliche Lehranstalten"), þar með talin sérstök námssvið ("einschließlich der Sonderformen"), þar sem uppbygging og námskröfur ákvarðast af lögum og stjórnsýslufyrirmælum.

Hér er um að ræða nám sem tekur minnst 13 ár og í því felst fimm ára starfsnám og starfsþjálfun sem lýkur með lokaprófi og sé árangur fullnægjandi telst það vera sönnun um faglega hæfni.

- Nám í meistaraskólum ("Meisterschulen"), meistarabekkjum ("Meisterklassen"), iðnmeistaraskólum ("Werkmeisterschulen") eða skólum fyrir byggingariðnaðarmenn ("Bauhandwerkerschulen") þar sem uppbygging og námskröfur ákvarðast af lögum og stjórnsýslufyrirmælum.

Hér er um að ræða nám sem tekur minnst 13 ár, en í því felst níu ára skyldunám, svo og annaðhvort þriggja ára starfsnám í sérskóla eða minnst þriggja ára þjálfun hjá fyrirtæki og samhliða þjálfun í starfsmenntaskóla ("Berufsschule"), en hvoru tveggja lýkur með prófi og við bætist fullnægjandi árangur í minnst eins árs námi í meistaraskóla ("Meisterschule"), meistarabekkjum ("Meisterklassen"), iðnmeistaraskóla ("Werkmeisterschulen") eða skólum fyrir byggingariðnaðarmenn ("Bauhandwerkerschule"). Í flestum tilvikum tekur námið minnst 15 ár alls og í því felast tímabil starfsreynslu, annaðhvort á undan námi í þessum skólum eða samhliða hlutanámi (minnst 960 stundir).

Austurrísk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og aðildarríkjunum skrá yfir það nám sem fellur undir þennan viðauka."

II. VIÐAUKI

Skrá yfir nám sem er byggt upp á sérstakan hátt eins og um getur í ii-lið

annars undirliðar í fyrstu undirgrein a-liðar 1. gr.

(VIÐAUKI C VIÐ TILSKIPUN 92/51/EBE)

1. Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna

Nám fyrir:

í Þýskalandi:

- barnahjúkrunarfræðinga ("Kinderkrankenschwester/Kinderkrankenpfleger"),

- sjúkraþjálfara ("Krankengymnast(in)/Physiotherapeut(in)")(1),

- iðjuþjálfa ("Beschäftigungs- und Arbeitstherapeut(in)"),

- talkennara ("Logopäde/Logopädin"),

- augnþjálfa ("Orthoptist(in)"),

- kennslu- og uppeldisfræðinga viðurkennda af ríkinu ("Staatlich anerkannte(r) Erzieher(in)"),

- sérkennara viðurkennda af ríkinu ("Staatlich anerkannte(r) Heilpädagoge(-in)"),

- meinatækna ("medizinisch-technische(r) Laboratoriums-Assistent(in)"),

- röntgentækna ("medizinisch-technische(r) Radiologie-Assistent(in)"),

- meinatækna á sviði lífeðlisfræði ("medizinisch-technische(r) Assistent(in) für Funktionsdiagnostik"),

- aðstoðarmenn á sviði dýralækninga ("veterinärmedizinisch-technische(r) Assistent(in)"),

- næringarfræðinga ("Diätassistent(in)"),

- lyfjatækna ("Pharmazieingenieur"), lokið fyrir 31. mars 1994 í fyrrum Þýska alþýðulýðveldinu eða á yfirráðasvæði hinna nýju sambandsríkja,

- geðhjúkrunarfræðinga ("Psychiatrische(r) Krankenschwester/Krankenpfleger"),

- talkennara ("Sprachtherapeut(in)"),

á Ítalíu:

- tannfræðinga ("odontotecnico"),

- sjóntækjafræðinga ("ottico"),

- fótaaðgerðafræðinga ("podologo"),

í Lúxemborg:

- röntgentækna ("assistant(e) technique médical(e) en radiologie"),

- meinatækna ("assistant(e) technique médical(e) de laboratoire"),

- geðhjúkrunarfræðinga ("infirmier/ière psychiatrique"),

- aðstoðarmenn á sviði skurðlækninga ("assistant(e) technique médical(e) en chirurgie"),

- barnahjúkrunarfræðinga ("infirmier/ière puériculteur/trice"),

-- svæfingahjúkrunarfræðinga ("infirmier/ière anesthésiste"),

- viðurkennda nuddara ("masseur/euse diplômé(e)"),

- kennslu- og uppeldisfræðinga ("éducateur/trice"),

í Hollandi:

- aðstoðarmenn dýralækna ("dierenartassistent"),

sem felur í sér nám sem tekur minnst 13 ár alls, meðal annars:

i) annaðhvort minnst þriggja ára starfsnám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem í sumum tilvikum bætist við eins eða tveggja ára sérnám sem lýkur með prófi,

ii) eða minnst tveggja og hálfs árs starfsnám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst sex mánuði eða minnst sex mánaða starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

iii) eða minnst tveggja ára starfsnám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst eitt ár eða minnst eins árs starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

iv) eða, ef um ræðir aðstoðarmann dýralæknis ("dierenartassistent") í Hollandi, annaðhvort þriggja ára starfsnám í sérskóla ("MBO"-kerfið) eða þriggja ára samþættingarnám á námssamningi ("LLW"), sem hvoru tveggja lýkur með prófi.

Nám fyrir:

í Austurríki:

- augnlinsufræðinga ("Kontaktlinsenoptiker"),

- fótaaðgerðafræðinga ("Fußpfleger"),

- heyrnartækna ("Hörgeräteakustiker"),

- lyfsala ("Drogist"),

sem felur í sér nám sem tekur minnst 14 ár alls, að meðtöldu minnst fimm ára starfsnámi sem er liður í skipulögðu námi sem skiptist annars vegar í þriggja ára nám á námssamningi, sem fer að hluta til fram á vinnustað og að hluta til í starfsmenntaskóla, og hins vegar tímabil starfsreynslu og -þjálfunar, og lýkur með prófi í viðkomandi grein sem veitir rétt til að starfa í greininni og þjálfa lærlinga,

- nuddara ("Masseur"),

sem felur í sér nám sem tekur 14 ár alls, að meðtöldu fimm ára starfsnámi sem er liður í skipulögðu námi og felur í sér tveggja ára nám á námssamningi, tveggja ára tímabil starfsreynslu og -þjálfunar og eins árs starfsnám sem lýkur með prófi sem veitir rétt til að starfa í greininni og þjálfa lærlinga,

- leikskólakennara ("Kindergärtner/in"),

- kennslu- og uppeldisfræðinga ("Erzieher"),

sem felur í sér nám sem tekur 13 ár alls, að meðtöldu fimm ára starfsnámi í sérskóla, og lýkur með prófi.

2. Meistaranám ("Mester/Meister/Maître") á sviði iðnnáms er fellur ekki undir tilskipanir sem eru taldar upp í viðauka A

Nám fyrir:

Í Danmörku:

- sjóntækjafræðinga ("optometrist"),

hér er um að ræða nám sem tekur 14 ár alls, að meðtöldu fimm ára starfsnámi sem skiptist í tveggja og hálfs árs fræðilegt nám í starfsmenntaskóla og tveggja og hálfs árs starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í greininni sem veitir rétt til að nota titilinn meistari,

- stoðtækjasmiði ("ortopædimekaniker"),

hér er um að ræða nám sem tekur 12,5 ár alls, að meðtöldu þriggja og hálfs árs starfsnámi sem skiptist í sex mánaða fræðilegt nám í starfsmenntaskóla og þriggja ára starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í greininni sem veitir rétt til að nota titilinn meistari,

- bæklunarskósmiði ("ortopædiskomager"),

hér er um að ræða nám sem tekur 13,5 ár alls, að meðtöldu fjögurra og hálfs árs starfsnámi sem skiptist í tveggja ára fræðilegt nám í starfsmenntaskóla og tveggja og hálfs árs starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í greininni sem veitir rétt til að nota titilinn meistari.

Í Þýskalandi:

- sjóntækjafræðinga ("Augenoptiker"),

- tannsmiði ("Zahntechniker"),

- framleiðendur og seljendur gervilima og umbúða ("Bandagist"),

- heyrnartækna ("Hörgeräte-Akustiker"),

- stoðtækjasmiði ("Orthopädiemechaniker"),

- bæklunarskósmiði ("Orthopädieschuhmacher").

Í Lúxemborg:

- sjóntækjafræðinga ("opticien"),

- tannsmiði ("mécanicien dentaire"),

- heyrnartækna ("audioprothésiste"),

- stoðtækjasmiði/gervilimafræðinga ("mécanicien orthopédiste/bandagiste"),

- bæklunarskósmiði ("orthopédiste-cordonnier"),

hér er um að ræða nám sem tekur 14 ár alls, að meðtöldu minnst fimm ára starfsnámi sem er liður í skipulögðu námi, og fer að hluta til fram á vinnustað og að hluta til í starfsmenntaskóla, og lýkur með prófi sem viðkomandi verður að standast til að geta starfað í greininni, annaðhvort á eigin vegum eða sem launþegi hjá öðrum með sambærilega ábyrgð.

Í Austurríki:

- framleiðendur og seljendur gervilima og umbúða ("Bandagist"),

- lífstykkjaframleiðendur ("Miederwarenerzeuger"),

- sjóntækjafræðinga ("Optiker"),

- bæklunarskósmiði ("Orthopädieschuhmacher")

- stoðtækjasmiði ("Orthopädiemechaniker")

- tannsmiði ("Zahntechniker"),

- garðyrkjumenn ("Gaertner"),

hér er um að ræða nám sem tekur 14 ár alls, að meðtöldu minnst fimm ára starfsnámi sem er liður í skipulögðu námi og skiptist í minnst þriggja ára nám á námssamningi sem felur í sér þjálfun að hluta til á vinnustað og að hluta í starfsmenntaskóla og minnst tveggja ára starfsreynslu og -þjálfun sem lýkur með meistaraprófi sem veitir rétt til að starfa í greininni, þjálfa lærlinga og nota titilinn meistari.

Nám fyrir meistara á sviði landbúnaðar og skógræktar, nánar tiltekið:

- meistara á sviði landbúnaðar ("Meister in der Landwirtschaft"),

- meistara á sviði búhagfræði ("Meister in der ländlichen Hauswirtschaft"),

- meistara á sviði garðyrkju ("Meister im Gartenbau"),

- meistara á sviði grænmetisræktunar ("Meister im Feldgemüsebau"),

- meistara á sviði ávaxtaræktunar og ávaxtavinnslu ("Meister im Obstbau und in der Obstverwertung"),

- meistara á sviði vínræktar og vínframleiðslu ("Meister im Weinbau und in der Kellerwirtschaft"),

- meistara á sviði mjólkurvinnslu ("Meister in der Molkerei- und Käsereiwirtschaft"),

- meistara á sviði hrossaræktar ("Meister in der Pferdewirtschaft"),

- meistara á sviði fiskvinnslu ("Meister in der Fischereiwirtschaft"),

- meistara á sviði alifuglaræktar ("Meister in der Geflügelwirtschaft"),

- meistara á sviði býflugnaræktar ("Meister in der Bienenwirtschaft"),

- meistara á sviði skógræktar ("Meister in der Forstwirtschaft"),

- meistara á sviði skógræktar og skógvörslu ("Meister in der Forstgarten- und Forstpflegewirtschaft"),

- meistara á sviði landbúnaðarbirgðavörslu ("Meister in der landwirtschaftlichen Lagerhaltung"),

hér er um að ræða nám sem tekur 15 ár alls, að meðtöldu minnst sex ára starfsnámi sem er liður í skipulögðu námi og skiptist í minnst þriggja ára nám á námssamningi sem felur í sér þjálfun að hluta til á vinnustað og að hluta í starfsmenntaskóla og minnst þriggja ára starfsreynslu sem lýkur með meistaraprófi sem veitir rétt til að starfa í greininni, þjálfa lærlinga og nota titilinn meistari.

3. Sjómennska

a) Sjóflutningar

Nám fyrir:

í Danmörku:

- skipstjóra ("skibsfører"),

- yfirstýrimenn ("overstyrmand"),

- stýrimenn sem eru einir, vaktstýrimenn ("enestyrmand, vagthavende styrmand"),

- vaktstýrimenn ("vagthavende styrmand"),

- yfirvélstjóra ("maskinchef"),

- fyrstu vélstjóra ("1. maskinmester"),

- fyrstu vélstjóra/vaktvélstjóra ("1. maskinmester/vagthavende maskinmester"),

í Þýskalandi:

- skipstjóra, stór strandferðaskip ("Kapitän AM"),

- skipstjóra, strandferðaskip ("Kapitän AK"),

- vaktstýrimenn, stór strandferðaskip ("Nautischer Schiffsoffizier AMW"),

- vaktstýrimenn, strandferðaskip ("Nautischer Schiffsoffizier AKW"),

- yfirvélstjóra, þrep C ("Schiffsbetriebstechniker CT - Leiter von Maschinenanlagen"),

- vélstjóra, þrep C ("Schiffsmaschinist CMa - Leiter von Maschinenanlagen"),

- yfirvélstjóra, þrep C ("Schiffsbetriebstechniker CTW"),

- vélstjóra, þrep C - vélstjóra sem eru einir ("Schiffsmaschinist CMaW - Technischer Alleinoffizier"),

á Ítalíu:

- vaktstýrimenn ("ufficiale di coperta"),

- yfirvélstjóra ("ufficiale di macchina"),

í Hollandi:

- yfirstýrimenn (á strandferðaskipum) (með viðbótarnám) ("stuurman kleine handelsvaart (met aanvulling)"),

- vélstjóra (með prófskírteini) ("diploma motordrijver"),

- skipaumferðarstjóra ("VTS-functionaris"),

sem felur í sér eftirfarandi nám:

- í Danmörku, níu ára grunnskólanám ásamt faglegu grunnnámi og/eða siglingatíma 17 til 36 mánuði, en við það bætist:

i) eins árs sérhæft starfsnám fyrir vaktstýrimenn,

ii) þriggja ára sérhæft starfsnám fyrir aðra,

- í Þýskalandi, nám sem tekur 14 til 18 ár alls, að meðtöldu þriggja ára faglegu grunnnámi ásamt eins árs siglingatíma, auk eins eða tveggja ára sérhæfðs starfsnáms en við það bætist, eftir því sem við á, tveggja ára starfsreynslutími við siglingar,

- á Ítalíu, nám sem tekur 13 ár alls, þar af minnst fimm ára starfsnám sem lýkur með prófi en við það bætist eftir atvikum starfsþjálfunartími,

- í Hollandi:

i) að því er varðar yfirstýrimenn (á strandferðaskipum) (með viðbótarnám) ("stuurman kleine handelsvaart (met aanvulling)") og vélstjóra (með prófskírteini) ("diploma motordrijver"), 14 ára nám, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf mánaða starfsþjálfunartími,

ii) að því er varðar skipaumferðarstjóra ("VTS-functionaris"), minnst 15 ára nám alls, þar af er minnst þriggja ára æðra starfsnám ("HBO") eða starfsnám í sérskóla á miðstigi ("MBO"), þar sem við bætast sérhæfð námskeið, innanlands eða bundin við tiltekin svæði, sem fela hvert um sig í sér minnst 12 vikna fræðilegt nám og lýkur hverju um sig með prófi.

Námið skal viðurkennt innan ramma hins alþjóðlega STCW-samnings (alþjóðasamnings um nám, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978).

b) Veiðar á rúmsjó

Nám fyrir:

í Þýskalandi:

- skipstjóra, úthafsveiðar ("Kapitän BG/Fischerei"),

- skipstjóra, strandveiðar ("Kapitän BK/Fischerei"),

- vaktstýrimenn, úthafsveiðiskip ("Nautischer Schiffsoffizier BGW/Fischerei"),

- vaktstýrimenn, strandveiðiskip ("Nautischer Schiffsoffizier BKW/Fischerei"),

í Hollandi:

- yfirstýrimenn/vélstjóra V ("stuurman werktuigkundige V"),

- vélstjóra IV (fiskiskip) ("werktuigkundige IV visvaart"),

- yfirstýrimenn IV (fiskiskip) ("stuurman IV visvaart"),

- yfirstýrimenn/vélstjóra VI ("stuurman werktuigkundige VI"),

sem felur í sér eftirfarandi nám:

- í Þýskalandi, nám sem tekur 14 til 18 ár alls, að meðtöldu þriggja ára faglegu grunnnámi ásamt eins árs siglingatíma, auk eins eða tveggja ára sérhæfðs starfsnáms en við það bætist, eftir því sem við á, tveggja ára starfsreynslutími við siglingar,

- í Hollandi, nám sem tekur 13 til 15 ár, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf mánaða starfsreynslutími,

og skal námið viðurkennt samkvæmt Torremolinos-samningnum (alþjóðasamningi um öryggi fiskiskipa frá 1977).

4. Tækninám

Nám fyrir:

á Ítalíu:

- landmælingamenn ("geometra"),

- landbúnaðarráðgjafa ("perito agrario"),

sem felur í sér alls minnst 13 ára tækninám á framhaldsskólastigi, þar af átta ára skyldunám auk fimm ára náms á framhaldsskólastigi, þar af eru þrjú ár í starfsnámi er lýkur með stúdentsprófi á tæknisviði, en við það bætist:

i) þegar um er að ræða nám fyrir landmælingamenn, annaðhvort starfsþjálfun í minnst tvö ár á fagstofu, eða fimm ára starfsreynsla,

ii) þegar um er að ræða nám fyrir landbúnaðarráðgjafa, minnst tveggja ára starfsþjálfun,

og lýkur með prófi sem er viðurkennt af ríkinu,

í Hollandi:

- fógetafulltrúa ("gerechtsdeurwaarder"),

- klíníska tannsmiði ("tandprotheticus"),

sem felur í sér almennt nám og starfsnám:

i) að því er varðar fógetafulltrúa ("gerechtsdeurwaarder"), er tekur 19 ár alls, þar af eru átta ár í skyldunámi ásamt átta árum á framhaldsskólastigi, en fjögur þeirra skulu vera á tæknisviði, og sem lýkur með prófi viðurkenndu af ríkinu en við það bætist þriggja ára fræðilegt og verklegt starfsnám,

ii) að því er varðar klíníska tannsmiði ("tandprotheticus"), er tekur 15 ár alls í fullu námi og þrjú ár í hlutanámi, þar af eru átta ár í skyldunámi ásamt fjórum árum á almennu framhaldsskólastigi, þrjú ár í starfsnámi, þar með talið fræðilegt og verklegt nám sem tannsmiður, að viðbættu þriggja ára hlutanámi sem klínískur tannsmiður, sem lýkur með prófi,

í Austurríki:

- skógfræðinga ("Förster"),

- tæknilega ráðgjafa ("Technisches Büro"),

- þá sem starfa við leigumiðlun vinnuafls ("Überlassung von Arbeitskräften - Arbeitsleihe"),

- atvinnumiðlara ("Arbeitsvermittlung"),

- fjárfestingaráðgjafa ("Vermögensberater"),

- einkaleynilögreglumenn ("Berufsdetektiv"),

- öryggisverði ("Bewachungsgewerbe"),

- fasteignasala ("Immobilienmakler"),

- umsjónarmenn fasteigna ("Immobilienverwalter"),

- starfsmenn á auglýsinga- og kynningarstofum ("Werbeagentur"),

- skipuleggjendur byggingarframkvæmda ("Bauträger, Bauorganisator, Baubetreuer"),

- starfsmenn hjá innheimtustofnunum ("Inkassoinstitut"),

sem felur í sér 15 ára nám alls, þar af eru átta ár í skyldunámi og að lágmarki fimm ára nám á framhaldsskólastigi, á tækni- eða verslunarsviði, sem lýkur með prófi á því sviði, að viðbættu minnst tveggja ára námi og þjálfun á vinnustað sem lýkur með prófi í viðkomandi grein,

- tryggingaráðgjafa ("Berater in Versicherungsangelegenheiten"),

sem felur í sér 15 ára nám alls, að meðtöldu sex ára starfsnámi sem er liður í skipulögðu námi og felur í sér þriggja ára nám á námssamningi og þriggja ára starfsreynslu og -þjálfunartímabil, sem lýkur með prófi,

- byggingameistara/þá sem sjá um skipulagningu og tæknilega útreikninga ("Planender Baumeister"),

- trésmíðameistara/þá sem sjá um skipulagningu og tæknilega útreikninga ("Planender Zimmermeister"),

sem felur í sér minnst 18 ára nám alls, að meðtöldu minnst níu ára starfsnámi sem skiptist í fjögurra ára nám á framhaldsskólastigi á tæknisviði og fimm ára starfsreynslu og -þjálfun sem lýkur með prófi er veitir rétt til að starfa í greininni og þjálfa lærlinga, hafi þetta nám falið í sér rétt til að skipuleggja byggingar, gera tæknilega útreikninga og hafa umsjón með byggingarvinnu (Mariu Theresu-forréttindi).

5. Nám í Breska konungsríkinu sem er viðurkennt sem "National Vocational Qualifications" eða "Scottish Vocational Qualifications"

Nám fyrir:

- vísindalega aðstoðarmenn á læknarannsóknarstofum ("medical laboratory scientific officer"),

- námurafmagnsverkfræðinga ("mine electrical engineer"),

- námuvélaverkfræðinga ("mine mechanical engineer"),

- viðurkennda félagsráðgjafa - á sviði geðheilbrigðis ("approved social worker - mental health"),

- tilsjónarmenn ("probation officer"),

- tannmeðferðaraðila ("dental therapist"),

- tannfræðinga ("dental hygienist"),

- sjóntækjafræðinga ("dispensing optician"),

- aðstoðarnámuverkfræðinga ("mine Deputy"),

- skiptastjóra ("insolvency practitioner"),

- viðurkennda lögbókendur við afsal og fasteignagjörninga ("licensed conveyancer"),

- gervilimasmiði ("prosthetist"),

- fyrstu stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað ("first mate - freight/passenger ships - unrestricted"),

- aðra stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað ("second mate - freight/passenger ships - unrestricted"),

- þriðju stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað ("third mate - freight/passenger ships - unrestricted"),

- vaktstýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað ("deck officer - freight/passenger ships - unrestricted"),

- yfirvélstjóra á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað viðskiptasvæði ("engineer officer - freight/passenger ships - unlimited trading area"),

- umboðsaðila vörumerkja ("trade mark agent"),

er felur í sér menntun og hæfi sem er viðurkennt og "National Vocational Qualifications" (NVQ) eða "National Council for Vocational Qualifications" samþykkir og viðurkennir sem jafngilt, eða er viðurkennt í Skotlandi sem "Scottish Vocational Qualifications", á 3. og 4. stigi í "National Framework of Vocational Qualifications" í Breska konungsríkinu.

Þessi stig eru skilgreind sem hér segir:

- 3. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða bæði flókin störf og störf sem eru ekki venjubundin. Um verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð er að ræða og jafnframt er oft krafist umsjónar eða leiðsagnar með öðrum.

- 4. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs, bæði er varðar flókin tæknileg og fagleg atriði, og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð. Oft er jafnframt um að ræða ábyrgð á störfum annarra og skipulagningu starfsemi.

Skrá yfir nám sem er uppbyggt á sérstakan hátt eins og um getur í þriðja

undirlið b-liðar í fyrstu undirgrein 3. gr.

(VIÐAUKI D VIÐ TILSKIPUN 92/51/EBE)

Í Breska konungsríkinu:

Lögverndað nám er felur í sér menntun og hæfi sem "National Council for Vocational Qualifications" viðurkennir sem "National Vocational Qualifications" (NVQ), eða er viðurkennt í Skotlandi sem "Scottish

Vocational Qualifications", á 3. og 4. stigi í "National Framework of Vocational Qualifications" í Breska konungsríkinu.

Þessi stig eru skilgreind sem hér segir:

- 3. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða bæði flókin störf og störf sem eru ekki venjubundin. Um verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð er að ræða og jafnframt er oft krafist umsjónar eða leiðsagnar með öðrum.

- 4. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs, bæði er varðar flókin tæknileg og fagleg atriði, og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð. Oft er jafnframt um að ræða ábyrgð á störfum annarra og skipulagningu starfsemi.

Í Þýskalandi:

Eftirfarandi lögverndað nám:

- lögverndað nám til undirbúnings störfum aðstoðarmanns á tæknisviði ("technische(r) Assistent(in)"), aðstoðarmanns á viðskiptasviði ("kaufmännishce(r) Assistent(in)"), störfum á vettvangi félagsmála ("soziale Berufe") og starfinu öndunar-, tal- og raddþjálfari, viðurkenndur af ríkinu ("staatlich geprüfte(r) Atem-, Sprech- und Stimmlehrer(in)"), sem felur í sér minnst 13 ára nám, meðal annars próf úr framhaldsskóla ("mittlerer Bildungsabschluß"), og nær yfir:

i) minnst þriggja ára (1) starfsnám í sérskóla ("Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem í sumum tilvikum bætist við eins eða tveggja ára sérnám sem einnig lýkur með prófi,

ii) eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla ("Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst sex mánuði eða minnst sex mánaða starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

iii) eða minnst tveggja ára nám í sérskóla ("Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst eitt ár eða minnst eins árs starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

- lögverndað nám fyrir starfsgreinarnar iðnfræðingur viðurkenndur af ríkinu ("staatlich geprüfte(r) Techniker(in)"), rekstrarhagfræðingur ("Betriebswirt(in)"), hönnuður ("Gestalter(in)") og starfsmaður við heimilishjálp ("Familienpfleger(in)"), sem felur í sér nám sem tekur minnst 16 ár þar sem þess er krafist að viðkomandi hafi lokið skyldunámi með fullnægjandi hætti eða sambærilegu námi (sem tekur níu ár hið minnsta) og námi við starfsmenntaskóla ("Berufsschule") sem tekur minnst þrjú ár og felur í sér, að lokinni minnst tveggja ára starfsreynslu, minnst tveggja ára fullt nám eða hlutanám af samsvarandi lengd,

- lögverndað nám og lögvernduð endurmenntun, sem varir minnst 15 ár alls, þar sem þess er almennt krafist að viðkomandi hafi lokið skyldunámi með fullnægjandi hætti (sem tekur minnst níu ár) og starfsnámi (venjulega þriggja ára), og felur að jafnaði í sér minnst tveggja ára starfsreynslu (oftast þriggja ára) og próf sem er hluti endurmenntunar, en undirbúningur fyrir það felst að jafnaði í námi sem annaðhvort fer fram samhliða starfsþjálfuninni (minnst 1000 klukkustundir) eða er fullt nám (minnst eitt ár).

Þýsk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og öðrum aðildarríkjum skrá yfir það nám sem fjallað er um í þessum viðauka.

Í Hollandi:

- Lögverndað nám sem tekur minnst 15 ár og er það gert að skilyrði að fyrst hafi verið lokið átta ára skyldunámi ásamt fjögurra ára almennu framhaldsskólanámi á miðstigi ("MAVO") eða fjögurra ára undirbúningsstarfsnámi ("VBO") eða almennu framhaldsnámi á seinna stigi, svo og að lokið sé við þriggja eða fjögurra ára starfsnám í sérskóla á miðstigi ("MBO"), sem lýkur með prófi, (1)

- lögverndað nám sem tekur minnst 16 ár og er það gert að skilyrði að fyrst hafi verið lokið átta ára skyldunámi ásamt fjögurra ára undirbúningsstarfsnámi ("VBO") eða seinna stigi almennrar framhaldsskólamenntunar, svo og að lokið sé við minnst fjögurra ára nám á námssamningi, sem felur í sér fræðilegt nám í sérskóla í minnst einn dag í hverri viku og verklegt nám í starfsþjálfunarstöð eða hjá fyrirtæki hina dagana, og sem lýkur með annars eða þriðja stigs prófi.

Hollensk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum skrá yfir það nám sem fellur undir þennan viðauka.

Í Austurríki:

- Nám í starfsmenntaskóla á æðra stigi ("Berufsbildende Höhere Schulen") og menntastofnunum á æðra skólastigi á sviði landbúnaðar og skógræktar ("Höhere Land- und Forstwirtschaftliche Lehranstalten"), þar með talin sérstök námssvið ("einschließlich der Sonderformen"), þar sem uppbygging og námskröfur ákvarðast af lögum og stjórnsýslufyrirmælum. Hér er um að ræða nám sem tekur minnst 13 ár og í því felst fimm ára starfsnám og starfsþjálfun sem lýkur með lokaprófi og sé árangur fullnægjandi telst það vera sönnun um faglega hæfni.

- Nám í meistaraskólum ("Meisterschulen"), meistarabekkjum ("Meisterklassen"), iðnmeistaraskólum ("Werkmeisterschulen") eða skólum fyrir byggingariðnaðarmenn ("Bauhandwerkerschulen") þar sem uppbygging og námskröfur ákvarðast af lögum og stjórnsýslufyrirmælum.

Hér er um að ræða nám sem tekur minnst 13 ár, en í því felst níu ára skyldunám, svo og annaðhvort þriggja ára starfsnám í sérskóla eða minnst þriggja ára þjálfun hjá fyrirtæki og samhliða þjálfun í starfsmenntaskóla ("Berufsschule"), en hvoru tveggja lýkur með prófi og við bætist fullnægjandi árangur í minnst eins árs námi í meistaraskóla ("Meisterschule"), meistarabekkjum ("Meisterklassen"), iðnmeistaraskóla ("Werkmeisterschulen") eða skólum fyrir byggingariðnaðarmenn ("Bauhandwerkerschule"). Í flestum tilvikum tekur námið minnst 15 ár alls og í því felast starfsreynslutímabil, annaðhvort á undan námi í þessum skólum eða samhliða hlutanámi (minnst 960 stundir).

Austurrísk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og aðildarríkjunum skrá yfir það nám sem fellur undir þennan viðauka."

VIÐAUKI

Skrá yfir fagsamtök eða -félög sem fullnægja skilmálum

annarrar undirgreinar d-liðar 1. gr.

ÍRLAND (1)

1. The Institute of Chartered Accountants in Ireland (2)

2. The Institute of Certified Public Accountants in Ireland (2)

3. The Association of Certified Accountants (2)

4. Institution of Engineers in Ireland

5. Irish Planning Institute

BRESKA KONUNGSRÍKIÐ

1. Institute of Chartered Accountants in England and Wales

2. Institute of Chartered Accountants of Scotland

3. Institute of Chartered Accountants in Ireland

4. Chartered Association of Certified Accountants

5. Chartered Institute of Loss Adjusters

6. Chartered Institute of Management Accountants

7. Institute of Chartered Secretaries and Administrators

8. Chartered Insurance Institute

9. Institute of Actuaries

(1) Írskir borgarar heyra einnig til eftirtaldra löggiltra samtaka á Stóra-Bretlandi:

Institute of Chartered Accountants in England and Wales

Institute of Chartered Accountants of Scotland

Institute of Actuaries

Faculty of Actuaries

The Chartered Institute of Management Accountants

Institute of Chartered Secretaries and Administrators

Royal Town Planning Institute

Royal Institution of Chartered Surveyors

Chartered Institute of Building.

(2) Að því er varðar endurskoðun eingöngu.

10. Faculty of Actuaries

11. Chartered Institute of Bankers

12. Institute of Bankers in Scotland

13. Royal Institution of Chartered Surveyors

14. Royal Town Planning Institute

15. Chartered Society of Physiotherapy

16. Royal Society of Chemistry

17. British Psychological Society

18. Library Association

19. Institute of Chartered Foresters

20. Chartered Institute of Building

21. Engineering Council

22. Institute of Energy

23. Institution of Structural Engineers

24. Institution of Civil Engineers

25. Institution of Mining Engineers

26. Institution of Mining and Metallurgy

27. Institution of Electrical Engineers

28. Institution of Gas Engineers

29. Institution of Mechanical Engineers

30. Institution of Chemical Engineers

31. Institution of Production Engineers

32. Institution of Marine Engineers

33. Royal Institution of Naval Architects

34. Royal Aeronautical Society

35. Institute of Metals

36. Chartered Institution of Building Services Engineers

37. Institute of Measurement and Control

38. British Computer Society

YFIRLÝSING FRÁ RÁÐINU OG FRAMKVÆMDASTJÓRNINNI

Vegna 1. mgr. 9. gr.

,,Ráðið og framkvæmdastjórnin eru sammála um að sérfræðistofnanir og æðri menntastofnanir skuli með viðeigandi hætti hafðar með í ráðum við ákvarðanir".

Fylgiskjal 2.

TILSKIPUN RÁÐSINS 92/51/EBE

frá 18. júní 1992

um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og

starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE

RÁÐ EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, einkum 49., 57. (1. mgr.) og 66. gr., með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar (1), í samvinnu við Evrópuþingið (2),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar (3), og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1) Samkvæmt 8. gr. a í sáttmálanum skal innri markaðurinn ná til svæðis án innri landamæra og samkvæmt c-lið 3. gr. sáttmálans er eitt af markmiðum bandalagsins að afnema höft á frjálsum fólksflutningum og frjálsri þjónustustarfsemi milli aðildarríkja. Þetta þýðir meðal annars að ríkisborgarar í aðildarríkjunum geta lagt stund á starfsgrein sína, á eigin vegum eða annarra, í öðru aðildarríki en þar sem þeir hlutu starfsmenntun sína og hæfi.

2) Í þeim starfsgreinum þar sem bandalagið hefur ekki ákveðið hvaða lágmarkskröfur um menntun og hæfi þarf að uppfylla til að iðka þær geta aðildarríkin engu að síður ákveðið slíkar lágmarkskröfur með það að markmiði að tryggja að sem best þjónusta verði veitt á þeirra yfirráðasvæði. Þau geta þó ekki, án þess að brjóta í bága við kvaðir 5., 48., 52. og 59. gr. sáttmálans, krafist þess af ríkisborgara í aðildarríki að hann verði sér úti um þá menntun og hæfi sem þau viðurkenna yfirleitt einungis með tilvísan til eigin menntakerfis, hafi hlutaðeigandi einstaklingur þegar öðlast þessa menntun og hæfi í heild eða að hluta í öðru aðildarríki. Gistiríki sem hafa lögverndaðar starfsgreinar verða af þessum sökum að taka tillit til menntunar og hæfis sem áunnin

eru í öðru aðildarríki og ákveða hvort sú menntun og hæfi svari til þess sem hlutaðeigandi aðildarríki krefst.

3) Með tilskipun ráðsins 89/48/EBE frá 21. desember 1988, um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum sem veitt eru að lokinni sérfræðimenntun og starfsþjálfun á æðra skólastigi sem staðið hefur að minnsta kosti í þrjú ár (4), er gert auðveldara að fullnægja þessum kvöðum. Hún er hins vegar bundin við æðri skólastig.

4) Til að auðvelda mönnum að stunda hverja þá atvinnustarfsemi sem er í gistiríki háð því að viðkomandi hafi lokið menntun og þjálfun á ákveðnu stigi ber að koma á öðru almennu kerfi til viðbótar hinu fyrra.

5) Almenna viðbótarkerfið verður að byggjast á sömu meginreglum og fela í sér að breyttu breytanda sömu reglur og upphaflega almenna kerfið.

6) Þessi tilskipun gildir ekki um lögverndaðar starfsgreinar er heyra undir sértilskipanir sem gegna einkum því hlutverki að koma á gagnkvæmri viðurkenningu á starfsnámi sem lokið er áður en atvinnuþátttaka hefst.

7) Hún gildir heldur ekki um starfsemi er heyrir undir sértilskipanir sem hafa einkum það hlutverk að viðurkenna fagþekkingu grundvallaða á reynslu sem hefur fengist í öðru aðildarríki. Sumar þessara tilskipana gilda einungis um sjálfstæða atvinnustarfsemi. Til að komast hjá því að slík starfsemi falli undir gildissvið þessarar tilskipunar, þegar um launþega er að ræða, sem leiddi til þess að sama atvinnustarfsemi félli undir ólíkar réttarreglur eftir því hvort hún er stunduð á eigin vegum eða annarra, ætti að láta þessar tilskipanir ná til einstaklinga sem stunda viðkomandi atvinnustarfsemi sem launþegar.

8) Almenna viðbótarkerfið hefur alls engin áhrif á beitingu 4. mgr. 48. gr. og 55. gr. sáttmálans.

9) Viðbótarkerfið verður að ná til þeirra skólastiga sem upphaflega almenna kerfið tók ekki til, einkum annars æðra náms og samsvarandi náms, auk annars lengra eða styttra náms á framhaldsskólastigi sem hugsanlega felur einnig í sér starfsþjálfun eða starfsreynslu.

1) Stjtíð. EB nr. C 263, 16. 10. 1989, bls. 1 og

Stjtíð. EB nr. C 217, 1. 9. 1990, bls. 4.

(2) Stjtíð. EB nr. C 149, 18. 6. 1990, bls. 149 og

Stjtíð. EB nr. C 150, 15. 6. 1992.

(3) Stjtíð. EB nr. C 75, 26. 3. 1990, bls. 11.

(4) Stjtíð. EB nr. L 19, 24. 1. 1989, bls. 16.

10 ) Þegar krafist er í gistiríki við iðkun lögverndaðrar starfsgreinar annaðhvort mjög skammvinnrar þjálfunar eða tiltekinna persónulegra eiginleika eða einungis almennrar menntunar getur verið erfiðleikum bundið að meta nám samkvæmt þeim viðmiðunarreglum sem kveðið er á um í þessari tilskipun. Í slíkum tilvikum þarf að koma á einfölduðu kerfi.

11) Einnig ber að taka tillit til starfsmenntakerfisins í Breska konungsríkinu þar sem allar viðmiðunarreglur varðandi námskröfur í atvinnulífinu eru settar innan ramma ,,National Framework of Vocational

Qualifications".

12) Í sumum aðildarríkjum eru aðeins tiltölulega fáar lögverndaðar starfsgreinar. Þó eru dæmi þess að starfsmenntun sé sérstaklega sniðin að starfsgreinum sem eru ekki lögverndaðar og að uppbygging og námskröfur séu undir eftirliti og viðurkennd af lögbærum yfirvöldum hlutaðeigandi aðildarríkis. Þetta veitir sams konar tryggingu og veitt er í tengslum við lögverndaða starfsgrein.

13) Heimila ber lögbærum yfirvöldum gistiríkisins að setja, í samræmi við viðeigandi ákvæði bandalagsins, nauðsynlegar framkvæmdarreglur vegna aðlögunartímans og hæfnisprófsins.

14) Þar sem almenna viðbótarkerfið tekur til tveggja skólastiga og upphaflega almenna kerfið tekur til þriðja skólastigsins verður með fyrrnefnda kerfinu að mæla fyrir um hvort og undir hvaða kringumstæðum einstaklingi með tiltekna menntun er heimilt að iðka í öðru aðildarríki starfsgrein þar sem gerðar eru kröfur um lögverndaða menntun og hæfi á öðru stigi.

15) Í sumum aðildarríkjum er þess krafist að viðkomandi hafi prófskírteini í skilningi tilskipunar 89/48/EBE til að hann geti iðkað ákveðnar starfsgreinar en í öðrum aðildarríkjum er krafist annars konar starfsmenntunar eða starfsþjálfunar fyrir sömu starfsgreinar. Sumt nám er þannig upp byggt að enda þótt ekki sé um að ræða æðra nám af lágmarkslengd í skilningi þessarar tilskipunar leiðir það engu að síður til sambærilegrar faglegrar hæfni og býr viðkomandi undir störf sem fela í sér sambærilega ábyrgð. Flokka ætti slíkt nám og þjálfun með námi sem er staðfest með prófskírteini. Nám og þjálfun af þessu tagi er mjög breytileg og því getur slík flokkun einungis farið fram með því að taka saman skrá yfir umrætt nám. Með þessari flokkun er hægt, eftir því sem við á, að koma á sams konar viðurkenningu á slíku námi og þjálfun og þeirri sem tilskipun 89/48/EBE tekur til. Sumt annað lögverndað nám og þjálfun ber einnig að flokka samkvæmt annarri skrá með námi sem leiðir til prófskírteinis.

16) Með það í huga að skipulag starfsmenntunar er stöðugum breytingum undirorpið ætti að ákveða reglur um breytingar á skránum.

17) Þar sem almenna viðbótarkerfið tekur til starfsgreina sem ekki er hægt að stunda nema viðkomandi búi yfir starfsmenntun og starfsþjálfun af framhaldsskólastigi, þar sem yfirleitt er krafist verklegrar hæfni, verður framangreint kerfi einnig að fela í sér

viðurkenningu á slíkri menntun og hæfi, jafnvel þegar slíkrar menntunar hefur alfarið verið aflað í aðildarríki þar sem starfsgreinarnar eru ekki lögverndaðar.

18) Markmiðið með almenna kerfinu sem hér er fjallað um er, eins og með fyrra almenna kerfinu, að ryðja úr vegi hindrunum á því að hefja og stunda lögverndaðar starfsgreinar. Enda þótt markmiðið með þeirri vinnu sem fram fór samkvæmt ákvörðun ráðsins 85/368/EBE frá 16. júlí 1985, um samanburð á kröfum um starfsmenntun og hæfi milli aðildarríkja Evrópubandalagsins (1), hafi ekki verið að ryðja úr vegi lagalegum hindrunum á frelsi til flutninga, heldur fremur að auka gagnsæi vinnumarkaðarins, er eftir atvikum hægt að hagnýta hana við beitingu þessarar tilskipunar einkum að því er varðar upplýsingar um kennslugreinar, námsefni og lengd starfsmenntunar.

19) Eftir atvikum ber að leita álits hjá sérfræði- og

menntastofnunum eða þær ættu, eftir því sem við á, að taka þátt í ákvarðanatökuferlinu.

20) Slíkt kerfi, sem líkt og upphaflega kerfið rennir stoðum undir rétt ríkisborgara í bandalaginu til að nota starfsfærni sína í hvaða aðildarríki sem er, eflir og styrkir rétt hans til að ávinna sér slíka færni þar sem hann sjálfur kýs.

21) Endurskoða ætti bæði kerfin þegar þau hafa verið í gildi um tiltekinn tíma, til að meta skilvirkni þeirra og kanna meðal annars hvernig megi bæta þau.

(1) Stjtíð. EB nr. L 199, 31. 7. 1985, bls. 56.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I . KAFLI

1. gr.

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a) prófskírteini: sérhver vitnisburður um menntun og þjálfun eða safn slíks vitnisburðar:

- sem gefinn hefur verið út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki sem til þess hefur verið nefnt í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli þess ríks,

- sem sannar að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið:

i) annaðhvort æðra námi, öðru en því sem um getur í öðrum undirlið a-liðar í 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE, sem staðið hefur í minnst eitt ár, eða samsvarandi tíma hafi verið um hlutanám að ræða, þar sem eitt inntökuskilyrðið er, sem meginregla, að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt því námi á framhaldsskólastigi sem krafist er við inntöku í háskóla eða æðri menntastofnun, auk starfsþjálfunarinnar sem hugsanlega er krafist til viðbótar námi á æðra skólastigi,

ii) eða einhverju því námi og þjálfun sem er tilgreind í viðauka C, og

- sem sannar að handhafi búi yfir þeirri sérhæfðu menntun og hæfi sem krafist er til að hann geti tekið upp starf í lögverndaðri starfsgrein í viðkomandi aðildarríki,

að því tilskildu að hann hafi hlotið þá menntun og þjálfun sem vitnisburðurinn tekur til aðallega innan bandalagsins, eða utan bandalagsins í menntastofnunum þar sem nám er í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkis, eða hlutaðeigandi hafi þriggja ára starfsreynslu sem vottfest er af aðildarríkinu sem hefur viðurkennt vitnisburð um menntun og þjálfun í þriðja landi.

Eftirfarandi skal metið til jafns við prófskírteini í skilningi fyrstu undirgreinar: sérhver vitnisburður um menntun og þjálfun, eða safn slíks vitnisburðar sem gefinn er út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki, enda sé hann gefinn út að lokinni menntun og þjálfun sem veitt er í bandalaginu og viðurkennd af lögbæru yfirvaldi í því aðildarríki sem jafngild og veiti að auki rétt til að hefja og stunda lögverndaða starfsgrein í því aðildarríki;

b) vottorð: sérhver vitnisburður um menntun og

þjálfun eða safn slíks vitnisburðar:

- sem gefinn hefur verið út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki sem til þess hefur verið nefnt í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli þess ríks;

- sem sannar að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið:

annaðhvort námi, öðru en því sem um getur í öðrum undirlið a-lið, frá mennta- eða þjálfunarstofnun eða á vinnustað, eða bæði frá mennta- eða þjálfunarstofnun og á vinnustað, og eftir atvikum verklegri reynslu eða starfsreynslu sem krafist er til viðbótar náminu,

eða verklegri reynslu eða starfsreynslu sem krafist er til viðbótarnámi á framhaldsskólastigi, eða

- sem sannar að handhafi hafi lokið, að loknu tækninámi eða starfsnámi á framhaldsskólastigi, eftir því sem þörf krefur,

annaðhvort menntun eða þjálfun eins og um getur í fyrri undirlið

eða verklegri reynslu eða starfsreynslu sem krafist er til viðbótar þessu tækninámi eða starfsnámi á framhaldsskólastigi og

- sem sannar að handhafi búi yfir þeirri sérhæfðu menntun og hæfi sem krafist er til að hann geti tekið upp starf í lögverndaðri starfsgrein í viðkomandi aðildarríki,

að því tilskildu að hann hafi hlotið þá menntun og þjálfun sem vitnisburðurinn tekur til aðallega innan bandalagsins, eða utan bandalagsins í menntastofnunum þar sem nám er í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkis, eða hlutaðeigandi hafi tveggja ára starfsreynslu sem vottfest er af aðildarríkinu sem hefur viðurkennt vitnisburð um menntun og þjálfun í þriðja landi.

Eftirfarandi skal metið til jafns við prófskírteini í skilningi fyrstu undirgreinar: sérhver vitnisburður um menntun og þjálfun, eða safn slíks vitnisburðar sem gefinn er út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki, enda sé hann gefinn út að lokinni menntun og þjálfun sem veitt er í bandalaginu og viðurkennd af lögbæru yfirvaldi í því aðildarríki sem jafngild og veiti að auki rétt til að hefja og stunda lögverndaða starfsgrein í því aðildarríki;

c) hæfnisvottorð: sérhver vitnisburður um menntun og hæfi:

- til staðfestingar á menntun og þjálfun sem ekki er hluti af heildarnámi er leiðir til prófskírteinis í skilningi tilskipunar 89/48/EBE eða prófskírteinis eða vottorðs í skilningi þessarar tilskipunar, eða

- sem er veittur að loknu mati á persónulegum eiginleikum, hæfni eða þekkingu sem yfirvald tilnefnt í samræmi við lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkis telur nauðsynlegt að umsækjandi hafi til að stunda starfsgrein, án þess að krafist sé sönnunar á undangenginni menntun eða þjálfun;

d) gistiríki: hvert það aðildarríki þar sem ríkisborgari aðildarríkis sækist eftir að leggja stund á starfsgrein sem er lögvernduð í því aðildarríki, annað en ríkið þar sem hann fékk vitnisburð um menntun og þjálfun eða hæfnisvottorð eða hóf fyrst að stunda viðkomandi starfsgrein;

e) lögvernduð starfsgrein: lögvernduð starfsemi eða starfsemi á tilteknu sviði sem telst til þeirrar starfsgreinar í aðildarríki;

f) lögvernduð starfsemi: sú starfsemi sem í aðildarríki er beint eða óbeint háð því samkvæmt ákvæðum í landslögum og stjórnsýslufyrirmælum að viðkomandi hafi yfir að ráða vitnisburði um menntun og þjálfun eða hæfnisvottorði. Til lögverndaðrar starfsemi telst meðal annars:

- þegar starfsemi er iðkuð undir starfsheiti sem þeir einir mega bera sem hafa yfir að ráða vitnisburði um menntun og þjálfun eða hæfnisvottorði sem lýtur lögum eða stjórnsýslufyrirmælum,

- þegar starfsemi er iðkuð í heilbrigðiskerfinu og þóknun og/eða endurgreiðsla fyrir slíka starfsemi er að tryggingalögum háð því skilyrði að hlutaðeigandi hafi yfir að ráða vitnisburði um menntun og þjálfun eða hæfnisvottorði.

Í þeim tilvikum sem ekki heyra undir fyrstu undirgrein skal starfsemi teljast lögvernduð ef hún er stunduð af félagsmönnum í samtökum eða félögum sem hafa það meðal annars að markmiði að stuðla að og viðhalda gæðakröfum í viðkomandi starfsstétt og hafa til þess fengið sérstaka viðurkenningu aðildarríkis og:

- veita félagsmönnum sínum vitnisburð um menntun og þjálfun,

- tryggja að félagsmenn virði þær siðareglur starfsgreinar sem þau mæla fyrir um, og

- veita þeim rétt til að bera starfsheiti eða nafnbót eða njóta góðs af þeirri stöðu sem slíkri menntun og þjálfun fylgir.

Hvenær sem aðildarríki veitir þá viðurkenningu sem um getur í annarri undirgrein samtökum eða félögum sem uppfylla skilyrði þeirrar undirgreinar skal það tilkynnt framkvæmdastjórninni;

g) lögvernduð menntun og þjálfun: sérhver menntun og þjálfun sem:

- er sérstaklega sniðin að iðkun ákveðinnar starfsgreinar, og

- tekur til náms sem felur jafnframt í sér, eftir því sem við á, starfsþjálfun, starfsreynslu eða verklega reynslu þar sem uppbygging og námskröfur ákvarðast af lögum og stjórnsýslufyrirmælum þess aðildarríkis eða eru undir eftirliti eða viðurkennd af yfirvaldi sem er tilnefnt í því skyni;

h) starfsreynsla: raunveruleg og lögmæt iðkun viðkomandi starfsgreinar í aðildarríki;

i) aðlögunartími: iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki undir eftirliti aðila sem hefur réttindi í þeirri starfsgrein, hugsanlega auk frekari þjálfunar. Sá tími sem unninn er undir eftirliti skal metinn. Nánari reglur um aðlögunartíma og mat á honum skulu ákveðnar af lögbæru yfirvaldi gistiríkisins.

Sú staða sem viðkomandi nýtur í gistiríkinu á eftirlitstímanum, einkum að því er varðar búseturétt og skuldbindingar þar að lútandi, félagsleg réttindi og bætur, greiðslur og endurgreiðslur, skal ákveðin af lögbærum yfirvöldum í því aðildarríki í samræmi við gildandi lög bandalagsins;

j) hæfnispróf: prófun á fagþekkingu umsækjanda, lagt fyrir af lögbæru yfirvaldi í gistiríki með það fyrir augum að meta hæfni umsækjanda til að iðka lögverndaða starfsgrein í því aðildarríki.

Til þess að hægt sé að leggja prófið fyrir skulu lögbær yfirvöld taka saman skrá yfir þær greinar sem, samkvæmt samanburði á menntun umsækjanda og þeirri menntun og þjálfun sem krafist er í aðildarríkinu, vitnisburður umsækjanda um menntun og hæfi tekur ekki til. Þessar greinar geta bæði tekið til fræðilegrar þekkingar og verklegrar hæfni sem krafist er í viðkomandi starfsgrein.

Miða verður hæfnisprófið við þá staðreynd að umsækjandinn er fullgildur fagmaður í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem hann kemur frá. Það verður að ná yfir greinar sem teknar eru með í skrána sem um getur í annarri undirgrein og nauðsynlegt er að kunna skil á til þess að geta iðkað þá starfsgrein í gistiríkinu. Enn fremur má prófið reyna á þekkingu á reglum sem gilda um viðkomandi starfsemi í gistiríkinu. Lögbær yfirvöld í ríkinu ákveða frekari notkun hæfnisprófsins.

Staða umsækjanda í gistiríkinu er æskir að undirbúa sig fyrir hæfnispróf í því ríki skal ákveðin af lögbærum yfirvöldum þess ríkis í samræmi við gildandi lög bandalagsins.

 

II. KAFLI

Gildissvið.

2. gr.

Þessi tilskipun gildir um sérhvern ríkisborgara aðildarríkis sem æskir þess að leggja stund á lögverndaða starfsgrein í gistiríki á eigin vegum eða annarra.

Þessi tilskipun gildir hvorki um starfsgreinar sem heyra undir sértilskipun um fyrirkomulag gagnkvæmrar viðurkenningar aðildarríkja á prófskírteinum né starfsemi sem heyrir undir tilskipun sem er tilgreind í viðauka A.

Tilskipanirnar sem eru taldar upp í viðauka B skulu látnar gilda um iðkun á launuðu starfi af því tagi sem þessar tilskipanir taka til.

III. KAFLI

Kerfi til viðurkenningar þegar gistiríki krefst

prófskírteinis í skilningi þessarar tilskipunar eða tilskipunar 89/48/EBE

3. gr.

Þegar iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki er háð því að viðkomandi aðili hafi prófskírteini, eins og skilgreint er í þessari tilskipun eða tilskipun 89/48/EBE, getur lögbært yfirvald ekki, með fyrirvara um ákvæði tilskipunar 89/48/EBE, neitað ríkisborgara aðildarríkis um heimild til að hefja eða stunda þá starfsgrein með sömu skilyrðum og eigin ríkisborgarar og borið við vanhæfni hans:

a) ef umsækjandi hefur undir höndum prófskírteini, eins og skilgreint er í þessari tilskipun eða tilskipun 89/48/EBE, sem krafist er í öðru aðildarríki til að leggja stund á viðkomandi starfsgrein þar, enda hafi prófskírteinið verið gefið út í aðildarríki; eða

b) ef umsækjandi hefur lagt stund á viðkomandi starfsgrein í fullu starfi í tvö ár, eða samsvarandi tíma hafi verið um hlutastarf að ræða, á undangengnum 10 árum í öðru aðildarríki sem ekki lögverndar starfsgreinina samkvæmt skilningi e-liðar 1. gr. og fyrstu undirgreinar f-liðar 1. gr. þessarar tilskipunar, eða c-liðar 1. gr. og fyrstu undirgreinar d-liðar 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE, og hefur undir höndum vitnisburð um menntun og þjálfun sem:

- gefinn hefur verið út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki sem tilnefnt hefur verið í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum þess ríkis, og

- annaðhvort sýnir að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið æðra námi, öðru en því sem um getur í a-lið 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE, sem staðið hefur í að minnsta kosti eitt ár, eða sambærilegan tíma hafi verið um hlutanám að ræða, þar sem eitt inntökuskilyrðið er, sem meginregla, að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt því námi á framhaldsskólastigi sem krafist er við inntöku í háskóla eða æðri menntastofnun, auk starfsþjálfunarinnar sem hugsanlega er krafist til viðbótar námi á æðra skólastigi, eða

- vottar lögverndaða menntun og þjálfun sem um getur í viðauka D, og

- sýnir að handhafi hafi hlotið lögmætan undirbúning til að stunda starfsgrein sína.

Ekki er þó heimilt að krefjast tveggja ára starfsþjálfunar sem um getur að framan þegar vitnisburður umsækjanda um menntun og þjálfun sem um getur í þessum staflið er gefinn til staðfestingar á lögverndaðri menntun og þjálfun.

Eftirfarandi skal metið til jafns við þann formlega vitnisburð um menntun og þjálfun sem um getur í fyrstu undirgrein þessa stafliðar: sérhver vitnisburður um menntun og þjálfun eða safn slíks vitnisburðar sem gefinn er út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki ef hann er veittur að lokinni menntun og þjálfun sem sótt er innan bandalagsins og viðurkennd er sem jafngild, þó að því tilskildu að öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni hafi verið tilkynnt um þessa viðurkenningu.

Þrátt fyrir fyrstu undirgrein þessarar greinar er gistiríkið ekki skuldbundið til að beita þessari grein þegar þar er krafist prófskírteinis, eins og skilgreint er í tilskipun 89/48/EBE, til að fá að hefja og stunda lögverndaða starfsgrein og þegar eitt af skilyrðunum fyrir útgáfu slíks prófskírteinis er að viðkomandi hafi lokið æðra námi sem tekur meira en fjögur ár.

4. gr.

1. Þrátt fyrir 3. gr. getur gistiríkið einnig krafist þess að umsækjandi:

a) leggi fram vitnisburð um starfsreynslu þar sem náms- og þjálfunartíminn sem umsóknin greinir frá, svo sem mælt er fyrir um í a- og b-lið fyrstu undirgreinar 3. gr., er að minnsta kosti einu ári skemmri en krafist er í gistiríkinu. Komi til þessa má starfsreynsla sú sem krafist er ekki vera lengri:

- en tvisvar sinnum sá tími sem á vantar í menntun og þjálfun ef það sem krafist er lýtur að æðri menntun og/eða þjálfunartíma undir handleiðslu fagmanns og lýkur með prófi,

- en sá tími sem á vantar ef hann lýtur að fagþjálfun sem viðkomandi hefur áunnið sér með aðstoð fullmenntaðs félagsmanns úr viðkomandi starfsgrein.

Ef um er að ræða prófskírteini í skilningi síðustu undirgreinar a-liðar 1. gr. skal lengd menntunar og þjálfunar sem metin er á sama stigi ákvarðast út frá menntun og þjálfun samkvæmt fyrstu undirgrein a-liðar 1. gr.

Þegar þessum ákvæðum er beitt ber að taka tillit til þeirrar starfsreynslu sem um getur í b-lið fyrstu undirgreinar 3. gr.

Ekki má í neinu tilviki krefjast lengri starfsreynslu en sem nemur fjórum árum.

Ekki er þó heimilt að krefjast starfsreynslu af umsækjanda sem hefur yfir að ráða prófskírteini til staðfestingar á æðra námi, eins og um getur í öðrum undirlið a-liðar 1. gr., eða prófskírteini eins og skilgreint er í a-lið 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE, og æskir þess að stunda starfsgrein sína í gistiríki þar sem krafist er prófskírteinis eða vitnisburðar um menntun og þjálfun er jafngildir einhverju því námi sem um getur í viðaukum C og D;

b) ljúki aðlögunartíma sem varir ekki lengur en þrjú ár eða taki hæfnispróf ef:

- fræðilegir og/eða verklegir þættir menntunar og þjálfunar sem viðkomandi hefur hlotið í samræmi við a- eða b-lið fyrstu undirgreinar 3. gr. eru verulega frábrugðnir þeim sem felast í prófskírteininu sem er skilgreint í þessari tilskipun eða tilskipun 89/48/EBE og krafist í gistiríkinu, eða

- starfsgrein, sem er lögvernduð í gistiríkinu og um getur í a-lið 1. mgr. 3. gr., felur í sér eina eða fleiri tegundir lögverndaðrar starfsemi sem tilheyra ekki starfsgreininni er nýtur lögverndar í upprunaríki umsækjanda eða aðildarríkinu sem hann kemur frá, og sá munur sem fyrir hendi er samsvarar tiltekinni menntun og þjálfun sem krafist er í gistiríkinu og nær til fræðilegra og/eða verklegra þátta sem eru verulega frábrugðnir þeim sem liggja að baki prófskírteini, eins og það er skilgreint í þessari tilskipun eða tilskipun 89/48/EBE, er umsækjandi leggur fram, eða

- starfsgrein, sem er lögvernduð í gistiríkinu og um getur í b-lið 1. mgr. 3. gr., felur í sér eina eða fleiri tegundir lögverndaðrar starfsemi sem tilheyra ekki starfsgreininni sem umsækjandi stundar í upprunaríki sínu eða aðildarríkinu sem hann kemur frá og sá munur sem er fyrir hendi samsvarar tiltekinni menntun og þjálfun sem krafist er í gistiríkinu og nær til fræðilegra og/eða verklegra þátta sem eru verulegafrábrugðnir þeim sem að baki vitnisburði umsækjanda um menntun og þjálfun liggur.

Ef gistiríkið færir sér þetta í nyt, verður að gefa umsækjandanum færi á að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs. Hyggist gistiríki, þar sem krafist er prófskírteinis eins og skilgreint er í tilskipun 89/48/EBE eða í þessari tilskipun, víkja frá rétti umsækjanda til að velja skulu reglur þær sem mælt er fyrir um í 14. gr. gilda.

Þrátt fyrir aðra undirgrein þessa liðar er gistiríki heimilt að viðhalda rétti til að velja á milli aðlögunartíma og hæfnisprófs ef:

- um er að ræða starfsgrein þar sem krafist er að þeir sem leggja stund á hana hafi nákvæma þekkingu á innlendum lögum og þar sem ráðgjöf og/eða aðstoð varðandi innlend lög er verulegur eða fastur þáttur í atvinnustarfseminni, eða

- iðkun eða aðgangur að starfsgrein er í gistiríki háð því að viðkomandi hafi prófskírteini eins og það er skilgreint í tilskipun 89/48/EBE, og þegar eitt af skilyrðunum fyrir útgáfu þessa prófskírteinis er að lokið hafi verið æðra námi sem tekur minnst þrjú ár, eða sambærilegan tíma hafi verið um hlutanám að ræða, og umsækjandi hafi annaðhvort prófskírteini eins og skilgreint er í þessari tilskipun eða vitnisburð um menntun og þjálfun í skilningi b-liðar fyrstu málsgreinar 3. gr. og sem fellur ekki undir b-lið 3. gr. í tilskipun 89/48/EBE.

2. Gistiríki geta þó ekki beitt ákvæðum a- og b-liðar 1. gr. hverju á eftir öðru.

 

IV. KAFLI

Kerfi til viðurkenningar þegar gistiríki krefst

prófskírteinis og umsækjandi hefur undir höndum vottorð eða hefur hlotið

samsvarandi menntun og þjálfun

5. gr.

Þegar iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki er háð því að viðkomandi aðili hafi prófskírteini getur lögbært yfirvald ekki neitað ríkisborgara aðildarríkis um heimild til að hefja eða stunda þá starfsgrein með sömu skilyrðum og eigin ríkisborgarar og borið við vanhæfni hans:

a) ef umsækjandi hefur undir höndum vottorð sem krafist er í öðru aðildarríki til að leggja stund á sömu starfsgrein þar, enda hafi vottorðið verið gefið út í aðildarríki; eða

b) ef umsækjandi hefur lagt stund á sömu starfsgrein í fullu starfi í tvö ár á undangengnum 10 árum í öðru aðildarríki sem ekki lögverndar starfsgreinina samkvæmt skilningi e-liðar 1. gr. og fyrstu undirgreinar f-liðar 1. gr., og hefur undir höndum vitnisburð um menntun og þjálfun:

- sem gefinn hefur verið út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki sem tilnefnt hefur verið í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum þess ríkis, og

- sýnir að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið á framhaldsskólastigi:

annaðhvort sérhæfðu starfsnámi eða þjálfun, annarri en þeirri sem um getur í a-lið, frá mennta- eða þjálfunarstofnun eða á vinnustað, eða bæði frá mennta- eða þjálfunarstofnun og á vinnustað, og eftir atvikum verklegri reynslu eða starfsreynslu sem er óaðskiljanlegur hluti af náminu,

- eða verklegri reynslu eða starfsreynslu sem er óaðskiljanlegur hluti af þessu námi á framhaldsskólastigi, eða

- sem sýnir að handhafi hafi, eftir að hafa verið í tækni- eða starfsnámi á framhaldsskólastigi, lokið eftir því sem þörf krefur,

annaðhvort starfsnámi eða þjálfun sem um getur í fyrri undirlið,

eða verklegri reynslu eða starfsreynslutíma sem er óaðskiljanlegur hluti af þessu tækni- eða starfsnámi á framhaldsskólastigi, og

- sem hefur búið handhafa undir iðkun þessarar starfsgreinar.

Ekki er þó heimilt að krefjast tveggja ára starfsþjálfunar sem um getur að framan þegar vitnisburður umsækjanda um menntun og þjálfun sem um getur í þessum staflið er gefinn til staðfestingar á lögverndaðri menntun og þjálfun.

Þó er gistiríkinu heimilt að krefjast þess að umsækjandi taki út aðlögunartíma sem sé þó ekki lengri en þrjú ár eða taki hæfnispróf. Gistiríkið verður að gefa umsækjanda rétt á að velja á milli aðlögunartíma og hæfnisprófs.

Hyggist gistiríki víkja frá rétti umsækjanda til að velja skulu reglur þær sem mælt er fyrir um í 14. gr. gilda.

V. KAFLI

Kerfi til viðurkenningar þegar gistiríki

krefst vottorðs

6. gr.

Þegar iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki er háð því að viðkomandi aðili hafi vottorð getur lögbært yfirvald ekki neitað ríkisborgara aðildarríkis um heimild til að hefja eða stunda þá starfsgrein með sömu skilyrðum og eigin ríkisborgarar og borið við vanhæfni hans:

a) ef umsækjandi hefur undir höndum prófskírteini, eins og það er skilgreint í þessari tilskipun eða í tilskipun 89/48/EBE, eða vottorð sem krafist er í öðru aðildarríki til að leggja stund á viðkomandi starfsgrein þar, enda hafi prófskírteinið verið gefið út í aðildarríki; eða

b) ef umsækjandi hefur lagt stund á sömu starfsgrein í fullu starfi í tvö ár, eða sambærilegan tíma hafi verið um hlutanám að ræða, á undangengnum 10 árum í öðru aðildarríki sem ekki lögverndar starfsgreinina samkvæmt skilningi e-liðar 1. gr. og fyrstu undirgreinar f-liðar 1. gr., og hefur undir höndum vitnisburð um menntun og þjálfun:

- sem gefinn hefur verið út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki sem tilnefnt hefur verið í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum þess ríkis, og

- sem sýnir að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið æðra námi, öðru en því sem um getur í öðrum undirlið a-liðar 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE, sem staðið hefur í að minnsta kosti eitt ár, eða sambærilegan tíma hafi verið um hlutanám að ræða, þar sem eitt inntökuskilyrðið er, sem meginregla, að lokið hafi verið á fullnægjandi hátt því námi á framhaldsskólastigi sem krafist er við inntöku í háskóla eða æðri menntastofnun, auk starfsþjálfunarinnar sem hugsanlega er krafist til viðbótar námi á æðra skólastigi, eða

- sýnir að handhafi hafi á fullnægjandi hátt lokið á framhaldsskólastigi:

annaðhvort sérhæfðu starfsnámi eða þjálfun, annarri en þeirri sem um getur í a-lið, frá mennta- eða þjálfunarstofnun eða á vinnustað, eða bæði frá mennta- eða þjálfunarstofnun og á vinnustað, og eftir atvikum verklegri reynslu eða starfsreynslu sem er óaðskiljanlegur hluti af náminu,

eða verklegri reynslu eða starfsreynslu sem er óaðskiljanlegur hluti af þessu námi á framhaldsskólastigi, eða

- sem sýnir að handhafi hafi, eftir að hafa verið í tækni- eða starfsnámi á framhaldsskólastigi, lokið eftir því sem þörf krefur,

annaðhvort starfsnámi eða þjálfun sem um getur í fyrri undirlið,

eða verklegri reynslu eða starfsreynslutíma sem er óaðskiljanlegur hluti af þessu tækni- eða starfsnámi á framhaldsskólastigi, og

- sem hefur búið handhafa undir iðkun þessarar starfsgreinar.

Ekki er þó heimilt að krefjast tveggja ára starfsþjálfunar sem um getur að framan þegar vitnisburður umsækjanda um menntun og þjálfun sem um getur í þessum staflið er gefinn til staðfestingar á lögverndaðri menntun og þjálfun.

c) ef umsækjandi, sem hefur ekki undir höndum prófskírteini, vottorð eða annan vitnisburð um menntun og þjálfun í skilningi b-liðar 3. gr. eða b-liðar í þessari grein, hefur stundað viðkomandi starfsgrein í fullu starfi í þrjú ár samfellt, eða sambærilegan tíma hafi verið um hlutastarf að ræða, á umliðnum 10 árum í öðru aðildarríki sem ekki lögverndar starfsgreinina samkvæmt skilningi e-liðar 1. gr. og fyrstu undirgreinar f-liðar 1. gr.

Eftirfarandi skal metið til jafns við þann formlega vitnisburð um menntun og þjálfun sem um getur í b-lið fyrstu undirgreinar: sérhver vitnisburður um menntun og þjálfun eða safn slíks vitnisburðar sem gefinn er út af lögbæru yfirvaldi í aðildarríki ef hann er veittur að lokinni menntun og þjálfun sem sótt er innan bandalagsins og viðurkennd er sem jafngild, þó að því tilskildu að öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni hafi verið tilkynnt um þessa viðurkenningu.

7. gr.

Með fyrirvara um ákvæði 6. gr. getur gistiríki einnig krafist þess að umsækjandi:

a) ljúki aðlögunartíma sem sé þó ekki lengri en tvö ár eða taki hæfnispróf þegar menntun sú og þjálfun sem hann hefur hlotið samkvæmt a- eða b-lið fyrstu undirgreinar 5. gr. tekur til fræðilegra eða hagnýtra þátta sem eru verulega frábrugðnir þeim sem liggja að baki vottorðinu sem krafist er í gistiríkinu, eða þegar um ólíkan starfsvettvang er að ræða þar sem í gistiríkinu er krafist sérhæfðrar menntunar og þjálfunar sem tekur til fræðilegra eða hagnýtra þátta sem eru verulega frábrugðnir þeim sem liggja að baki vitnisburði umsækjanda um formlega menntun og hæfi.

Notfæri gistiríkið sér þennan kost verður það að veita umsækjandanum rétt til að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs. Hyggist gistiríki þar sem krafist er vottorðs víkja frá rétti umsækjanda til að velja skulu reglur þær sem mælt er fyrir um í 14. gr. gilda;

b) ljúki aðlögunartíma sem sé þó ekki lengri en tvö ár eða taki hæfnispróf, enda hafi hann í því tilviki sem um getur í c-lið fyrstu undirgreinar 6. gr. ekki undir höndum prófskírteini, vottorð eða annan vitnisburð um menntun og þjálfun. Gistiríkið getur áskilið sér rétt til að velja á milli aðlögunartíma og hæfnisprófs.

VI. KAFLI

Sérstök kerfi til viðurkenningar á

annarri menntun og hæfi

8. gr.

Þegar iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki er háð því að viðkomandi geti vottað hæfni sína getur lögbært yfirvald ekki neitað ríkisborgara aðildarríkis um heimild til að hefja eða stunda þá starfsgrein með sömu skilyrðum og eigin ríkisborgarar og borið við vanhæfni hans:

a) ef umsækjandi getur vottað hæfni sem krafist er í öðru aðildarríki til að hefja eða stunda sömu starfsgrein þar, enda hafi slík vottun verið gefin út í aðildarríki; eða

b) ef umsækjandi leggur fram sönnun um menntun og hæfi sem hann hefur hlotið í öðrum aðildarríkjum,

sem veitir samsvarandi tryggingu, einkum að því er varðar heilbrigði, öryggi, umhverfis- og neytendavernd, og gefin er í ákvæðum laga og stjórnsýslufyrirmæla gistiríkisins.

Ef umsækjandinn leggur ekki fram sönnun um að hann hafi slíkt vottorð eða slíka menntun og hæfi skulu ákvæði laga og stjórnsýslufyrirmæla gistiríkisins gilda.

9. gr.

Þegar iðkun lögverndaðrar starfsgreinar í gistiríki er einungis háð því að viðkomandi hafi yfir að ráða vitnisburði um menntun til staðfestingar á almennri menntun á grunn- eða framhaldsskólastigi getur lögbært yfirvald ekki neitað ríkisborgara aðildarríkis um heimild til að hefja eða stunda þá starfsgrein með sömu skilyrðum og eigin ríkisborgarar og borið við vanhæfni hans ef umsækjandi býr yfir formlegri menntun og hæfi af samsvarandi stigi sem hann hefur hlotið í öðru aðildarríki.

Þessi vitnisburður um formlega menntun og hæfi verður að vera gefinn út af lögbæru yfirvaldi sem er tilnefnt samkvæmt ákvæðum laga og stjórnsýslufyrirmæla í því aðildarríki.

VII. KAFLI

Aðrar ráðstafanir til að auðvelda árangursríka framkvæmd staðfesturéttar, réttar til að veita þjónustu og frelsi launþega til flutninga

10. gr.

1. Krefji lögbært yfirvald í gistiríki þann sem æskir að hefja störf í lögverndaðri starfsgrein um meðmæli eða yfirlýsingu um að hann hafi ekki orðið gjaldþrota, eða frestar eða bannar iðkun þeirrar starfsgreinar vegna alvarlegra ávirðinga í starfi eða vegna afbrots, skal það ríki taka sem fullgilda sönnun, að því er varðar ríkisborgara aðildarríkja sem æskja þess að leggja stund á þá starfsgrein á yfirráðasvæði þess, framvísun skjala sem gefin eru út af lögbærum yfirvöldum í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá og votta að þessi skilyrði hafi verið uppfyllt.

Gefi lögbær yfirvöld í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá ekki út þau skjöl sem um getur í fyrstu undirgrein, skal eiðsvarin yfirlýsing koma í stað þeirra - eða í aðildarríkjum þar sem engin ákvæði eru til um eiðsvarnar yfirlýsingar, drengskaparheit - sem viðkomandi gefur frammi fyrir þar til bæru yfirvaldi á sviði dómgæslu eða stjórnsýslu eða eftir atvikum lögbókanda eða þar til bærri stofnun í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem viðkomandi kemur frá; umrætt yfirvald eða lögbókandi skal gefa út vottorð sem staðfestir áreiðanleika yfirlýsingarinnar eða drengskaparheitsins.

2. Ef lögbært yfirvald í gistiríki krefst þess af eigin

ríkisborgurum sem æskja þess að hefja eða stunda störf í lögverndaðri starfsgrein að þeir leggi fram yfirlýsingu um líkamlegt og andlegt heilbrigði ber því yfirvaldi að taka sem fullgilda sönnun framvísun á skjalinu sem krafist er í upprunaríkinu eða aðildarríkinu sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá.

Ef upprunaríkið eða aðildarríkið sem hinn erlendi ríkisborgari kemur frá gerir engar slíkar kröfur til þeirra sem æskja þess að hefja störf í umræddri starfsgrein ber gistiríkinu að taka við yfirlýsingu frá slíkum ríkisborgurum sem lögbært yfirvald í því ríki hefur gefið út og er sambærileg við yfirlýsingu sem gistiríkið gefur út.

3. Lögbær yfirvöld í gistiríki geta farið fram á það að skjölin og yfirlýsingarnar sem um getur í 1. og 2. mgr. séu lögð fram eigi síðar en þremur mánuðum frá útgáfudegi þeirra.

4. Ef lögbært yfirvald í gistiríki fer fram á það að þarlendir ríkisborgarar sem æskja þess að hefja störf í lögverndaðri starfsgrein sverji eiða eða gefi drengskaparheit og þar sem eiðurinn eða heitið er þess eðlis að ríkisborgarar annarra aðildarríkja geta

ekki nýtt það skal aðildarríkið tryggja að viðeigandi og jafngilt form til eiðtökunnar sé í boði fyrir hlutaðeigandi einstakling.

11. gr.

1. Lögbær yfirvöld í gistiríkjum skulu viðurkenna rétt ríkisborgara í aðildarríkjum, sem uppfylla skilyrði til að hefja og stunda störf í lögverndaðri starfsgrein, til að bera það starfsheiti í gistiríkinu sem svarar til þeirrar starfsgreinar.

2. Lögbæra yfirvaldið í gistiríkinu skal viðurkenna rétt ríkisborgara í aðildarríkjum, sem uppfylla skilyrði til að hefja og stunda störf í lögverndaðri starfsgrein á yfirráðasvæði þeirra, til að nota lögmætan námstitil sinn og, eftir því sem við á, skammstöfun á honum sem er notuð í upprunaríki þeirra eða aðildarríkinu sem þeir koma frá, á máli þess ríkis. Gistiríkið getur krafist þess að titlinum fylgi upplýsingar um heiti og staðsetningu stofnunarinnar eða prófanefndarinnar sem veitti hann.

3. Ef samtök eða félag í gistiríki sem um getur í f-lið 1. gr. veitir starfsgrein lögvernd skal ríkisborgurum aðildarríkja einvörðungu heimilt að nota starfsheitið eða skammstöfunina sem téð félag eða samtök veita gegn sönnun um félagsaðild.

Ef samtökin eða félagið gera ákveðin hæfisskilyrði að forsendu fyrir félagsaðild má það aðeins beita þeirri reglu gagnvart ríkisborgurum annarra aðildarríkja í samræmi við þessa tilskipun, einkum 3., 4. og 5. gr. hennar, enda hafi þeir undir höndum prófskírteini í skilningi a-liðar 1. gr., vottorð í skilningi b-liðar 1. gr. eða vitnisburð um menntun og þjálfun eða hæfi í skilningi b-liðar 1. mgr. 3. gr.,

b-liðar 1. mgr. 5. gr. eða 9. gr.

12. gr.

1. Gistiríkið skal taka sem fullgilda sönnun fyrir því að skilyrðum, sem eru sett í 3. til 9. gr., sé fullnægt, skjöl sem gefin eru út af lögbærum yfirvöldum í aðildarríkjum og hlutaðeigandi einstaklingur skal leggja fram til stuðnings umsókn sinni um að leggja

stund á viðkomandi starfsgrein.

2. Taka skal fyrir umsókn um starf í lögverndaðri starfsgrein svo skjótt sem verða má og skulu lögbær yfirvöld í gistiríkinu greina frá rökstuddri niðurstöðu eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að lögð hafa verið fram öll viðeigandi skjöl um hlutaðeigandi aðila. Fáist ekki niðurstaða eða sé hún öndverð óskum umsækjanda skal honum gert kleift að áfrýja til dómstóls í samræmi við ákvæði landslaga.

 

VIII. KAFLI

Tilhögun samræmingar

13. gr.

1. Aðildarríkin skulu, innan þess frests sem kveðið er á um í 17. gr., tilnefna lögbær yfirvöld sem hafa umboð til að veita viðtöku umsóknum og taka þær ákvarðanir sem um getur í þessari tilskipun. Þau skulu koma þessum upplýsingum á framfæri við hin aðildarríkin og framkvæmdastjórnina.

2. Aðildarríkin skulu tilnefna þann aðila sem er ábyrgur fyrir samræmingu á starfsemi þeirra yfirvalda sem um getur í 1. mgr. og tilkynna það hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni. Hlutverk

hans skal vera að stuðla að því að tilskipun þessari sé beitt á sama hátt í öllum hlutaðeigandi starfsgreinum. Þessi samræmingaraðili skal vera félagi í samræmingarhóp sem komið er á fót á vegum framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt 2. mgr. 9. gr. tilskipunar 89/48/EBE.

Starf þessa samræmingarhóps sem komið er á fót samkvæmt framangreindu ákvæði tilskipunar 89/48/

EBE skal vera:

- að auðvelda framkvæmd þessarar tilskipunar,

- að safna saman öllum upplýsingum sem að gagni mega koma við beitingu hennar í aðildarríkjunum, einkum upplýsingum um gerð viðmiðunarskrár yfir lögverndaðar starfsgreinar og frávik í menntun og hæfi sem veitt er í aðildarríkjunum með það í huga að aðstoða lögbær yfirvöld aðildarríkjanna við að meta hvort þarna sé verulegur munur á.

Framkvæmdastjórnin getur haft samráð við samræmingarhópinn um fyrirhugaðar breytingar á fyrirkomulaginu.

3. Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að veita nauðsynlegar upplýsingar um viðurkenningu prófskírteina og vottorða og um önnur skilyrði sem varða iðkun lögverndaðra starfsgreina á grundvelli þessarar tilskipunar. Þau geta í þessu sambandi nýtt sér þau

upplýsinganet sem fyrir eru og, eftir því sem við á, viðkomandi fagsamtök eða -félög. Framkvæmdastjórnin skal hafa forgöngu um þróun og samræmingu á miðlun nauðsynlegra upplýsinga.

IX. KAFLI

Reglur um undanþágur vegna réttar til að velja milli aðlögunartíma og hæfnisprófs

14. gr.

1. Ef aðildarríki hyggst ekki, samkvæmt öðrum málslið annarrar undirgreinar b-liðar 1. mgr. 4. gr., þriðju undirgrein 5. gr., eða öðrum málslið annarrar undirgreinar a-liðar 7. gr., veita umsækjendum rétt til að velja á milli aðlögunartíma og hæfnisprófs skal

það þegar í stað senda framkvæmdastjórninni drög að viðkomandi fyrirmælum. Það skal jafnframt gera

framkvæmdastjórninni grein fyrir ástæðum þess að nauðsynlegt er talið að setja slík fyrirmæli.

Framkvæmdastjórnin skal þegar í stað tilkynna hinum aðildarríkjunum um öll slík drög sem henni berast; hún getur einnig ráðfært sig um drögin við samráðshópinn sem um getur í 2. mgr. 13. gr.

2. Með fyrirvara um möguleika framkvæmdastjórnarinnar og hinna aðildarríkjanna til að tjá sig um drögin getur aðildarríkið samþykkt fyrirmælin að því tilskildu að framkvæmdastjórnin hafi eigi tekið ákvörðun um hið gagnstæða innan þriggja mánaða.

3. Komi fram ósk um slíkt frá aðildarríki eða framkvæmdastjórninni skulu aðildarríki tafarlaust senda þeim í endanlegri gerð fyrirmælin sem eru sett með beitingu þessarar greinar.

 

X. KAFLI

Reglur um breytingar á viðaukum C og D

15. gr.

1. Skránum yfir nám sem koma fram í viðaukum C og D má breyta á grundvelli rökstuddrar beiðni viðkomandi aðildarríkis til framkvæmdastjórnarinnar. Allar viðeigandi upplýsingar, einkum texti viðkomandi ákvæða landslaga, skulu fylgja beiðninni. Aðildarríkið sem leggur fram beiðnina skal einnig tilkynna hinum aðildarríkjunum um hana.

2. Framkvæmdastjórnin skal athuga nánar umrætt nám og nám sem krafist er í hinum aðildarríkjunum. Hún skal einkum ganga úr skugga um að prófskírteini sem veitt eru vegna umræddrar menntunar og hæfis veiti handhafa:

- menntun eða þjálfun á sambærilegu stigi við það æðra nám sem um getur í i-lið annars undirliðar fyrstu undirgreinar a-liðar 1. gr.,

- sambærilega ábyrgð og verkefni.

3. Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar sem er skipuð fulltrúum aðildarríkjanna og fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar veitir forstöðu.

4. Fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar leggur fyrir nefndina drög að þeim ráðstöfunum sem gera skal. Nefndin skal skila áliti sínu á drögunum fyrir þau tímamörk sem formaðurinn setur eftir því hversu brýnt málið er. Álitið skal samþykkt með þeim meirihluta sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 148. gr. sáttmálans þegar um er að ræða ákvarðanir sem ráðið á að samþykkja samkvæmt tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Atkvæði fulltrúa aðildarríkjanna í nefndinni vega eins og mælt er fyrir um í þeirri grein. Formaðurinn greiðir ekki atkvæði.

5. Framkvæmdastjórnin skal samþykkja ráðstafanirnar sem öðlast gildi þegar í stað. Séu aðgerðirnar ekki í samræmi við álit nefndarinnar skal framkvæmdastjórnin þó láta ráðið vita af þeim án tafar. Í því tilviki skal framkvæmdastjórnin fresta því um tvo mánuði að ráðstafanirnar komi til framkvæmda.

6. Ráðinu er heimilt að taka aðra ákvörðun með auknum meirihluta innan þeirra tímamarka sem um getur í fyrri málsgrein.

7. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna viðkomandi aðildarríki um ákvörðunina og skal, eftir því sem við á, birta breyttu skrána í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.

 

XI. KAFLI

Önnur ákvæði

16. gr.

Þegar sá tími rennur út sem kveðið er á um í 17. gr. skulu aðildarríkin, á tveggja ára fresti, senda framkvæmdastjórninni skýrslu um framkvæmd fyrirkomulagsins sem er tekið upp.

Auk almennrar umfjöllunar um málið skal skýrslan einnig veita tölfræðilegt yfirlit fyrir ákvarðanir sem teknar hafa verið og lýsa þeim vanda sem upp kann að koma við beitingu tilskipunarinnar.

17. gr.

1. Aðildarríkin skulu samþykkja lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 18. júní 1994. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2. Aðildarríkin skulu sjá til þess að framkvæmdastjórninni berist helstu ákvæði úr landslögum sem samþykkt verða um málefni sem tilskipun þessi nær til.

18. gr.

Eigi síðar en fimm árum eftir þann dag sem tiltekinn er í 17. gr. skal framkvæmdastjórnin upplýsa Evrópuþingið, ráðið og efnahags- og félagsmálanefndina um framkvæmd þessarar tilskipunar.

Framkvæmdastjórnin skal, eftir að hún hefur leitað ráða svo sem nauðsynlegt er, segja til um hvaða breytingar þarf að gera á þessari tilskipun. Á sama tíma skal framkvæmdastjórnin, eftir því sem við á, leggja fram tillögur sínar um endurbætur á gildandi reglum er stuðli að því að draga enn frekar úr höftum á frelsi til flutninga, á staðfesturétti og rétti til að veita þjónustu.

19. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Lúxemborg 18. júní 1992.

Fyrir hönd ráðsins,

VITOR MARTINS

forseti.

 

VIÐAUKI A

Skrá yfir tilskipanir sem um getur í annarri undirgrein 2. gr.

1. 64/429/EBE (1)

Tilskipun ráðsins frá 7. júlí 1964 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu á sviði framleiðslu- og vinnsluiðnaðar er heyrir undir ISIC yfirflokka 23-40 (Iðnaður og handverk).

64/427/EBE (2)

Tilskipun ráðsins frá 7. júlí 1964 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga á sviði framleiðslu- og vinnsluiðnaðar sem fellur undir ISIC yfirflokka 23-40 (Iðnaður og handverk).

2. 68/365/EBE (3)

Tilskipun ráðsins frá 15. október 1968 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu á sviði matvæla- og drykkjarvöruframleiðslu (ISIC yfirflokkar 20 og 21).

68/366/EBE (4)

Tilskipun ráðsins frá 15. október 1968 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga á sviði matvæla- og drykkjarvöruframleiðslu (ISIC yfirflokkar 20 og 21).

3. 64/223/EBE (5)

Tilskipun ráðsins frá 25. febrúar 1964 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti til að veita þjónustu vegna starfsemi á sviði heildsölu.

64/224/EBE (6)

Tilskipun ráðsins frá 25. febrúar 1964 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti til að veita þjónustu vegna starfsemi milliliða á sviði verslunar, iðnaðar og handverks.

64/222/EBE (7)

Tilskipun ráðsins frá 25. febrúar 1964 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi á sviði heildsölu og milliliða í verslun, iðnaði og handverki.

4. 68/363/EBE (8)

Tilskipun ráðsins frá 15. október 1968 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu á sviði smásöluverslunar (ISIC úr flokki 612).

68/364/EBE (9)

Tilskipun ráðsins frá 15. október 1968 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga á sviði smásöluverslunar (ISIC úr flokki 612).

5. 70/522/EBE (10)

Tilskipun ráðsins frá 30. nóvember 1970 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu á sviði heildsölu og umboðsverslunar með kol (ISIC úr flokki 6112).

70/523/EBE (11)

Tilskipun ráðsins frá 30. nóvember 1970 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga á sviði heildsölu og umboðsverslunar með kol (ISIC úr flokki 6112).

(1) Stjtíð. EB nr. 117, 23. 7. 1964, bls. 1880/64.

(2) Stjtíð. EB nr. 117, 23. 7. 1964, bls. 1863/64. Breytt með tilskipun 69/77/EBE (OJ nr. L 59, 10. 3. 1969, bls. 8).

(3) Stjtíð. EB nr. L 260, 22. 10. 1968, bls. 9.

(4) Stjtíð. EB nr. L 260, 22. 10. 1968, bls. 12.

(5) Stjtíð. EB nr. 56, 4. 4. 1964, bls. 863/64.

(6) Stjtíð. EB nr. 56, 4. 4. 1964, bls. 869/64.

(7) Stjtíð. EB nr. 56, 4. 4. 1964, bls. 857/64.

(8) Stjtíð. EB nr. L 260, 22. 10. 1968, bls. 1.

(9) Stjtíð. EB nr. L 260, 22. 10. 1968, bls. 6.

(10) Stjtíð. EB nr. L 267, 10. 12. 1970, bls. 14.

(11) Stjtíð. EB nr. L 267, 10. 12. 1970, bls. 18.

6. 74/557/EBE (1)

Tilskipun ráðsins frá 4. júní 1974 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga og milliliða til að veita þjónustu á sviði verslunar með og dreifingar á eiturefnum.

74/556/EBE (2)

Tilskipun ráðsins frá 4. júní 1974 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi, verslunar með og dreifingar á eiturefnum og vegna starfsemi sem felur í sér notkun slíkra efna í atvinnuskyni, að meðtalinni starfsemi milliliða.

7. 68/367/EBE (3)

Tilskipun ráðsins frá 15. október 1968 um hvernig koma skuli á staðfesturétti og rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til að veita þjónustu vegna starfsemi innan þjónustugeirans (ISIC úr yfirflokki 85); 1. Veitingahús, kaffihús, ölstofur og aðrir veitingastaðir (ISIC flokkur 852), 2. Hótel, gistiheimili, tjaldstæði og aðrir gististaðir (ISIC flokkur 853).

68/368/EBE (4)

Tilskipun ráðsins frá 15. október 1968 sem hefur að geyma ítarleg ákvæði um bráðabirgðaráðstafanir vegna starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga í þjónustugeiranum (úr ISIC yfirflokki 85); 1. Veitingahús, kaffihús, ölstofur og aðrir veitingastaðir (ISIC flokkur 852), 2. Hótel, gistiheimili, tjaldstæði og aðrir gististaðir (ISIC flokkur 853).

8. 77/92/EBE (5)

Tilskipun ráðsins frá 13. desember 1976 um ráðstafanir til að greiða fyrir því að umboðsmenn í vátryggingum og vátryggingamiðlarar (úr ISIC flokki 630) geti nýtt sér staðfesturétt og rétt til að stunda þjónustustarfsemi á því sviði, svo og sérstakar bráðabirgðaráðstafanir varðandi þá starfsemi.

9. 82/470/EBE (6)

Tilskipun ráðsins frá 29. júní 1982 um ráðstafanir til að auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt hvað varðar starfsemi sjálfstætt starfandi einstaklinga í ákveðnum greinum sem tengjast flutningum og ferðaskrifstofum (ISIC flokkur 718) og geymslu og vöruskemmum (ISIC flokkur 720).

10. 82/489/EBE (7)

Tilskipun ráðsins frá 19. júlí 1982 um ráðstafanir til að auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt í háriðn.

11. 75/368/EBE (8)

Tilskipun ráðsins frá 16. júní 1975 um ráðstafanir til að auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt að því er varðar ýmsa starfsemi (úr ISIC deildum 1 til 85) og einkum bráðabirgðaráðstafanir með tilliti til þessarar starfsemi.

12. 75/369/EBE (9)

Tilskipun ráðsins frá 16. júní 1975 um ráðstafanir til að auðvelda að staðfesturéttar og réttar til að veita þjónustu sé neytt á sviði farandsölu og einkum bráðabirgðaráðstafanir er varða starfsemi af þessu tagi.

Athugasemd

Það skal tekið fram að með lögum um aðild Danmerkur, Írlands og Breska konungsríkisins (Stjtíð. EB nr. L 73, 27. 3. 1972), Grikklands (Stjtíð. EB nr. L 291, 19. 11. 1979) og Spánar og Portúgals (Stjtíð. EB nr. L 302, 15. 11. 1985) hefur verið bætt við sumar framangreindar tilskipanir.

1) Stjtíð. EB nr. L 307, 18. 11. 1974, bls. 5.

(2) Stjtíð. EB nr. L 307, 18. 11. 1974, bls. 1.

(3) Stjtíð. EB nr. L 260, 22. 10. 1968, bls. 16.

(4) Stjtíð. EB nr. L 260, 22. 10. 1968, bls. 19.

(5) Stjtíð. EB nr. L 26, 31. 1. 1977, bls. 14.

(6) Stjtíð. EB nr. L 213, 21. 7. 1982, bls. 1.

(7) Stjtíð. EB nr. L 218, 27. 7. 1982, bls. 24.

(8) Stjtíð. EB nr. L 167, 30. 6. 1975, bls. 22.

(9) Stjtíð. EB nr. L 167, 30. 6. 1975, bls. 29.

VIÐAUKI B

Skrá yfir tilskipanir sem um getur í þriðju undirgrein 2. gr.

Hér er átt við tilskipanir sem eru taldar upp í 1. til 7. lið viðauka A, að tilskipun 74/556/EBE sem er tiltekin í 6. lið undantekinni.

VIÐAUKI C

Skrá yfir nám sem er byggt upp á sérstakan hátt eins og

um getur í ii-lið annars undirliðar í a-lið 1. gr.

1. Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna

Í Þýskalandi

nám fyrir:

- barnalækningahjúkrunarfræðinga (Kinderkrankenschwester/Kinderkrankenpfleger),

- sjúkraþjálfara (Krankengymnast(in)),

- iðjuþjálfa (Beschäftigungs- und Arbeitstherapeut(in)),

- talkennara (Logopäde/Logopädin'),

- augnþjálfa (Orthoptist(in)),

- fóstrur viðurkenndar af ríkinu (Staatlich anerkannte(r) Erzieher(in)),

- endurhæfingarþjálfa viðurkennda af ríkinu (Staatlich anerkannte(r) Heilpädagoge(-in)).

Á Ítalíu

nám fyrir:

- tannfræðinga (odontotecnico),

- sjóntækjafræðinga (ottico),

- fótsnyrta (podologo).

Í Lúxemborg

nám fyrir:

- tæknimenn á sviði geislalækninga (assistant(e) technique médical(e) en radiologie),

- tæknimenn á læknarannsóknarstofum (assistant(e) technique médical(e) de laboratoire).

- geðhjúkrunarfræðingur (infirmier/ière psychiatrique),

- tæknimenn á sviði skurðlækninga (assistant(e) technique médical(e) en chirurgie),

- barnalækningahjúkrunarfræðinga (infirmier/ière puériculteur/trice),

- svæfingahjúkrunarfræðingur (infirmier/ière anesthésiste),

- sérmenntaða nuddara (masseur/euse diplômé(e)),

- fóstrur (éducateur/trice),

sem felur í sér nám sem stendur í 13 ár hið minnsta, meðal annars:

- annaðhvort minnst þriggja ára starfsnám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem í sumum tilvikum bætist við eins eða tveggja ára sérnám sem lýkur með prófi,

- eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst sex mánuði eða minnst sex mánaða starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

- eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst eitt ár eða minnst eins árs starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð.

2. Meistaranám ("Mester/Meister/Maître") á sviði iðnnáms er fellur ekki undir tilskipanir sem eru taldar upp í viðauka A

Í Danmörku

nám fyrir:

- sjóntækjafræðinga (optometrist),

þetta nám tekur alls 14 ár, að meðtalinni fimm ára starfsþjálfun sem skiptist í tveggja og hálfs árs fræðilegt nám í fagskóla og tveggja og hálfs árs starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í iðninni sem veitir rétt til að nota meistaratitilinn;

- bæklunartækna (ortopædimekaniker),

þetta nám tekur alls 12,5 ár, að meðtalinni þriggja og hálfs árs starfsþjálfun sem skiptist í sex mánaða fræðilegt nám í fagskóla og þriggja ára starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í iðninni sem veitir rétt til að nota meistaratitilinn;

- bæklunarskósmiði (ortopædiskomager),

þetta nám tekur alls 13,5 ár, að meðtalinni fjögurra og hálfs árs starfsþjálfun sem skiptist í tveggja ára fræðilegt nám í fagskóla og tveggja og hálfs árs starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í iðninni sem veitir rétt til að nota meistaratitilinn.

Í Þýskalandi

nám fyrir:

- sjóntækjafræðinga (Augenoptiker),

- tannfræðinga (Zahntechniker),

- framleiðendur og seljendur gervilima og umbúða (Bandagist),

- heyrnartækna (Hörgeräte-Akustiker),

- bæklunartækna (Orthopädiemechaniker),

- bæklunarskósmiði (Orthopädieschuhmacher).

Í Lúxemborg

nám fyrir:

- sjóntækjafræðinga (opticien),

- tannfræðinga (mécanicien dentaire),

- heyrnarfræðinga (audioprothésiste),

- bæklunartækna/gervilimafræðinga (mécanicien orthopédiste/bandagiste),

- bæklunarskósmiði (orthopédiste-cordonnier),

þetta nám tekur alls 14 ár, að meðtalinni minnst fimm ára þjálfun sem er liður í skipulögðu námi, og fer að hluta til fram á vinnustað og að hluta til í fagskóla, og lýkur með prófi sem viðkomandi verður að standast til að geta stundað starfsemi í þeirri iðn, annaðhvort á eigin vegum eða annarra með sambærilegri ábyrgð.

3. Sjómennska

a) Sjóflutningar

Í Danmörku

nám fyrir:

- skipstjóra (skibsfører),

- yfirstýrimenn (overstyrmand),

- stýrimenn sem eru einir, vaktstýrimenn (enestyrmand, vagthavende styrmand),

- vaktstýrimenn (vagthavende styrmand),

- yfirvélstjóra (maskinchef),

- fyrstu vélstjóra (1. maskinmester),

- fyrstu vélstjóra/vaktvélstjóra (1. maskinmester/vagthavende maskinmester).

Í Þýskalandi

nám fyrir:

- skipstjóra, stór strandferðaskip (Kapitän AM),

- skipstjóra, strandferðaskip (Kapitän AK),

- vaktstýrimenn, stór strandferðaskip (Nautischer Schiffsoffizier AMW),

- vaktstýrimenn, strandferðaskip (Nautischer Schiffsoffizier AKW),

- yfirvélstjóra, þrep C (Schiffsbetriebstechniker CT - Leiter von Maschinenanlagen),

- vélstjóra, þrep C (Schiffsmaschinist CMa - Leiter von Maschinenanlagen),

- yfirvélstjóra, þrep C (Schiffsbetriebstechniker CTW),

- vélstjóra, þrep C - vélstjóra sem eru einir (Schiffsmaschinist CMaW - Technischer Alleinoffizier).

Á Ítalíu

nám fyrir:

- vaktstýrimenn (ufficiale di coperta),

- yfirvélstjóra (ufficiale di macchina).

Í Hollandi

nám fyrir:

- yfirstýrimenn (strandferðaskip) (með viðbótarnám) [stuurman kleine handelsvaart (met aanvulling)],

- vélstjóra (með prófskírteini) (diploma motordrijver),

sem er sambærilegt við eftirfarandi nám:

- í Danmörku, níu ára grunnskólanám ásamt frekara faglegu grunnnámi og/eða þjónustu á sjó sem varir í 17 til 36 mánuði, en við það bætist:

- eins árs sérhæft starfsnám fyrir vaktstýrimenn,

- þriggja ára sérhæft starfsnám fyrir aðra,

- í Þýskalandi, heildarnám sem tekur 14 til 18 ár, að meðtöldu þriggja ára faglegu grunnnámi ásamt einu ári á sjó, auk eins eða tveggja ára sérhæfðs starfsnáms en við það bætist, eftir því sem við á, tveggja ára reynslutími við stjórn siglinga,

- á Ítalíu, heildarnám sem tekur alls 13 ár, þar af eru minnst fimm ár sem fara í faglegt nám sem lýkur með prófi en við það bætist eftir atvikum starfsþjálfunartími,

- í Hollandi, 14 ára nám, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf ára starfsþjálfunartími.

Námið skal viðurkennt innan ramma hins alþjóðlega STCW-samningsins (International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers, 1978).

b) Veiðar á rúmsjó

Í Þýskalandi

nám fyrir:

- skipstjóra, úthafsveiðar (Kapitän BG/Fischerei),

- skipstjóra, strandveiðar (Kapitän BK/Fischerei),

- vaktstýrimenn, úthafskip (Nautischer Schiffsoffizier BGW/Fischerei),

- vaktstýrimenn, strandferðaskip (Nautischer Schiffsoffizier BKW/Fischerei).

Í Hollandi

nám fyrir:

- yfirstýrimenn/vélstjóra V (stuurman werktuigkundige V),

- vélstjóra IV (fiskiskip) (werktuigkundige IV visvaart),

- yfirstýrimenn IV (fiskiskip) (stuurman IV visvaart),

- yfirstýrimenn/vélstjóra VI (stuurman werktuigkundige VI),

sem er sambærilegt við eftirfarandi nám:

- í Þýskalandi, heildarnám sem tekur 14 til 18 ár, að meðtöldu þriggja ára faglegu grunnnámi ásamt einu ári á sjó, auk eins eða tveggja ára sérhæfðs starfsnáms en við það bætist, eftir því sem við á, tveggja ára reynslutími við stjórn siglinga,

- í Hollandi, nám sem varir í 13 til 15 ár, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf ára starfsþjálfunartími.

Námið skal viðurkennt innan ramma Torremolinos-samningsins (1977 International Convention for the Safety of Fishing Vessels).

4. Tækninám

Á Ítalíu

nám fyrir:

- landmælingamenn (geometra),

- landbúnaðarráðgjafa (perito agrario),

- endurskoðendur (ragioniero) og viðskiptaráðgjafa (perito commerciale),

- starfsráðgjafa (consulente del lavoro),

er felur í sér minnst 13 ára nám á framhaldsskólastigi, þar af eru átta ár skyldunám auk fimm ára náms á framhaldsskólastigi, þar af eru þrjú ár í starfsnámi er lýkur með stúdentsprófi á tæknisviði, en við það bætist

- þegar um er að ræða nám fyrir landmælingamenn:

annaðhvort starfsreynslutími í minnst tvö ár á fagstofu,

eða fimm ára starfsreynsla,

- þegar um er að ræða nám fyrir landbúnaðarráðgjafa, endurskoðendur, viðskiptaráðgjafa og starfsráðgjafa að lokinni minnst tveggja ára starfsreynslu,

ásamt prófi sem er viðurkennt af ríkinu.

Í Hollandi

nám fyrir:

- fógetafulltrúa (gerechtsdeurwaarder),

sem felur í sér almennt nám og starfsnám er í allt tekur 19 ár, þar af eru átta ár í skyldunámi ásamt átta árum á framhaldsskólastigi (en fjögur þeirra skulu vera á tæknisviði), og lýkur með prófi viðurkenndu af ríkinu en við það bætist þriggja ára fræðilegt og verklegt starfsnám.

5. Nám í Breska konungsríkinu sem er viðurkennt sem "National Vocational Qualifications or Scottish Vocational Qualifications"

Nám fyrir:

- vísindalega aðstoðarmenn við læknarannsóknarstofur (Medical Laboratory Scientific Officer),

- námurafmagnsverkfræðinga (Mine Electrical Engineer),

- námuvélaverkfræðinga (Mine Mechanical Engineer),

- viðurkennda félagsráðgjafa - á sviði geðheilbrigðis (Approved Social Worker - Mental Health),

- tilsjónarmenn (Probation Officer),

- tannfræðinga (Dental Therapist),

- tannhirða (Dental Hygienist),

- sjóntækjafræðinga (Dispensing optician),

- aðstoðarmenn námuverkfræðinga (Mine Deputy),

- skiptastjóra (Insolvency Practitioner),

- viðurkennda lögbókendur við afsal og fasteignagjörninga (Licensed Conveyancer),

- gervilimasmiði (Prosthetist),

- fyrstu stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað (First Mate - Freight/Passenger ships - Unrestricted),

- aðra stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað (Second Mate - Freight/Passenger ships - Unrestricted),

- þriðju stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað (Third Mate - Freight/Passenger ships - Unrestricted),

- vaktstýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað (Deck Officer - Freight/Passenger ships - Unrestricted),

- yfirvélstjóra á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað viðskiptasvæði (Engineer Officer - Freight/Passenger ships - Unlimited Trading Area),

- umboðsaðila vörumerkja (Trade Mark Agent),

er felur í sér menntun og hæfi sem er viðurkennt sem ,,National Vocational Qualifications" (NVQ) eða sem ,,National Council for Vocational Qualifications" samþykkir og viðurkennir sem jafngilt, eða er viðurkennt í Skotlandi sem ,,Scottish Vocational Qualifications", á 3. og 4. stigi í ,,National Framework of Vocational Qualifications" í Breska konungsríkinu.

Þessi stig eru skilgreind sem hér segir:

- 3. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða bæði flókin störf og störf sem eru ekki venjubundin. Um verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð er að ræða og jafnframt er oft krafist umsjónar eða leiðsagnar með öðrum.

- 4. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs, bæði er varðar tæknileg og fagleg atriði, og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð. Oft er jafnframt um að ræða ábyrgð á störfum annarra og úthlutun verkefna.

VIÐAUKI D

Skrá yfir nám sem er byggt upp á sérstakan hátt eins og um getur í

þriðja undirlið b-liðar í fyrstu undirgrein 3. gr.

 

Í Breska konungsríkinu

Lögverndað nám er felur í sér menntun og hæfi sem ,,National Council for Vocational Qualifications" viðurkennir sem ,,National Vocational Qualifications" (NVQ), eða er viðurkennt í Skotlandi sem ,,Scottish

Vocational Qualifications", á 3. og 4. stigi í ,,National Framework of Vocational Qualifications" í Breska konungsríkinu.

Þessi stig eru skilgreind sem hér segir:

- 3. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða bæði flókin störf og störf sem eru ekki venjubundin. Um verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð er að ræða og jafnframt er oft krafist umsjónar eða leiðsagnar með öðrum.

-4. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs, bæði er varðar tæknileg og fagleg atriði, og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð. Oft er jafnframt um að ræða ábyrgð á störfum annarra og úthlutun verkefna.

Fylgiskjal 3.

TILSKIPUN FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR 94/38/EB

frá 26. júlí 1994

um breytingu á viðaukum C og D við tilskipun ráðsins 92/51/EBE um

annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og

starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDA-

LAGANNA HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,

með hliðsjón af tilskipun ráðsins 92/51/EBE frá 18. júní 1992 um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE (1), einkum 15. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

Þegar rökstudd beiðni um að starfsnámi eða starfsþjálfun verði bætt við eða tekið út af skránni í viðaukum C eða D er skoðuð ber framkvæmdastjórninni, samkvæmt 2. mgr. 15. gr. tilskipunar 92/51/EBE, einkum að ganga úr skugga um að prófskírteini sem eru veitt vegna umrædds náms séu vitnisburður um að viðkomandi búi yfir menntun eða

hæfi á sambærilegu stigi við það æðra nám sem um getur í i-lið annars undirliðar fyrstu undirgreinar a-liðar 1. gr. og hafi sambærilega ábyrgð og verksvið.

Ríkisstjórn Þýskalands hefur lagt fram rökstudda beiðni um breytingu á viðaukum C og D við tilskipunina og ríkisstjórn Ítalíu hefur lagt fram rökstudda beiðni um breytingu á viðauka C.

Einkum þarf að breyta tilvísun til starfsheitisins sjúkraþjálfara ("Krankengymnast(in)") í Þýskalandi í kjölfar breytingar á innlendri löggjöf þar sem nýtt starfsheiti er samþykkt án þess þó að uppbyggingu starfsnáms og starfsþjálfunar hafi verið breytt.

(1) Stjtíð. EB nr. L 209, 24. 7. 1992, bls. 25.

Það starfsnám sem bæta á við skrána í viðauka C, að því er varðar Þýskaland, er byggt upp á sama hátt og það sem þegar er skráð, að því er varðar Þýskaland, Ítalíu og Lúxemborg, í 1. lið (,,Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna") í sama viðauka.

Ítalía hefur breytt starfsnámi og starfsþjálfun fyrir endurskoðendur ("ragioniero") og viðskiptaráðgjafa (,,perito commerciale") með þeim hætti að ákvæði tilskipunar ráðsins 89/48/EBE (2) gilda nú um þetta

nám. Að því er varðar starfsráðgjafa ("consulente del lavoro") hefur sýnt sig að uppbygging námsins eins og hún er skilgreind í tilskipun 89/48/EBE er það námsfyrirkomulag sem helst tíðkast í þessari starfsgrein. Af þessu leiðir að fella ber námsfyrirkomulag þessara tveggja starfsgreina brott úr viðauka C, þar eð þeir sem búa yfir menntun og hæfi samkvæmt ákvæðum tilskipunar 92/51/EBE geta farið fram á að ákvæði a-liðar 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE gildi um þá.

Eins og fram kemur í 2. gr. tilskipunar 92/51/EBE gilda ákvæði þeirrar tilskipunar ekki um störf sem fjallað er um í tilskipunum sem eru taldar upp í viðauka A við þá tilskipun, að meðtöldum tilskipunum sem eru látnar gilda um iðkun á launuðum störfum, sem eru talin upp í viðauka B, jafnvel þó að ríkisborgari aðildarríkis hafi lokið ,,námi sem er byggt upp á sérstakan hátt" og um getur í viðauka D.

Starfsnámið sem bæta á við skrána í viðauka D að því er varðar Þýskaland er að uppbyggingu líkt tilteknu starfsnámi í viðauka C og varir ævinlega allt minnst 13 ár, þar af starfsmenntun minnst þrjú ár.

Aðildarríkjum sem eiga starfsnám og starfsþjálfun skráð í viðauka D ber, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 17. gr. tilskipunar 92/51/EBE og í þeim tilgangi að auka skilvirkni almenna kerfisins, að senda framkvæmdastjórninni skrá yfir viðkomandi prófskírteini.

Birta ber skrárnar með áorðnum breytingum til að auðveldara sé að lesa viðauka C og D.

Þær ráðstafanir sem kveðið er á um í þessari tilskipun eru í samræmi við álit nefndarinnar sem komið var á fót samkvæmt 15. gr. tilskipunar 92/51/EBE.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Viðaukum C og D við tilskipun 92/51/EBE er hér með breytt eins og fram kemur í I. viðauka við þessa tilskipun.

2. gr.

Skrárnar yfir starfsnám og starfsþjálfun í viðaukum C og D við tilskipun 92/51/EBE er að finna með áorðnum breytingum í II. viðauka við þessa tilskipun.

3. gr.

1. Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og

stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 1. október 1994. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau verða birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem samþykkt verða um málefni sem tilskipun þessi nær til.

4. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á 20. degi frá því að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins

Gjört í Brussel 26. júlí 1994.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,

Raniero VANNI D'ARCHIRAFI

framkvæmdastjóri.

VIÐAUKI I

1. Eftirfarandi breytingar eru gerðar á viðauka C:

1. Undir fyrirsögninni ,,Í Þýskalandi" í ,,1. Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna":

a) verði annar undirliður sem hér segir:

,,- sjúkraþjálfara (,,Krankengymnast(in)/Physiotherapeut(in)")(1)";

b) bætast eftirtaldir undirliðir við:

,,- aðstoðartæknimenn á læknarannsóknarstofum (,,medizinisch-technische(r) Laboratoriums-Assistent(in)"),

- aðstoðartæknimenn á sviði geislalækninga (,,medizinisch-technische(r) Radiologie-Assistent(in)"),

- aðstoðartæknimenn á sviði sjúkdómsgreiningar (,,medizinisch-technische(r) Assistent(in) für Funktionsdiagnostik"),

- aðstoðartæknimenn á sviði dýralækninga (,,veterinärmedizinisch-technische(r) Assistent(in)"),

- næringarfræðinga (,,Diätassistent(in)"),

- tæknimenn á sviði lyfjafræði (,,Pharmazieingenieur"), lokið fyrir 31. mars 1994 í fyrrum Þýska alþýðulýðveldinu eða á yfirráðasvæði hinna nýju sambandsríkja,

- geðhjúkrunarfræðinga (,,Psychiatrische(r) Krankenschwester/Krankenpfleger"),

- talkennara (,,Sprachtherapeut(in)")."

2. Undir ,,Á Ítalíu" í ,,4. Tækninám":

- falli niður þriðji undirliður: ,,- endurskoðendur (ragioniero) og viðskiptaráðgjafa (perito commerciale)",

- falli niður fjórði undirliður: ,,- starfsráðgjafa (consulente del lavoro)",

- hljóði sjötti undirliður sem hér segir: ,,- þegar um er að ræða nám fyrir landbúnaðarráðgjafa, að lokinni minnst tveggja ára starfsreynslu."

2. Eftirfarandi þáttur bætist við viðauka D:

,,Í Þýskalandi:

eftirfarandi lögverndað nám:

- lögverndað nám til undirbúnings störfum aðstoðarmanns á tæknisviði (,,technische(r) Assistent(in)"), aðstoðarmanns á viðskiptasviði (,,kaufmännishce(r) Assistent(in)"), starfsgreinum á vettvangi félagsmála (,,soziale Berufe") og starfsgreininni öndunar-, tal- og raddþjálfari viðurkenndri af ríkinu (,,staatlich geprüfte(r) Atem-, Sprech- und Stimmlehrer(in)"), sem felur í sér nám sem stendur í 13 ár hið minnsta, meðal annars próf úr framhaldsskóla (,,mittlerer Bildungsabschluß"), og nær yfir:

- minnst þriggja ára(2) starfsnám í sérskóla (,,Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem í sumum tilvikum bætist við eins eða tveggja ára sérnám sem einnig lýkur með prófi,

- eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla (,,Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst sex mánuði eða minnst sex mánaða starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

- eða minnst tveggja ára nám í sérskóla (,,Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst eitt ár eða minnst eins árs starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

- lögverndað nám fyrir starfsgreinarnar iðnfræðingur viðurkenndur af ríkinu (,,staatlich geprüfte(r) Techniker(in)"), rekstrarhagfræðingur (,,Betriebswirt(in)"), hönnuður (,,Gestalter(in)") og heimilishjálparmaður (,,Familienpfleger(in)") sem felur í sér nám sem stendur í 16 ár hið minnsta, þar sem þess er krafist að viðkomandi hafi lokið skyldunámi með fullnægjandi hætti eða sambærilegu námi og þjálfun (sem stendur í níu ár hið minnsta) og námi við fagskóla (,,Berufsschule") sem stendur í þrjú ár hið minnsta, og að lokinni minnst tveggja ára starfsreynslu felur í sér minnst tveggja ára nám og þjálfun í fullu starfi eða nám og þjálfun í hlutastarfi af samsvarandi lengd,

(1) Frá og með 1. júní 1994 kom starfsheitið ,,Physiotherapeut(in)" í stað ,,Krankengymnast(in)". Hins vegar er starfsmönnum í greininni, sem hafa fengið prófskírteini fyrir þá dagsetningu, heimilt að nota fyrra heitið, ,,Krankengymnast(in)", óski þeir þess.

(2) Heimilt er að stytta lágmarksnámstíma sem er þrjú ár í tvö ár hafi viðkomandi einstaklingur menntun og hæfi til að setjast í háskóla (,,Abitur"), þ.e. hefur lokið 13 ára námi og þjálfun eða hefur menntun og hæfi til að setjast í ,,Fachhochschule" (,,Fachhochschulereife"), þ.e. hefur lokið 12 ára námi og þjálfun.

- lögverndað nám og lögvernduð starfsþjálfun, sem varir alls 15 ár hið minnsta, þar sem þess er krafist, almennt orðað, að viðkomandi hafi lokið skyldunámi með fullnægjandi hætti (sem stendur í níu ár hið minnsta) og starfsnámi (venjulega þriggja ára), og felur að jafnaði í sér minnst tveggja ára starfsreynslu (oftast þriggja ára) og próf sem er hluti starfsþjálfunar, en undirbúningur fyrir það felst í námi sem annaðhvort fer fram samhliða starfsþjálfuninni (minnst 1000 klukkustundir) eða er sjálfstætt fullt nám (minnst eitt ár).

Þýsk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og öðrum aðildarríkjum skrá yfir starfsnám sem fjallað er um í þessum viðauka."

II. VIÐAUKI

Skrá yfir nám sem er byggt upp á sérstakan hátt eins og um getur í ii-lið annars

undirliðar í fyrstu undirgrein a-liðar 1. gr.

1. Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna

Nám fyrir:

í Þýskalandi

- barnalækningahjúkrunarfræðinga (,,Kinderkrankenschwester/Kinderkrankenpfleger"),

- sjúkraþjálfara (,,Krankengymnast(in)/Physiotherapeut(in)")(1),

- iðjuþjálfa (Beschäftigungs- und Arbeitstherapeut(in)"),

- talkennara (,,Logopäde/Logopädin"),

- augnþjálfa (,,Orthoptist(in)"),

- fóstrur viðurkenndar af ríkinu (,,Staatlich anerkannte(r) Erzieher(in)"),

- endurhæfingarþjálfa viðurkennda af ríkinu (,,Staatlich anerkannte(r) Heilpädagoge(-in)").

- aðstoðartæknimenn á læknarannsóknarstofum (,,medizinisch-technische(r) Laboratoriums-Assistent(in)"),

- aðstoðartæknimenn á sviði geislalækninga (,,medizinisch-technische(r) Radiologie-Assistent(in)"),

- aðstoðartæknimenn á sviði sjúkdómsgreiningar (,,medizinisch-technische(r) Assistent(in) für Funktionsdiagnostik"),

- tæknimenn á sviði dýralækninga (,,veterinärmedizinisch-technische(r) Assistent(in)"),

- næringarfræðinga (,,Diätassistent(in)"),

- tæknimenn á sviði lyfjafræði (,,Pharmazieingenieur"), lokið fyrir 31. mars 1994 í fyrrum Þýska alþýðulýðveldinu eða á yfirráðasvæði hinna nýju sambandsríkja,

- geðhjúkrunarfræðinga (,,Psychiatrische(r) Krankenschwester/Krankenpfleger"),

- talkennara (,,Sprachtherapeut(in)"),

á Ítalíu

- tannfræðinga (,,odontotecnico"),

- sjóntækjafræðinga (,,ottico"),

- fótsnyrta (,,podologo"),

í Lúxemborg

- tæknimenn á sviði geislalækninga (,,assistant(e) technique médical(e) en radiologie"),

- tæknimenn á læknarannsóknarstofum (,,assistant(e) technique médical(e) de laboratoire"),

- geðhjúkrunarfræðingur (,,infirmier/ière psychiatrique"),

- tæknimenn á sviði skurðlækninga (,,assistant(e) technique médical(e) en chirurgie"),

- barnalækningahjúkrunarfræðinga (,,infirmier/ière puériculteur/trice"),

(1) Frá og með 1. júní 1994 kom starfsheitið ,,Physiotherapeut(in)" í stað ,,Krankengymnast(in)". Hins vegar er starfsmönnum í greininni, sem hafa fengið prófskírteini fyrir þá dagsetningu, heimilt að nota fyrra heitið, ,,Krankengymnast(in)", óski þeir þess.

- svæfingahjúkrunarfræðingur (,,infirmier/ière anesthésiste"),

- sérmenntaða nuddara (,,masseur/euse diplômé(e)"),

- fóstrur (,,éducateur/trice"),

sem felur í sér nám sem stendur í 13 ár hið minnsta, meðal annars:

- annaðhvort minnst þriggja ára starfsnám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem í sumum tilvikum bætist við eins eða tveggja ára sérnám sem lýkur með prófi,

- eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst sex mánuði eða minnst sex mánaða starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

- eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst eitt ár eða minnst eins árs starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð.

2. Meistaranám (,,Mester/Meister/Maître") á sviði iðnnáms er fellur ekki undir tilskipanir sem eru taldar upp í viðauka A

Nám fyrir:

í Danmörku

- sjóntækjafræðinga (,,optometrist"),

þetta nám tekur alls 14 ár, að meðtalinni fimm ára starfsþjálfun sem skiptist í tveggja og hálfs árs fræðilegt nám í fagskóla og tveggja og hálfs árs starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í iðninni sem veitir rétt til að nota meistaratitilinn,

- bæklunartækna (,,ortopædimekaniker"),

þetta nám tekur alls 12,5 ár, að meðtalinni þriggja og hálfs árs starfsþjálfun sem skiptist í sex mánaða fræðilegt nám í fagskóla og þriggja ára starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í iðninni sem veitir rétt til að nota meistaratitilinn,

- bæklunarskósmiði (,,ortopædiskomager"),

þetta nám tekur alls 13,5 ár, að meðtalinni fjögurra og hálfs árs starfsþjálfun sem skiptist í tveggja ára fræðilegt nám í fagskóla og tveggja og hálfs árs starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í iðninni sem veitir rétt til að nota meistaratitilinn.

Nám fyrir:

í Þýskalandi

- sjóntækjafræðinga (,,Augenoptiker"),

- tannfræðinga (,,Zahntechniker"),

- framleiðendur og seljendur gervilima og umbúða (,,Bandagist"),

- heyrnartækna (,,Hörgeräte-Akustiker"),

- bæklunartækna (,,Orthopädiemechaniker"),

- bæklunarskósmiði (,,Orthopädieschuhmacher"),

í Lúxemborg

- sjóntækjafræðinga (,,opticien"),

- tannfræðinga (,,mécanicien dentaire"),

- heyrnarfræðinga (,,audioprothésiste"),

- bæklunartækna/gervilimafræðinga (,,mécanicien orthopédiste/bandagiste"),

- bæklunarskósmiði (,,orthopédiste-cordonnier").

Þetta nám tekur alls 14 ár, að meðtalinni minnst fimm ára þjálfun sem er liður í skipulögðu námi, og fer að hluta til fram á vinnustað og að hluta til í fagskóla, og lýkur með prófi sem viðkomandi verður að standast til að geta stundað starfsemi í þeirri iðn, annaðhvort á eigin vegum eða annarra með sambærilegri ábyrgð.

3. Sjómennska

a) Sjóflutningar

Nám fyrir:

í Danmörku

- skipstjóra (,,skibsfører"),

- yfirstýrimenn (,,overstyrmand"),

- stýrimenn sem eru einir, vaktstýrimenn (,,enestyrmand, vagthavende styrmand"),

- vaktstýrimenn (,,vagthavende styrmand"),

- yfirvélstjóra (,,maskinchef"),

- fyrstu vélstjóra (,,1. maskinmester"),

- fyrstu vélstjóra/vaktvélstjóra (,,1. maskinmester/vagthavende maskinmester"),

í Þýskalandi

- skipstjóra, stór strandferðaskip (,,Kapitän AM"),

- skipstjóra, strandferðaskip (,,Kapitän AK"),

- vaktstýrimenn, stór strandferðaskip (,,Nautischer Schiffsoffizier AMW"),

- vaktstýrimenn, strandferðaskip (,,Nautischer Schiffsoffizier AKW"),

- yfirvélstjóra, þrep C (,,Schiffsbetriebstechniker CT - Leiter von Maschinenanlagen"),

- vélstjóra, þrep C (,,Schiffsmaschinist CMa - Leiter von Maschinenanlagen"),

- yfirvélstjóra, þrep C (,,Schiffsbetriebstechniker CTW"),

- vélstjóra, þrep C - vélstjóra sem eru einir (,,Schiffsmaschinist CMaW - Technischer Alleinoffizier"),

á Ítalíu

- vaktstýrimenn (,,ufficiale di coperta"),

- yfirvélstjóra (,,ufficiale di macchina"),

í Hollandi

- yfirstýrimenn (strandferðaskip) (með viðbótarnám) (,,stuurman kleine handelsvaart (met aanvulling)"),

- vélstjóra (með prófskírteini) (,,diploma motordrijver"),

sem er sambærilegt við eftirfarandi nám:

- í Danmörku, níu ára grunnskólanám ásamt frekara faglegu grunnnámi og/eða þjónustu á sjó sem varir í 17 til 36 mánuði, en við það bætist:

- eins árs sérhæfð starfsþjálfun fyrir vaktstýrimenn,

- þriggja ára sérhæfð starfsþjálfun fyrir aðra,

- í Þýskalandi, heildarnám sem tekur 14 til 18 ár, að meðtöldu þriggja ára faglegu grunnnámi ásamt einu ári á sjó, auk eins eða tveggja ára sérhæfðrar starfsþjálfunar en við það bætist, eftir því sem við á, tveggja ára reynslutími við stjórn siglinga,

- á Ítalíu, heildarnám sem tekur alls 13 ár, þar af eru minnst fimm ár í faglegu námi sem lýkur með prófi en við það bætist eftir atvikum starfsþjálfunartími,

- í Hollandi, 14 ára nám, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf mánaða starfsþjálfunartími.

Námið skal viðurkennt samkvæmt alþjóðlega STCW-samningnum (International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers, 1978).

b) Veiðar á rúmsjó

Nám fyrir:

í Þýskalandi

- skipstjóra, úthafsveiðar (,,Kapitän BG/Fischerei"),

- skipstjóra, strandveiðar (,,Kapitän BK/Fischerei"),

- vaktstýrimenn, úthafsveiðiskip (,,Nautischer Schiffsoffizier BGW/Fischerei"),

- vaktstýrimenn, strandveiðiskip (,,Nautischer Schiffsoffizier BKW/Fischerei"),

í Hollandi

- yfirstýrimenn/vélstjóra V (,,stuurman werktuigkundige V"),

- vélstjóra IV (fiskiskip) (,,werktuigkundige IV visvaart"),

- yfirstýrimenn IV (fiskiskip) (,,stuurman IV visvaart"),

- yfirstýrimenn/vélstjóra VI (,,stuurman werktuigkundige VI"),

sem er sambærilegt við eftirfarandi nám:

- í Þýskalandi, heildarnám sem tekur 14 til 18 ár, að meðtöldu þriggja ára faglegri grunnþjálfun ásamt einu ári á sjó, auk eins eða tveggja ára sérhæfðrar starfsþjálfunar en við það bætist, eftir því sem við á, tveggja ára reynslutími við stjórn siglinga,

- í Hollandi, nám sem varir í 13 til 15 ár, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf mánaða starfsþjálfunartími.

Námið skal viðurkennt samkvæmt Torremolinos-samningnum (1977 International Convention for the Safety of Fishing Vessels).

4. Tækninám

Nám fyrir:

á Ítalíu

- landmælingamenn (,,geometra"),

- landbúnaðarráðgjafa (,,perito agrario"),

er felur í sér minnst 13 ára tækninám á framhaldsskólastigi, þar af eru átta ár skyldunám auk fimm ára náms á framhaldsskólastigi, þar af eru þrjú ár í starfsnámi er lýkur með stúdentsprófi á tæknisviði, en við það bætist,

- þegar um er að ræða nám fyrir landmælingamenn: annaðhvort starfsreynslutími í minnst tvö ár á fagstofu, eða fimm ára starfsreynsla,

- þegar um er að ræða nám fyrir landbúnaðarráðgjafa, minnst tveggja ára starfsreynsla ásamt prófi sem er viðurkennt af ríkinu.

Nám fyrir:

í Hollandi

- fógetafulltrúa (,,gerechtsdeurwaarder"),

sem felur í sér almennt nám og starfsþjálfun er í allt tekur 19 ár, þar af eru átta ár í skyldunámi ásamt átta árum á framhaldsskólastigi, en fjögur þeirra skulu vera á tæknisviði, og lýkur með prófi viðurkenndu af ríkinu en við það bætist þriggja ára fræðilegt og verklegt starfsnám.

5. Nám í Breska konungsríkinu sem er viðurkennt sem ,,National Vocational Qualifications or Scottish Vocational Qualifications"

Nám fyrir:

- vísindalega aðstoðarmenn við læknarannsóknarstofur (,,Medical Laboratory Scientific Officer"),

- námurafmagnsverkfræðinga (,,Mine Electrical Engineer"),

- námuvélaverkfræðinga (,,Mine Mechanical Engineer"),

- viðurkennda félagsráðgjafa - á sviði geðheilbrigðis (,,Approved Social Worker - Mental Health"),

- tilsjónarmenn (,,Probation Officer"),

- tannfræðinga (,,Dental Therapist"),

- tannhirða (,,Dental Hygienist"),

- sjóntækjafræðinga (,,Dispensing optician"),

- aðstoðarmenn námuverkfræðinga (,,Mine Deputy"),

- skiptastjóra (,,Insolvency Practitioner"),

- viðurkennda lögbókendur við afsal og fasteignagjörninga (,,Licensed Conveyancer"),

- gervilimasmiði (,,Prosthetist"),

- fyrstu stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - án takmarkana (,,First Mate - Freight/Passenger ships - Unrestricted"),

- aðra stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - án takmarkana (,,Second Mate - Freight/Passenger ships - Unrestricted"),

- þriðju stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - án takmarkana (,,Third Mate - Freight/Passenger ships - Unrestricted"),

- vaktstýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - án takmarkana (,,Deck Officer - Freight/Passenger ships - Unrestricted"),

- yfirvélstjóra á flutninga- og farþegaskipum - viðskiptasvæði án takmarkana (,,Engineer Officer - Freight/Passenger ships - Unlimited Trading Area"),

- umboðsaðila vörumerkja (,,Trade Mark Agent"),

er felur í sér menntun og hæfi sem er viðurkennt sem ,,National Vocational Qualifications" (NVQ) eða sem ,,National Council for Vocational Qualifications" samþykkir og viðurkennir sem jafngilt, eða er viðurkennt í Skotlandi sem ,,Scottish Vocational Qualifications", á 3. og 4. stigi í ,,National Framework of Vocational Qualifications" í Breska konungsríkinu.

Þessi stig eru skilgreind sem hér segir:

- 3. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða bæði flókin störf og störf sem eru ekki venjubundin. Um verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð er að ræða og jafnframt er oft krafist umsjónar með öðrum eða leiðsagnar.

- 4. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs, bæði er varðar tæknileg og fagleg atriði, og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð. Oft er jafnframt um að ræða ábyrgð á störfum annarra og skipulagningu starfseminnar.

Skrá yfir nám sem er byggt upp á sérstakan hátt eins og um getur

í þriðja undirlið b-liðar í fyrstu undirgrein 3. gr.

Í Breska konungsríkinu

Lögverndað nám er felur í sér menntun og hæfi sem ,,National Council for Vocational Qualifications" viðurkennir sem ,,National Vocational Qualifications" (NVQ), eða er viðurkennt í Skotlandi sem ,,Scottish

Vocational Qualifications", á 3. og 4. stigi í ,,National Framework of Vocational Qualifications" í Breska konungsríkinu.

Þessi stig eru skilgreind sem hér segir:

- 3. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða bæði flókin störf og störf sem eru ekki venjubundin. Um verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð er að ræða og jafnframt er oft krafist umsjónar með öðrum eða leiðsagnar.

- 4. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs, bæði er varðar tæknileg og fagleg atriði, og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð. Oft er jafnframt um að ræða ábyrgð á störfum annarra og skipulagningu starfseminnar.

Í Þýskalandi

Eftirfarandi lögverndað nám:

- lögverndað nám til undirbúnings störfum aðstoðarmanns á tæknisviði (,,technische(r) Assistent(in)"), aðstoðarmanns á viðskiptasviði (,,kaufmännishce(r) Assistent(in)"), starfsgreinum á vettvangi félagsmála (,,soziale Berufe") og starfsgreininni öndunar-, tal- og raddþjálfari viðurkenndri af ríkinu (,,staatlich geprüfte(r) Atem-, Sprech- und Stimmlehrer(in)"), sem felur í sér nám sem stendur í 13 ár hið minnsta, meðal annars próf úr framhaldsskóla (,,mittlerer Bildungsabschluß"), og nær yfir:

- minnst þriggja ára(1) starfsnám í sérskóla ("Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem í sumum tilvikum bætist við eins eða tveggja ára sérnám sem einnig lýkur með prófi,

- eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla (,,Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst sex mánuði eða minnst sex mánaða starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

- eða minnst tveggja ára nám í sérskóla (,,Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst eitt ár eða minnst eins árs starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

(1) Heimilt er stytta lágmarksnámstíma úr þremur árum í tvö ár hafi viðkomandi einstaklingur menntun og hæfi til að setjast í háskóla (,,Abitur"), þ.e. hefur lokið 13 ára námi og þjálfun eða hefur menntun og hæfi til að setjast í ,,Fachhochschule" ("Fachhochschulereife"), þ.e. hefur lokið 12 ára námi og þjálfun.

- lögverndað nám fyrir starfsgreinarnar iðnfræðingur viðurkenndur af ríkinu (,,staatlich geprüfte(r) Techniker(in)"), rekstrarhagfræðingur (,,Betriebswirt(in)"), hönnuður (,,Gestalter(in)") og heimilishjálparmaður (,,Familienpfleger(in)") sem felur í sér nám sem stendur í 16 ár hið minnsta, þar sem þess er krafist að viðkomandi hafi lokið skyldunámi með fullnægjandi hætti eða sambærilegu námi og þjálfun (sem stendur í níu ár hið minnsta) og námi við fagskóla (,,Berufsschule") sem stendur í þrjú ár hið minnsta, og að lokinni minnst tveggja ára starfsreynslu felur í sér minnst tveggja ára nám og þjálfun í fullu starfi eða nám og þjálfun í hlutastarfi af samsvarandi lengd,

- lögverndað nám og lögvernduð starfsþjálfun, sem varir alls 15 ár hið minnsta, þar sem þess er krafist, almennt orðað, að viðkomandi hafi lokið skyldunámi með fullnægjandi hætti (sem stendur í níu ár hið minnsta) og starfsnámi (venjulega þriggja ára), og felur að jafnaði í sér minnst tveggja ára starfsreynslu (oftast þriggja ára) og próf sem er hluti starfsþjálfunar, en undirbúningur fyrir það felst í námi sem annaðhvort fer fram samhliða starfsþjálfuninni (minnst 1 000 klukkustundir) eða er sjálfstætt fullt nám (minnst eitt ár).

Þýsk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og öðrum aðildarríkjum skrá yfir starfsnám sem fjallað er um í þessum viðauka.

Fylgiskjal 4.

TILSKIPUN FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR 95/43/EB

frá 20. júlí 1995

um breytingu á viðaukum C og D við tilskipun ráðsins 92/51/EBE

um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og

starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE

(Texti sem varðar EES)

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDA-

LAGANNA HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,

með hliðsjón af tilskipun ráðsins 92/51/EBE frá 18. júní 1992 um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE(1), eins og henni var breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 94/38/EB(2), einkum 15. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

Þegar framkvæmdastjórnin fjallar um rökstudda beiðni um að námi verði bætt við eða tekið út af skránni í viðaukum C eða D ber henni, samkvæmt

2. mgr. 15. gr. tilskipunar 92/51/EBE, einkum að ganga úr skugga um að prófskírteini sem eru veitt vegna umrædds náms séu vitnisburður um að starfsmenntun eða starfsþjálfun viðkomandi sé á sambærilegu stigi við það æðra nám sem um getur í i-lið annars undirliðar fyrstu undirgreinar a-liðar 1. gr. og að hann geti tekist á við sambærilega ábyrgð og verksvið.

Ríkisstjórn Hollands hefur lagt fram rökstudda beiðni um breytingu á viðaukum C og D við tilskipun 92/51/EBE og ríkisstjórn Austurríkis hefur lagt fram rökstudda beiðni um breytingu á viðauka D.

Námið sem bæta á við skrána í viðauka C við tilskipun 92/51/EBE, að því er varðar Holland, er sambærilegt bæði hvað varðar uppbyggingu og lengd og ábyrgð og verksvið við það sem þegar er skráð í viðaukanum.

Í samræmi við 2. gr. tilskipunar 92/51/EBE gilda ákvæði þessarar tilskipunar ekki um störf sem heyra undir tilskipanir sem eru taldar upp í viðauka A, að meðtöldum tilskipunum sem eru látnar gilda um iðkun launaðra starfa sem eru talin upp í viðauka B, jafnvel þó að ríkisborgari aðildarríkis hafi lokið "námi sem er byggt upp á sérstakan hátt" er um getur í viðauka D.

(1) Stjtíð. EB nr. L 209, 24. 7. 1992, bls. 25.

(2) Stjtíð. EB nr. L 217, 23. 8. 1994, bls. 8.

Námið sem bæta á við skrána í viðauka D við tilskipun 92/51/EBE, að því er varðar Holland og Austurríki, er sambærilegt að uppbyggingu og lengd við tiltekið nám sem er tilgreint í viðauka C og við sumt af því námi sem fyrir er í viðauka D og varir ævinlega í minnst 13 ár.

Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 17. gr. tilskipunar 92/51/EBE og í þeim tilgangi að auka skilvirkni almenna kerfisins ber þeim aðildarríkjum sem hafa nám á skrá í viðauka D að senda framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum skrá yfir viðkomandi prófskírteini.

Birta ber skrárnar með áorðnum breytingum til að auðveldara sé að lesa viðauka C og D við tilskipun 92/51/EBE.

Ráðstafanirnar sem kveðið er á um í þessari tilskipun eru í samræmi við álit nefndarinnar sem komið var á fót samkvæmt 15. gr. tilskipunar 92/51/EBE.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Viðaukum C og D við tilskipun 92/51/EBE er hér með breytt eins og fram kemur í I. viðauka við þessa tilskipun.

2. gr.

Skrárnar yfir nám í viðaukum C og D við tilskipun 92/51/EBE er að finna með áorðnum breytingum í II. viðauka við þessa tilskipun.

3. gr.

1. Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og

stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 31. október 1995. Þau skulu tilkynna það framvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau verða birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem samþykkt verða um málefni sem tilskipun þessi nær til.

4. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi frá því að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 20. júlí 1995.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,

Mario MONTI

framkvæmdastjóri.

 

I. VIÐAUKI

A. Eftirfarandi breytingar eru gerðar á viðauka C:

1. a) Í liðnum "1. Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna", á eftir fyrirsögninni "Í Lúxemborg er eftirfarandi fyrirsögn og undirlið bætt við á eftir síðasta undirlið "kennslu- og uppeldisfræðinga ("éducateur/trice"):

Í Hollandi:

- aðstoðarmenn dýralækna ("dierenartassistent")".

b) Í liðnum "1. Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna", undir fyrirsögninni "sem felur í sér nám sem stendur í 13 ár hið minnsta, meðal annars:" er eftirfarandi undirlið bætt við á eftir síðasta undirlið:

- eða, ef um ræðir aðstoðarmann dýralæknis ("dierenartassistent") í Hollandi, annaðhvort þriggja ára starfsnám í sérskóla ("MBO"-kerfið) eða þriggja ára samþættingarnám á námssamningi ("LLW"), sem hvoru tveggja lýkur með prófi."

2. a) Í liðnum "3. Sjómennska a) Sjóflutningar", undir fyrirsögninni "Í Hollandi" er eftirfarandi undirlið bætt við:

- skipaumferðarstjóra ("VTS-functionaris")".

b) Í liðnum "3. Sjómennskaa) Sjóflutningar", undir fyrirsögninni "sem er sambærilegt við eftirfarandi nám:" komi eftirfarandi í stað undirliðarins "- í Hollandi, 14 ára nám, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf mánaða starfsþjálfunartími,":

- í Hollandi:

- að því er varðar yfirstýrimenn (á strandferðaskipum) (með viðbótarnám) ("stuurman kleine handelsvaart (met aanvulling)") og vélstjóra (með prófskírteini) ("diploma motordrijver"), 14 ára nám, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf mánaða starfsþjálfunartími,

- að því er varðar skipaumferðarstjóra ("VTS-functionaris"), minnst 15 ára nám alls, þar af er minnst þriggja ára æðra starfsnám ("HBO") eða starfsnám í sérskóla á miðstigi ("MBO"), þar sem við bætast sérhæfð námskeið, innanlands eða bundin við tiltekin svæði, sem fela hvert um sig í sér minnst 12 vikna fræðilegt starfsnám og lýkur hverju um sig með prófi."

3. a) Í liðnum "4. Tæknisvið", undir fyrirsögninni "Í Hollandi" er eftirfarandi undirlið bætt við:

"- klíníska tannsmiði ("tandprotheticus")".

b) Í liðnum "4. Tæknisvið", undir fyrirsögninni "Í Hollandi" komi eftirfarandi í stað núverandi kafla

sem kemur á eftir undirliðnum "fógetafulltrúa":

sem felur í sér almennt nám og starfsnám

að því er varðar fógetafulltrúa ("gerechtsdeurwaarder"), sem tekur 19 ár alls, þar af eru átta ár í skyldunámi ásamt átta árum á framhaldsskólastigi, en fjögur þeirra skulu vera á tæknisviði, og sem lýkur með prófi viðurkenndu af ríkinu en við það bætist þriggja ára fræðilegt og verklegt starfsnám,

- að því er varðar klíníska tannsmiði ("tandprotheticus"), sem tekur 15 ár alls í fullu námi og þrjú ár í hlutanámi, þar af eru átta ár í skyldunámi ásamt fjórum árum á almennu framhaldsskólastigi, þrjú ár í starfsnámi, þar með talið fræðilegt og verklegt nám sem tannsmiður, að viðbættu þriggja ára hlutanámi sem klínískur tannsmiður, er lýkur með prófi."

B. Eftirfarandi þættir bætast við viðauka D:

a) Í Hollandi:

Eftirfarandi lögverndað nám:

- Lögverndað nám sem tekur minnst 15 ár alls og þar sem það er gert að skilyrði að fyrst hafi verið lokið átta ára skyldunámi ásamt fjögurra ára almennu framhaldsskólanámi á miðstigi ("MAVO") eða fjögurra ára undirbúningsstarfsnámi ("VBO") eða almennu framhaldsskólanámi á seinna stigi, svo og að lokið sé við þriggja eða fjögurra ára starfsnám í sérskóla á miðstigi ("MBO"), sem lýkur með prófi,

- lögverndað nám sem tekur minnst 16 ár alls og þar sem það er gert að skilyrði að fyrst hafi verið lokið átta ára skyldunámi ásamt fjögurra ára undirbúningsstarfsnámi ("VBO") eða seinna stigi almennrar framhaldsskólamenntunar, svo og að lokið sé við minnst fjögurra ára nám á námssamningi, sem felur í sér fræðilegt nám í skóla í minnst einn dag í hverri viku og verklegt nám í starfsþjálfunarstöð eða hjá fyrirtæki aðra daga, og sem lýkur með annars eða þriðja stigs prófi.

Hollensk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum skrá yfir það nám sem fellur undir þennan viðauka."

b) Í Austurríki:

Nám í starfsmenntaskóla á æðra stigi ("Berufsbildende Höhere Schulen") og menntastofnunum á æðra skólastigi á sviði landbúnaðar og skógræktar ("Höhere Land- und Forstwirtschaftliche Lehranstalten"), þar með talin sérstök námssvið ("einschließlich der Sonderformen"), þar sem uppbygging og námskröfur ákvarðast af lögum og stjórnsýslufyrirmælum.

Hér er um að ræða nám sem tekur minnst 13 ár og í því felst fimm ára starfsnám og starfsþjálfun sem lýkur með lokaprófi og sé árangur fullnægjandi telst það vera sönnun um faglega hæfni.

- Nám í meistaraskólum ("Meisterschulen"), meistarabekkjum ("Meisterklassen"), iðnmeistaraskólum ("Werkmeisterschulen") eða skólum fyrir byggingariðnaðarmenn ("Bauhandwerkerschulen") þar sem uppbygging og námskröfur ákvarðast af lögum og stjórnsýslufyrirmælum.

Hér er um að ræða nám sem tekur minnst 13 ár, en í því felst níu ára skyldunám, svo og annaðhvort þriggja ára starfsnám í sérskóla eða minnst þriggja ára þjálfun hjá fyrirtæki og samhliða þjálfun í starfsmenntaskóla ("Berufsschule"), en hvoru tveggja lýkur með prófi og við bætist fullnægjandi árangur í minnst eins árs námi í meistaraskóla ("Meisterschule"), meistarabekkjum ("Meisterklassen"), iðnmeistaraskóla ("Werkmeisterschulen") eða skólum fyrir byggingariðnaðarmenn ("Bauhandwerkerschule"). Í flestum tilvikum tekur námið minnst 15 ár alls og í því felast tímabil starfsreynslu, annaðhvort á undan námi í þessum skólum eða samhliða hlutanámi (minnst 960 stundir).

Austurrísk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og aðildarríkjunum skrá yfir það nám sem fellur undir þennan viðauka."

II. VIÐAUKI

"Skrá yfir nám sem er byggt upp á sérstakan hátt eins og um getur í ii-lið

annars undirliðar í fyrstu undirgrein a-liðar 1. gr.

(VIÐAUKI C VIÐ TILSKIPUN 92/51/EBE)

 

 

1. Nám er tengist læknisfræði og umönnun barna

Nám fyrir:

í Þýskalandi:

- barnahjúkrunarfræðinga ("Kinderkrankenschwester/Kinderkrankenpfleger"),

- sjúkraþjálfara ("Krankengymnast(in)/Physiotherapeut(in)")(1),

- iðjuþjálfa ("Beschäftigungs- und Arbeitstherapeut(in)"),

- talkennara ("Logopäde/Logopädin"),

- augnþjálfa ("Orthoptist(in)"),

- kennslu- og uppeldisfræðinga viðurkennda af ríkinu ("Staatlich anerkannte(r) Erzieher(in)"),

- sérkennara viðurkennda af ríkinu ("Staatlich anerkannte(r) Heilpädagoge(-in)"),

- meinatækna ("medizinisch-technische(r) Laboratoriums-Assistent(in)"),

- röntgentækna ("medizinisch-technische(r) Radiologie-Assistent(in)"),

- meinatækna á sviði lífeðlisfræði ("medizinisch-technische(r) Assistent(in) für Funktionsdiagnostik"),

- aðstoðarmenn á sviði dýralækninga ("veterinärmedizinisch-technische(r) Assistent(in)"),

- næringarfræðinga ("Diätassistent(in)"),

- lyfjatækna ("Pharmazieingenieur"), lokið fyrir 31. mars 1994 í fyrrum Þýska alþýðulýðveldinu eða á yfirráðasvæði hinna nýju sambandsríkja,

- geðhjúkrunarfræðinga ("Psychiatrische(r) Krankenschwester/Krankenpfleger"),

- talkennara ("Sprachtherapeut(in)"),

á Ítalíu:

- tannfræðinga ("odontotecnico"),

- sjóntækjafræðinga ("ottico"),

- fótaaðgerðafræðinga ("podologo"),

(1) Frá og með 1. júní 1994 kom starfsheitið "Physiotherapeut(in)" í stað "Krankengymnast(in)". Hins vegar er starfsmönnum í greininni, sem fengu prófskírteini fyrir þann dag, heimilt að nota fyrra heitið, "Krankengymnast(in)", óski þeir þess.

í Lúxemborg:

- röntgentækna ("assistant(e) technique médical(e) en radiologie"),

- meinatækna ("assistant(e) technique médical(e) de laboratoire"),

- geðhjúkrunarfræðinga ("infirmier/ière psychiatrique"),

- aðstoðarmenn á sviði skurðlækninga ("assistant(e) technique médical(e) en chirurgie"),

- barnahjúkrunarfræðinga ("infirmier/ière puériculteur/trice"),

- svæfingahjúkrunarfræðinga ("infirmier/ière anesthésiste"),

- viðurkennda nuddara ("masseur/euse diplômé(e)"),

- kennslu- og uppeldisfræðinga ("éducateur/trice"),

í Hollandi:

- aðstoðarmenn dýralækna ("dierenartassistent"),

sem felur í sér nám sem tekur minnst 13 ár alls, meðal annars:

i) annaðhvort minnst þriggja ára starfsnám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem í sumum tilvikum bætist við eins eða tveggja ára sérnám sem lýkur með prófi,

ii) eða minnst tveggja og hálfs árs starfsnám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst sex mánuði eða minnst sex mánaða starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

iii) eða minnst tveggja ára starfsnám í sérskóla sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst eitt ár eða minnst eins árs starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

iv) eða, ef um ræðir aðstoðarmann dýralæknis ("dierenartassistent") í Hollandi, annaðhvort þriggja ára starfsnám í sérskóla ("MBO"-kerfið) eða þriggja ára samþættingarnám á námssamningi ("LLW"), sem hvoru tveggja lýkur með prófi.

Nám fyrir:

í Austurríki:

- augnlinsufræðinga ("Kontaktlinsenoptiker"),

- fótaaðgerðafræðinga ("Fußpfleger"),

- heyrnartækna ("Hörgeräteakustiker"),

- lyfsala ("Drogist"),

sem felur í sér nám sem tekur minnst 14 ár alls, að meðtöldu minnst fimm ára starfsnámi sem er liður í skipulögðu námi sem skiptist annars vegar í þriggja ára nám á námssamningi, sem fer að hluta til fram á vinnustað og að hluta til í starfsmenntaskóla, og hins vegar tímabil starfsreynslu og -þjálfunar, og lýkur með prófi í viðkomandi grein sem veitir rétt til að starfa í greininni og þjálfa lærlinga,

- nuddara ("Masseur"),

sem felur í sér nám sem tekur 14 ár alls, að meðtöldu fimm ára starfsnámi sem er liður í skipulögðu námi og felur í sér tveggja ára nám á námssamningi, tveggja ára tímabil starfsreynslu og -þjálfunar og eins árs starfsnám sem lýkur með prófi sem veitir rétt til að starfa í greininni og þjálfa lærlinga,

- leikskólakennara ("Kindergärtner/in"),

- kennslu- og uppeldisfræðinga ("Erzieher"),

sem felur í sér nám sem tekur 13 ár alls, að meðtöldu fimm ára starfsnámi í sérskóla, og lýkur með prófi.

2. Meistaranám ("Mester/Meister/Maître") á sviði iðnnáms er fellur ekki undir tilskipanir sem eru taldar upp í viðauka A

Nám fyrir:

Í Danmörku:

- sjóntækjafræðinga ("optometrist"),

hér er um að ræða nám sem tekur 14 ár alls, að meðtöldu fimm ára starfsnámi sem skiptist í tveggja og hálfs árs fræðilegt nám í starfsmenntaskóla og tveggja og hálfs árs starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í greininni sem veitir rétt til að nota titilinn meistari,

- stoðtækjasmiði ("ortopædimekaniker"),

hér er um að ræða nám sem tekur 12,5 ár alls, að meðtöldu þriggja og hálfs árs starfsnámi sem skiptist í sex mánaða fræðilegt nám í starfsmenntaskóla og þriggja ára starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í greininni sem veitir rétt til að nota titilinn meistari,

- bæklunarskósmiði ("ortopædiskomager"),

hér er um að ræða nám sem tekur 13,5 ár alls, að meðtöldu fjögurra og hálfs árs starfsnámi sem skiptist í tveggja ára fræðilegt nám í starfsmenntaskóla og tveggja og hálfs árs starfsþjálfun á vinnustað, og lýkur með viðurkenndu prófi í greininni sem veitir rétt til að nota titilinn meistari.

Í Þýskalandi:

- sjóntækjafræðinga ("Augenoptiker"),

- tannsmiði ("Zahntechniker"),

- framleiðendur og seljendur gervilima og umbúða ("Bandagist"),

- heyrnartækna ("Hörgeräte-Akustiker"),

- stoðtækjasmiði ("Orthopädiemechaniker"),

- bæklunarskósmiði ("Orthopädieschuhmacher").

Í Lúxemborg:

- sjóntækjafræðinga ("opticien"),

- tannsmiði ("mécanicien dentaire"),

- heyrnartækna ("audioprothésiste"),

- stoðtækjasmiði/gervilimafræðinga ("mécanicien orthopédiste/bandagiste"),

- bæklunarskósmiði ("orthopédiste-cordonnier"),

hér er um að ræða nám sem tekur 14 ár alls, að meðtöldu minnst fimm ára starfsnámi sem er liður í skipulögðu námi, og fer að hluta til fram á vinnustað og að hluta til í starfsmenntaskóla, og lýkur með prófi sem viðkomandi verður að standast til að geta starfað í greininni, annaðhvort á eigin vegum eða sem launþegi hjá öðrum með sambærilega ábyrgð.

Í Austurríki:

- framleiðendur og seljendur gervilima og umbúða ("Bandagist"),

- lífstykkjaframleiðendur ("Miederwarenerzeuger"),

- sjóntækjafræðinga ("Optiker"),

- bæklunarskósmiði ("Orthopädieschuhmacher")

- stoðtækjasmiði ("Orthopädiemechaniker")

- tannsmiði ("Zahntechniker"),

- garðyrkjumenn ("Gaertner"),

hér er um að ræða nám sem tekur 14 ár alls, að meðtöldu minnst fimm ára starfsnámi sem er liður í skipulögðu námi og skiptist í minnst þriggja ára nám á námssamningi sem felur í sér þjálfun að hluta til á vinnustað og að hluta í starfsmenntaskóla og minnst tveggja ára starfsreynslu og -þjálfun sem lýkur með meistaraprófi sem veitir rétt til að starfa í greininni, þjálfa lærlinga og nota titilinn meistari.

Nám fyrir meistara á sviði landbúnaðar og skógræktar, nánar tiltekið:

- meistara á sviði landbúnaðar ("Meister in der Landwirtschaft"),

- meistara á sviði búhagfræði ("Meister in der ländlichen Hauswirtschaft"),

- meistara á sviði garðyrkju ("Meister im Gartenbau"),

- meistara á sviði grænmetisræktunar ("Meister im Feldgemüsebau"),

- meistara á sviði ávaxtaræktunar og ávaxtavinnslu ("Meister im Obstbau und in der Obstverwertung"),

- meistara á sviði vínræktar og vínframleiðslu ("Meister im Weinbau und in der Kellerwirtschaft"),

- meistara á sviði mjólkurvinnslu ("Meister in der Molkerei- und Käsereiwirtschaft"),

- meistara á sviði hrossaræktar ("Meister in der Pferdewirtschaft"),

- meistara á sviði fiskvinnslu ("Meister in der Fischereiwirtschaft"),

- meistara á sviði alifuglaræktar ("Meister in der Geflügelwirtschaft"),

- meistara á sviði býflugnaræktar ("Meister in der Bienenwirtschaft"),

- meistara á sviði skógræktar ("Meister in der Forstwirtschaft"),

- meistara á sviði skógræktar og skógvörslu ("Meister in der Forstgarten- und Forstpflegewirtschaft"),

- meistara á sviði landbúnaðarbirgðavörslu ("Meister in der landwirtschaftlichen Lagerhaltung"),

hér er um að ræða nám sem tekur 15 ár alls, að meðtöldu minnst sex ára starfsnámi sem er liður í skipulögðu námi og skiptist í minnst þriggja ára nám á námssamningi sem felur í sér þjálfun að hluta til á vinnustað og að hluta í starfsmenntaskóla og minnst þriggja ára starfsreynslu sem lýkur með meistaraprófi sem veitir rétt til að starfa í greininni, þjálfa lærlinga og nota titilinn meistari.

3 Sjómennska

a)Sjóflutningar

Nám fyrir:

í Danmörku:

- skipstjóra ("skibsfører"),

- yfirstýrimenn ("overstyrmand"),

- stýrimenn sem eru einir, vaktstýrimenn ("enestyrmand, vagthavende styrmand"),

- vaktstýrimenn ("vagthavende styrmand"),

- yfirvélstjóra ("maskinchef"),

- fyrstu vélstjóra ("1. maskinmester"),

- fyrstu vélstjóra/vaktvélstjóra ("1. maskinmester/vagthavende maskinmester"),

í Þýskalandi:

- skipstjóra, stór strandferðaskip ("Kapitän AM"),

- skipstjóra, strandferðaskip ("Kapitän AK"),

- vaktstýrimenn, stór strandferðaskip ("Nautischer Schiffsoffizier AMW"),

- vaktstýrimenn, strandferðaskip ("Nautischer Schiffsoffizier AKW"),

- yfirvélstjóra, þrep C ("Schiffsbetriebstechniker CT - Leiter von Maschinenanlagen"),

- vélstjóra, þrep C ("Schiffsmaschinist CMa - Leiter von Maschinenanlagen"),

- yfirvélstjóra, þrep C ("Schiffsbetriebstechniker CTW"),

- vélstjóra, þrep C - vélstjóra sem eru einir ("Schiffsmaschinist CMaW - Technischer Alleinoffizier"),

á Ítalíu:

- vaktstýrimenn ("ufficiale di coperta"),

- yfirvélstjóra ("ufficiale di macchina"),

í Hollandi:

- yfirstýrimenn (á strandferðaskipum) (með viðbótarnám) ("stuurman kleine handelsvaart (met aanvulling)"),

- vélstjóra (með prófskírteini) ("diploma motordrijver"),

- skipaumferðarstjóra ("VTS-functionaris"),

sem felur í sér eftirfarandi nám:

- í Danmörku, níu ára grunnskólanám ásamt faglegu grunnnámi og/eða siglingatíma 17 til 36 mánuði, en við það bætist:

i) eins árs sérhæft starfsnám fyrir vaktstýrimenn,

ii) þriggja ára sérhæft starfsnám fyrir aðra,

- í Þýskalandi, nám sem tekur 14 til 18 ár alls, að meðtöldu þriggja ára faglegu grunnnámi ásamt eins árs siglingatíma, auk eins eða tveggja ára sérhæfðs starfsnáms en við það bætist, eftir því sem við á, tveggja ára starfsreynslutími við siglingar,

- á Ítalíu, nám sem tekur 13 ár alls, þar af minnst fimm ára starfsnám sem lýkur með prófi en við það bætist eftir atvikum starfsþjálfunartími,

- í Hollandi:

i) að því er varðar yfirstýrimenn (á strandferðaskipum) (með viðbótarnám) ("stuurman kleine handelsvaart (met aanvulling)") og vélstjóra (með prófskírteini) ("diploma motordrijver"), 14 ára nám, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf mánaða starfsþjálfunartími,

ii) að því er varðar skipaumferðarstjóra ("VTS-functionaris"), minnst 15 ára nám alls, þar af er minnst þriggja ára æðra starfsnám ("HBO") eða starfsnám í sérskóla á miðstigi ("MBO"), þar sem við bætast sérhæfð námskeið, innanlands eða bundin við tiltekin svæði, sem fela hvert um sig í sér minnst 12 vikna fræðilegt nám og lýkur hverju um sig með prófi.

Námið skal viðurkennt innan ramma hins alþjóðlega STCW-samnings (alþjóðasamnings um nám, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978).

b) Veiðar á rúmsjó

Nám fyrir:

í Þýskalandi:

- skipstjóra, úthafsveiðar ("Kapitän BG/Fischerei"),

- skipstjóra, strandveiðar ("Kapitän BK/Fischerei"),

- vaktstýrimenn, úthafsveiðiskip ("Nautischer Schiffsoffizier BGW/Fischerei"),

- vaktstýrimenn, strandveiðiskip ("Nautischer Schiffsoffizier BKW/Fischerei"),

í Hollandi:

- yfirstýrimenn/vélstjóra V ("stuurman werktuigkundige V"),

- vélstjóra IV (fiskiskip) ("werktuigkundige IV visvaart"),

- yfirstýrimenn IV (fiskiskip) ("stuurman IV visvaart"),

- yfirstýrimenn/vélstjóra VI ("stuurman werktuigkundige VI"),

sem felur í sér eftirfarandi nám:

- í Þýskalandi, nám sem tekur 14 til 18 ár alls, að meðtöldu þriggja ára faglegu grunnnámi ásamt eins árs siglingatíma, auk eins eða tveggja ára sérhæfðs starfsnáms en við það bætist, eftir því sem við á, tveggja ára starfsreynslutími við siglingar,

- í Hollandi, nám sem tekur 13 til 15 ár, þar af fara minnst tvö ár fram í sérhæfðri starfsmenntastofnun, en við það bætist tólf mánaða starfsreynslutími,

og skal námið viðurkennt samkvæmt Torremolinos-samningnum (alþjóðasamningi um öryggi fiskiskipa frá 1977).

4. Tækninám

Nám fyrir:

á Ítalíu:

- landmælingamenn ("geometra"),

- landbúnaðarráðgjafa ("perito agrario"),

sem felur í sér alls minnst 13 ára tækninám á framhaldsskólastigi, þar af átta ára skyldunám auk fimm ára náms á framhaldsskólastigi, þar af eru þrjú ár í starfsnámi er lýkur með stúdentsprófi á tæknisviði, en við það bætist:

i) þegar um er að ræða nám fyrir landmælingamenn, annaðhvort starfsþjálfun í minnst tvö ár á fagstofu, eða fimm ára starfsreynsla,

ii) þegar um er að ræða nám fyrir landbúnaðarráðgjafa, minnst tveggja ára starfsþjálfun,

og lýkur með prófi sem er viðurkennt af ríkinu,

í Hollandi:

- fógetafulltrúa ("gerechtsdeurwaarder"),

- klíníska tannsmiði ("tandprotheticus"),

sem felur í sér almennt nám og starfsnám:

i) að því er varðar fógetafulltrúa ("gerechtsdeurwaarder"), er tekur 19 ár alls, þar af eru átta ár í skyldunámi ásamt átta árum á framhaldsskólastigi, en fjögur þeirra skulu vera á tæknisviði, og sem lýkur með prófi viðurkenndu af ríkinu en við það bætist þriggja ára fræðilegt og verklegt starfsnám,

ii) að því er varðar klíníska tannsmiði ("tandprotheticus"), er tekur 15 ár alls í fullu námi og þrjú ár í hlutanámi, þar af eru átta ár í skyldunámi ásamt fjórum árum á almennu framhaldsskólastigi, þrjú ár í starfsnámi, þar með talið fræðilegt og verklegt nám sem tannsmiður, að viðbættu þriggja ára hlutanámi sem klínískur tannsmiður, sem lýkur með prófi,

í Austurríki:

- skógfræðinga ("Förster"),

- tæknilega ráðgjafa ("Technisches Büro"),

- þá sem starfa við leigumiðlun vinnuafls ("Überlassung von Arbeitskräften - Arbeitsleihe"),

- atvinnumiðlara ("Arbeitsvermittlung"),

- fjárfestingaráðgjafa ("Vermögensberater"),

- einkaleynilögreglumenn ("Berufsdetektiv"),

- öryggisverði ("Bewachungsgewerbe"),

- fasteignasala ("Immobilienmakler"),

- umsjónarmenn fasteigna ("Immobilienverwalter"),

- starfsmenn á auglýsinga- og kynningarstofum ("Werbeagentur"),

- skipuleggjendur byggingarframkvæmda ("Bauträger, Bauorganisator, Baubetreuer"),

- starfsmenn hjá innheimtustofnunum ("Inkassoinstitut"),

sem felur í sér 15 ára nám alls, þar af eru átta ár í skyldunámi og að lágmarki fimm ára nám á framhaldsskólastigi, á tækni- eða verslunarsviði, sem lýkur með prófi á því sviði, að viðbættu minnst tveggja ára námi og þjálfun á vinnustað sem lýkur með prófi í viðkomandi grein,

- tryggingaráðgjafa ("Berater in Versicherungsangelegenheiten"),

sem felur í sér 15 ára nám alls, að meðtöldu sex ára starfsnámi sem er liður í skipulögðu námi og felur í sér þriggja ára nám á námssamningi og þriggja ára starfsreynslu og -þjálfunartímabil, sem lýkur með prófi,

- byggingameistara/þá sem sjá um skipulagningu og tæknilega útreikninga ("Planender Baumeister"),

- trésmíðameistara/þá sem sjá um skipulagningu og tæknilega útreikninga ("Planender Zimmermeister"),

sem felur í sér minnst 18 ára nám alls, að meðtöldu minnst níu ára starfsnámi sem skiptist í fjögurra ára nám á framhaldsskólastigi á tæknisviði og fimm ára starfsreynslu og -þjálfun sem lýkur með prófi er veitir rétt til að starfa í greininni og þjálfa lærlinga, hafi þetta nám falið í sér rétt til að skipuleggja byggingar, gera tæknilega útreikninga og hafa umsjón með byggingarvinnu (Mariu Theresu-forréttindi).

5. Nám í Breska konungsríkinu sem er viðurkennt sem "National Vocational Qualifications" eða "Scottish Vocational Qualifications"

Nám fyrir:

- vísindalega aðstoðarmenn á læknarannsóknarstofum ("medical laboratory scientific officer"),

- námurafmagnsverkfræðinga ("mine electrical engineer"),

- námuvélaverkfræðinga ("mine mechanical engineer"),

- viðurkennda félagsráðgjafa - á sviði geðheilbrigðis ("approved social worker - mental health"),

- tilsjónarmenn ("probation officer"),

- tannmeðferðaraðila ("dental therapist"),

- tannfræðinga ("dental hygienist"),

- sjóntækjafræðinga ("dispensing optician"),

- aðstoðarnámuverkfræðinga ("mine Deputy"),

- skiptastjóra ("insolvency practitioner"),

- viðurkennda lögbókendur við afsal og fasteignagjörninga ("licensed conveyancer"),

- gervilimasmiði ("prosthetist"),

- fyrstu stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað ("first mate - freight/passenger ships - unrestricted"),

- aðra stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað ("second mate - freight/passenger ships - unrestricted"),

- þriðju stýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað ("third mate - freight/passenger ships - unrestricted"),

- vaktstýrimenn á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað ("deck officer - freight/passenger ships - unrestricted"),

- yfirvélstjóra á flutninga- og farþegaskipum - ótakmarkað viðskiptasvæði ("engineer officer - freight/passenger ships - unlimited trading area"),

- umboðsaðila vörumerkja ("trade mark agent"),

er felur í sér menntun og hæfi sem er viðurkennt og "National Vocational Qualifications" (NVQ) eða "National Council for Vocational Qualifications" samþykkir og viðurkennir sem jafngilt, eða er viðurkennt í Skotlandi sem "Scottish Vocational Qualifications", á 3. og 4. stigi í "National Framework of Vocational Qualifications" í Breska konungsríkinu.

Þessi stig eru skilgreind sem hér segir:

- 3. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða bæði flókin störf og störf sem eru ekki venjubundin. Um verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð er að ræða og jafnframt er oft krafist umsjónar eða leiðsagnar með öðrum.

- 4. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs, bæði er varðar flókin tæknileg og fagleg atriði, og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð. Oft er jafnframt um að ræða ábyrgð á störfum annarra og skipulagningu starfsemi.

Skrá yfir nám sem er uppbyggt á sérstakan hátt eins og um getur í þriðja

undirlið b-liðar í fyrstu undirgrein 3. gr.

(VIÐAUKI D VIÐ TILSKIPUN 92/51/EBE)

Í Breska konungsríkinu:

Lögverndað nám er felur í sér menntun og hæfi sem "National Council for Vocational Qualifications" viðurkennir sem "National Vocational Qualifications" (NVQ), eða er viðurkennt í Skotlandi sem "Scottish

Vocational Qualifications", á 3. og 4. stigi í "National Framework of Vocational Qualifications" í Breska konungsríkinu.

Þessi stig eru skilgreind sem hér segir:

- 3. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða bæði flókin störf og störf sem eru ekki venjubundin. Um verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð er að ræða og jafnframt er oft krafist umsjónar eða leiðsagnar með öðrum.

- 4. stig: felur í sér hæfni á ýmsum sviðum starfs, bæði er varðar flókin tæknileg og fagleg atriði, og við breytilegar aðstæður þar sem um er að ræða verulega ábyrgð og sjálfstæð vinnubrögð. Oft er jafnframt um að ræða ábyrgð á störfum annarra og skipulagningu starfsemi.

Í Þýskalandi:

Eftirfarandi lögverndað nám:

- lögverndað nám til undirbúnings störfum aðstoðarmanns á tæknisviði ("technische(r) Assistent(in)"), aðstoðarmanns á viðskiptasviði ("kaufmännishce(r) Assistent(in)"), störfum á vettvangi félagsmála ("soziale Berufe") og starfinu öndunar-, tal- og raddþjálfari, viðurkenndur af ríkinu ("staatlich geprüfte(r) Atem-, Sprech- und Stimmlehrer(in)"), sem felur í sér minnst 13 ára nám, meðal annars próf úr framhaldsskóla ("mittlerer Bildungsabschluß"), og nær yfir:

i) minnst þriggja ára (1) starfsnám í sérskóla ("Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem í sumum tilvikum bætist við eins eða tveggja ára sérnám sem einnig lýkur með prófi,

ii) eða minnst tveggja og hálfs árs nám í sérskóla ("Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst sex mánuði eða minnst sex mánaða starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

iii) eða minnst tveggja ára nám í sérskóla ("Fachschule") sem lýkur með prófi þar sem við bætist starfsreynsla í minnst eitt ár eða minnst eins árs starfsþjálfun í viðurkenndri starfsstöð,

1) Heimilt er stytta lágmarksnámstíma úr þremur árum í tvö ár hafi viðkomandi einstaklingur menntun og hæfi til að setjast í háskóla ("Abitur"), þ.e. hafi hann lokið 13 ára námi og starfsmenntun eða hafi menntun og hæfi til að setjast í "Fachhochschule" ("Fachhochschulereife"), m.ö.o. hefur lokið 12 ára námi.

- lögverndað nám fyrir starfsgreinarnar iðnfræðingur viðurkenndur af ríkinu ("staatlich geprüfte(r) Techniker(in)"), rekstrarhagfræðingur ("Betriebswirt(in)"), hönnuður ("Gestalter(in)") og starfsmaður við heimilishjálp ("Familienpfleger(in)"), sem felur í sér nám sem tekur minnst 16 ár þar sem þess er krafist að viðkomandi hafi lokið skyldunámi með fullnægjandi hætti eða sambærilegu námi (sem tekur níu ár hið minnsta) og námi við starfsmenntaskóla ("Berufsschule") sem tekur minnst þrjú ár og felur í sér, að lokinni minnst tveggja ára starfsreynslu, minnst tveggja ára fullt nám eða hlutanám af samsvarandi lengd,

- lögverndað nám og lögvernduð endurmenntun, sem varir minnst 15 ár alls, þar sem þess er almennt krafist að viðkomandi hafi lokið skyldunámi með fullnægjandi hætti (sem tekur minnst níu ár) og starfsnámi (venjulega þriggja ára), og felur að jafnaði í sér minnst tveggja ára starfsreynslu (oftast þriggja ára) og próf sem er hluti endurmenntunar, en undirbúningur fyrir það felst að jafnaði í námi sem annaðhvort fer fram samhliða starfsþjálfuninni (minnst 1000 klukkustundir) eða er fullt nám (minnst eitt ár).

Þýsk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og öðrum aðildarríkjum skrá yfir það nám sem fjallað er um í þessum viðauka.

Í Hollandi:

- Lögverndað nám sem tekur minnst 15 ár og er það gert að skilyrði að fyrst hafi verið lokið átta ára skyldunámi ásamt fjögurra ára almennu framhaldsskólanámi á miðstigi ("MAVO") eða fjögurra ára undirbúningsstarfsnámi ("VBO") eða almennu framhaldsnámi á seinna stigi, svo og að lokið sé við þriggja eða fjögurra ára starfsnám í sérskóla á miðstigi ("MBO"), sem lýkur með prófi, (1)

- lögverndað nám sem tekur minnst 16 ár og er það gert að skilyrði að fyrst hafi verið lokið átta ára skyldunámi ásamt fjögurra ára undirbúningsstarfsnámi ("VBO") eða seinna stigi almennrar framhaldsskólamenntunar, svo og að lokið sé við minnst fjögurra ára nám á námssamningi, sem felur í sér fræðilegt nám í sérskóla í minnst einn dag í hverri viku og verklegt nám í starfsþjálfunarstöð eða hjá fyrirtæki hina dagana, og sem lýkur með annars eða þriðja stigs prófi.

Hollensk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum skrá yfir það nám sem fellur undir þennan viðauka.

Í Austurríki:

- Nám í starfsmenntaskóla á æðra stigi ("Berufsbildende Höhere Schulen") og menntastofnunum á æðra skólastigi á sviði landbúnaðar og skógræktar ("Höhere Land- und Forstwirtschaftliche Lehranstalten"), þar með talin sérstök námssvið ("einschließlich der Sonderformen"), þar sem uppbygging og námskröfur ákvarðast af lögum og stjórnsýslufyrirmælum.

Hér er um að ræða nám sem tekur minnst 13 ár og í því felst fimm ára starfsnám og starfsþjálfun sem lýkur með lokaprófi og sé árangur fullnægjandi telst það vera sönnun um faglega hæfni.

- Nám í meistaraskólum ("Meisterschulen"), meistarabekkjum ("Meisterklassen"), iðnmeistaraskólum ("Werkmeisterschulen") eða skólum fyrir byggingariðnaðarmenn ("Bauhandwerkerschulen") þar sem uppbygging og námskröfur ákvarðast af lögum og stjórnsýslufyrirmælum.

Hér er um að ræða nám sem tekur minnst 13 ár, en í því felst níu ára skyldunám, svo og annaðhvort þriggja ára starfsnám í sérskóla eða minnst þriggja ára þjálfun hjá fyrirtæki og samhliða þjálfun í starfsmenntaskóla ("Berufsschule"), en hvoru tveggja lýkur með prófi og við bætist fullnægjandi árangur í minnst eins árs námi í meistaraskóla ("Meisterschule"), meistarabekkjum ("Meisterklassen"), iðnmeistaraskóla ("Werkmeisterschulen") eða skólum fyrir byggingariðnaðarmenn ("Bauhandwerkerschule"). Í flestum tilvikum tekur námið minnst 15 ár alls og í því felast starfsreynslutímabil, annaðhvort á undan námi í þessum skólum eða samhliða hlutanámi (minnst 960 stundir).

Austurrísk yfirvöld skulu senda framkvæmdastjórninni og aðildarríkjunum skrá yfir það nám sem fellur undir þennan viðauka."

(1) Heimilt er stytta lágmarksnámstíma úr þremur árum í tvö ár hafi viðkomandi einstaklingur menntun og hæfi til að setjast í háskóla ("Abitur"), þ.e. hafi hann lokið 13 ára námi og starfsmenntun eða hafi menntun og hæfi til að setjast í "Fachhochschule" ("Fachhochschulereife"), m.ö.o. hefur lokið 12 ára námi.

Fylgiskjal 5.

TILSKIPUN FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR 97/38/EB

frá 20. júní 1997

um breytingu á viðauka C við tilskipun ráðsins 92/51/EBE um

annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun

til viðbótar tilskipun 89/48/EBE*

(Texti sem varðar EES)

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDA-

LAGANNA HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,

með hliðsjón af tilskipun ráðsins 92/51/EBE frá 18. júní 1992 um annað almennt kerfi til viðurkenningar á starfsmenntun og starfsþjálfun til viðbótar tilskipun 89/48/EBE(1), eins og henni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 95/43/EB(2), einkum 15. gr., og að teknu tilliti til eftirfarandi:

Stjórn Breska konungsríkisins hefur lagt fram rökstudda beiðni um að þrjú starfsþjálfunarnámskeið á vegum þess verði felld brott úr viðauka C við tilskipunina.

Breska konungsríkið hefur gert breytingar á menntun og þjálfun vísindalegra aðstoðarmanna við læknarannsóknarstofur, sem merkir að þetta nám felur nú í sér þriggja ára æðra nám og fellur því undir tilskipun 89/48/EBE(3). Af þessum sökum fellur menntun og þjálfun vísindalegra aðstoðarmanna við læknarannsóknarstofur ekki lengur undir viðauka C, þar eð handhafar vitnisburða, sem var aflað samkvæmt eldri ákvæðum og sem tilskipun 92/51/EBE tekur til, geta sótt um að hljóta sömu meðferð í krafti a-liðar 1. gr. tilskipunar 89/48/EBE.

Starf gervilimasmiðs er ekki lögverndað í Breska konungsríkinu.

Starf tilsjónarmanns er ekki lengur lögverndað í Breska konungsríkinu.

Ráðstafanirnar sem kveðið er á um í þessari tilskipun eru í samræmi við álit nefndarinnar sem kveðið er á um í 15. gr. tilskipunar ráðsins 92/51/EBE.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Viðauka C við tilskipun 92/51/EBE er hér með breytt eins og segir í viðauka þessarar tilskipunar.

2. gr.

1. Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og

stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 30. september 1997. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

3. gr.

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

4. gr.

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 20. júní 1997.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,

Mario MONTI

framkvæmdastjóri.

(*) Þessi EB-gerð, sem birtist í Stjtíð. EB nr. L 184, 12. 7. 1997, bls. 31, var nefnd í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 6/98 frá 30. janúar 1998 um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn, sjá þessa útgáfu af EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalagsins.

(1) Stjtíð. EB nr. L 209, 24. 7. 1992, bls. 25.

(2) Stjtíð. EB nr. L 184, 3. 8. 1995, bls. 21.

(3) Stjtíð. EB nr. L 19, 24. 1. 1989, bls. 16.

VIÐAUKI

Eftirfarandi breytingar eru gerðar á viðauka C við tilskipun 92/51/EBE:

Í "5. Nám í Breska konungsríkinu sem er viðurkennt sem "National Vocational Qualifications or Scottish Vocational Qualifications"," falla eftirfarandi undirliðir brott:

,,- vísindalega aðstoðarmenn við læknarannsóknarstofur (Medical Laboratory Scientific Officer),

- tilsjónarmenn (Probation Officer),

- gervilimasmiði (Prosthetist),".


Þetta vefsvæði byggir á Eplica