Menntamálaráðuneyti

519/1996

Reglugerð um lágmarksaðstöðu grunnskóla. - Brottfallin

1. gr.

                Reglugerð þessi tekur til lágmarksaðstöðu grunnskóla sem starfræktur er á grundvelli laga nr. 66/1995.

 

2. gr.

                Sveitarfélög sjá um undirbúning og framkvæmd byggingar húsnæðis og annarrar aðstöðu fyrir grunnskóla svo og kaup á tækjum og búnaði fyrir skólana. Stofnkostnaður grunnskóla greiðist af sveitarfélögum.

 

3. gr.

                Hönnun skólahúsnæðis skal unnin af fagmönnum er öðlast hafa tilskilin réttindi. Skal þess gætt að uppfylltar séu allar kröfur heilbrigðis- og byggingaryfirvalda.

                Stærð og gerð grunnskólahúsnæðis skal að lágmarki miðast við að uppfylltar séu kröfur reglugerðar þessarar um húsnæði og aðstöðu til grunnskólahalds miðað við áætlaðan nemendafjölda á því svæði sem skólanum er ætlað að þjóna. Við ákvörðun um gerð húsnæðis skal tekið tillit til þess hvort um heimangöngu eða heimanakstur nemenda er að ræða. Sé gert ráð fyrir heimanakstri nemenda skal í gerð húsnæðis séð fyrir aðstöðu fyrir þá í biðtímum. Þar sem gert er ráð fyrir heimavist fyrir alla nemendur skóla, eða hluta þeirra, skal auk venjulegs skólahúsnæðis gera ráð fyrir heimilisaðstöðu þeirra og starfsmanna.

 

4. gr.

                Við nýja grunnskóla og eldri grunnskóla þar sem því verður við komið skal miðað við að húsnæði til stjórnunar, félagsstarfs og kennslu í öðrum greinum en íþróttum sé að jafnaði um 8 fermetrar nettó eða 10 fermetrar brúttó á hvern nemanda í tveggja hliðstæðna eða stærri skólum. Sé um fámenna skóla að ræða skal gert ráð fyrir hlutfallslega stærra húsnæði á nemanda til að rúma starfsaðstöðu sbr. 5. gr.

                Við hönnun nýs skólahúsnæðis má gera ráð fyrir mismunandi stærð skólastofa. Stærð á almennum kennslustofum skal taka mið af áætluðum hámarksfjölda nemenda sem kennt er samtímis í stofunni. Þannig skulu skólastofur að jafnaði vera a.m.k. 60 fermetrar fyrir 22 - 28 nemendur, 52 fermetrar fyrir 18 - 21 nemanda, 44 fermetrar fyrir 13 - 17 nemendur og 36 fermetrar fyrir 12 nemendur, og aldrei minni en 16 fermetrar.

 

5. gr.

                Til nauðsynlegrar lágmarksaðstöðu í grunnskólum telst:

Húsnæði til kennslu í öllum skyldunámsgreinum samkvæmt aðalnámsskrá.

Vinnuaðstaða fyrir skólastjóra, kennara og annað starfsfólk.

Skólasafn, samkomusalur, aðstaða fyrir félagsstarf nemenda.

Aðstaða fyrir nemendur til að neyta málsverða og til viðveru utan kennslustunda.

Aðstaða sérfræðiþjónustu fyrir nemendur.

Húsnæði fyrir heilsugæslu.

Aðgengi og aðstaða fyrir fatlaða.

 

6. gr.

                Við hönnun nýrra grunnskóla skal afmörkuð skólalóð. Sveitarstjórn ákveður stærð skólalóðar en hún skal þó aldrei vera minni en 2000 fermetrar. Þessu til viðbótar skal að jafnaði miðað við eitt bifreiðastæði á hverja 75 fermetra húsnæðis. Í tengslum við skólalóð skal jafnframt gera ráð fyrir góðri og öruggri aðkomu fyrir langferðabíla. Frágangur leiksvæða á skólalóð skal taka mið af sérþörfum mismunandi aldurshópa í skólanum.

 

7. gr.

                Stærð gólfflatar íþróttasalar, þar sem gert er ráð fyrir fullskipuðum bekkjardeildum í öllum aldursflokkum skal vera að lágmarki 290 fermetrar en þar sem eingöngu er gert ráð fyrir nemendum innan 13 ára aldurs má gólfflötur að lágmarki miðast við 160 fermetra. Fjölnýtisali má nýta til íþróttaiðkunar yngstu nemendanna enda sé aðstaða til íþróttaiðkunar fyrir eldri nemendur í nágrenni skólans.

 

8. gr.

                Þar sem svo hagar til að hentugt telst að nýta húsnæði í nágrenni skóla til skólastarfs getur sveitarstjórn reiknað með slíkum afnotum við ákvörðun um stærð skólabyggingar enda sé húsnæðið í eigu sveitarfélagsins eða sveitarstjórn hafi ótímabundinn ráðstöfunarrétt á því. Slíka aðstöðu má nýta t.d. til kennslu í íþróttum, til félagsstarfs eða heilsugæslu.

 

9. gr.

                Reglugerð þessi er sett á grundvelli 20. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla og öðlast þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytinu, 30. september 1996.

 

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.

 

 

Fylgiskjal I

 

Hugtök er varða byggingu grunnskóla og reglugerð þessa.

Heildstæður grunnskóli: Þar sem kennsla fer fram í öllum árgöngum skyldunáms, sem spannar skyldunámsaldurinn 6 - 16 ára í 1. - 10. bekk.

Einsetinn grunnskóli: Þar sem allir nemendur í skólanum eru við nám á sama tíma.

Fámennur skóli: Þar sem tveimur eða fleiri árgöngum er kennt saman vegna fæðar nemenda.

Brúttóstærð skóla: Heildarstærð skóla að utanmáli.

Nettóstærð skóla: Gólfflötur skólans svo sem stjórnunarrými, kennslurými, félags- og samkomuaðstaða, heilsugæsla og annað rými.

Kennslurými: Sérgreinastofur, almennar kennslustofur, áhaldageymslur, hópherbergi, hjálparkennslustofur, tölvuver, skólasafn.

Sérgreinastofa: Kennslustofa fyrir sérgreinar, svo sem raungreinar, hand- og myndmennt, heimilisfræði, tónmennt. Gert er ráð fyrir að fatahengi, snyrtingar og geymsla sé við hverja stofu.

Almenn kennslustofa: Bóknámsstofa með snyrtingu og fatahengi.

Stjórnunarrými: Almenn skrifstofa, biðstofa, skrifstofa stjórnenda skóla, eldtraust skjalageymsla, ljósritun, vinnuaðstaða, kennarastofa, snyrtingar fyrir starfsfólk.

Félagsaðstaða: Hátíða- og matsalur, leiksvið, eldhús og afgreiðsla, tómstundaherbergi, aðstaða fyrir nemendaráð, snyrtingar.

Heilsugæsla: Aðstaða fyrir lækni og hjúkrunarfræðing, búningsherbergi, snyrting.

Annað rými: Ræsting, sorpgeymsla, tæknirými.

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica