Menntamálaráðuneyti

212/1990

Reglugerð um Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands

1. gr.

Við Háskóla Íslands starfar Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. Stofnunin er vísinda­leg rannsókna- og fræðslustofnun og heyrir undir háskólaráð.

 

2. gr.

Hlutverk stofnunarinnar er að vera vettvangur rannsókna og fræðslu um alþjóðamál.

 

3. gr.

Hlutverki sínu gegnir stofnunin einkum með því að:

a) gera rannsóknaáætlanir á sviði alþjóðamála og standa að framkvæmd þeirra,

b) veita starfsmönnum stofnunarinnar og öðrum aðstöðu til rannsókna,

c) gangast fyrir ráðstefnum, umræðufundum, námskeiðum og fyrirlestrum um efni sem starfssvið stofnunarinnar varðar,

d) vinna að útgáfu rita um alþjóðamál,

e) hafa samvinnu við erlendar rannsóknastofnanir.

 

4. gr.

Háskólaráð skipar fimm menn í stjórn stofnunarinnar til þriggja ára í senn. Tveir skulu skipaðir af háskólaráði án tilnefningar. Félagsvísindadeild, lagadeild og viðskipta- og hagfræðideild tilnefna einn stjórnarmann hver. Stjórnin ræður forstöðumann og annað starfslið. Forstöðumaður skal hafa sérmenntun á fræðisviði stofnunarinnar.

 

5. gr.

Forstöðumaður stofnunarinnar hefur umsjón með daglegum rekstri hennar. Jafnframt annast hann áætlanagerð og samræmir fjáröflunarleiðir. Forstöðumaður er í starfi sínu ábyrgur gagnvart stjórn. Hann situr stjórnarfundi og hefur þar tillögurétt en ekki atkvæðis­rétt.

 

6. gr.

Stjórnin kýs úr sínum hópi formann og varaformann. Formaður boðar stjórnarfundi. Stjórnin ákveður m.a. rannsóknarstefnu stofnunarinnar, hefur eftirlit með starfsemi hennar og veitir fé til einstakra rannsóknaverkefna.

 

7. gr.

Tekjur stofnunarinnar eru:

a) fjárveitingar á fjárlögum,

b) styrkir til einstakra verkefna,

c) greiðslur fyrir verkefni,

d) gjafir,

e) annað.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans. Fjárlagatillög­ur stofnunarinnar skulu vera hluti af fjárlagatillögum háskólans.

 

8. gr.

Reglugerð þessi er sett sbr. heimild í 9. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands, sbr. háskólareglugerð nr. 78/1979, 66. gr. , og öðlast þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytið, 4. maí 1990.

 

Svavar Gestsson.

Árni Gunnarsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica