Menntamálaráðuneyti

380/1994

Reglugerð fyrir Háskólann á Akureyri

I. KAFLI

Hlutverk skólans.

 

I. gr.

Háskólinn á Akureyri skal vera vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun er veiti nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum, gegna ýmsum störfum í atvinnulífinu, öðrum ábyrgðarstöðum og stunda frekara háskólanám. Háskólanum er einnig heimilt að annast endurmenntun á vettvangi fræða sem kennd eru í deildum skólans, sbr. 9. gr.

 

II. KAFLI

Stjórn.

 

A. Háskólanefnd: skipan hennar, starfssvið og starfshættir.

 

2. gr.

Háskólinn á Akureyri heyrir undir menntamálaráðuneyti. Stjórn hans er falin háskóla­nefnd og rektor.

Í háskólanefnd eiga sæti:

a.      Rektor sem jafnframt er formaður nefndarinnar. b. Forstöðumenn deilda háskólans.

c.      Einn fulltrúi kennara og annar til vara, kjörnir til tveggja ára á almennum fundi þeirra. Kennarar, samkvæmt þessum lið, teljast þeir sem hafa skilgreinda kennslu­skyldu við skólann og eru ráðnir til a.m.k. eins árs.

d.      Einn fulltrúi og annar til vara kjörnir af starfsmönnum öðrum en kennurum, sam­kvæmt c lið, til tveggja ára á almennum fundi þeirra.

e.      Tveir fulltrúar nemenda og tveir til vara kjörnir til eins árs á almennum fundi þeirra.

f.       Framkvæmdastjóri, sbr. 4. gr., á sæti á fundum nefndarinnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Framkvæmdastjóri er ritari nefndarinnar.

Háskólanefnd kýs sér varaformann úr hópi forstöðumanna deilda til eins árs í senn og er hann jafnframt staðgengill rektors.

Rektor boðar til funda í háskólanefnd eftir þörfum og þó að jafnaði ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði. Skylt er að boða til fundar ef fjórir eða fleiri nefndarmenn krefjast þess. Varamenn sitja fundi nefndarinnar í forföllum aðalfulltrúa. Háskólanefnd er ályktunarhæf ef tveir þriðju hlutar nefndarmanna sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði rektors. Færa skal til bókar ákvarðanir háskóla­nefndar.

Háskólanefnd, undir forsæti rektors, fer með yfirumsjón málefna er varða háskólann í heild, stuðlar að, skipuleggur og hefur umsjón með samvinnu deilda og samskiptum við aðila utan skólans, þar með talið samstarf við aðra skóla og rannsóknastofnanir. Enn fremur afgreiðir háskólanefnd árlega fjárhagsáætlun fyrir skólann í heild og hefur að öðru leyti úrskurðarvald í málefnum háskólans.

Háskólanefnd skipar, sbr. 10. gr., í dómnefndir um stöðuveitingar lektora, dósenta og prófessora við háskólann, eftir því sem lög mæla.

Háskólanefnd kveður á um skipulagningu nýrra námsbrauta, með samþykki menntamálaráðherra, sbr. 9. gr. Ennfremur tekur nefndin endanlega afstöðu til innritunarbeiðna nemenda sem ekki hafa lokið stúdentsprófi, en hafa starfsreynslu eða annars konar óformlega þjálfun.

Háskólanefnd samþykkir, með nauðsynlegum fyrirvara, almanak fyrir komandi skólaár og gefur út kennsluskrá fyrir komandi skólaár, sbr. 14. gr., ekki síðar en í apríl ár hvert.

Háskólanefnd eða rektor í umboði hennar skulu boða til almenns starfsmannafundar til umræðna um málefni Háskólans á Akureyri að minnsta kosti tvisvar á ári. Skylt er að boða til slíks fundar ef stjórnir starfsmannafélaga skólans eða 1/3 hluti starfsmanna æskir þess. Fundir skulu auglýstir með þriggja daga fyrirvara hið minnsta. Allir starfsmenn skólans eiga rétt á að sækja þessa fundi og njóta þar atkvæðisréttar. Dreifa skal fundargerðum starfsmannafunda til starfsmanna skólans innan tveggja vikna eftir að fundur var haldinn.

Í Háskólanum á Akureyri skal fara fram reglulegt mat á innra starfi skólans með stöðugar umbætur í huga. Háskólanefnd í samráði við menntamálaráðuneytið lætur fara fram, með reglulegu millibili, og að jafnaði eigi sjaldnar en fimmta hvers ár, mat á starfsemi deilda skólans, bókasafns hans og aðalskrifstofu. Skal óvilhöllum, utanað­komandi aðila falið að sinna mati þessu sem taki til skipulagningar, gæða og árangurs.

 

B. Um rektor og framkvæmdastjóra, ráðningu þeirra og starfssvið.

 

3. gr.

Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans. Hann vinnur að mörkun heildarstefnu í málefnum háskólans og hefur eftirlit með rekstri hans, kennslu, rannsóknum, þjónustu og annarri starfsemi.

Rektor skal, í umboði háskólanefndar, sjá til þess að til séu starfslýsingar fyrir allt starfsfólk skólans, að svo miklu leyti sem þær koma ekki fram í lögum, reglugerð og kjarasamningum.

Rektor hefur yfirumsjón með sjóðum skólans og öðrum eigum. Um stjórnir sjóða fer að öðru leyti eftir því sem stofnskrár eða aðrar samþykktir mæla fyrir um.

Rektor hefur umsjón með að árbók háskólans fyrir hvert kennsluár komi út ekki síðar en fyrir upphaf þarnæsta kennsluárs. Í árbókinni skal vera skýrsla um starfsemi háskólans, stofnanir hans og sjóði og ráðstöfun á fé því sem háskólinn hefur haft til umráða, svo og um málefni nemenda.

Rektor er skipaður af menntamálaráðherra til fimm ára. Skal staðan auglýst laus til umsóknar.

Háskólanefnd skipar hverju sinni þriggja manna nefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna stöðu rektors. Menntamálaráðuneytið tilnefnir einn mann í nefndina en háskólanefnd Háskólans á Akureyri hina tvo og er annar þeirra formaður nefndarinnar. Í nefnd þessa má skipa þá eina sem lokið hafa æðri prófgráðu við háskóla og öðlast stjórnunarreynslu á háskólastigi.

Hæfni umsækjenda um rektorsembætti skal metin eftir vísinda- og útgáfustörfum hans, ferli hans sem háskólakennara, stjórnunarreynslu og öðrum störfum sem á einhvern hátt lúta að háskólastjórn og æðri menntun. Engum manni má veita embætti rektors við Háskólann á Akureyri nema meirihluti dómnefndar hafi látið í ljós það álit að hann sé hæfur til þess og meirihluti háskólanefndar hafi mælt með honum.


       Heimilt er að tillögu háskólanefndar að endurskipa sama mann rektor önnur fimm ár. Hámarksstarfstími hvers rektors er því 10 ár.

Falli rektor frá eða láti af störfum áður en embættistími hans er liðinn, skal staðgengill hans (sbr. 2. gr.) gegna rektorsembætti þangað til ráðið hefur verið í það embætti samkvæmt lögum.

4. gr.

Rektor ræður framkvæmdastjóra að fengnum tillögum háskólanefndar. Framkvæmda­stjóri stýrir í umboði rektors og í samvinnu við forstöðumenn deilda skrifstofuhaldi háskólans og annast fjárreiður hans. Með sama hætti undirbýr framkvæmdastjóri árlega fjárhagsáætlun og hefur eftirlit með því að rekstur skólans sé í samræmi við gildandi heimildir.

Rektor ræður annað starfslið við stjórnsýslu og rekstur eftir því sem fjárveitingar leyfa og heimildir standa til.

C. Um forstöðumenn deilda og deildarfundi.

 

5. gr.

Forstöðumaður, í umboði deildarfundar, hefur yfirumsjón með starfsemi og rekstri deildar og vinnur að stefnumörkun í málefnum hennar. Hann á jafnframt sæti í háskóla­nefnd.

Forstöðumaður deildar hefur yfirumsjón með kennslu, námskrárgerð deildar sinnar, svo og gerð stundaskrár og próftöflu, og hefur eftirlit með útvegun námsbóka, handbóka og annarra gagna. Hann hefur einnig umsjón með málum sem snerta rannsóknir deildar. Forstöðumaður boðar til deildarfunda og stjórnar þeim. Hann gerir í samvinnu við fram­kvæmdastjóra fjárhagsáætlanir fyrir deild sína. Forstöðumaður beitir sér fyrir samstarfi við aðrar deildir, sbr. 9. gr.

Forstöðumaður hverrar deildar er kjörinn á deildarfundi. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Kjörgengur er hver sá umsækjandi sem uppfyllir hæfnisskilyrði um stöðu háskólakennara, sbr. 10. gr. laga nr. 51/1992 um Háskólann á Akureyri, 11. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, eða 32. gr. laga nr. 29/1988 um Kennaraháskóla Íslands, á vettvangi fræða sem annaðhvort eru kennd í viðkomandi deild eða tengjast viðfangs­efnum hennar. Að fengnu samþykki háskólanefndar ræður rektor þann sem kjör hlýtur til þriggja ára. Atkvæðagreiðsla við kjör forstöðumanns á deildarfundi skal vera leynileg og skrifleg. Allir sem rétt eiga á setu á deildarfundi skulu hafa jafnan atkvæðisrétt. Umsækjendur um starf forstöðumanns skulu þá víkja af fundi bæði við umræður og atkvæðagreiðslu. Rektor boðar deildarfund þar sem kjósa skal forstöðumann á hefð­bundinn og löglegan hátt sem fyrst eftir að dómnefndarálit liggur fyrir. Sé starfandi forstöðumaður í hópi umsækjenda um starf forstöðumanns skal hann víkja af fundi eins og aðrir umsækjendur þegar umsóknir eru teknar fyrir. Rektor tekur þá við fundarstjórn. Ekki er heimilt að framselja atkvæði á deildarfundi til annars aðila, hvorki munnlega né skriflega. Ekki er heldur heimilt að greiða atkvæði fyrirfram. Falli atkvæði jöfn við kjör forstöðumanns skal endurtaka kosninguna. Falli atkvæði enn jöfn skal hlutkesti ráða úrslitum.

Deildarfundur kýs jafnframt staðgengil forstöðumanns til þriggja ára úr hópi fastráðinna kennara við deildina.

 

6. gr.

Á deildarfundum eiga sæti forstöðumaður deildar, prófessorar, dósentar og lektorar, hvort sem þeir gegna fullu sta~ eða hlutastarfi. Sama gildir um starfsmenn samstarfs­stofnana sem ráðnir hafa verið skv. 8. gr. og hafa kennsluskyldu við skólann, sem og sérfræðinga sem ráðnir eru að viðkomandi deild. Einnig eiga þar sæti tveir fulltrúar stundakennara og tveir fulltrúar nemenda í viðkomandi deild og skulu þeir kjörnir til eins árs í senn. Framkvæmdastjóra eða fulltrúa hans er heimilt að sitja deildarfundi með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.

Deildarfundir skulu að jafnaði haldnir mánaðarlega en skylt er að boða til fundar ef rektor eða þriðjungur deildarmanna sem rétt eiga á fundarsetu æskja þess. Forstöðumaður deildar boðar fundi bréflega og með þriggja daga fyrirvara ef unnt er. Fundarefni skal greina í fundarboði.

Deildarfundur er ályktunarfær ef fund sækir meira en helmingur atkvæðisbærra manna. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði forstöðumanns. Ákvarðanir deildarfunda skulu bókfærðar.

Deildarfundur fjallar um meginatriði í starfsemi viðkomandi deildar og ber ásamt forstöðumanni ábyrgð á að hún sé í samræmi við lög og gildandi reglur. Deildarfundur sker úr málum er varða skipulag kennslu og próf, kýs forstöðumann, leggur fram tillögu til háskólanefndar um árlega fjárhagsáætlun deildarinnar, fjallar um mál einstakra nemenda deildarinnar og sinnir að öðru leyfi þeim verkefnum sem honum eru falin af háskólanefnd eða rektor.

 

7. gr.

Háskólanefnd setur starfsfólki við stjórnsýslu erindisbréf.

D. Um samráð við aðra háskóla og samstarfsstofnanir háskólans.

 

8. gr.

Háskólinn á Akureyri og einstakar deildir hans skulu fyrir sitt leyfi hafa samráð og samstarf við aðra skóla á háskólastigi til að nýta sem best tiltæka starfskrafta og gagnakost og stuðla með hagkvæmum hætti að fjölbreyttari menntunartækifærum. Í því skyni skulu samstarfsaðilar m.a. setja framkvæmdareglur um gagnkvæma viðurkenningu námsþátta. Háskólanum er einnig heimilt að gera samstarfssamninga við aðrar stofnanir, sem tengjast starfssviði skólans, um kennslu, rannsóknir og ráðningu starfsfólks.

Í samstarfssamningum er heimilt að kveða á um að starfsmenn samstarfsstofnana, sem hafa kennsluskyldu við skólann, en gegna rannsóknaskyldu sinni við samstarfsstofnun, eigi rétt á, eða sé skylt, að dómnefnd, sbr. 10. gr., meti hæfi þeirra til að gegna þar lektors-, dósents- eða prófessorsstöðu. Sá er hlýtur slíkan hæfnisdóm skal njóta sambærilegra réttinda og gegna sambærilegum skyldum og lektorar, dósentar eða prófessorar, eftir því sem við á, þó að ráðning sé við aðra stofnun, enda sé slíkt í samræmi við lög, reglugerðir og kjarasamninga er gilda fyrir þessa stofnun. Háskólanefnd getur sett framgangsreglur fyrir starfsmenn samstarfsstofnana sem hafa kennsluskyldu við skólann, enda séu reglurnar í samræmi við framgangsreglur fyrir kennara við skólann.

 

III. KAFLI

Kennarar, deildir og stofnanir háskólans.

A. Deildir háskólans.

 

9. gr.

Í Háskólanum á Akureyri eru þessar deildir: heilbrigðisdeild, kennaradeild, rekstrardeild og sjávarútvegsdeild. Menntamálaráðuneytið heimilar stofnun fleiri deilda og skiptingu deilda í námsbrautir að fengnum tillögum háskólanefndar og innan marka fjárveitinga í fjárlögum.


Deildir háskólans skulu hafa með sér náið samstarf. Þannig skal með samnýtingu mannafla, bókasafns, kennslutækja og annarrar aðstöðu stefnt að því að efla fjölbreytta menntunarkosti og tryggja hagkvæmni í rekstri. Í þessu skyni má nýta starfsskyldu þeirra sem ráðnir eru til starfa við einhverja deild skólans í þágu annarra deilda eða skólans í heild.

Við heilbrigðisdeild fara fram kennsla og rannsóknir i hjúkrunarfræði og undirstöðugreinum hennar. Námið er skipulagt sem fjögurra ára nám og lýkur með BS­prófi í hjúkrunarfræði. Námið er að lágmarki 120 einingar, 30 einingar á ári. Nemendur í hjúkrunarfræði skulu á námstíma sínum afla sér þriggja mánaða starfsreynslu á heilbrigðisstofnunum.

Við kennaradeild fara fram kennsla og rannsóknir í uppeldis- og kennslufræði, og öðrum greinum er tengjast kennarastarfinu. Námið er skipulagt sem þriggja ára nám (90 ein.) og skal samræmast gildandi lögum um kennaramenntun. Að loknu 90 eininga námi og tilskildum prófum í kennaradeild hlýtur nemandi B.Ed. gráðu.

Við rekstrardeild fara fram kennsla og rannsóknir í þeim greinum sem tengjast rekstri fyrirtækja og stofnana. Við rekstrardeild eru iðnrekstrarbraut og rekstrarbraut og eru nemendur brautskráðir af þeim að loknu tveggja ára námi (60 ein.). Brautskráðum nemendum af þessum brautum, eða öðrum með sambærilega menntun að baki, gefst kostur á tveggja ára námi (60 ein.) til BS-prófs af gæðastjórnunarbraut.

Við sjávarútvegsdeild fara fram kennsla og rannsóknir í greinum sjávarútvegs. Nám í sjávarútvegsfræði er skipulagt sem fjögurra ára nám og lýkur með BS-prófi í sjávarútvegsfræði. Námið er að lágmarki 120 einingar, 30 einingar á ári. Deildum er heimilt að setja nemendum skilyrði um að ljúka námsefni 1. og 2. árs áður en nám er hafið á þriðja ári. Hámarksnámstími í hverri braut skal vera 50% umfram áætlaðan námstíma. Deildarfundi er heimilt að veita undanþágur frá þessu ákvæði um hámarksnámstíma.

Háskólinn sinnir endurmenntun á vettvangi fræða sem kennd eru í deildum skólans. Við skólann starfar þriggja manna endurmenntunarnefnd, skipuð af háskólanefnd til þriggja ára í senn. Boða skal til funda í nefndinni eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Rektor ræður endurmenntunarstjóra sem vinnur að stefnumótun og stýrir daglegri framkvæmd í umboði endurmenntunarnefndar og á sæti á fundum hennar með málfrelsi og tillögurétt.

 

B. Kennarar háskólans og veiting kennaraembætta.

 

10. gr.

Fastir kennarar háskólans eru lektorar, dósentar eða prófessorar. Einnig starfa stundakennarar við skólann. Dósents- eða prófessorsstöðu skal því aðeins stofna að forsendur séu,fyrir því að staðan tengist rannsóknastörfum.

Forseti Íslands skipar prófessora, menntamálaráðuneyti skipar dósenta, en háskólanefnd ræður lektora. Rektor ræður stundakennara.

Þá eina má skipa fasta kennara sem lokið hafa fullnaðarprófi frá háskóla eða annarri sambærilegri stofnun í aðalgrein þeim er þeir eiga að kenna.

Umsækjendur um prófessorsembætti, dósentsstöður og lektorsstöður skulu láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu um vísindastörf þau er þeir hafa unnið, ritsmíðar, rannsóknir, kennslustörf, stjórnunarstörf svo og námsferil sinn og önnur störf.

Háskólanefnd skipar hverju sinni þriggja manna nefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna fastri stöðu prófessors, dósents eða lektors. Menntamálaráðu­neyti tilnefnir einn mann í nefndina, Háskóli Íslands annan og háskólanefnd Háskólans á Akureyri hinn þriðja og er hann formaður nefndarinnar. Í nefnd þessa má skipa þá eina sem lokið hafa háskólaprófi í hlutaðeigandi grein eða eru að öðru leyfi viðurkenndir sérfræðingar í greininni.

Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda svo og námsferli hans og störfum megi ráða að hann sé hæfur til að gegna embættinu. Álitsgerð nefndarinnar skal höfð til hliðsjónar þegar embættið er veitt og má engum manni veita embætti prófessors, dósents eða lektors við Háskólann á Akureyri nema meirihluti dómnefndar hafi látið í ljós það álit að hann sé hæfur til þess og að meiri hluti háskólanefndar hafi mælt með honum.

Dómnefnd skal hraða störfum sínum eftir föngum og skal hún að jafnaði hafa lokið störfum innan tveggja mánaða frá því er hún var skipuð.

Heimilt er að binda ráðningu lektora, dósenta og prófessora við ákveðinn tíma. Heimilt er að endurnýja ráðningu ef háskólanefnd mælir með því.

Heimilt er að flytja kennara úr lektorsstöðu í dósentsstöðu og úr dósentsstöðu í prófessorsstöðu samkvæmt reglum um framgangskerfi sem háskólanefnd setur og menntamálaráðuneytið staðfestir. Sæki háskóladeild um slíka hækkun ber háskólanefnd að sjá svo til að umsóknir sæti þeim meðferð sem kveðið er á um í lögum um dósents og prófessorsembætti við Háskólann á Akureyri, sbr. 10. gr.

Háskólanefnd ákveður að fenginni umsögn forstöðumanna deilda hvernig starfsskylda einstakra háskólakennara skuli skiptast milli kennslu og annarra starfsþátta innan marka gildandi kjarasamninga.

Um starfsskyldur og réttindi kennara fer að öðru leyfi eftir kjarasamningum og nánari ákvæðum í lögum og reglugerðum.

 

C. Um rannsóknir við skólann: rannsóknarleyfi, Rannsóknastofnun og bókasafn.

 

11. gr.

Háskólanefnd er heimilt að veita kennurum og öðrum fastráðnum starfsmönnum háskólans rannsóknarleyfi um allt að eins árs skeið með föstum embættislaunum, enda liggi fyrir fullnægjandi greinargerð um hvernig umsækjandi hyggst verja rannsóknar­leyfinu til að auka þekkingu sína eða sinna sérstökum rannsóknaverkefnum. Leita skal umsagnar rektors um umsókn um rannsóknarleyfi.

Eftir því sem fjárlög heimila og kjarasamningar gera ráð fyrir getur háskólanefnd veitt einstaklingi, sem rannsóknarleyfi hlýtur, styrk til að standa straum af nauðsynlegum ferða- og dvalarkostnaði í sambandi við rannsóknarleyfið.

Háskólanefnd skal selja nánari reglur um rannsóknarleyfi og styrkveitingar og skulu þær lagðar fyrir menntamálaráðuneytið til staðfestingar.

 

12. gr.

Við háskólann starfar Rannsóknastofnun, og gildir um hana sérstök reglugerð. Kennarar skólans geta fullnægt rannsóknaskyldu sinni að nokkru eða öllu leyfi með störfum í þágu stofnunarinnar. Heimilt er að ráða sérfræðinga til starfa við hana.

Háskólanefnd skal selja reglur um skipulag og ráðstöfun á rannsóknasjóðum sem háskólinn hefur til umráða.

 

13. gr.

Við háskólann er rannsókna- og sérfræðibókasafn sem tengist fræðasviðum skólans. Hlutverk þess er að veita nemendum og kennurum háskólans og öðrum lánþegum safnsins sérhæfða þjónustu vegna kennslu, náms og rannsókna.

Rektor ræður yfirbókavörð að undangenginni auglýsingu og að fengnum tillögum háskólanefndar. Rektor ræður annað starfsfólk að safninu eftir því sem þörf krefur og fjárveitingar leyfa.

Yfirbókavörður hefur yfirumsjón með bókasafni og lesstofum háskólans. Hann er ábyrgur gagnvart rektor og háskólanefnd. Yfirbókavörður gerir fjárhagsáætlanir fyrir bókasafnið í samvinnu við forstöðumenn deilda og framkvæmdastjóra. Yfirbókavörður hefur bókasafnsnefnd sér til ráðuneytis. Yfirbókavörður og bókasafnsnefnd annast og gera tillögu um uppbyggingu bókasafns og þjónustu þess. I bókasafnsnefnd skulu eiga sæti yfirbókavörður, einn fulltrúi frá hverri deild, kosinn af deildarfundi,, einn fulltrúi starfsmanna bókasafns og einn fulltrúi nemenda. Fulltrúar skulu hafa varamenn og vera tilnefndir til tveggja ára í senn, nema fulltrúi nemenda sem tilnefndur er til eins árs.

IV KAFLI

Nemendur, kennsla og próf.

A. Háskólaár og kennsla.

 

14. gr.

Háskólaárið telst frá 15. ágúst til jafnlengdar næsta ár. Kennsluár skiptist í tvö kennslumisseri, haustmisseri og vormisseri. Á kennslumisseri skulu eigi vera færri en 15 kennsluvikur, próf og leyfi koma þar til viðbótar. Próf skulu að jafnaði ekki taka lengri tíma en tvær vikur þannig að starfsvikur á haustmisseri verði sem næst 17. Starfstími á vormisseri skal á sama hátt vera sem næst 17 vikur, fyrir utan páskaleyfi. Haustmisseri skal vera lokið í síðasta lagi 21. desember og vormisseri byrja í fyrsta lagi 3. janúar. Um páska skal ekki kennt á miðvikudegi fyrir skírdag og á þriðjudegi eftir annan í páskum. Engin kennsla fer fram 1. desember, á helgidögum þjóðkirkjunnar eða á öðrum lögboðnum frídögum. Háskólanefnd getur ákveðið að fella niður kennslu á öðrum dögum en hér eru tilgreindir.

Háskólanefnd skal gefa út kennsluskrá fyrir komandi skólaár, ekki síðar en í apríl ár hvert. Þessi kennsluskrá skal að jafnaði gilda fyrir nemendur sem innritast það námsárið og stunda nám með eðlilegri námsframvindu. Í kennsluskránni skulu vera skráð númer og nöfn alka námskeiða og stutt lýsing á hverju námskeiði fyrir sig. Tilgreina ber öll skilyrði um undanfara einstakra námskeiða þegar það á við. Í námskeiðslýsingum skulu koma fram upplýsingar um kennara, markmið námskeiðsins, námsmat og lesefni.

Fyrirlestrar, æfingar og námskeið eru fyrir skrásetta nemendur. Fyrirlestrar eru öðrum opnir, eftir nánari reglum sem háskólanefnd setur, með samþykki kennara. Háskóladeildum er heimilt að setja reglur um skyldu nemenda til þátttöku í verklegum æfingum, verklegu námi og vettvangsþjálfun.

 

B. Nemendur.

 

15. gr.

Hver sá sem staðist hefur stúdentspróf frá íslenskum skóla sem heimild hefur til að brautskrá stúdenta getur sótt um að skrá sig til náms við háskólann gegn því að greiða skrásetningargjald. Háskólanefnd er heimilt að leyfa skrásetningu einstaklinga er lokið hafa öðrum prófum en að ofan greinir ef hlutaðeigandi deild eða námsbraut telur að um sé að ræða fullnægjandi undirbúning til náms við háskólann.

Inntaka nemenda er í höndum háskólanefndar og getur hún að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis takmarkað fjölda þeirra sem hefja nám við deildir skólans. Regluleg skrásetning nýnema fer fram á tímabilinu 1. maí til 1. júní ár hvers.


Skráning annarra fer fram á tímabilinu 1. júní til 15. júní ár hvert. Beiðni um skrásetningu nýnema skal fylgja ljósrit eða staðfest afrit af stúdentsprófsskírteini og önnur þau skilríki sem nánar kann að verða kveðið á um af hálfu viðkomandi deildar.

Nemar skulu greiða 25% skrásetningargjalds við innritun og er þessi hluti óaftur­kræfur fyrir þá nemendur sem fá skólavist. Gjalddagi eftirstöðva er 1. ágúst. Nemendur hafa ekki rétt til að ganga undir próf nema þeir uppfylli framangreind skilyrði.

Ár hvert skal háskólanefnd ákveða skrásetningargjald, í samræmi við forsendur fjárlaga, að höfðu samráði við stjórnir Félagsstofnunar stúdenta á Akureyri og Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri og með samþykki menntamálaráðuneytis.

       Skipting skrásetningargjalds skal ákveðin með sama hætti.

Gerist nemandi sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans getur háskóla­nefnd veitt honum áminningu eða vikið úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu. Nemanda er heimilt að skjóta úrskurði háskólanefndar til menntamálaráðherra. Kæra

frestar framkvæmd úrskurðar en nemandi má þó ekki ganga undir próf meðan á málskoti stendur.

 

C. Próf.

 

16. gr.

Próf eru haldin í 16. og 17. starfsviku hvors kennslumisseris og í síðustu viku fyrir upphaf haustmisseris. Sjúkra- og endurtökupróf skulu haldin vegna haustmisseris á tímabilinu 3. til 15. janúar og vegna vormisseris fyrir 10. júní.

Próf eru munnleg, skrifleg eða verkleg. Heimilt er að meta ritgerðir, skýrslur o.þ.h. í stað prófs eða sem hluta af námsmati og áskilja lágmarkseinkunn í hverjum þessara hluta. Skal um þetta vera samráð á milli forstöðumanns deildarinnar og hlutaðeigandi kennara og ákvörðun kunngerð nemendum eigi síðar en við upphaf kennslu í viðkomandi námskeiði.

Fyrir upphaf kennslutímabils skrá nemendur sig í þau námskeið er þeir hyggjast sækja. Innritun í námskeið gildir sem innritun í próf sem haldið er að námskeiðinu loknu. Þeir sem ekki hafa innritað sig í námskeiðið með framangreindum hætti en hyggjast þreyta próf í viðkomandi grein skulu skrá sig í próf með minnst tveggja vikna fyrirvara.

Nemandi sem ekki mætir til prófs vegna veikinda, skal tilkynna forföll áður en próf hefst. Læknisvottorði skal skilað til skrifstofu skólans við fyrstu hentugleika og eigi síðar en fimm dögum eftir að próf var haldið, annars telst hann hafa þreytt prófið.

Einkunnir eru í heilum tölum frá 1 til 10. Nemandi telst ekki hafa staðist próf nema hann hljóti einkunnina 5 minnst.

Háskóladeildum er heimilt að taka upp prófnúmer. Nemandi skráir þá númer á úrlausnarblöð í stað nafns. Deildir geta sett nánari reglur um framkvæmd prófnúmera. Við munnlegt og verklegt próf skal vera prófdómari. Við lokaverkefni skal ætíð vera

prófdómari hvort sem það er munnlegt eða skriflegt. Önnur skrifleg próf dæma hlutað­eigandi kennarar einir.

Niðurstöður prófa skulu liggja fyrir eigi síðar en á ellefta virka degi eftir prófdag. Nemandi á rétt til að fá útskýringar á mati skriflegrar úrlausnar sinnar innan 10 daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemandi sem ekki hefur staðist próf þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til forstöðumanns viðkomandi deildar. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki sé ekki um lokaverkefni að ræða. Einnig getur kennari eða meirihluti nemenda í viðkomandi námskeiði, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi.

Menntamálaráðuneytið skipar prófdómara að fengnum tillögum háskóladeildar.

Nemandi sem kemur ekki til prófs sem hann er skráður í og hefur ekki boðað forföll telst hafa þreytt prófið. Honum er þó ekki heimilt að skrá sig í endurtökupróf.

Úrsögn úr prófi skal vera skrifleg og hafa borist skrifstofu skólans eigi síðar en þremur virkum dögum fyrir prófdag.

Nú stenst nemandi ekki próf og er honum þá heimilt að endurtaka það tvisvar. Sækja þarf sérstaklega um það til háskólanefndar ef þreyta á endurtekningarpróf í þriðja sinni. Hafi nemandi staðist próf getur hann óskað eftir, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi,

að fá að endurtaka prófið. Heimili deildarfundur endurtöku skal hún fara fram í næsta skipti sem viðkomandi próf er haldið. Seinni einkunnin skal gilda.

Próftöflur skulu liggja fyrir eigi síðar en fjórum vikum áður en viðkomandi próftímabil hefst. Prófstjóri sér um að koma endanlegum próftöflum til allra umsjónar­kennara sem próf eiga á töflunni og birta nemendum þær á auglýsingatöflum skólans þegar þær liggja fyrir.

Skrifstofa háskólans sér um færslu einkunna og varðveislu þeirra. Hún sér um að birta nemendum einkunnir. Að liðnum fjórum árum frá prófdegi skulu úrlausnir eyði­lagðar.

Háskólakennarar standa fyrir prófum en háskólanefnd ræður sérstakan prófstjóra sem annist undirbúning og framkvæmd prófa í samráði við forstöðumenn deilda og skrifstofu. Háskólanefnd er heimilt að setja nánari reglur um prófahald en hér er kveðið á um.

 

V. KAFLI

Gildistaka.

 

17. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 17. gr. laga nr. 51/1992, um Háskólann á Akureyri, og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 405/1990, um Háskólann á Akureyri.

 

Ákvæði til bráðabirgða:

Háskólanefnd er heimilt að veita undanþágur frá ákvæðum 14. greinar um kennsluár og 16. greinar um próftíma ef sérstakar ástæður þykja liggja til. Þetta ákvæði fellur úr gildi við lok kennsluárs 1995 - 1996.

 Menntamálaráðuneytið, 27. júní 1994

 Ólafur G. Einarsson

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica