Fara beint í efnið

Prentað þann 20. apríl 2024

Ógild reglugerð

299/1995

Reglugerð um rannsóknarprófessora.

1. gr.

Menntamálaráðherra er heimilt, eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum, eða með öðrum hætti, í samráði við háskóla og rannsóknarstofnanir, að setja á stofn tímabundnar stöður prófessora er hafi að aðalstarfi rannsóknir á sviðum sem talin eru sérstaklega mikilvæg. Rannsóknarráð Íslands ásamt hlutaðeigandi mennta- og rannsóknarstofnun geta gert tillögu til menntamálaráðherra um stofnun slíkrar stöðu. Menntamálaráðherra er heimilt að auglýsa stöðu rannsóknarprófessors lausa til umsóknar.

2. gr.

Rannsóknarprófessor starfar tímabundið við háskóla eða rannsóknarstofnun og skal vinna að rannsóknum á skilgreindum sviðum sem ákveðin eru þegar staðan er stofnuð. Staðan felur í sér fullt starf og sá sem henni gegnir sinnir ekki öðru launuðu meginstarfi.

3. gr.

Eftir því sem ákveðið er í fjárlögum skal menntamálaráðherra veita fé til launa rannsóknarprófessors og auk þess til rekstrarkostnaðar rannsóknanna sem svarar til allt að tveimur þriðju hlutum árslauna rannsóknarprófessorsins. Stofnun sem rannsóknarprófessor starfar við lætur í té aðstöðu, búnað og þjónustu samkvæmt samningi. Rannsóknarprófessor er heimilt að taka að sér að leiðbeina nemenda í rannsóknartengdu framhaldsnámi samkvæmt sérstökum samningi þar um.

4. gr.

Í stöðu rannsóknarprófssors skal aðeins ráða einstakling, íslenskan eða erlendan, sem metinn hefur verið hæfur til að gegna stöðu prófessors og aflað hefur sér viðurkenningar á alþjóða vettvangi fyrir rannsóknarstörf eða lagt hefur fram markverðan skerf til rannsókna á sviði íslenskra fræða.

5. gr.

Með vísun til 2. mgr. 22. gr. laga nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands, skipar menntamálaráðherra nefnd til að meta hæfi þeirra sem til álita koma í stöður rannsóknarprófessora. Í nefndinni eiga sæti rektor viðkomandi háskóla eða forstöðumaður viðkomandi rannsóknarstofnunar, formaður Rannsóknarráðs Íslands og einn fulltrúi sem menntamálaráðherra skipar. Menntamálaráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Nefndin skal leita faglegs álits viðurkenndra sérfræðinga á viðkomandi fræðasviðum teljist þess þörf.

6. gr.

Rannsóknarprófessor er að jafnaði ráðinn til fimm ára. Heimilt er að framlengja ráðningu um tvö ár en samanlagður ráðningartími skal ekki vera lengri en sjö ár. Að loknum fimm árum skal liggja fyrir mat á framvindu verkefna og á grundvelli þess skal tekin ákvörðun um framhald ráðningar. Í þessu mati skal tekið mið af stöðu verkefna, framvindu, árangri sem náðst hefur og hvort upprunalegar áherslur eigi enn við.

7. gr.

Sá sem gegnir stöðu rannsóknarprófessors skal njóta sömu réttinda og þeir sem gegna stöðu prófessors við viðkomandi háskóla eða sérfræðings við rannsóknarstofnun, eftir því sem við á, enda sé slíkt í samræmi við lög, reglugerðir og kjarasamninga starfsmanna við hlutaðeigandi stofnun. Rannsóknarprófessor skal halda opinbera fyrirlestra um rannsóknir sínar á meðan á ráðningartíma stendur.

8. gr.

Reglugerð þessi, sem byggir á ákvæðum 22. gr. laga nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands, öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytið, 9. maí 1995.

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.