Menntamálaráðuneyti

260/1995

Reglugerð fyrir Tónlistarskólann á Egilsstöðum.

1. gr.

Skólinn heitir Tónlistarskólinn á Egilsstöðum. Skólinn er eign Egilsstaðabæjar og fer bæjarstjórn Egilsstaða með yfirstjórn hans. Skólinn starfar skv. lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985 með síðari breytingum.

2. gr.

Markmið skólans er að veita almenna tónlistarfræðslu og vinna að eflingu tónlistarlífs á Egilsstöðum.

Þessum markmiðum hyggst skólinn ná meðal annars með því að:
annast kennslu í hljóðfæraleik og söng ásamt kennslu í öðrum tónlistargreinum sem gert er ráð fyrir í námsskrám tónlistarskólanna,
búa nemendum fjölbreytt skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargáfu,
leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku nemenda í samleik, kór- og hljómsveitarstarfi,
búa nemendur undir framhaldsnám í tónlist,
gera fullorðnum kleift að auðga tómstundir sínar með tónlistariðkun,
styðja kennara skólans til tónleikahalds.

3. gr.

Bæjarstjórn kýs 3 manna skólanefnd og jafnmarga til vara til fjögurra ára í senn að loknum hverjum reglulegum sveitarstjórnarkosningum. Jafnframt kýs bæjarstjórn formann og varamann.

4. gr.

Skólanefnd fer með yfirstjórn skólans í umboði bæjarstjórnar.

Formaður skólanefndar boðar til funda með dagskrá svo oft sem þurfa þykir og er skylt að boða til fundar ef tveir nefndarmenn, skólastjóri eða kennarafundur æskir þess.

Skólastjóri sitji skólanefndarfundi. Heimilt er kennarafundi að tilnefna 1 fulltrúa úr hópi fastra kennara til að sitja skólanefndarfundi með málfrelsi og tillögurétt og skal hann bundinn sömu trúnaðarskyldu og stjórnarmenn.

5. gr.

Bæjarstjórn ræður skólastjóra að fengnum tillögum skólanefndar. Skólastjóri ræður kennara og aðra starfsmenn í samráði við skólanefnd. Starfsmenn skólans starfa samkvæmt starfslýsingum sem skólanefnd ákveður.

6. gr.

Kennarafundur er skólastjóra til ráðuneytis um starf skólans. Kennarafundi skal halda ekki sjaldnar en 4 sinnum á starfstíma skólans.

Skólastjóri boðar til kennarafunda með dagskrá og tilnefnir fundarstjóra og ritara sem færir gjörðabók kennarafunda.

Skylt er öllum föstum kennurum skólans að sækja kennarafundi. Skylt er stundakennurum að sækja kennarafund ef skólastjóri æskir þess, enda sé boðað til fundarins með a.m.k. þriggja daga fyrirvara.

Skylt er að halda kennarafund ef minnst 1/4 hluti fastra kennara æskir þess.

7. gr.

Starfstími skólans er 9 mánuðir frá 1. september ár hvert. Leyfi yfir starfstímann skulu vera þau sömu og í grunnskólum bæjarins. Viðverutími starfsmanna og vinnuskylda fer eftir gildandi kjarasamningi.

8. gr.

Rekstur skólans skal kosta með fjárveitingum á fjárhagsáætlun Egilsstaðabæjar og skólagjöldum nemenda.

Skrifstofa Egilsstaðabæjar annast greiðslu launa og rekstrarreikninga svo og bókhald Tónskólans á Egilsstöðum.

9. gr.

Skólagjöld eru ákveðin af bæjarstjórn að fengnum tillögum skólanefndar. Skólagjöld skulu greidd við upphaf annar.

10. gr.

Skólastjóri skal fyrir 1. júní ár hvert gera áætlun um kennslustundafjölda á næsta skólaári í samráði við skólanefnd. Skal áætlun þessi lögð fyrir bæjarstjórn til samþykktar. Áætlun um kennsluskipan og námsframboð skal liggja fyrir í upphafi skólaárs.

11. gr.

Skólastjóri setur skólanum starfsreglur sem kveða á um ástundun, árangur og umgengni nemenda. Reglurnar skulu settar að fenginni umsögn kennarafundar og þurfa samþykki skólanefndar.

12. gr.

Rétt til skólavistar hefur hver sá er áhuga hefur á tónlistarnámi því sem skólinn býður upp á með eftirtöldum frávikum:

Þurfi að takmarka fjölda nemenda á einstökum námssviðum er skólanum m.a. heimilt að beita hæfnisprófum og breyta auglýstu kennslufyrirkomulagi.

Heimilt er skólastjóra að vísa nemanda frá námi ef hann hefur ekki sinnt því um lengri tíma eða hefur gerst brotlegur við reglur skólans og ekki látið skipast við áminningu.

Úrskurði skólastjóra má skjóta til skólanefndar.

13. gr.

Reglugerð þessi er samþykkt af bæjarstjórn Egilsstaðabæjar þann 19. júlí 1994.

Menntamálaráðuneytið, 24. apríl 1995.

F. h. r.
Guðríður Sigurðardóttir.

Stefán Baldursson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica