Menntamálaráðuneyti

598/1982

Reglugerð um stofnun í erlendum tungumálum við heimspekideild Háskóla Íslands

1. gr.

Við heimspekideild Háskóla Íslands starfar stofnun í erlendum tungumálum samkvæmt 2. mgr., 9. gr. laga nr. 77/1979, um Háskóla Íslands og er hún vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun skv. 1. gr. téðra laga.

2. gr.

Hlutverk stofnunarinnar er:

a) Að vera vettvangur rannsókna í hagnýtum málvísindum og kennslufræði erlendra tungumála, og að fást við hver önnur þau verkefni, er stuðlað geta að því að efla tungumálakennslu innan háskólans og utan.

b) Að vera vettvangur rannsókna í erlendum tungumálum, sem kennd eru við Háskóla Íslands.

c) Að annast rannsóknir í bókmenntum á viðkomandi málum.

d) Að annast útgáfu ritverka á fræðasviði sínu samkvæmt nánari ákvörðun.

e) Að gangast fyrir öflun og miðlun upplýsinga um erlend tungumál og tungumálakennslu, t. d. með ráðstefnum, fræðslufundum, námskeiðum og fyrirlestrum, og með tengslum við erlendar stofnanir.

f) Að annast rekstur á æfingastofu(m) heimspekideildar í erlendum tungumálum og skipuleggja nýtingu hennar (þeirra).

g) Að vera til ráðuneytis um kennslu, námsefni og próf í erlendum tungumálum í skólum landsins, svo og um æfingakennslu stúdenta í erlendum tungumálum og um námsdvöl þeirra við erlenda háskóla, í samvinnu við aðra aðila, sem hlut eiga að máli, og að fást við hvað annað, er gildi getur haft fyrir tungumálakennslu í skólum landsins.

3. gr.

Stjórn stofnunarinnar er skipuð þremur mönnum. Heimspekideild kýs tvo þeirra til þriggja ára úr hópi fastra háskólakennara í erlendum tungumálum, Deildin kýs einn þeirra formann og skal hann jafnframt vera forstöðumaður. Stúdentar sem hafa erlent tungumál að aðalgrein til B.A.- eða cand. mag.-prófs kjósa einn stjórnarmann úr hópi sínum til eins árs í senn að tilhlutan félags stúdenta í heimspekideild, á meðan ekki er til sérstakt félag stúdenta í erlendum tungumálum við deildina.

Stjórnin hefur umsjón með fjármálum stofnunarinnar, sbr. 4. gr., og gengur frá rekstraráætlun og tillögum til deildar um fjárveitingar til stofnunarinnar. Stjórnin hefur umsjón með rannsóknum og öðrum verkefnum stofnunarinnar, sbr. 2. gr., og fjallar um önnur mál, er varða starfsemi hennar, sbr. 6. gr.

Stjórnin skal halda minnst tvo fundi á ári með starfsliði stofnunarinnar, annan fyrir lok febrúar og hinn fyrir lok októbermánaðar, til að ræða málefni stofnunarinnar. Fundir þessir nefnast misserisfundir. Þeir hafa ekki ákvörðunarvald en geta samþykkt tillögur til stjórnar stofnunarinnar eða heimspekideildar.

Nú telur einhver sá, sem rétt á til setu á misserisfundi stofnunarinnar, ákvörðun stjórnar eða forstöðumanns vera andstæða ákvæðum þessarar reglugerðar eða laga háskólans, og getur hann þá skotið ákvörðuninni til deildarráðs heimspekideildar.

Stjórninni er heimilt að skipta stofnuninni í deildir eftir rannsókna- eða verkefnasviðum, ef heppilegt þykir og fé er fyrir hendi. Heimspekideild kýs þá deildarstjóra einstakra deilda, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar.

4. gr.

Rekstur stofnunarinnar er greiddur af ríkisfé skv. því, sem veitt er í fjárlögum. Aðrar tekjur stofnunarinnar eru:

a) Styrkir til einstakra verkefna.

b) Greiðslur fyrir umbeðin verkefni.

c) Gjafir.

Stjórn stofnunarinnar skal álykta um viðtöku fjár skv. a), b) og c) lið; þ. á. m. um skilyrði sem framlögin kunna að vera bundin.

Ávallt er skylt að leita samþykkis deildar fyrir öflun tekna og fjárveitinga til stofnunarinnar.

Fjármálin heyra endanlega undir háskólarektor og háskólaritara, sbr. 3. og 4. mgr. 2. gr. laga nr. 77/1979, um Háskóla Íslands.

5. gr.

Til bókasafns stofnunarinnar skal leggja þann bókakost Háskólabókasafns, er fellur undir fræðasvið hennar, að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar, bókasafnsnefndar og háskólabókavarðar til háskólaráðs.

Við stofnunarbókasafnið skal árlega auka í samræmi við fjárveitingu til Háskólabókasafns, enda heyrir stofnunarbókasafnið undir það.

Ennfremur njóti stofnunin þeirrar þjónustu, sem um getur í lögum nr. 38/1969 um

Landsbókasafn Íslands, sbr. sérstaklega 1. mgr. 8. gr., þar sem svo er mælt fyrir, að stofnanir Háskólans hafi söfn í sinni vörslu, sbr. og 2. mgr. sömu greinar, svo og 12. og 13. gr. téðra laga.

6. gr.

Starfslið stofnunarinnar er:

a) Kennarar í erlendum tungumálum í fullu starfi við heimspekideild.

b) Gistiprófessorar, sérfræðingar og styrkþegar eða aðrir, sem vinna að tímabundnum rannsóknarverkefnum, skv. ákvörðun stjórnar.

c) Stúdentar í erlendum tungumálum, er vinna að verkefnum undir leiðsögn kennara sinna, en stjórnin kveður nánar á um stöðu þeirra.

d) Annað starfslið eftir því, sem háskólaráð ákveður.

Stjórn, deildarstjórar svo og annað starfslið skulu fá greidda þóknun eftir gildandi reglum innan Háskólans.

Háskólinn sér starfsliði fyrir vinnuaðstöðu.

7 . gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild 9. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands. Sbr. reglugerð fyrir Háskóla Íslands nr. 78/1979, 66. gr., og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytið, 4. október 1982.

Ingvar Gíslason.

Birgir Thorlacius.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica