Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Stofnreglugerð

459/1990

Reglugerð um Skákskóla Íslands

I. KAFLI Hlutverk og stjórn skólans.

1. gr.

Skákskóli Íslands starfar á vegum Skáksambands Íslands og í samvinnu við menntamálaráðuneytið.

2. gr.

Hlutverk skólans er að annast skákkennslu og að efla vöxt og viðgang skáklistarinnar á Íslandi. Það gerir hann m.a. með því að:

- reka skákskóla í höfuðstöðvum Skáksambands Íslands,

- halda námskeið í skák á landsbyggðinni í samvinnu við skóla og taflfélög,

- efna til fjöltefla í samvinnu við félagasamtök og skóla og eftir óskum þeirra,

- standa fyrir skákbúðum að sumarlagi eftir því sem tilefni gefst til og aðstæður leyfa í samvinnu við ýmsa aðila,

- skipuleggja skákstarf í grunnskólum í samvinnu við skólana,

- hafa ásamt Skáksambandi Íslands umsjón með "Skólaskák" og þátttöku grunnskólanema í keppnum erlendis.

3. gr.

Skólastjórn Skákskólans er skipuð þremur aðilum til þriggja ára í senn. Menntamálaráðherra skipar einn og Skáksamband Íslands tvo, þar af annan í samráði við Félag íslenskra stórmeistara. Þóknun til skólastjórnar greiðist af Skákskólanum.

Skólastjórnin skal m.a.:

- ráða skólastjóra,

- gera fjárhagsáætlun fyrir skólann í upphafi skólaárs í samráði við skólastjóra,

- ákveða skólagjöld (námskeiðsgjöld),

- samþykkja ráðningu kennara eftir tillögum skólastjóra,

- ákveða námsframboð og starfsáætlun í upphafi skólaárs eftir tillögum skólastjóra.

4. gr.

Skólastjóri starfar í umboði skólastjórnar. Skólastjóri skal m.a.:

- ráða kennara að skólanum með samþykki skólastjórnar,

- hafa umsjón með námi og kennslu í skólanum og annast daglegan rekstur hans,

- gera starfsáætlun fyrir skólann og leggja hana fyrir skólastjórn í upphafi skólaárs til samþykktar.

II. KAFLI Skipulag skólans.

5. gr.

Nám í skólanum fer fram í tveimur deildum, almennri deild og framhaldsdeild.

Nám í almennri deild er opið öllum og greiði nemendur námsgjald sem skólastjórn ákveður. Nám í deildinni fer fram í námskeiðsformi og geta námskeiðin verið mislöng. Gert er ráð fyrir 16-20 nemendum í hverjum hópi. Boðið skal upp á byrjendakennslu og nánar skilgreind framhaldsnámskeið svo sem um byrjanir, miðtafl, endatöfl o.fl.

Í framhaldsdeild eru nemendur valdir og skólavist ókeypis. Hvert kennslutímabil samsvarar tveimur önnum, þ.e. sept.-des. og jan.-apríl. Valið skal í deildina á grundvelli inntökuprófs í upphafi haustannar. Kennslutími skal vera 4 - 6 stundir á viku og nemendafjöldi í deildinni 10-15.

Stórmeistarar á launum skulu hafa fræðsluskyldu við framhaldsdeildina m.a. á þann hátt að fara yfir og skýra nýjar skákir.

III. KAFLI Gildistaka.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 76/1990 um Skákskóla Íslands og öðlast hún gildi 1. janúar 1991.

Menntamálaráðuneytið, 20. nóvember 1990.

Svavar Gestsson.

Árni Gunnarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.