Menntamálaráðuneyti

389/1996

Reglugerð um sérkennslu. - Brottfallin

I. KAFLI

Markmið og skilgreining.

1. gr.

Grunnskólinn er fyrir öll börn og unglinga á skólaskyldualdri og skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Nemendur skulu eiga kost á að stunda nám í almennum grunnskóla í skólahverfi sínu.

2. gr.

Grunnskólinn skal laga starf sitt að þroska og getu allra nemenda sinna, þannig að hver nemandi fái kennslu við hæfi. Því ber að skipuleggja skólastarfið í heild út frá þörfum allra nemenda og skapa námsumhverfi sem hæfir hverjum og einum.

 

3. gr.

Sérkennsla felur í sér verulega breytingu á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á. Sérkennsla er skipulögð til lengri eða skemmri tíma eftir þörfum nemandans, jafnvel alla skólagöngu hans.

Sérkennsla einstakra nemenda eða nemendahópa fer fram innan eða utan almennra bekkjardeilda, í sérdeildum, sérskólum eða annars staðar.

Í sérkennslu felst m.a.:

 a.            Gerð rökstuddrar námsáætlunar fyrir nemendahóp eða hvern einstakling sem byggð er á upplýsingum um heildaraðstæður nemanda og á athugun og mati á stöðu hans í námi og þroska. Tilgreind skulu langtíma- og skammtímamarkmið með kennslunni.

 b.            Kennsla samkvæmt námsáætlun.

 c.            Skipuleg skráning og regluleg endurskoðun á námsáætlun og kennslu.

 

II. KAFLI

Athugun á þörf fyrir sérkennslu.

4. gr.

Sveitarstjórn lætur kanna í samvinnu við skólastjóra, skólalækni og með aðstoð sérfræðiþjónustu skóla og annarra hlutaðeigandi aðila, hvort í sveitarfélaginu séu nemendur, sem vegna fötlunar eða af öðrum ástæðum þurfa á sérkennslu að halda.

 

5. gr.

Skólastjóri metur þörf fyrir sérkennslu í skólanum í samráði við kennara.

 

6. gr.

Ef forráðamenn, umsjónarkennari eða sérfræðingar telja að nemandi þurfi á sérkennslu að halda skal málinu vísað til skólastjóra.

 

III. KAFLI

Réttindi nemenda og foreldra og/eða forráðamanna.

7. gr.

Ef forráðamenn, kennarar og sérfræðingar sérfræðiþjónustu skóla eru sammála um að nemandi þurfi á sérstöku námstilboði að halda skal hann eiga rétt á sérkennslu. Um sérkennsluúrræði og gerð námsáætlunar fyrir einstaka nemendur skal skólastjóri hafa samráð við forráðamenn og leita samþykkis þeirra.

 

8. gr.

Allar athuganir og rannsóknir sem varða einstaka nemendur skulu gerðar í samráði við og með samþykki forráðamanna.

 

9. gr.

Foreldrum og/eða forráðamönnum er heimilt að lesa þau gögn sem eru í vörslu skóla og fræðsluyfirvalda sem hafa að geyma persónulegar upplýsingar varðandi skólagöngu barna þeirra að viðstöddum sérfræðingi viðkomandi starfsstéttar. Með allar slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.

 

10. gr.

Ágreiningsmálum má vísa til sveitarstjórnar til úrskurðar.

 

IV. KAFLI

Skipan sérkennslu.

11. gr.

Sveitarstjórn skal sjá til þess að börn á grunnskólaaldri sem þurfa á sérkennslu að halda fái kennslu við sitt hæfi. Slík kennsla getur tengst störfum í atvinnulífinu ef henta þykir.

Sérkennsla fer m.a. fram með eftirfarandi hætti:

a.             Með sérkennslu inni í bekkjardeild.

b.             Með skiptitímum í bekkjardeild.

c.             Með einstaklingskennslu utan bekkjardeildar eða í sérstökum námshópum að hluta eða öllu leyti.

d.             Í sérdeild/sérskóla skv. 38. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla.

e.             Annars staðar þar sem henta þykir.

 

12. gr.

Umsjónarkennari skal fylgjast með námi og þroska nemenda sinna, leiðbeina þeim og hafa reglulegt samband við forráðamenn þeirra. Umsjónarkennari skal einnig fylgjast með námi nemenda sinna hjá öðrum kennurum, þ.m.t. í sérkennslu.

 

13. gr.

Í skólum með 200 nemendur eða fleiri felur skólastjóri einum af kennurum skólans að hafa umsjón með kennslu þeirra nemenda sem þurfa á sérkennslu að halda og felur honum jafnframt að hafa umsjón með samskiptum við sérfræðiþjónustu skóla að því er varðar þessa nemendur.

 

14. gr.

Sérkennsla í grunnskólum skal unnin eftir áætlun sem samin er ár hvert og samþykkt af sveitarstjórn áður en til framkvæmda kemur.

Áætlun um sérkennslu í grunnskóla skal samin af skólastjóra eða umsjónarmanni sérkennslu samkvæmt nánari fyrirmælum skólastjóra og í samvinnu við nemendaverndarráð, ef það er starfandi. Áætlun um sérkennslu skal taka til námsáætlunar fyrir námshópa og einstaka nemendur eftir því sem við á. Ennfremur skal áætlunin taka til annarra tengdra starfa vegna fatlaðra nemenda.

 

V. KAFLI

Sjúkrakennsla.

15. gr.

Þeir nemendur grunnskóla sem að mati læknis verða frá skólagöngu vegna slyss eða veikinda lengur en 5 skóladaga skulu eiga rétt til sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Skólastjóri sá er sveitarstjórn lögheimilissveitarfélags nemanda felur umsjón sjúkrakennslu í sveitarfélaginu, ákveður í samráði við lækni þann er nemandann stundar, hversu mikla kennslu nemandinn skal fá. Þegar um er að ræða nemanda sem haldinn er langvinnum sjúkdómi skal kennsla að jafnaði eigi hefjast síðar en 5 dögum frá því að veikindi hófust eða frá skólabyrjun í sveitarfélaginu. Sjúkrakennari skal hafa samráð við umsjónarkennara nemandans þar sem það á við en annars þann skólastjóra sem hefur umsjón með kennslunni.

Lögheimilissveitarfélag nemanda greiðir sjúkrakennslu fyrir hann.

 

VI. KAFLI

Starfsmenn.

16. gr.

Sérkennsla skal innt af hendi af sérkennara eftir því sem við verður komið, eða undir umsjón sérkennara ef betur þykir henta að nemandi fái sérkennslu hjá umsjónarkennara eða öðrum kennurum.

 

17. gr.

Sveitarstjórn getur ráðið uppeldisfulltrúa til að aðstoða fatlaða nemendur í grunnskóla ef skólastjóri telur það nauðsynlegt.

 

18. gr.

Sveitarstjórn getur samið við aðrar sveitarstjórnir um að fela kennara sérkennslu í skólum í fleiri en einu sveitarfélagi.

 

VII. KAFLI

Sérskólar og sérdeildir.

19. gr

Sveitarfélög stofna og reka sérskóla og sérdeildir annaðhvort ein sér eða í samvinnu við önnur sveitarfélög, sbr. 38. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla.

 

20. gr.

Viðkomandi sveitarfélög setja sérdeildum/sérskólum starfsreglur sem menntamálaráðherra staðfestir. Í starfsreglum skulu vera ákvæði um afgreiðslu umsókna um skólavist, innritun og útskrift nemenda úr viðkomandi sérdeild/sérskóla.

 

21. gr.

Sveitarstjórn, sem annast rekstur sérdeildar/sérskóla þar sem nemendur með lögheimili í öðru sveitarfélagi stunda nám, getur krafið lögheimilissveitarfélag um námsvistargjöld vegna nemandans enda hafi sveitarstjórn lögheimilissveitarfélags samþykkt námsdvöl. Við ákvörðun fjárhæðar námsvistargjalds skal miða við meðaltalskostnað á hvern nemanda í skólanum án stofnkostnaðar eða fjármagnskostnaðar.

 

22. gr.

Í sérskólum og sérdeildum skulu nemendur fá kennslu samkvæmt 29. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla. Heimilt er að sérskólar og sérdeildir veiti nemendum samfellda þjónustu allan daginn alla virka daga skólaársins, enda sé fjárheimild fyrir hendi

 

23. gr.

Sérskólar og sérdeildir starfa eftir meginmarkmiðum aðalnámskrár grunnskóla og skulu setja sér skólanámskrá þar sem fram kemur skilgreining á hlutverki þeirra, sbr. 31. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla.

 

24. gr.

Með samþykki viðkomandi sveitarfélaga getur menntamálaráðuneytið falið einstökum sérskólum og sérdeildum að veita leiðbeiningar og ráðgjöf til forráðamanna og kennara hvarvetna á landinu samkvæmt reglum sem ráðuneytið setur í samráði við viðkomandi sveitarfélög. Sérfræðingar sérskóla, sérdeilda og sérfræðiþjónustu skóla skulu hafa náið samstarf um þá ráðgjöf sem hér um ræðir.

.

25. gr.

Áður en nemandi er innritaður í sérskóla eða sérdeild skal meta stöðu hans í námi og þroska. Við slíkt mat skal tekið tillit til heildaraðstæðna hans. Allar slíkar athuganir skulu gerðar í fullu samráði og með samþykki forráðamanna. Forráðamenn eiga rétt á að kynna sér niðurstöður úr slíku mati áður en þeir ákveða hvort sótt verði um innritun nemandans í sérskóla. Allar umsóknir um innritun nemenda í sérskóla og sérdeildir skulu sendar til skólastjóra viðkomandi skóla ásamt umsögnum viðkomandi sérfræðinga. Um meðferð og afgreiðslu umsókna, innritun og útskrift skal fara eftir starfsreglum viðkomandi sérdeildar/ sérskóla sem menntamálaráðherra hefur staðfest.

 

26. gr.

Skólastjórar sérskóla og sérdeilda skulu gera áætlun fyrir skóla sinn um fyrirkomulag kennslu, fjölda námshópa, kennslustundafjölda og annan rekstrarkostnað. Áætlunina skal miða við komandi skólaár að því er varðar kennslu, en komandi almanaksár að því er varðar rekstrarkostnað. Áætlunina skal leggja fyrir viðkomandi sveitarstjórn til afgreiðslu. Áætlun þessa skal endurskoða við upphaf skólaárs, ef þörf krefur.

 

VIII. KAFLI

Kennslumagn.

27. gr.

Sveitarstjórn skal við gerð árlegrar fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins gera ráð fyrir fjárveitingum til sérkennslu í grunnskólum sem miðast við að til ráðstöfunar í hverri kennsluviku verði sem svarar 0,25 kennslustundum á fyrstu 1.700 nemendur í sveitarfélagi og 0,23 kennslustundum á hvern nemanda umfram 1.700. Þessu kennslumagni skal varið til sérkennslu í grunnskólum, kennslu í sérdeildum (sbr. 11. gr. c. lið) og til annarra starfa á þessu sviði eftir nánari ákvörðun sveitarstjórnar.

Í þeim sveitarfélögum sem reka sérskóla eða sérdeildir samkvæmt 38. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla skal sveitarstjórn ennfremur gera ráð fyrir fjárveitingum til kennslu í samræmi við áætlanir skv. 26. gr.

 

28. gr.

Auk kennslumagns skv. 27. gr. skal sveitarstjórn við gerð árlegrar fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins gera ráð fyrir fjárveitingum til sjúkrakennslu sbr. 15. gr.

 

IX. KAFLI

Gildistaka.

29. gr.

Reglugerð þessi, er sett er samkvæmt heimild í 37. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla og öðlast gildi 1. ágúst 1996. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 106/1992 um sérkennslu.

 

Menntamálaráðuneytinu, 26. júní 1996.

 

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica