Mennta- og menningarmálaráðuneyti

1147/2016

Reglugerð um breytingu á reglugerð um Kvikmyndasjóð nr. 229/2003, með síðari breytingum.

1. gr.

1. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Kvikmyndasjóður starfar á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Hlutverk Kvikmyndasjóðs er að efla íslenska kvikmyndagerð með fjárhagslegum stuðningi. Íslensk kvikmynd er kvikmynd sem unnin er og kostuð af íslenskum aðilum eða er samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila. Verk­efni sem styrkt eru af Kvikmyndasjóði skulu enn fremur vera á íslensku eða hafa aðra íslenska menningarlega skírskotun og efla framleiðsluumhverfi íslenskra kvikmynda.

Framangreint skilyrði um þjóðerni gildir ekki um lögaðila og einstaklinga frá öðrum EES-ríkjum sem falla undir ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.

2. gr.

3. mgr. 3. gr. verði 4. mgr. 3. gr. og 2. og 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar skulu orðast svo:

Kvikmyndaráðgjafar leggja listrænt mat á umsóknir og með hliðsjón af fjárhags- og fram­kvæmda­þáttum, nema í þeim tilvikum þegar um er að ræða leiknar kvikmyndir í fullri lengd til sýninga í kvikmyndahúsum, sbr. 3. tl. 1. mgr. 8. gr., eða vegna umsókna um kynningarstyrki. Verkefni sem nýtur styrks skal:

  1. vera á íslenskri tungu eða hafa íslenska menningarlega eða samfélagslega skírskotun,
  2. stuðla að eflingu innlendrar kvikmyndagerðar með aukinni þekkingu og reynslu til gerðar kvik­mynda sem lýst er í 1. mgr. 2. gr. og styrkja rekstrargrundvöll atvinnugreinarinnar,
  3. uppfylla kröfur um gæði, listrænt framlag og nýsköpun,
  4. hafa breiða skírskotun til áhorfenda.

Við mat á umsóknum skal einnig líta til þess hvort styrkurinn stuðli að jöfnun á stöðu kvenna og karla í kvikmyndagerð.

3. gr.

Við 12. gr. reglugerðarinnar bætist ný málsgrein sem verður önnur málsgrein og orðast hún svo:

Styrkþegi skal hafa skráð útibú eða umboðsmann hér á landi til að geta veitt styrkgreiðslu móttöku.

4. gr.

5. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Verk sem nýtur styrks úr Kvikmyndasjóði skal kynnt sem íslenskt á kvikmyndahátíðum og mörkuðum erlendis. Í samframleiðsluverkefnum og verkum sem framleidd eru eða kostuð af aðilum frá öðrum EES-ríkjum skal getið um íslenskt þjóðerni ásamt öðrum.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 7. gr. kvikmyndalaga nr. 137/2001 og öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 2. desember 2016.

Illugi Gunnarsson.

Ásta Magnúsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica