Menntamálaráðuneyti

320/2007

Reglugerð um viðurkenningu grunnskóla og lágmarksframlög úr sveitarsjóði til slíkra skóla. - Brottfallin

I. KAFLI

Viðurkenning grunnskóla.

1. gr.

Menntamálaráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða hluta grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi, enda liggi fyrir samþykki sveitarfélags um stofnun skólans. Heimilt er að binda samþykki sveitarfélags við ákveðinn hámarksfjölda nemenda.

2. gr.

Í umsókn um viðurkenningu grunnskóla skulu fylgja upplýsingar um eftirfarandi:

  1. Eiganda og ábyrgðaraðila skólans og gögn um rekstrarform og rekstrargrundvöll hans.
  2. Samþykki sveitarfélags um stofnun skólans.
  3. Gögn sem lýsa markmiðum, innihaldi og skipulagi náms skólans í samræmi við grunnskólalög og aðalnámskrá grunnskóla.
  4. Gögn um húsnæði skólans og starfsaðstöðu, þ.m.t. starfsleyfi heilbrigðiseftirlits sveitarfélags.

3. gr.

Skilyrði þess að grunnskóli hljóti viðurkenningu er að starfsemi hans sé í samræmi við gildandi lög og reglur um grunnskóla, eftir því sem við á. Viðurkenning grunnskóla er ótímabundin og sérstakt vottorð gefið út um hana.

4. gr.

Komi í ljós eða að fyrir liggur rökstuddur grunur um að starfsemi grunnskóla, sem fengið hefur viðurkenningu, sé ekki í samræmi við gildandi lög eða reglur um grunnskóla, tekur menntamálaráðuneytið slíkt mál til rannsóknar. Verði talið að verulegir annmarkar séu á starfsemi viðkomandi grunnskóla skal menntamálaráðuneytið tilkynna skólanum um það, tilgreina hverjir annmarkarnir eru og eftir atvikum jafnframt með hvaða hætti skuli bætt úr, innan tilgreindra tímamarka. Hafi ekki verið bætt úr tilgreindum annmörkum innan veitts tímafrests, getur menntamálaráðherra afturkallað viðurkenningu viðkomandi grunnskóla.

II. KAFLI

Lágmarksframlög úr sveitarsjóði til viðurkenndra grunnskóla.

5. gr.

Grunnskólar sem hljóta viðurkenningu menntamálaráðherra á grundvelli grunnskólalaga og reglugerðar þessarar eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar.

Sama gildir um grunnskóla sem þegar eru starfandi á grundvelli viðurkenningar menntamálaráðherra, en sveitarfélagi er þó heimilt að takmarka framlag úr sveitarsjóði við hámarksfjölda nemenda.

6. gr.

Skal framlag skv. 5. gr. nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrar­kostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur, en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda.

Útreikningur Hagstofu Íslands skv. 1. mgr. skal liggja fyrir í september ár hvert. Útreikningur skal byggður á ársreikningum sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga til þess dags sem útreikningur er gerður. Verðlagsbreytingar skulu taka mið af almennum launahækkunum starfsmanna grunnskóla og breytingum á vísitölu neysluverðs að teknu tilliti til vægis hvors þáttar fyrir sig í rekstrarkostnaði grunn­skólanna.

7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 56. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995, sbr. 22. gr. laga nr. 98/2006, öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 26. mars 2007.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Guðmundur Árnason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica