Menntamálaráðuneyti

3/1976

Reglugerð um flutningsrétt á ritverkum og tónsmíðum - Brottfallin

1. gr.

            Stéttarfélög eða stéttarsambönd höfunda fara með almenna aðild til að semja við Ríkisútvarpið um greiðslur til höfunda fyrir verk, sem heimilt er að flytja í út­varpi án sérstaks leyfis höfundar hverju sinni, sbr. 23. gr. 1. mgr. höfundalaga nr. 73/1972, enda hafi þau áður öðlast löggildingu menntamálaráðuneytisins. Leita skal umsagnar höfundaréttarnefndar, sem skipuð er skv. 58. gr. höfundalaga, um umsókn­ir stéttarfélaga um löggildingu.  Stéttarfélagi höfunda, sem þegar hefur verið löggilt af menntamálaráðuneytinu, er heimilt að halda löggildingu sinni án umsóknar.

 

2. gr.

Takist ekki samningar milli stéttarfélags og Ríkisútvarpsins um greiðslur til höfunda skv. 1. gr. geta aðilar, ef þeir eru sammála um það, lagt ágreininginn undir úrskurð 3ja manna gerðardóms, sbr. 2. mgr. 57. gr. höfundalaga, sbr. og reglur sem ráðuneytið setur um störf dómsins.

 

3. gr.

Stéttarfélagi höfunda, sem öðlast hefur umboð verulegs hluta íslenskra höfunda og hlotið löggildingu skv. 1. gr., skal heimilt að setja gjaldskrá um flutning verka utan Ríkisútvarpsins að því leyti, sem höfundi ber þóknun fyrir flutning þeirra. Slík gjaldskrá er háð samþykki menntamálaráðuneytisins. Beiðni stéttarfélags um gjald­skrá skal lögð fyrir höfundaréttarnefnd til umsagnar. Eldri gjaldskrár, löglega settar fyrir gildistöku reglugerðar þessarar, skulu halda gildi sínu.

 

4. gr.

Rétthafar ritverka og tónsmíða, sem hvorki eru meðlimir löggilts félags né hafa veitt því umboð til að gæta hagsmuna sinna, skulu njóta sama réttar og meðlimir félagsins að því er snertir fjárhæð greiðslu fyrir flutning verka þeirra.


Innheimtu og aðra hagsmunagæslu en að framan greinir, sbr. 1.-3, gr. annast félagið einungis samkvæmt umboði í samræmi við reglur eða samþykktir félagsins. Þó skal stéttarfélagi höfunda, sem annast almenna innheimtu gjalda fyrir flutnings­rétt og hefur aflað sér umboða til þeirrar starfsemi frá verulegum hluta íslenskra höfunda, einnig heimil innheimta fyrir rétthafa sem standa utan félagsins eða hafa ekki veitt því sérstakt innheimtuumboð enda njóti þeir sama réttar við úthlutun og félagsmenn.

 

5. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. heimild í höfundalögum nr. 73/1972 og kemur í stað reglugerðar nr. 429 frá 30. desember 1974.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytið, 5. janúar 1976.

 

Vilhjálmur Hjálmarsson.

Birgir Thorlacius.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica