Leita
Hreinsa Um leit

Menntamálaráðuneyti

196/1991

Reglugerð um Sinfóníuhljómsveit Íslands. - Brottfallin

1. gr.

Sinfóníuhljómsveit Íslands er sjálfstæð stofnun með sérstakan fjárhag og lýtur sérstakri stjórn. Heimili hennar og varnarþing er í Reykjavík. Málefni hennar heyra undir menntamálaráðuneytið.

2. gr.

Starf Sinfóníuhljómsveitarinnar miði að því að auðga tónmenningu Íslendinga, efla áhuga og þekkingu á æðri tónlist og gefa landsmönnum kost á að njóta hennar, m.a. með tónleikahaldi sem víðast um landið og með tónlistarflutningi í hljóðvarpi og sjónvarpi. Sérstaka áherslu ber að leggja á flutning og kynningu íslenskrar tónlistar, utan lands sem innan, ef tilefni gefast.

Í öllu starfi hljómsveitarinnar skal kappkosta að hafa sem best samstarf við þá aðila sem að skyldum markmiðum vinna, einkum aðra íslenska flytjendur tónlistar, einstaklinga, hópa og stofnanir.

3. gr.

Tengja ber starf hljómsveitarinnar tónlistaruppeldi í landinu svo sem kostur er, einkum tónlistarkennslu á háskólastigi. Efla ber samstarf við tónlistarskólana og auðvelda nemendum þeirra að sækja tónleika hljómsveitarinnar. Hljómsveitin skal vinna markvisst að tónlistarkynningu meðal annarra skólanema og styðja tónlistarstarfsemi æskufólks eftir því sem aðstæður leyfa.

4. gr.

Hljómleikaferðir um landið skulu vera fastur liður í starfsemi hljómsveitarinnar. Í því sambandi er æskilegt að leita samstarfs við tónlistarfélög og aðra aðila á hverjum stað um tónleikahaldið.

5. gr.

Rekstraraðilar Sinfóníuhljómsveitarinnar eru: Ríkissjóður (56%), Ríkisútvarpið (25%), Borgarsjóður Reykjavíkur (18%) og Bæjarsjóður Seltjarnarness (1%). Með samþykki rekstraraðila getur menntamálaráðuneytið heimilað fleiri sveitarfélögum aðild að rekstri hljómsveitarinnar.

6. gr.

Samningur sé gerður milli Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins um réttindi Ríkisútvarpsins varðandi flutning á tónlistarefni hljómsveitarinnar á móti framlagi útvarpsins skv. 5. gr. og í samningnum miðað við þá hefð og venjur sem í þeim efnum hafa mótast á undanförnum árum.

Efna má til samvinnu á viðskiptagrundvelli milli Sinfóníuhljómsveitarinnar annars vegar og Þjóðleikhússins, Íslensku óperunnar, Íslenska dansflokksins og annarra aðila hins vegar um einstök verkefni eftir því sem tilefni gefast og önnur starfsemi hljómsveitarinnar leyfir. Skal um slíka samvinnu gera skriflega samninga hverju sinni.

Sinfóníuhljómsveitin skal kappkosta að afla tekna af tónleikahaldi og annarri starfsemi, svo að sem mest að útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greitt af slíkum tekjum hennar.

Tekjur af auglýsingum má leggja í sérstakan sjóð sem stjórn hljómsveitarinnar getur ráðstafað til kaupa á hljóðfærum og annarra sérstakra þarfa.

7. gr.

Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands er skipuð af menntamálaráðuneytinu til fjögurra ára í senn. Hún er skipuð fimm mönnum, einum tilnefndum af Reykjavíkurborg, einum tilnefndum af starfsmannafélagi hljómsveitarinnar, einum tilnefndum af fjármálaráðuneytinu og einum tilnefndum af Ríkisútvarpinu. Menntamálaráðuneytið skipar formann án tilnefningar.

Stjórnin hefur ákvörðunarvald um öll málefni hljómsveitarinnar. Hún heldur fundi svo oft sem þurfa þykir.

8. gr.

Stjórnin ber ábyrgð á fjárreiðum og reikningshaldi hljómsveitarinnar. Hún lætur gera starfs- og rekstaráætlanir og leggur þær fyrir rekstraraðila. Efnahags- og rekstrarreikningur skal gerður að loknu hverju almanaksári og sendur ríkisendurskoðun.

Í reikningshaldi hljómsveitarinnar skal kostnaði við tónleikaferðir um landið haldið aðskildum frá öðrum rekstrarkostnaði. Gera skal sérstaka fjárhagsáætlun vegna ferðanna. Hluti skemmtanaskatts (10%) samkvæmt 7. gr. laga nr. 58/1970 um skemmtanaskatt rennur til greiðslu kostnaðar vegna ferðanna.

9. gr.

Stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ræður framkvæmdastjóra til fjögurra ára í senn og ákveður verksvið hans. Endurráðning er heimil.

Framkvæmdastjóri situr stjórnarfundi hljómsveitarinnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt. Hann framkvæmir ákvarðanir stjórnarinnar og ber ábyrgð gagnvart henni.

10. gr.

Framkvæmdastjóri skipuleggur og gerir tillögur um heildarstarfsáætlun hljómsveitarinnar í samráði við aðalhljómsveitarstjóra, sbr. 14. gr. Hann er ábyrgur fyrir framkvæmd og undirbúningi æfinga og tónleika hljómsveitarinnar. Sama á við um hver þau tilvik önnur, þar sem hljómsveitin eða deildir úr henni koma saman til starfa.

Framkvæmdastjóri ræður, í samræmi við fjárheimildir, starfsfólk á skrifstofu og aðstoðarfólk við æfingar, tónleika og nótnavörslu. Hann setur hljóðfæraleikurum starfsreglur, með samþykki stjórnar, og gefur út aðrar reglur, svo og starfslýsingar einstakra starfsmanna, eftir því sem þurfa þykir. Leitast skal við að móta slíkar reglur í sem nánustu samráði við hlutaðeigandi starfsmenn og aðalhljómsveitarstjóra eftir því sem við á.

11. gr.

Stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ræður aðalhljómsveitarstjóra. Hann vinnur að tillögum um viðfangsefni sveitarinnar í samvinnu við verkefnavalsnefnd og framkvæmdastjóra. Nánari ákvæði um verksvið aðalhljómsveitarstjóra skulu tilgreind í starfssamningi.

Stjórnin ræður einnig aðra fasta hljómsveitarstjóra.

12. gr.

Tónleikastjóri er ráðinn af framkvæmdastjóra með samþykki stjórnar Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hann er staðgengill framkvæmdastjóra og ábyrgur gagnvart honum fyrir þeim málum sem honum eru falin og undir hann heyra.

13. gr.

Stjórnin fastræður hljóðfæraleikara, að fengnum tillögum framkvæmdastjóra, í minnst 65 stöðugildi. Heimilt er að ráða í hlutastörf. Aðra hljóðfæraleikara ræður stjórnin á sama hátt eftir því sem viðfangsefni krefjast, enda hafi viðfangsefnið verið samþykkt í fjárhagsáætlun. Um ráðningu hljómsveitarmanna og framkvæmd hæfnisprófa skal fara eftir reglum sem stjórn hljómsveitarinnar setur.

Um launakjör og vinnutíma starfsmanna hljómsveitarinnar fer eftir kjarasamningum þeirra við fjármálaráðherra.

14. gr.

Við verkefnaval Sinfóníuhljómsveitar Íslands skal stjórn hennar njóta aðstoðar verkefnavalsnefndar sem skipuð er til fjögurra ára um leið og stjórn hljómsveitarinnar.

Nefndin skilar tillögum og áætlunum um verkefni hljómsveitarinnar fyrir hvert starfsár, svo og tillögum um stjórnendur, einleikara og söngvara, eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Framkvæmdastjóri og aðalhljómsveitarstjóri gera starfsáætlun á grundvelli tillagna verkefnavalsnefndar og í samráði við hana og leggja fram ásamt kostnaðaráætlun fyrir stjórnina eigi síðar en 1. febrúar. Fyrir 1. mars skulu liggja fyrir drög að verkefnavali þess starfsárs sem hefst á öðru eftirfarandi hausti, nægilega ítarleg til að leggja megi þau til grundvallar fjárlagatillögum fyrir næsta reikningsár (almanaksár).

15. gr.

Heimilt er að ráða tónskáld til starfa í þágu hljómsveitarinnar í takmarkaðan tíma, eigi skemur en þrjá mánuði og eigi lengur en eitt ár í senn, eftir ákvörðun stjórnarinnar. Auglýsa skal eftir umsóknum um slíka ráðningu, og skal hún bundin ákveðnu verki sem unnið skal á ráðningartímanum. Til þessa má verja sem svarar tólf mánaðarlaunum á ári hverju.

16. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 11. gr. laga um Sinfóníuhljómsveit Íslands nr. 36/1982 og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 203/1987 um Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Menntamálaráðuneytið, 18. apríl 1991.

Svavar Gestsson.

Árni Gunnarsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica