Menntamálaráðuneyti

113/1958

Reglugerð um notkun skólahúsa og samkomuhald í skólum - Brottfallin

1. gr.

Umráð og umsjón með skólahúsum er í kaupstöðum í höndum bæjarstjórna (fræðsluráða) og utan kaupstaða í höndum skólanefnda. Þó skulu skólastjórar hafa umráð yfir skólahúsnæði vegna skólahalds og samkomuhalds kennara og nemenda skólans. Eigi er heimilt að lána eða leigja aðilum utan skólans húsnæði, nema fylgt sé eftirfarandi reglum.

2. gr.

Með orðinu skólahúsnæði er í reglugerð þessari bæði átt við húsnæði, sem er eign skólans og húsnæði, sem einvörðungu hefur verið tekið á leigu til skólahaldsins.

3. gr.

Heimilt er skólanemendum og kennurum að halda fundi og aðrar samkomur í húsakynnum skólans, sbr. 1. gr.

4. gr.

Skólastjóri getur leyft, að gestum nemenda og kennara sé boðið á samkomur, sem haldnar eru á skólans vegum. Eigi má auglýsa samkomur skólanemenda, nema samþykki skólastjóra komi til.

5. gr.

Skólaskemmtanir skulu haldnar þannig, að sem minnstri truflun valdi í störfum skólans.

6. gr.

Skólastjórar og kennarar, sem þeir kveðja til, skulu hafa umsjón og eftirlit með fundum og skemmtunum nemenda.

7. gr.

Ef skólanefnd eða bæjarstjórn (fræðsluráð) telur þörf á, að skólahúsnæði sé notað til annars en skólahalds, fundahalda og samkomuhalds þess, sem gert er ráð fyrir í reglugerð þessari, skal hafa samráð við skólastjóra um, hvort slík afnot skuli leyfa. Skal þess einkum gætt að leyfa eigi samkomuhald, sem á einn eða annan hátt veldur truflun í starfi skólans eða raskar ró og spillir heilbrigðis- og hollustuháttum heimavistarnemenda og í skólahúsnæðinu yfirleitt. Greini þá aðila á, sker fræðslumálastjóri úr.

8. gr.

Skólanefndir eða bæjarstjórnir (fræðsluráð) geta þó án samþykkis fræðslumálastjóra heimilað afnot skólahúsnæðis til fyrirlestrahalds, listkynningar, skátafunda, söngæfinga, íþróttaiðkana, kirkjustarfsemi og annarrar hliðstæðrar menningarstarfsemi utanskólafólks, enda trufli slík afnot skólahúsnæðis eigi eðlileg störf viðkomandi skóla að dómi skólastjóra.

9. gr.

Eigi má hafa áfengi um hönd í skólahúsnæði. Sé um brot að ræða gegn þessu ákvæði, má eigi leyfa þeim aðilum, er að þeim fundi eða skemmtun stóðu, að halda samkomur á ný í skólanum, nema samþykki fræðslumálastjóra komi til.

10. gr.

Skólanefndir og bæjarstjórnir (fræðsluráð) annast eftirlit með því, að framagreindum reglum verði fylgt. Heimilt er skólanefnd eða bæjarstjórn (fræðsluráði) að fela skólastjóra eða öðrum, er hann samþykkir, að annast það.

11. gr.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytið, 18. september 1958.

Gylfi Þ. Gíslason.

________________

Birgir Thorlacius.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica