Menntamálaráðuneyti

710/1996

Reglugerð um rétt nemenda og foreldra/forráðamanna til að skoða metnar prófúrlausnir nemenda. - Brottfallin

1. gr.

                Reglugerð þessi tekur til hvers konar prófa og námsmats í grunnskólum sem liggja til grundvallar þegar nemendum er gefin prófeinkunn eða annar skriflegur vitnisburður í lok annar eða skólaárs.

 

2. gr.

                Nemandi og foreldri/forráðamaður hafa rétt á að skoða metnar prófúrlausnir nemanda, sbr. 1. gr. Jafnframt hefur nemandi og foreldri/forráðamaður rétt til að skoða þau gögn sem liggja til grundvallar hvers konar skriflegum vitnisburði um námsstöðu nemandans. Skólastjóri er ábyrgur fyrir því, að sá kennari sem gefið hefur prófeinkunn og/eða vitnisburð sem um ræðir, sé viðstaddur til að útskýra forsendur og niðurstöður mats fyrir nemanda og foreldri/forráðamanni.

 

3. gr.

                Foreldri/forráðamaður nemanda skal bera fram beiðni um að skoða prófúrlausnir og/eða námsmatsgögn nemanda eigi síðar en tveimur vikum eftir að nemanda hefur borist prófeinkunn og/eða vitnisburður frá skólanum. Beiðnin skal berast skólastjóra, sem í samráði við foreldri/forráðamann og viðkomandi kennara, sér um að nemanda og foreldri/forráðamanni verði sýnd þau gögn sem um ræðir. Ekki skal að jafnaði líða meira en ein vika frá því að beiðni berst frá foreldri/forráðamanni og þar til skólastjóri hefur orðið við beiðninni.

 

4. gr.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt 45. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla og öðlast þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytinu, 23. desember 1996.

 

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica