Menntamálaráðuneyti

387/1996

Reglugerð um valgreinar í grunnskólum - Brottfallin

1. gr.

Heimilt er að verja allt að þriðjungi námstíma í valgreinar í 9. og 10. bekk.

Með valgreinum er átt við að nemendum er gefinn kostur á að leggja stund á aðrar námsgreinar eða námsþætti en tilgreindar eru í aðalnámskrá grunnskóla eða dýpka þekkingu sína og færni í ákveðnum skyldunámsgreinum.

2. gr.

Grunnskólar skulu skilgreina og skýra markmið valgreina, leggja fram kennsluáætlanir, yfirlit yfir námsefni og ákvarðanir um námsmat og fá staðfestingu sveitarstjórnar áður en þær eru boðnar fram enda er framboð og kostnaður við einstakar valgreinar háð samþykki sveitarstjórnar.

Lýsingar á öllum valgreinum skólans skulu ásamt öðrum starfsáætlunum hans birtast í skólanámskrá áður en kennsla hefst.

Nemendum skal ætíð gefast kostur á að velja valgreinar í samráði við forráðamenn þeirra.

Skólastjóri er ábyrgur fyrir því að kennsla valgreina í skólanum uppfylli kröfur námskrár og sé í samræmi við reglugerð þessa.

 

3. gr.

Valgreinar eru hluti af skyldunámi og því skal kennslan veitt nemendum þeim að kostnaðarlausu. Óheimilt er að krefja nemendur eða forráðamenn þeirra um greiðslur fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er gert skylt að nota í valgreinanámi.

 

4. gr.

Skólastjóra er heimilt, í samráði við nemanda og forráðamenn, að meta tímabundna þátttöku í atvinnulífi sem valgrein eða hluta af valgrein í 9. og 10. bekk grunnskóla. Skipuleggja skal þátttöku í atvinnulífi í samráði við skólann.

 

5. gr.

Heimilt er að bjóða nemendum með annað móðurmál en íslensku eigið móðurmál sem valgrein enda séu ákvæði 2. gr. uppfyllt. Einnig er skólum heimilt að viðurkenna skipulagt nám þessara nemenda í móðurmáli, utan grunnskóla, sem valgrein.

 

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 32. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla og öðlast gildi 1. ágúst 1996.

 

Menntamálaráðuneytinu, 4. júlí 1996.

 

Björn Bjarnason.

Árni Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica