Leita
Hreinsa Um leit

Menntamálaráðuneyti

204/1964

Reglugerð um iðkun leikfimi og annarra íþrótta í skólum. - Brottfallin

1. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Í öllum barnaskólum og framhaldsskólum, sem kostaðir eru eða styrktir af almannafé, skulu skólaíþróttir kenndar og iðkaðir eftir því, sem fyrir er mælt í reglugerð þessari. Ákvæði reglugerðar þessarar um íþróttanámið ná þó ekki til þeirra skóla, sem hafa sérákvæði þar um í reglugerðum sínum, svo sem Íþróttakennaraskóla og Háskóla Íslands.

2. gr.

Markmið skólaíþrótta er að stuðla að andlegum, líkamlegum og félagslegum þroska nemenda, að koma í veg fyrir líkamsgalla og lagfæra þá. Nánara tiltekið er markmiðið:

a.        að efla mátt nemenda og þol,

b.       að herða þor nemenda og vilja,

c.        að temja nemendum hugþekka og frjálsa framkomu, kurteisi og reglusemi

d.       að venja nemendur við drengilegt samstarf,

e.        að kenna nemenedum nærgætni við andstæðing, skilja og virða rétt hans og þekkja eigin rétt,

f.         að orka á heilbrigði nemenda, temja þeim hollar venjur og heilsuvernd daglegs lífs,

g.       að vekja hug nemenda og skilning á iðkun íþrótta, svo og að þeir iðki íþróttir í tómstundum sínum og haldi áfram íþróttaiðkunum að skóla loknum,

h.       að vekja varúðar- og öryggiskennd nemenda með því að kenna þeim nauðsynlegustu umferðarreglur og hjálp í viðlögum,

i.         að glæða tilfinningu nemenda fyrir hrynjandi og hljóðfalli.

3. gr.

Öllum skólum skal séð fyrir hæfu húsnæði, leikvöllum og nauðsynlegustu áhöldum til íþróttaiðkana úti sem inni, sbr. þá ákvæði 9. gr. um fámenna barnaskóla. - Í húsnæði til leikfimiiðkana skulu vera heit og köld böð ásamt tilheyrandi útbúnaði og nauðsynlegum búningsherbergjum fyrir nemendur.

Skylt er að ræsta húsakynnin vel, og ber skólastjórum og íþróttakennurum að sjá um, að öll umgegngi sé þrifaleg. (Sjá 4. kafla).

Teikningar og kostnaðaráætlanir af leikvöllum við skóla skyldunáms skulu gerðar í samráði við íþróttafulltrúa ríkisins og staðfestar af menntamálaráðuneytinu.

4. gr.

Allir skólar skulu hafa til umráða sem næst skólanum hentugt og nægilega stórt lanssvæði handa nemendum til íþróttaiðkana í útitímum og frímínútum. Svæðið skal vera miðað við, að þar geti farið fram knattleikir og hlaupaleikir, samtímis fyrir stúlkur og pilta, ef um samskóla er að ræða. (Sjá 6. kafla).

5. gr.

Í sambandi við mánaðarfrí og önnur leyfi skulu skólastjórar - eftir því sem við verður komið - stofna til göngu-, skauta- eða skíðaferða. Ávallt skal vera umsjónarmaður (kennari) frá skólanum í slíkum ferðum, svo og í útitímum. Auk þess er heimilt að verja einum góðvirðrisdegi einu sinni í mánuði til slíkra ferða eða til skíðanámsskeiða og fjallferða. Með þessu skal stefnt að því, að hver nemandi hafi, áður en hann lýkur skyldunámi, notið að minnsta kosti í vikutíma tilsagnar í skíðaíþróttum og fengið leiðbeiningar um útbúnað í vetrarferðir.

6. gr.

Skólanemendum er ekki heimilt að taka þátt í kappmótum þann tíma árs, sem skólarnir starfa, nema með leyfi skólastjóra, og vísast að öðru leyti um þetta til reglugerðar um heilsuvernd í skólum.

7. gr.

Skólanemendum, sem að dómi skólalæknis þola ekki almenna leikfimi, skal séð fyrir æfingum við þeirra hæfi. Einnig skal skólinn veita nemendum, sem að dómi skólalæknis þafnast sérstakrar sjúkraleikfimi, slíka kennslu, þar sem því verður við komið.

8. gr.

Í öllum skólum skal kenna heilsufræði. Leggja skal áherzlu á heilsuvernd og vaxtarrækt, mikilvægi íþrótta, hreinlætis og baða. Kennarar skulu oft og rækilega minna nemendur á skaðsemi allra eiturnautna.

9. gr.

Leikfimikennsla skal vera í höndum kennara, sem hafa tekið tilskilið íþróttakennararpróf. Þar sem svo hagar til, að ekki er völ á kennara með tilskildum réttindum, getur menntamálaráðuneytið með samþykki stjórnar Íþróttakennararfélags Íslands falið manni kennsluna um stundarsakir, enda þótt hann fullnægi ekki fyrrgreindum ákvæðum.

II. KAFLI

Íþróttakennsla.

10. gr.

Skólum í kaupstöðum og kauptúnum með 400 eða fleiri íbúa svo og öllum æðri skólum og heimavistarskólum skal séð fyrir hæfulegu húsnæði og nauðsynlegum áhöldum til leikfimi, íþrótta og leikja, eftir því sem fjárveitingar leyfa. Í sveitum og þeim kauptúnum, er hafa færri en 400 íbúa, skal ef ekki er kostur á að fá húsnæði til leikfimi og íþróttaiðkana, kenna nemendum þær líkamsæfingar, sem við verður komið í húsnæði skólanna og á svæðum við þá.

11. gr.

Börn á aldrinum 7 - 10 ára skulu fá a. m. k. 2ja stunda kennslu í leikfimi á viku, en 11 ára börn og eldri en 3 stundir. Í farskólum og öðrum, sem búa við ófullnægjandi skilyrði til leikfimiiðkana, skal tilsvarandi tíma varið til þeirra leikja og íþróttaiðkana, sem við verður komið. Stefnt skal að því, að hver nemandi njóti daglega einhverra líkamsæfinga eða leikja í sal, sundlaug eða á leikvelli.

Fjöldi leikfimitíma hjá piltum og stúlkum í framhaldsskólum skal vera hið minnsta 3 stundir á viku.

12. gr.

Gefa skal nemendum kost á að læra og iðka glímu, frjálsar íþróttir, knattleiki, skíða- og skautaíþróttir, eftir því sem aðstæður leyfa.

13. gr.

Í námsskrá eða reglugerð hvers skóla skal setja ákvæði um námsefni hvers aldursflokk eða bekkja, er miði að því, að nemandi kynnist sem flestum nútíma íþróttum, en þó skal kennarinn gæta þess, að alhliða leikfimi sitji í fyrirrúmi.

14. gr.

Bekkjaræfingar (örvunaræfingar).

Í skólum, þar sem engin leikfimiskennsla fer fram, skulu kennarar láta nemendur gera líkamsæfingar inni eða úti eftir ástæðum. Æskilegt er , að einnig þar, sem leikfimikennsla fer fram, hafi kennarar daglega æfingar með nemendum.

III. KAFLI.

Um próf.

15. gr.

Leikfimipróf skulu að jafnaði fara fram í marzmánuði ár hvert, og að þeim loknum er kennara heimilt að leggja aukna áherzlu á kennslu og iðkun ýmissa íþrótta. Að loknu þessu tímabili skal kennarinn meta til einkunnar getu nemandans, félagslegan þroska, hæfni og leikni. Taka skal fullt tillit til þessarar einkunnar við útreikning aðaleinkunnar bekkjaprófs eða lokaprófs.

16. gr.

Íþróttafulltrúi ríkisins skipar prófdómara við leikfimipróf, ef eigi eru um það önnur ákvæði í reglugerðum viðkomandi skóla.

17. gr.

Prófskylda í barnaskólum nær aðeins til barna- og fullnaðarprófsnemenda. Í unglinga- og miðskólum, öðrum framhaldsskólum og sérskólum skal prófa við burtfararpróf. Hver nemandi skal gera tvær prófraunir í öllum einstaklingsæfingum. Þess skal gæta við samningu prófverkefna, að prófað sé a. m. k. í 3 tegundum æfingaflokka.

18. gr.

Á prófi skal prófa nemendur - samkv. því sem í 17. gr. - í einhverjum eftirfarandi atriða:

1.        staðæfingum, gangi, hlaupi og réttstöðu,

2.        spennibeygju eða spennubeygjandi æfingum,

3.        æfingum í rimlum eða stigum,

4.        lyftiæfingum á bita eða gólfi og

5.        stökkum yfir áhöld eða án áhalda og fimleikum á dýnu.

Heimilt er að setja hluta prófverkefna fram í hæfnisæfingaformi. Þar sem aðstaða er góð, þ. e. íþróttasalur og lærður íþróttakennari, má hámark einkunnar fyrir slíkar æfingar aldrei nema meira en 25% mögulegrar hámarkseinkunnar.

Í þeim skólum, sem ekki hafa sérstakt húsnæði og mjög takmörkuð áhöld til leikfimi- og íþróttaiðkana, skal miða próf við það, sem tök eru á að iðka.

19. gr.

Gefa skal einkunnir fyrir leikfimi eftir sama einkunnarstiga og fyrir aðrar námsgreinar hlutaðeigandi skóla. Kennarar sklu gefa einkunnir fyrir ástundun, og er þeim heimilt með vitund prófdómara að láta ástundareinkunn hafa áhrif á prófseinkunn nemenda. Er kennari gerir prófdómara grein fyrir ástundareinkunn, skal leggja fram skrá um tímasókn nemendans. hafi kennarinn haft námskeið með nemendum í einhverri skólaíþrótt, er honum við útreikning aðaleinkunnar heimilt að taka fullt tillit til eikunnargjafa frá námskeiðum. Meðaltal af einkunn kennara og prófdómara verður einkunn nemandans, og reiknast hún til aðaleinkunnar.

IV. KAFLI.

Útbúnaður íþróttahúss.

20. gr.

Ákvæði um íþróttahús. Stærð hvers leikfimisalar skal miða við það, að 4m2 af gólffleti séu ætlaðir hverjum nemenda. Við hvern sal skal vera: Anddyri, forstofa, geymsluklefi ræstitækja, búningsherbergi, baðherbergi, þurrkherbergi og kennaraherbergi. Í anddyri skal vera aurrist og aurmotta og útbúnaður fyrir geymslu yfirhafna og skófatnaðar nemenda. Í ræstiklefa skulu vera tæki til að þvo úr rykklútum. Þau tæki skal aðeins nota í leikfimisalnum og herberginu honum tilheyrandi. Einnig skal þar eða í baðklefa vera útbúnaður til þess að þvo úr rykklútum. Þar sem leikfimiflokkar koma hver á eftir öðrum með veggjum eða fram á gólf, en að baki þeim eða framan við skápar eða básar með snögum. Á gólfi meðfram bekkjum skal nota litla, aðskilda rimlafleka til þess að standa á, meðan nemendur hafa fataskipti. Í áhaldaherbergi skal geyma öll laus tæki. Leikfimisali má ekki lána til annars en leikfimi- og íþróttaiðkana, nema samkv. reglum og samningi, sem menntamálaráðuneytið hefur samþykkt.

21. gr.

Hiti og loftræsting. Hiti í leikfimisal skal vera um 20 stig C, en í búnings- og baðherbergjum um 22 stig C. Sé hitastig lægra en 12° C. skal kennsla annað hvort falla niður eða nemendur klæddir hlýjum æfingarfötum. Þess skal vel gætt, að loft sé ferskt og ryklaust í leikfimisal og tilheyrandi herbergjum.

22. gr.

Ræsting. Rykklútar skulu eigi vera færri en tveir úr þéttu, voðfelldu efni og ýtur til þess að draga þá yfir salargólfið. - Að loknum hverjum leikfimitíma skal daraga vota rykklúta yfir altt salargólfi, og skal þvo þá að því loknu, svo að ávallt sé til hreinn klútur fyrir byrjun á næsta tíma. Hafi salurinn verið notaður til annars en leikfimi- og íþróttaiðkana, nægir ekki yfirferð með rykklút, heldur verður að sápuþvo gólfið og fara með öllum listum með votri dulu. Búningsherbergi og baðherbergi skal ræsta daglega, og varast skal að skilja sápu eftir á gólfum. Þess skal vel gætt, að handklæði og fatnaður, sem skilið er eftir, sé sem fyrst tekið á brott úr herbergjunum og ekki sé þurrkað á ofnum. salerni, þvagskálar og þvottaskálar skal ræsta daglega. Áhaldaherbergi skal ræsta ásamt áhöldum vikulega. Leikfimisal og tilheyrandi herbergi, ásamt föstum tækjum, skal sápuþvo minnst einu sinni ári. Gólf leikfimisalar, ásamt föstum tækjum úr tré, skal lakkbera minnst einu sini á ári, og skal það tvílakkborið. Sé leikfimisalur notaður fyrir skemmtisamkomur, skal ræsta hann og lakkbera oftar. Baðklefa og áhaldaherbergi má aðeins nota í sambandi við leikfimi- og íþróttaiðkanir. Komi rifur í gólf leikfimisalar, skal sem fyrst fylla þær eða fella ný borð í gólfið.

23. gr.

Baðvarzla. Kennari eða sérstakur baðvörður, þar sem hann er starfandi, blandar baðvatnið fyrir nemendur, annast um að þeir þvoi sér vandlega, en noti þó vatn og sápu í hófi. Þá sér hann og um, að allt fari að öðru leyti vel og skipulega fram í baðklefanum. Sé sérstakur baðvörður, sér hann um, að bað- og búningsklefar séu þrifalegir og aðstoðar íþróttakennarann við að gæta þess, að umgengni í anddyri og frágangur nemenda á fatnaði sé góður. Óskilafatnað og handklæði skal hann tafarlaust fjarlægja úr búningsklefum. Einnig annast hann um þvott á rykklútum, svo að hreinn klútur sé til taks í lok hvers tíma. Yfirumsjón með baðvörzlu hafa íþróttakennarar viðkomandi skóla.

24. gr.

Leikfimitæki. Fjöldi leikfimitækja og gerð þeirra fer mjög eftir nemendafjölda og aldri þeirra, sem nota salinn. Í hverjum leikfimisal skulu vera eftirtalin tæki: 1) tvær jafnvægisslár, annaðhvort færanlegar með dráttarbúnaði eða lausar, 2) rimlafang skal vera a. m. k. eitt á hverja tvo leikfimiiðkendur, 3) skemlar skulu vera jafnmargir og rimlar, og skulu þeir hengdir upp í hornum salarins, 4) 6 - 12 klifurkaðlar, færanlegir að veggjum, 5) 1 - 2 hringasamstæður, færanlegar að lofti, 6) 2 langir hestar, stór og lítill, með tilheyrandi þófum, 7) kubbhestar, stór og lítill, 8) 2 leikfimikistur, stór og lítil, 9) 2 stökkbretti, 10) 2 - 4 jafnvægisbekkir, 11) 2 - 4 lágar jafnvægisslár, 12) 1 - 2 samstæður af hástökkssúlum með tilheyrandi trérá og sandpokasnúru, 13) 2 - 4 gúm- eða trefjamottur, 14) 2 langar dýnur, 6 m x 1.35m, 15) 1 reiptogskaðall, 16) 36 sippubönd (sviptir), 17) 25 - 30 merkibönd um upphandlegg eða öxl, 2 - 3 litir, 18) boðhlaupskefli, 19) 2 - 4 handknettir, 20) 2 - 4 íþyngdir knettir, 21) 36 smáknettir, 80 - 120 g, 22) 1 - 2 blakknettir, 23) 2 - 4 körfuknettir, 24) 36 gúm- eða plastknettir, 25) 2 - 4 körfuknattleiksfjalir, 26) 1 - 2 nlaknet, 27) 2 handknattleiksmörk, 28) keilur, hringir og hljómstafir, 29) 30 glímubelti, 30) lyfjakassi.

Leitast sé við að búa salinn þeim tækjum, sem á hverjum tíma svara til þeirrar þróunar, sem á sér stað í kennsluaðferðum og æfingavali.

Öll laus tæki skal viðra og ræsta a. m. k. árlega. Á hverju vori skal íþróttakennari skoða þau vandlega og tilkynna skólastjóra, er hann telur endurbót þörf.

25. gr.

Leikfimifatnaður. Nemendum er skylt að nota sérstakan leikfimifatnað, sem þeir nota aðeins í leikfimisal. Íþróttakennari áminnir nemendur um að halda leikfimifatnaði sínum hreinum, og einnig skal hann eða baðvörður líta eftir, að nemendur noti hrein handklæði. Við kennslu skulu íþróttakennarar klæðast sérstökum búningi, sem sé hentugur íþróttakennslunni.

V. KAFLI.

Leiksvæði og áhöld.

26. gr.

Ákvæði um leiksvæði. Leiksvæði fyrir skólann má ekki vera í meira en 1/2 km fjarlægð frá honum. Minnsta stærð leiksvæðisins sé 60x40m. og er þá miðað við skóla með nemendafjölda 100 eða minni. Svæði fyrir handknattleik, stórfiskaleik og höggknattleik (langbolta) er 40x25 m. Knattspyrnusvæði skóla þarf að vera 80x50 m, körfuknattleikssvæði 28x15 m. Við útjaðra leiksvæðis skal koma fyrir tveim stökkgryfjum, hástökkgryfjum, hástökks- og stangarstökksgryfju, 5x5 m, og langstökks- og þrístökksgryfju, 1,5x5 m. Gryfjurnar séu 40 cm djúpar og fylltar fíngerðum sandi. Að gryfjunum skal vera tilhlaupsbraut 15 - 30 m löng. Við langatrennubraut stökkgryfju skal fella niður í völlinn tvo planka, 120x20x10 cm, annan í 1 metra fjarlægð frá gryfjubrún, en hinn í 5 - 6 metra fjarlægð. Æskilegt er, að allt að helmingur svæðisins sé grasflötur, sem borið sé á á hverju vori og sleginn 3 - 4 sinnum á sumri. Hinn hlutinn skal lagður eins og hlaupabrautir íþróttavalla eða þakinn áreyrarmöl eða lábarinni möl. Varast skal að nota fíngerðan sand, leir eða mold, mararsalla, asfalt eða steypu. leiksvæði skal girða, þó ekki með gaddavír.

27. gr.

Ákvæði um áhöld. Tæki til útileikja skulu vera í hverjum skóla, sem hér segir: 1) slá fyrir handgang, 2) tréveggur fyrir veggknattleiki, 3) stór og lítil knatttré, 4) 2 - 3 handknettir, 5) 2 - 3 fótknettir, stærðir samkv. aldri nemenda, 6) 2 - 4 körfuknettir, 7) málband og skeiðklukka, 8) hástökksúlur með stökkrá eða sandpokasnúru, 9) skíði.

28. gr.

Áhöld til útileikja skal geyma í sérstökum skáp eða klefa, sem sé undir umsjón kennara eða sérstaks áhaldavarðar úr hópi nemenda. Á hverju vori skal yfirfara áhöld, gera við skemmdir og útvega ný, ef með þarf.

29. gr.

Reglugerð þessi er sett samkv. íþróttalögum nr. 49 frá 28. marz 1956 og öðlast þegar gildi.

Í menntamálaráðuneytinu, 20. ágúst 1964.

Gylfi Þ. Gíslason.

_____________

Knútur Hallsson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica