Menntamálaráðuneyti

751/1998

Reglugerð um undanþágunefnd grunnskóla. - Brottfallin

1. gr.

Undanþágunefnd grunnskóla metur umsóknir skólastjóra um heimild til að lausráða starfsmann, sem ekki hefur leyfi menntamálaráðherra til að nota starfsheitið grunnskólakennari og til að starfa sem slíkur hér á landi við grunnskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla sbr. 1. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

Undanþágunefndin úrskurðar hvort umbeðin heimild skuli veitt eða henni synjað.

Undanþágunefnd grunnskóla getur einvörðungu heimilað lausráðningu til kennslustarfa til bráðabirgða og aldrei lengur en til eins árs að fullnægðum þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerð þessari. Starfsmaður sem ráðinn er á grundvelli heimildar undanþágunefndar grunnskóla skal ráðinn með sérstökum ráðningarsamningi til ákveðins tíma með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti. Slíkur starfsmaður má ekki bera starfsheitið grunnskólakennari og ekki má endurráða hann án undangenginnar auglýsingar.

2. gr.

Menntamálaráðherra skipar undanþágunefnd grunnskóla til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af heildarsamtökum kennara, einum fulltrúa tilnefndum sameiginlega af Kennaraháskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.

3. gr.

Umsókn til undanþágunefndar grunnskóla um heimild til að lausráða starfsmann án réttinda tímabundið skal rituð á þar til gert eyðublað.

Í umsókn um undanþágu skal greina eftirfarandi:

 1.            Nákvæmar upplýsingar um það hvar og hvenær starfið var auglýst.

 2.            Heiti kennslugreinar, tímafjölda eða starfshlutfall og aldur nemenda.

 3.            Ráðningartímabil.

Með umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn:

 a.            Ljósrit af auglýsingu.

 b.            Gögn um menntun, kennsluferil og starfsreynslu þess sem óskað er að ráða, ásamt umsögnum um starfshæfni.

 c.            Rökstuðningur skólastjóra og skólanefndar ef umsækjandi án réttinda er tekinn fram yfir umsækjanda með leyfisbréf á grunnskólastigi.

4. gr.

Skilyrði fyrir því að undanþágunefnd fjalli um umsóknir skólastjóra skv. 1. gr. eru:

 a.            Að laust kennslustarf í grunnskóla hafi verið auglýst í samræmi við 2. mgr. 8. gr. laga nr. 86/1998, þar sem kveðið er á um að í auglýsingum um laus kennslustörf í grunnskólum skuli m.a. tilgreina sérsvið, þ.e. aðalkennslugreinar og aldursstig nemenda og í samræmi við leiðbeinandi reglur sem Samband íslenskra sveitarfélaga skal setja skv. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 86/1998 og í samræmi við 5. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla til stundakennarastarfa. Ákvæði þetta um skyldu til auglýsingar á einnig við um lausráðningu starfsmanns sem ekki hefur leyfi skv. 1. gr. laga nr. 86/1998.

 b.            Að enginn grunnskólakennari hafi sótt um auglýst kennslustarf þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar.

 c.            Að þrátt fyrir að grunnskólakennari hafi sótt um starfið geti hvorki skólastjóri né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mælt með ráðningu hans og skriflegur rökstuðningur þessara aðila fylgi með umsókninni.

 d.            Að upplýsingar og gögn samkvæmt 3. gr. liggi fyrir eftir því sem við á.

5. gr.

Undanþágunefnd kannar hvort skilyrðum 4. gr. sé fullnægt áður en nefndin tekur umsókn efnislega til umfjöllunar. Telji nefndin að ekki hafi verið staðið rétt að auglýsingum ber henni að tilkynna það skólastjóra bréflega og leita skýringa. Ef skriflegar skýringar skólastjóra reynast ekki fullnægjandi að mati nefndarinnar, vísar hún umsókninni frá og kemur hún ekki til úrskurðar nefndarinnar.

6. gr.

Séu skilyrði 4. gr. uppfyllt metur undanþágunefnd umsókn og úrskurðar hvort heimila skuli að lausráða réttindalausan starfsmann til kennslu.

Undanþágunefnd grunnskóla ber að leggja mat á umsókn um lausráðningu starfsmanns á faglegum grunni. Nefndinni ber að byggja mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum sem eru til þess fallin að markmið 1., 2., 29. og 30. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995 nái fram að ganga.

Nefndin skal taka mið af upplýsingum um menntun, kennsluferil og starfsreynslu þess sem óskað er að ráða og öðrum atriðum er fram koma í umsögn er snerta hæfi hans til starfans.

7. gr.

Ef sótt er um undanþágu vegna þess að hvorki skólastjóri né skólanefndarmaður treystir sér til að mæla með grunnskólakennara til kennslustarfa ber nefndinni að gefa grunnskólakennaranum kost á að tjá sig um framkomin gögn í málinu áður en nefndin kveður upp úrskurð sinn.

8. gr.

Nefndin skal kveða upp úrskurð eins fljótt og verða má, að jafnaði innan tveggja vikna frá því að umsókn barst henni í hendur. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal nefndin tilkynna hlutaðeigandi það og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta.

9. gr.

Afl atkvæða ræður niðurstöðu nefndarinnar.

Úrskurður nefndarinnar skal vera skriflegur. Synji undanþágunefnd grunnskóla umsókn, skal fylgja úrskurði nefndarinnar rökstuðningur þar sem fram koma þau sjónarmið sem nefndin byggir niðurstöðu sína á.

Úrskurðir nefndarinnar skulu birtir skólastjóra svo fljótt sem auðið er.

Nefndin skal halda málaskrá og gerðabók. Nefndin skal árlega senda menntamálaráðherra og þeim sem tilnefna fulltrúa í nefndina, skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári.

10. gr.

Undanþágunefnd og starfsmönnum hennar ber að gæta þagmælsku um öll einkamál sem þeir komast yfir í starfi sínu eða í tengslum við það. Undanþágunefnd endursendir skólastjóra fylgigögn með umsókn að uppkveðnum úrskurði.

11. gr.

Málsaðili, skólastjóri, umsækjandi eða grunnskólakennari sem sótt hefur um stöðuna, getur skotið ákvörðun undanþágunefndar grunnskóla til menntamálaráðherra. Skólastjóra er ekki heimilt að ráða leiðbeinanda til starfa ef undanþágunefnd hefur synjað umsókn, þrátt fyrir að úrskurði nefndarinnar hafi verið skotið til ráðherra.

12. gr.

Um málsmeðferð hjá undanþágunefndinni fer að öðru leyti skv. stjórnsýslulögum.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. heimild í 10. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 14. desember 1998.

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica