Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti

1590/2022

Reglugerð fyrir Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands.

1. gr.

Ráðuneyti, sem fer með málefni háskóla, Háskóli Íslands og allir skrásettir stúdentar innan hans eiga aðild að Félagsstofnun stúdenta, svo sem nánar segir í lögum stofnunarinnar og reglugerð.

 

2. gr.

Félagsstofnun stúdenta annast uppbyggingu og rekstur, ber ábyrgð á og beitir sér fyrir eflingu eftirtalinna félagslegra fyrirtækja í þágu stúdenta við Háskóla Íslands:

  1. Stúdentagarðar.
  2. Kaffisala stúdenta.
  3. Bóksala stúdenta.

Stofnuninni er skylt að beita sér fyrir eflingu fyrirtækja og sjóða stofnunarinnar. Stofnunin skal einnig beita sér eftir þörfum fyrir stofnun nýrra fyrirtækja í þágu stúdenta í samráði við háskólaráð Háskóla Íslands, stúdentaráð Háskóla Íslands og ráðuneyti sem fer með málefni háskóla, enda er hverjum þeim aðila heimilt að gera tillögur um nýbreytni í starfsemi Félagsstofnunar stúdenta.

Tekjustofnar Félagsstofnunar stúdenta eru samkvæmt 4. gr. laga um stofnunina.

 

3. gr.

Stjórn stofnunarinnar er skipuð fimm mönnum til tveggja ára í senn sem hér segir: einum til­nefndum af ráðuneyti sem fer með málefni háskóla, einum tilnefndum af háskólaráði Háskóla Íslands og þremur tilnefndum af stúdentaráði Háskóla Íslands. Tilnefna skal og skipa jafnmarga stjórnarmenn til vara. Áskilið er að einn fulltrúi stúdentaráðs hið minnsta hafi lokið háskólanámi. Stúdentaráð hlutast til um skipun stjórnar.

Stjórnin kýs sér sjálf formann og ritara. Stjórnin ræður framkvæmdarstjóra stofnunarinnar.

 

4. gr.

Stjórn stofnunarinnar ráðstafar tekjum hennar í samræmi við 2. gr. en hvert fyrirtæki skal hafa sérreikning i bókhaldi. Stjórnin skal annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna stofnunarinnar. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda, sem stjórnin ræður.

Yfirlit yfir rekstur skal lagt fram fyrir kynningarfund með stúdentaráði sem haldinn skal á haust­misseri.

 

5. gr.

Formaður boðar til fundar í stjórn stofnunarinnar. Sérhver stjórnarmanna getur krafist fundar i stjórn. Fundir stjórnar eru löglegir, ef fjórir stjórnarmanna sitja fund. Falli atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns. Tveir stjórnarmenn geta skotið ágreiningsefni til úrskurðar ráðherra sem fer með málefni háskóla.

 

6. gr.

Stjórn stofnunarinnar er heimilt að skipa sérstjórnir eða nefndir til að annast um einstök verkefni eða fyrirtæki hennar. Slíkar sérstjórnir eða nefndir skulu skipaðar minnst þremur mönnum, og skal einn þeirra hið minnsta vera úr hópi háskólakennara. Stjórnin setur sérstjórnum og nefndum erindis­bréf.

 

7. gr.

Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur stofnunarinnar og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórnin gefur. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenju­legar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórninni nema ekki sé unnt að bíða ákvörðunar hennar án verulegs óhagræðis fyrir starfsmenn stofnunarinnar. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Fram­kvæmda­stjóri skal sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna stofnunarinnar sé með tryggilegum hætti.

 

8. gr.

Starfs- og rekstrarár stjórnar Félagsstofnunar stúdenta, sérstjórna og nefnda skal vera almanaks­árið.

 

9. gr.

Um skyldur einstakra stúdenta við stofnunina vísast til reglna Háskóla Íslands, og gildir skrá­setningarskírteini einnig sem félagsskírteini í Félagsstofnun stúdenta.

Aðeins handhöfum skrásetningarskírteina og starfsmönnum háskólans eru heimil afnot af aðstöðu þeirri, sem stofnunin ræður yfir.

Heimilt er Félagsstofnun stúdenta að útvega samtökum nemenda á framhaldsskólastigi náms­bækur, sé þess óskað.

 

10. gr.

Reglugerð þessi er sett að fengnum tillögum háskólaráðs og stúdentaráðs Háskóla Íslands með vísun til 6. gr. laga um Félagsstofnun stúdenta nr. 33/1968 og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands nr. 171/1968, með áorðunum breyt­ingum.

 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, 14. desember 2022.

 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

Ásdís Halla Bragadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica