Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

1400/2021

Reglugerð um ferli umsókna um þátttöku Íslands í samtökum um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC).

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um ferli umsókna um þátttöku Íslands í ERIC-samtökum.

2. gr. Almennt.

Samtök um evrópska rannsóknarinnviði (e. European Research Infrastructure Consortium, ERIC) er samstarfsform um rekstur á umfangsmiklum og kostnaðarsömum rannsóknarinnviðum í Evrópu. Aðilar að ERIC-samtökum eru ríki ESB og EFTA.

3. gr. Ferli umsóknar um aðild að ERIC-samtökum.

Ráðuneyti sem viðkomandi málefni heyrir undir samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands getur formlega sótt um aðild að tilteknum ERIC-samtökum. Viðkomandi ráðuneyti tekur einnig ákvörðun um að slíta aðild að ERIC-samtökum.

Ráðuneyti getur leitað umsagnar stjórnar Innviðasjóðs um hvort þátttaka í ERIC-samtökum samræmist stefnu Vísinda- og tækniráðs um þátttöku í erlendum rannsóknarinnviðum, svo sem með tilliti til gæða og mikilvægis fyrir rannsóknir á Íslandi. Stjórnin veitir viðkomandi ráðuneyti þannig umsögn um hvort Ísland skuli gerast aðili að tilteknum ERIC-samtökum.

Háskóli eða rannsóknastofnun sem óskar eftir þátttöku Íslands að ERIC-samtökum leitar til stjórnar Innviðasjóðs sem veitir umsögn um hvort þátttaka í ERIC-samtökum samræmist stefnu Vísinda- og tækniráðs um þátttöku í erlendum rannsóknarinnviðum og vísar umsókninni áfram til viðkomandi ráðuneytis.

Eftir að ráðuneyti hefur tekið ákvörðun um aðild Íslands í ERIC-samtökum felur það háskóla eða rannsóknastofnun verkefnið með samningi. Mat á árangri af þátttökunni skal fara fram að samningstímanum loknum og getur ráðuneyti leitað umsagnar stjórnar Innviðasjóðs. Stjórn Innviðasjóðs er heimilt að leita sérfræðiálita um upphaflega eða áframhaldandi þátttöku í ERIC-samtökum, með tilliti til reynslu, þátttöku og stefnu Vísinda- og tækniráðs áður en hún veitir ráðuneyti umsögn.

4. gr. Þátttaka í ERIC-samtökum.

Háskóli eða rannsóknastofnun sem ráðuneyti hefur gert samning við heldur utan um þátttöku í einstökum ERIC-samtökum sem Ísland hefur gerst aðili að. Fulltrúi Íslands situr í stjórn samtakanna og getur ráðuneyti falið stofnun, sem heldur utan um þátttökuna, stjórnarsetuna.

5. gr. Þátttökugjald og kostnaður.

Háskóli eða rannsóknastofnun sem vill vinna að því að Ísland gerist aðili að ERIC-samtökum skal leggja fram áætlun um kostnað við þátttöku. Að auki skal liggja fyrir áætlun um hvernig fjármagna skuli þátttökuna yfir fyrirséð samningstímabil. Slíkar áætlanir skulu liggja fyrir þegar lagt er mat á fýsileika þátttöku þegar leitað er umsagnar stjórnar Innviðasjóðs.

6. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 1. mgr. 5. gr. laga um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC), nr. 66/2019, og tekur þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 22. nóvember 2021.

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Páll Magnússon.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.