Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

430/2020

Reglugerð um viðurkenningu lýðskóla.

1. gr. Viðurkenning til að starfa undir heitinu lýðskóli.

Menntamálastofnun annast veitingu viðurkenningar til skóla eða stofnana sem sækja um að starfa undir heitinu lýðskóli í samræmi við ákvæði laga um lýðskóla.

Viðurkenning skal veitt skriflega. Um málsmeðferð við veitingu og afturköllun viðurkenninga samkvæmt reglugerð þessari gilda stjórnsýslulög.

2. gr. Umsókn um viðurkenningu.

Sótt er um viðurkenningu til Menntamálastofnunar og skulu eftirfarandi gögn og upplýsingar fylgja umsókninni:

  1. Staðfesting á rekstrarformi, upplýsingar um eigendur ásamt staðfestu endurriti ársreiknings síðastliðins rekstrarárs sem staðfestir að skólinn sé ekki rekinn með fjárhagslegan ágóða að markmiði.
  2. Staðfesting á því hvernig fjárhagslegri ábyrgð er háttað og hvernig fjárhagslegt rekstraröryggi starfseminnar er tryggt. Hægt er að krefjast bankatryggingar sem samsvarar rekstrarfjárhæð skólans fyrir eina önn.
  3. Vottorð frá yfirvöldum heilbrigðis- og brunamála, lýsing á aðgengi fatlaðra og lýsing á aðstöðu, s.s. heimavist, öðru húsnæði skólans og búnaði.
  4. Upplýsingar um stjórn, starfshætti og skipurit.
  5. Gögn sem sýna hvernig skólastjóri uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til menntunar og reynslu hans samkvæmt lögum um lýðskóla.
  6. Þarfagreining á mikilvægi og mögulegri eftirspurn eftir námi skólans og lýsing á því hvernig ákvæðum um inntak náms samkvæmt lögum um lýðskóla er fullnægt.
  7. Skólanámskrá sem tekur til allra þátta skólastarfsins.
  8. Lýsing á innra matskerfi skólans.
  9. Lýsing á skjalastjórnun og nemendabókhaldi ásamt því hvernig umsækjandi mun tryggja nemendum aðgang að upplýsingum um námsferil eftir að námi lýkur.
  10. Heildstæð stefna skólans um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi og áætlun um framkvæmd tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum, og jafnframt um hvernig brugðist er við tilvikum um einelti, annað ofbeldi og félagslega einangrun.
  11. Lýsing á ferli þar sem nemendur geta komið sjónarmiðum sínum og ábendingum á framfæri.

Menntamálastofnun er heimilt að óska eftir frekari gögnum sem stofnunin telur nauðsynleg til að meta hvort veita skuli skólum eða stofnunum viðurkenningu.

3. gr. Upplýsingagjöf.

Lýðskóli skal veita Menntamálastofnun árlega skýrslu um starfsemina og veita allar umbeðnar upplýsingar um rekstur og starfsemi þegar óskað er.

4. gr. Afturköllun viðurkenningar.

Uppfylli viðurkenndur lýðskóli ekki lengur skilyrði laga um lýðskóla eða reglugerðar þessarar getur Menntamálastofnun afturkallað viðurkenninguna. Áður en til afturköllunar kemur skal stjórn lýðskóla send aðvörun þar sem lýst er þeim aðfinnslum og athugasemdum sem gerðar hafa verið við starfsemi hans. Heimilt er að veita lýðskóla allt að þrjá mánuði til að bregðast við athugasemdum og leggja fram áætlun um hvernig bætt verði úr ágöllum á starfseminni.

5. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 12. gr. laga um lýðskóla, nr. 65/2019, öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 20. apríl 2020.

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Páll Magnússon.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.