Leita
Hreinsa Um leit

Mennta- og menningarmálaráðuneyti

699/2012

Reglugerð um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum og skólahald samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til viðurkenningar grunnskóla, sem reknir eru af öðrum en sveitar­félögum og mati og eftirliti með starfsemi þeirra. Reglugerðin tekur einnig til viður­kenningar grunnskóla eða námsbrautar innan almenns grunnskóla sem starfar sam­kvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan sem ráðuneytið viðurkennir. Enn­fremur tekur reglugerð þessi til þjónustusamninga sveitarfélaga við grunnskóla, ákvörð­unar framlaga úr sveitarsjóði, vanefnda og afturköllunar viðurkenningar.

2. gr.

Viðurkenning ráðherra.

Ráðherra er heimilt að viðurkenna grunnskóla eða hluta grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitarfélögum í formi sjálfseignarstofnunar, hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi, enda liggi fyrir samþykki sveitarfélags um stofnun skólans. Einnig er ráðherra heimilt að viðurkenna grunnskóla eða námsbraut innan almenns grunn­skóla sem starfar samkvæmt viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og náms­skipan. Í þeim tilvikum er ráðherra heimilt að veita undanþágur frá lögum og aðal­námskrá grunnskóla. Heimilt er að binda samþykki sveitarfélags við ákveðinn hámarks­fjölda nemenda.

3. gr.

Skilyrði viðurkenningar.

Skilyrði þess að grunnskóli hljóti viðurkenningu er að starfsemi hans og starfsaðstaða sé í samræmi við gildandi lög og reglur um grunnskóla, eftir því sem við á. Gildandi lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og fram­halds­skóla, gilda einnig um grunnskóla sem hlotið hafa viðurkenningu ráðherra samkvæmt lögum um grunnskóla og reglugerð þessari. Meginreglan er að grunnskólar starfi í samræmi við framangreindan lagaramma. Ráðherra er þó heimilt skv. 46. gr. grunn­skóla­laga að veita undanþágur frá þessum ákvæðum vegna grunnskóla eða náms­brautar innan almenns grunnskóla sem hyggst starfa samkvæmt viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan, en undanþágurnar skulu á engan hátt skerða lögbundin réttindi nemenda til menntunar. Hér er einkum átt við grunnskóla sem starfa tíma­bundið hér á landi vegna sértækra verkefna í atvinnulífinu og vegna grunn­skóla fyrir börn þeirra foreldra sem starfa á alþjóðavettvangi og dveljast tímabundið hér á landi.

Heimilt er að veita viðurkenningu grunnskóla í fyrsta sinn til tveggja ára og síðan ótíma­bundið, enda liggi fyrir upplýsingar frá skólanum um starfsemi hans. Skal sérstakt vottorð gefið út um viðurkenninguna og er hún bundin við þann skóla sem ábyrgðar­aðilinn fær viðurkenningu fyrir. Verði skólanum fundið annað húsnæði eða árgöngum fjölgað skal ábyrgðaraðili fyrst leita afstöðu viðkomandi sveitarfélags gagnvart því og síðan samþykkis ráðuneytisins.

Hætti ábyrgðaraðilinn rekstri tímabundið eða hefjist starfsemi skólans ekki innan tveggja ára frá veitingu viðurkenningar, er ráðherra heimilt að fella viðurkenninguna úr gildi og þarf þá að sækja um hana að nýju.

4. gr.

Umsókn um viðurkenningu.

Umsókn um viðurkenningu grunnskóla samkvæmt reglugerð þessari skal berast ráðu­neyt­inu fyrir 1. febrúar vegna skóla sem hyggjast taka til starfa á komandi skólaári.

Í umsókn um viðurkenningu grunnskóla skulu fylgja gögn og upplýsingar um eftirfarandi:

  1. Upplýsingar um eiganda og ábyrgðaraðila skólans.
  2. Upplýsingar um rekstrarform skólans, fjármögnun hans og rekstraráætlun.
  3. Samþykki sveitarfélags um stofnun skólans og fjárframlaga til hans.
  4. Gögn sem lýsa markmiðum, innihaldi og skipulagi náms skólans í samræmi við lög um grunnskóla og aðalnámskrá grunnskóla, þ.m.t. skólanámskrá, starfsáætlun viðkomandi grunnskóla, skipulagsskrá eða samþykktir um skólann.
  5. Gögn um húsnæði skólans og lýsing á starfsaðstöðu, sbr. reglugerð um gerð og búnað grunnskólahúsnæðis og skólalóða.
  6. Lýsing á stjórn og skipulagi skólans og með hvaða hætti staðið verði að stofnun og starfrækslu skólaráðs.
  7. Upplýsingar um væntanlega stjórnendur skólans og hæfniskröfur sem gerðar eru til starfsmanna hans.
  8. Yfirlýsing ábyrgðaraðila um að sveitarstjórn og mennta- og menn­ingar­mála­ráðuneyti verði veittar upplýsingar um skólahald og starfsemi skólans, og breytingar sem á því kunna að verða, á hverjum tíma.
  9. Staðfest afrit af starfsleyfi heilbrigðiseftirlits sveitarfélags og vottorð bruna- og eldvarnareftirlits á vegum sveitarfélaga og vinnueftirlits þarf að berast ráðu­neyt­inu mánuði fyrir áætlaða skólabyrjun.
  10. Þegar um er að ræða umsókn um viðurkenningu grunnskóla eða námsbrautar innan almenns grunnskóla sem hyggst starfa eftir viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan þá skulu fylgja sambærilegar upplýsingar og kveðið er á um í þessari grein. Auk þess skal koma fram í umsókninni rök­stuðningur fyrir tilteknum undanþágum frá lögum um grunnskóla, aðalnámskrá og gildandi lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik­skóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

5. gr.

Gerð þjónustusamninga sveitarfélaga við rekstraraðila.

Að fenginni viðurkenningu ráðherra skal hlutaðeigandi sveitarstjórn gera þjónustu­samn­ing við rekstraraðila grunnskóla sem falla undir þessa reglugerð. Í þjónustu­samningi skulu m.a. koma fram atriði er varða innritun nemenda og áherslur í starf­semi skólans og fjárhagsleg samskipti, þar með talið vegna nemenda með sérþarfir og nemenda með annað móðurmál en íslensku. Í samningi skal einnig ganga frá fyrir­komu­lagi sérfræðiþjónustu og skólaaksturs, ef við á. Í samningi skal koma fram hvort rekstraraðili hafi heimild til gjaldtöku af foreldrum eða forsjáraðilum barns og hvaða skilyrðum hún sé háð. Kveða skal á um atriði sem varða gildi samnings, þar á meðal um reynslutíma og mat og eftirlit sveitarfélags með starfsemi skólans og upp­lýs­inga­gjöf um skólahaldið og réttindi og skyldur samningsaðila til að tryggja lögbundna þjónustu við nemendur. Loks skal í þjónustusamningi kveðið á um meðferð rekstrar­afgangs af starfsemi skóla sem rekja má til opinberra fjárveitinga. Rekstrar­afgangur af starfsemi skólans sem rekja má til opinberra fjárveitinga sé nýttur til að efla skóla­starfið í viðkomandi skóla.

6. gr.

Réttur til framlags úr sveitarsjóði.

Grunnskólar sem hljóta viðurkenningu ráðherra á grundvelli laga um grunnskóla og reglu­gerðar þessarar eiga rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nem­enda sem eiga lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar og vegna barna sem ráðstafað hefur verið í fóstur til fósturforeldra, sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu.

Sama gildir um grunnskóla sem þegar eru starfandi á grundvelli viðurkenningar ráð­herra, en sveitarfélagi er þó heimilt í þjónustusamningi að takmarka framlag úr sveitar­sjóði við hámarksfjölda nemenda.

Grunnskólar, sem eigi eru reknir af sveitarfélögum en njóta framlags úr sveitarsjóði, skulu senda starfsáætlun, þar með taldar upplýsingar um kennslu og fjölda nemenda á næsta fjárhagsári til sveitarstjórnar eigi síðar en 1. maí ár hvert nema annað sé tekið fram í reglum sveitarfélags. Jafnframt skulu þeir grunnskólar sem gert hafa þjónustu­samning við viðkomandi sveitarfélag senda því ársskýrslu ásamt ársreikningi.

7. gr.

Upphæð framlags úr sveitarsjóði.

Framlag skv. 6. gr. skal nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildar­rekstrar­kostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt árlegum útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur, en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda.

Útreikningur Hagstofu Íslands skv. 1. mgr. vegna komandi skólaárs skal liggja fyrir í september ár hvert. Útreikningur skal byggður á ársreikningum sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga til þess dags sem útreikningur er gerður. Verðlagsbreytingar skulu taka mið af almennum launahækkunum starfsmanna grunn­skóla og breytingum á vísitölu neysluverðs að teknu tilliti til vægis hvors þáttar fyrir sig í rekstrarkostnaði grunnskólanna.

8. gr.

Réttindi og skyldur nemenda.

Réttindi og skyldur nemenda í grunnskólum sem hlotið hafa viðurkenningu samkvæmt lögum um grunnskóla og reglugerð þessari skulu vera í samræmi við lög um grunnskóla, reglugerðir byggðar á grunnskólalögum og aðalnámskrá grunnskóla.

Um heimild til þess að kæra ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda fer samkvæmt 47. gr. laga um grunnskóla. Við meðferð slíkra mála skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga. Ákvarðanir viðurkenndra grunnskóla um gjaldtöku sæta ekki kæru til ráðherra.

9. gr.

Upplýsingagjöf, mat og eftirlit.

Ákvæði grunnskólalaga um innra og ytra mat og upplýsingaskyldu sveitarfélaga taka til grunnskóla sem hlotið hafa viðurkenningu samkvæmt reglugerð þessari, með sama hætti og til opinberra grunnskóla. Það sama á við um ákvæði reglugerðar um innra og ytra mat og upplýsingaskyldu sveitarstjórna um skólahald. Þeim aðila er ábyrgð ber á rekstri grunnskóla, sem hlotið hefur viðurkenningu, er skylt að veita ráðuneytinu og því sveitarfélagi sem skólinn starfar í upplýsingar um rekstur og starfsemi skólans í samræmi við þjónustusamning viðkomandi skóla við sveitarfélag þegar þess er óskað eða eins fljótt og kostur er. Sömu aðilum er einnig skylt að veita ráðuneyti umbeðnar upplýsingar eftir því sem við á.

Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs í viðurkenndum grunnskólum samkvæmt lögum um grunnskóla og hlíta þeir skólar sama eftirliti og grunnskólar sem reknir eru af sveitarfélagi.

Grunnskólar sem hlotið hafa viðurkenningu samkvæmt þessari reglugerð hlíta einnig sama mati og eftirliti ráðuneytis og grunnskólar sem reknir eru af sveitarfélögum.

10. gr.

Uppsögn og riftun þjónustusamninga vegna vanefnda.

Þjónustusamningar sem gerðir eru samkvæmt reglugerð þessari eru uppsegjanlegir með eins árs uppsagnarfresti.

Sveitarfélögum og rekstraraðilum grunnskóla samkvæmt reglugerð þessari er skylt að virða þjónustusamninginn og vinna samkvæmt honum. Komi til vanefnda af hálfu annars hvors aðila samnings skal hinum aðilanum heimilt að grípa til viðeigandi vanefnda­úrræða, allt frá því að gera athugasemd vegna vanefndarinnar og skora á hinn aðilann að bæta úr eða grípa til riftunar samnings að undangengnum hæfilegum fresti til úrbóta samkvæmt mati hverju sinni, sé um verulega vanefnd að ræða. Við meðferð mála samkvæmt þessari grein skal gæta af hálfu sveitarfélags ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ.m.t. andmælaréttar, meðalhófs, jafnræðisreglu og rannsóknar- og upp­lýs­inga­­skyldu.

11. gr.

Afturköllun viðurkenningar.

Komi í ljós eða liggi fyrir rökstuddur grunur um að starfsemi grunnskóla, sem hlotið hefur viðurkenningu skv. reglugerð þessari, sé ekki í samræmi við gildandi lög og reglugerðir sem um starfsemina gilda, eða undanþágur sem veittar hafa verið, rannsakar ráðuneytið slíkt mál. Verði talið að verulegir annmarkar séu á starfsemi viðkomandi grunnskóla skal skólanum tilkynnt um það, tilgreint hverjir annmarkarnir eru og eftir atvikum jafnframt með hvaða hætti skuli bætt úr innan tilgreindra tímamarka. Hafi ekki verið bætt úr tilgreindum annmörkum innan veitts tímafrests getur ráðherra afturkallað viðurkenningu viðkomandi grunnskóla eða námsbrautar innan almenns grunnskóla.

Við meðferð mála samkvæmt þessari grein skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga.

12. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 43. og 4. mgr. 46. gr. laga um grunn­skóla nr. 91/2008, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 980/2009 um viðurkenningu grunnskóla sem reknir eru af öðrum en sveitar­félögum.

13. gr.

Bráðabirgðaákvæði um þjónustusamninga.

Sveitarfélögum ber að ljúka við gerð þjónustusamninga við þá grunnskóla sem þegar eru starfandi og falla undir reglugerð þessa, fyrir 1. júlí 2013.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 25. júlí 2012.

Katrín Jakobsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica