Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

440/2012

Reglugerð um Íslenska málnefnd.

1. gr.

Íslensk málnefnd starfar samkvæmt 6. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneyti.

2. gr.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar Íslenska málnefnd til fjögurra ára í senn. Í nefndinni sitja 16 menn og 16 menn til vara. Ráðherra tilnefnir formann og varaformann. Aðrir nefndarmenn eru tilnefndir af Ríkisútvarpinu, Þjóðleikhúsinu, Samtökum móðurmálskennara, Rithöfundasambandi Íslands, Blaðamannafélagi Íslands, Íðorðafélaginu fyrir hönd orðanefnda, Bandalagi þýðenda og túlka, Staðlaráði Íslands, Upplýsingu, félagi bókasafns- og upplýsingafræðinga, Hagþenki og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefnir tvo menn í málnefndina. Sá ráðherra er fer með málefni innflytjenda tilnefnir þar að auki einn fulltrúa úr röðum innflytjenda. Auk þess er nefndinni heimilt að bjóða mönnum, einum eða tveimur, setu í nefndinni ef hún telur það nefndarstarfinu til gagns.

3. gr.

Innan Íslenskrar málnefndar starfar fimm manna stjórn. Í henni sitja formaður og varaformaður auk þriggja manna sem nefndin kýs úr sínum hópi á fyrsta fundi sínum á skipunartímabilinu. Einnig eru kjörnir þrír varamenn þessara fulltrúa.

4. gr.

Stjórn Íslenskrar málnefndar fundar reglulega einu sinni í mánuði og oftar ef verkefni krefjast þess. Að auki eru haldnir fundir með fullskipaðri málnefnd þegar þörf krefur en þó eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Fundargerðir stjórnarfunda eru sendar til allrar nefndarinnar, til varamanna og til tengiliðs nefndarinnar í mennta- og menningarmálaráðuneyti.

5. gr.

Hlutverk Íslenskrar málnefndar er að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Með þeirri ályktun geta fylgt tillögur Íslenskrar málnefndar að breytingum á íslenskri málstefnu ef ástæða þykir til. Málnefndin getur átt frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi. Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og ráðherra gefur út. Grundvallarbreytingar á ritreglum eru háðar samþykki ráðherra.

6. gr.

Stjórn Íslenskrar málnefndar semur í upphafi skipunartíma síns drög að stefnuskrá til næstu fjögurra ára og ber hana undir fund fullskipaðrar málnefndar. Hún undirbýr verkefni í anda stefnuskrárinnar og íslenskrar málstefnu, svarar erindum sem til nefndarinnar berast og sinnir öðrum verkefnum sem fylgja lögbundnu hlutverki nefndarinnar.

7. gr.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti greiðir þóknun fyrir fundi Íslenskrar málnefndar og kostar lögbundin verkefni nefndarinnar.

8. gr.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er skrifstofa Íslenskrar málnefndar og miðstöð þeirrar starfsemi sem málnefndin hefur með höndum. Stofnunin og Íslensk málnefnd gera með sér samstarfssamning sem gildir til fjögurra ára.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 2. maí 2012.

Katrín Jakobsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.