Leita
Hreinsa Um leit

Mennta- og menningarmálaráðuneyti

600/2011

Reglugerð um Launasjóð stórmeistara í skák.

1. gr.

Launasjóður stórmeistara er stofnaður á grundvelli 1. gr. laga um launasjóð stórmeistara í skák, nr. 58/1990. Sjóðnum er ætlað að gera stórmeisturum í skák kleift að helga sig skáklistinni í sem ríkustum mæli þannig að þeir geti haft hana að aðalatvinnu og geti þannig einbeitt sér að skákiðkun.

2. gr.

Stjórn launasjóðsins skal skipuð þremur mönnum sem tilnefndir eru til þriggja ára í senn. Mennta- og menningarmálaráðherra skipar tvo, og er annar þeirra formaður, en Skák­samband Íslands einn.

3. gr.

Mennta- og menningarmálaráðherra fer með vörslu Launasjóðs stórmeistara og úthlutar úr honum að fenginni tillögu frá stjórn sjóðsins. Stjórn Launasjóðs stórmeistara gerir tillögu til ráðherra um úthlutanir úr sjóðnum að fenginni umsögn frá stjórn Skákskóla Íslands og stjórn Skáksambands Íslands.

4. gr.

Rétt til úthlutunar úr Launasjóði stórmeistara eiga skákmenn sem öðlast hafa stór­meistara­titil alþjóðaskáksambandsins FIDE og helga sig skáklistinni. Þeir sem njóta launa úr sjóðnum skulu ekki vera fastráðnir til þess að gegna öðru starfi sem telst meira en þriðjungur úr stöðugildi meðan þeir fá greidd laun. Stórmeistari skal gera stjórn sjóðsins grein fyrir starfshlutfalli í öðrum störfum.

Aukaverkefni eða aukastörf eru verkefni eða störf sem falla utan við gildissvið laga um launasjóð stórmeistara nr. 58/1990, þ.e. verkefni sem tengjast á engan hátt skák.

5. gr.

Laun stórmeistara í skák greiðast mánaðarlega hjá Fjársýslu ríkisins og taka mið af launum háskólakennara (lektora) við Háskóla Íslands samkvæmt nánari ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sbr. 2. gr. laga um launasjóð stórmeistara í skák nr. 58/1990.

6. gr.

Með stórmeistaraárangri er átt við stórmeistaraáfanga samkvæmt reglum alþjóða­skáksambandsins FIDE.

7. gr.

Stórmeistari, sem nýtur launa úr Launasjóði stórmeistara, skal inna af hendi kennslu við framhaldsdeild Skákskóla Íslands eða sinna öðrum verkefnum á vegum skólans eftir því sem stjórn Skákskólans ákveður.

Vinnuskylda stórmeistara við kennslu og fræðslustörf, skal ákvarðast af stjórn Skák­skólans í samráði við viðkomandi stórmeistara. Hún skal vera að lágmarki 70 tímar árlega auk undirbúnings og getur verið fólgin í öðrum þáttum en beinni kennslu svo sem námskeiðahaldi, fjöltefli, fyrirlestrum og aðstoð við undirbúning fulltrúa Íslands fyrir keppni. Stórmeistara ber að hafa samráð við stjórn Skákskólans ef þátttaka í móti kemur í veg fyrir að kennsluskyldu sé sinnt. Skipuleggja aðilar þá hvernig bætt sé úr því. Stór­meistara sem nýtur launa úr sjóðnum ber að tefla fyrir Íslands hönd þegar Skák­samband Íslands velur hann til keppni og á Skákþingi Íslands nema lögmæt forföll hamli.

8. gr.

Stórmeistari sem nýtur launa úr sjóðnum skal árlega í árslok skila til stjórnar Launasjóðs stórmeistara skýrslu um störf sín og árangur sem stórmeistari. Skáksamband Íslands og Skákskóli Íslands skulu einnig skila umsögn til Launasjóðs stórmeistarara um árangur stórmeistara og störf þeirra á liðnu ári.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 58/1990 um launasjóð stór­meistara í skák og öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 26. maí 2011.

Katrín Jakobsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica