Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Stofnreglugerð

160/2010

Reglugerð um matsnefnd náms- og starfsráðgjafa.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið og hlutverk.

Reglugerð þessi tekur til starfa og starfshátta matsnefndar náms- og starfsráðgjafa þegar vafi leikur á hvort uppfyllt séu skilyrði til útgáfu leyfis mennta- og menningarmálaráðherra vegna umsókna um að mega nota starfsheitið náms- og starfsráðgjafi, sbr. 1. gr. laga nr. 35/2009 um náms- og starfsráðgjafa.

Matsnefnd veitir ráðherra umsögn um hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um útgáfu leyfis til þess að mega nota starfsheitið náms- og starfsráðgjafi.

2. gr. Skipun matsnefndar.

Ráðherra skipar matsnefnd náms- og starfsráðgjafa til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur fulltrúum, einum fulltrúa tilnefndum af samstarfsnefnd um háskólastigið, einum fulltrúa frá Félagi náms- og starfsráðgjafa og einum fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt. Sambandi íslenskra sveitarfélaga er heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í nefndina.

II. KAFLI Skilyrði.

3. gr. Skilyrði.

Um skilyrði þess að hljóta starfsheitið náms- og starfsráðgjafi fer samkvæmt 1. gr. og 4. gr. laga nr. 35/2009.

Leyfi til þess að nota starfsheitið náms- og starfsráðgjafi má aðeins veita þeim sem lokið hefur a.m.k. 90 til 120 eininga meistaraprófi í náms- og starfsráðgjöf frá háskóla sem ráðherra viðurkennir eða öðru jafngildu námi í náms- og starfsráðgjöf. Með einingum er í reglugerð þessari átt við ECTS-einingar eða staðlaðar námseiningar, sbr. lög nr. 63/2006 um háskóla.

III. KAFLI Málsmeðferð.

4. gr. Mat á umsóknum.

Matsnefnd náms- og starfsráðgjafa metur umsóknir með hliðsjón af kröfum laga nr. 35/2009 um náms- og starfsráðgjafa og reglugerðar þessarar. Telji nefndin að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði um veitingu leyfis til að mega starfa sem náms- og starfsráðgjafi skal í rökstuðningi tilgreina hvaða kröfur séu gerðar um útgáfu leyfisbréfs og að hvaða leyti skorti á að umsækjandi uppfylli þær. Um málsmeðferð fer að öðru leyti samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

5. gr. Afgreiðslufrestur.

Matsnefnd skal láta í té umsögn sína eins fljótt og verða má, að jafnaði innan fjögurra vikna frá því að umsókn ásamt fullnægjandi gögnum barst henni í hendur. Sé mál viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal nefndin tilkynna hlutaðeigandi það og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta.

IV. KAFLI Gildistaka o.fl.

6. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 7. gr. laga nr. 35/2009 um náms- og starfsráðgjafa, öðlast þegar gildi.

Við mat á því hvort veita eigi þeim sem eru í starfi við gildistöku laga nr. 35/2009 um náms- og starfsráðgjafa leyfi til þess að kalla sig náms- og starfsráðgjafa og starfa sem slíkur skal matsnefndin líta til menntunar hlutaðeigandi, starfsreynslu í starfi náms- og starfsráðgjafa og annarra atriða sem nefndin telur að máli skipti fyrir framkvæmd starfsins.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 1. febrúar 2010.

Katrín Jakobsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.