Mennta- og menningarmálaráðuneyti

644/2020

Reglugerð um störf og starfshætti undanþágunefndar kennara.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til starfa og starfshátta undanþágunefndar kennara. Starfssvið nefndar­innar tekur til grunnskóla og framhaldsskóla hvort sem þeir eru reknir af sveitarfélögum, ríki eða á grundvelli viðurkenningar Menntamálastofnunar, sbr. 43. gr. laga um grunnskóla og 12. gr. laga um framhaldsskóla.

 

2. gr.

Hlutverk.

Undanþágunefnd kennara metur umsóknir skólastjórnenda um heimild til að lausráða til kennslu starfsmann sem ekki er með leyfisbréf kennara, sbr. 9. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Undanþágunefnd gerir tillögu um afgreiðslu umsóknar til Menntamálastofnunar sem tekur endan­lega ákvörðun um hvort undanþága skuli veitt.

 

3. gr.

Skipun.

Menntamálastofnun skipar undanþágunefnd kennara til fjögurra ára í senn. Nefndarmenn skulu vera sex, tveir tilnefndir af heildarsamtökum kennara, einn tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitar­félaga, einn tilnefndur af heildarsamtökum framhaldsskóla, einn tilnefndur af samstarfsnefnd háskóla­stigsins og einn starfsmaður Menntamálastofnunar án tilnefningar og skal hann vera for­maður nefndarinnar. Jafnmarga varamenn skal skipa á sama hátt.

 

4. gr.

Skilyrði undanþágunefndar fyrir umfjöllun um umsóknir.

Skilyrði þess að undanþágunefnd fjalli um umsókn eru:

  1. að laust kennslustarf í skóla hafi verið auglýst í samræmi við 13. og 19. gr. laga nr. 95/2019,
  2. að enginn kennari hafi sótt um auglýst kennslustarf þrátt fyrir endurtekna auglýsingu,
  3. að þrátt fyrir að kennari hafi sótt um starfið geti hvorki skólastjórnandi né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mælt með ráðningu hans og skriflegur rökstuðningur þessara aðila fylgi með umsókninni.

 

5. gr.

Mat á umsóknum.

Ef skilyrði 4. gr. eru uppfyllt metur undanþágunefnd hvort heimila skuli að lausráða starfs­mann án kennsluréttinda til kennslu. Nefndinni ber að leggja mat á umsókn um lausráðningu starfs­manns á faglegum grunni og byggja mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum sem eru til þess fallin að markmið laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunn­skóla og framhalds­skóla, laga um grunnskóla og laga um framhaldsskóla nái fram að ganga.

Nefndin skal byggja mat sitt á upplýsingum um menntun, kennsluferil og starfsreynslu umsækj­anda og öðrum atriðum er fram koma í umsögn er snerta hæfi hans til starfans.

 

6. gr.

Athugasemdir kennara.

Áður en undanþágunefnd gerir tillögu um afgreiðslu undanþágu í þeim tilvikum þegar hvorki skóla­stjórnandi né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn geta mælt með ráðningu kennara, sbr. c-lið 1. mgr. 4. gr., skal nefndin gefa kennara, sem sótt hefur um viðkomandi kennslustöðu, kost á að tjá sig um framkomin gögn í máli hans.

 

7. gr.

Afgreiðslufrestur.

Undanþágunefnd skal afgreiða erindi eins fljótt og verða má, að jafnaði innan þriggja vikna frá því að umsókn barst nefndinni. Ef mál er viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla taki lengri tíma skal nefndin tilkynna það til Menntamálastofnunar og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta. Mennta­málastofun ber ábyrgð á að upplýsa umsækjanda um drátt á afgreiðslu máls.

 

8. gr.

Verklag.

Meirihluti atkvæða ræður niðurstöðu undanþágunefndar. Mat nefndarinnar skal vera skriflegt. Leggi nefndin til að umsókn sé synjað skal sú niðurstaða rökstudd þar sem fram koma þau sjónarmið sem niðurstaðan byggist á.

Nefndin skal árlega senda mennta- og menningarmálaráðherra, og þeim sem tilnefna fulltrúa í nefnd­ina, skýrslu um starfsemi sína á liðnu skólaári og birta opinberlega.

 

9. gr.

Trúnaður.

Undanþágunefnd og eftir atvikum aðrir þeir sem koma að störfum hennar ber að gæta trúnaðar um öll einkamálefni sem þeir komast yfir í starfi sínu eða í tengslum við það. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi eða setu í nefndinni.

 

10. gr.

Málsmeðferð.

Um málsmeðferð hjá undanþágunefnd fer að öðru leyti eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. heimild í 9. mgr. 19. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um störf og starfshætti undanþágunefndar grunnskóla, nr. 440/2010, og reglugerð um störf og starfshætti undanþágunefndar framhaldsskóla, nr. 669/2010.

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 23. júní 2020.

 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.

Páll Magnússon.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica