Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

388/2018

Reglugerð um viðurkenningu þjóðarleikvanga í íþróttum.

I. KAFLI Almenn ákvæði.

1. gr. Gildissvið og skilgreining.

Reglugerð þessi gildir um viðurkenningu íþróttamannvirkja sem þjóðarleikvanga í íþróttum, með hvaða hætti slík viðurkenning er veitt og skilyrði sem sett eru fyrir viðurkenningu.

Þjóðarleikvangur er íþróttamannvirki eða aðstaða sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra skv. 12. gr. og tengist sérstaklega ákveðinni íþróttagrein samkvæmt tillögu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands að fengnu samþykki viðkomandi sveitarfélags að undangenginni umsókn sérsambands.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að íþróttamannvirki sem nota skal sem þjóðarleikvang í íþróttum séu viðurkennd samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar. Leitast skal við að veita sérsamböndum íþróttagreina, sem hafa skapað sér sterka stöðu alþjóðlega og skipuleggja alþjóðleg íþróttamót á Íslandi, nauðsynlega umgjörð og aðgengi að íþróttamannvirkjum sem standast kröfur um slíkar keppnir.

3. gr. Kröfur til íþróttagreinar.

Hver íþrótt eða íþróttagrein getur einungis haft eitt íþróttamannvirki skilgreint sem þjóðarleikvang. Hins vegar getur sami leikvangur verið þjóðarleikvangur fyrir fleiri en eina íþróttagrein. Þjóðarleikvangur skal hafa heildarumgjörð og búnað sem krafist er til þess að halda viðurkennda viðburði í alþjóðakeppnum viðkomandi íþróttagreinar.

4. gr. Kröfur til íþróttamannvirkis.

Íþróttamannvirki skal vera í þeim gæðaflokki að hægt sé að standa fyrir stórum íþróttaviðburðum íþróttagreinar á landsvísu sem og alþjóðakeppnum þeirra íþróttagreina sem þjóðarleikvangurinn hefur verið viðurkenndur fyrir. Mannvirkið þarf að uppfylla kröfur um íþróttalegan hluta íþróttagreinarinnar, svo sem um velli, merkingar, búningsklefa, búnað eins og klukkur eða annan tölvubúnað sem fylgir viðkomandi íþróttagrein og aðrar skipulagskröfur sem gerðar eru m.a. vegna öryggis áhorfenda, keppenda, dómara og fjölmiðla.

5. gr. Skilyrði fyrir viðurkenningu íþróttamannvirkis sem þjóðarleikvangs.

Íþróttamannvirki skal uppfylla eftirtaldar almennar kröfur:

  1. Tæknilega staðla fyrir viðkomandi íþróttagrein til þess að standa fyrir eða halda alþjóðlega íþróttaviðburði og íþróttakeppnir.
  2. Skilgreindar lágmarkskröfur um íþróttamannvirki skv. alþjóðlegum reglum alþjóðasambanda og reglugerðum um mannvirki fyrir almenning, starfsmenn, keppendur og fjölmiðla í tengslum við mikilvæg alþjóðleg íþróttamót.

II. KAFLI Umsóknarferli vegna viðurkenningar þjóðarleikvangs.

6. gr. Umsókn.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands útbýr rökstudda tillögu um að íþróttamannvirki verði skilgreint sem þjóðarleikvangur að undangenginni umsókn viðkomandi sérsambands. Umsögn og samþykki sveitarfélags sem á mannvirkið eða ber ábyrgð á því, sbr. 10. gr., skal fylgja umsókn. Umsögn héraðssambands þar sem mannvirkið er staðsett skal einnig fylgja umsókn. Að jafnaði er það aðeins sveitarfélag sem getur verið eigandi þjóðarleikvangs. Mannvirki sem er í eigu íþróttasambands eða íþróttafélags kann þó að geta verið þjóðarleikvangur í íþróttagrein, enda sé haft samráð við sveitarfélag þar sem mannvirkið er staðsett og það sé aðili að samkomulagi sem gert er á milli aðila, sbr. 9. gr., ef við á. Mennta- og menningarmálaráðherra tekur afstöðu til tillögunnar í samráði við það sveitarfélag sem á mannvirkið.

7. gr. Mat á umsókn.

Við mat á umsókn um viðurkenningu á þjóðarleikvangi skal leggja eftirfarandi til grundvallar:

  1. Umfang og kostnað við alþjóðlega íþróttaviðburði og íþróttakeppnir.
  2. Rekstrargrundvöll íþróttamannvirkis til lengri tíma.
  3. Tíðni alþjóðlegra íþróttaviðburða og keppna í viðkomandi íþróttagrein hér á landi.
  4. Staðsetningu mannvirkis.
  5. Árangur íslenskra íþróttamanna undanfarinn áratug.
  6. Þýðingu íþróttagreinar fyrir þjóðina.

Með þýðingu íþróttagreinar fyrir þjóðina, sbr. f-lið 1. málsgreinar þessarar greinar, er horft til eftirtalinna þátta:

  1. Íþróttagreinin endurspegli gildi þjóðarinnar og eigi þátt í að efla samstöðu þjóðarinnar.
  2. Fjölda þátttakenda í viðkomandi íþróttagrein.
  3. Íþróttagreinin hafi sterka stöðu bæði í landinu og alþjóðlega.
  4. Íþróttagrein þar sem mannvirki og alþjóðakeppnir hafa sterka stöðu bæði alþjóðlega og innanlands.
  5. Viðkomandi sérsamband hafi sýnt fram á getu til þess að standa fyrir mótum eða viðburðum sem standast alþjóðlegan samanburð.
  6. Íþróttamót og viðburðir geti haft jákvæð hagræn gildi fyrir landið.

8. gr. Starfshópur sem fjallar um umsókn.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti tekur tillögu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands til umfjöllunar. Starfshópur sem mennta- og menningarmálaráðherra skipar gerir tillögu til ráðherra um hvort mannvirkið fái stöðu sem þjóðarleikvangur fyrir viðkomandi íþróttagrein. Í starfshópnum eiga sæti tveir fulltrúar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, einn frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Við meðferð málsins skal kallað eftir afstöðu viðkomandi sveitarfélags og sérsambands og aflað gagna um hvort mannvirkið uppfylli viðmið um þjóðarleikvanga, sbr. 6. gr. Á þeim grundvelli gerir starfshópurinn tillögu til ráðherra um hvort vottun skuli samþykkt. Samþykki ráðherra þjóðarleikvang skal það gert með fyrirvara um að samkomulag á milli aðila takist. Er þá heimilt að byrja viðræður aðila um samning.

9. gr. Samningur á milli aðila.

Í samningi sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, sérsamband Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem í hlut á, sveitarfélag og mennta- og menningarmálaráðuneyti gera sín á milli skal setja ákvæði um ábyrgð og skyldur hvers aðila. Samningurinn skal endurspegla þau viðmið og skilyrði sem í gildi eru fyrir þjóðarleikvanga. Þar skal leitast við að tryggja bæði fjárhagsgrundvöll og notkun íþróttamannvirkisins. Jafnframt skal fjalla um nýtingu viðkomandi sérsambanda á þjóðarleikvanginum. Áætlaður kostnaður vegna notkunar sérsambands á mannvirkinu skal koma fram í samningi.

Áður en mennta- og menningarmálaráðherra tekur endanlega afstöðu til þess hvort viðkomandi mannvirki fái stöðu sem þjóðarleikvangur skal liggja fyrir samþykki allra aðila um skuldbindingar samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar. Verði ákveðið að veita verkefninu fjárframlag úr ríkissjóði skal gerður um það sérstakur samningur, að því gefnu að svigrúm fáist til að mæta fjárframlaginu í fjármálaáætlun og fjárlögum, eins og nánar er kveðið á um í lögum um opinber fjármál.

10. gr. Meðferð umsókna um stofnframlag.

Við meðferð umsókna um stofnframlag vegna þjóðarleikvangs skal fylgja ákvæðum 7., 8. og 9. gr. reglugerðar þessarar. Nánar skal útfæra ábyrgð og skyldur aðila í samningi, sbr. 9. gr.

Verði ákveðið að veita verkefninu fjárframlag úr ríkissjóði skal gerður um það sérstakur samningur, að því gefnu að svigrúm fáist til að mæta fjárframlaginu í fjármálaáætlun og fjárlögum. Samningur á milli aðila um byggingu, viðhald eða endurbætur þjóðarleikvanga felur ekki í sér sjálfkrafa skuldbindingu um fjárframlag úr ríkissjóði.

Við mat á umsóknum tekur mennta- og menningarmálaráðuneyti afstöðu til þess hvort viðkomandi íþróttagrein og væntanlegt mannvirki uppfylli viðmið og skilyrði sem þarf til þess að fá viðurkenningu sem þjóðarleikvangur, að fenginni umsögn viðkomandi sveitarfélags. Aðeins sveitarfélög, íþróttasambönd eða íþróttafélög sem eru eigendur íþróttamannvirkis geta sótt um fjárframlag til greiðslu stofnkostnaðar vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á íþróttamannvirkjum sem eru eða sótt hefur verið um að verði þjóðarleikvangur. Bygging mannvirkisins tekur mið af þeim lögum sem gilda um uppbyggingu íþróttamannvirkja og skipan opinberra framkvæmda.

11. gr. Umsókn um stofnframlag.

Með umsókn um stofnframlag skal leggja fram eftirfarandi gögn:

  1. Yfirlýsingu á milli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, sérsambands og sveitarfélagsins um að umsókn sé vegna væntanlegs þjóðarleikvangs.
  2. Staðfestingu um að mannvirkið sé á deiliskipulagi, teikningar af mannvirkinu, yfirlýsingu byggingarfulltrúa og staðfestingu frá íþróttahreyfingunni um að íþróttatæknilegur hluti mannvirkis standist alþjóðlegar kröfur.
  3. Nákvæma framkvæmda- og kostnaðaráætlun vegna byggingar mannvirkisins.
  4. Greinargerð með einstökum liðum fjárhagsáætlunarinnar.
  5. Umsögn frá íþróttaráði og/eða bæjarstjórn viðkomandi sveitarfélags.
  6. Rekstraráætlun, fjárhagsáætlun og notkunaráætlun fyrir mannvirkið.
  7. Upplýsingar um reikningsnúmer og prókúruhafa umsækjanda.
  8. Vottorð úr fasteignabók sem staðfestir eignarhald mannvirkis.

Ráðuneytinu er heimilt að óska eftir ítarlegri gögnum sé talin þörf á því.

III. KAFLI Viðurkenning og gildistaka.

12. gr. Viðurkenning ráðherra.

Viðurkenning sem ráðherra veitir þjóðarleikvangi gildir til fimm ára í senn. Viðurkenningu má veita íþróttamannvirki sem er þegar til eða á eftir að reisa.

Heimilt er að framlengja gildistíma viðurkenningar til fimm ára að uppfylltum skilyrðum skv. 5. gr. og með því skilyrði að viðkomandi mannvirki standist úttekt sem ráðuneytið framkvæmir. Við mat á því hvort fallast skuli á umsókn um framlengdan gildistíma er heimilt að kalla eftir umsögn starfshóps skv. 8. gr. reglugerðar þessarar.

13. gr. Fjárskuldbindingar ríkis og sveitarfélaga.

Allar fjárskuldbindingar sveitarfélaga vegna þjóðarleikvanga skulu vera samþykktar af viðkomandi sveitarfélagi og gerð grein fyrir þeim í fjárhagsáætlun þess. Sveitarfélög geta falið öðrum aðilum svo sem íþróttafélögum, sérsambandi eða einkaaðilum rekstur mannvirkis.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti er heimilt að veita fjárframlag vegna stofnkostnaðar af sannanlegum kostnaði við viðbyggingu, endurbyggingu eða viðhald á þjóðarleikvangi, sbr. 10. gr. Ráðuneytið ákveður, eftir ítarlegt mat, hlutfall stofnkostnaðar vegna íþróttahluta byggingarinnar, að meðtöldum áhorfendasvæðum og mannvirkjum fyrir fjölmiðla. Verði ákveðið að veita stofnframlag úr ríkissjóði skal gerður um það sérstakur samningur, að því gefnu að svigrúm fáist til að mæta fjárframlaginu í fjármálaáætlun og fjárlögum. Fjárfesting, sem mun auka kostnað við þjóðarleikvang eykur ekki sjálfkrafa kostnað mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna samninga sem eru í gildi um viðkomandi þjóðarleikvang.

14. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 15. gr. íþróttalaga nr. 64/1998, öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 15. mars 2018.

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Ásta Magnúsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.