Mennta- og menningarmálaráðuneyti

326/2016

Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til ábyrgðar nemenda í framhaldsskólum, með hliðsjón af aldri þeirra, þroska og aðstæðum. Þá tekur hún til réttinda og skyldna aðila skólasamfélagsins í allri starfsemi á vegum skóla, skólabrags, samskipta í skóla, skólareglna og málsmeðferðar vegna brota á þeim.

Reglugerð þessi tekur einnig til nemenda í framhaldsskólum sem fengið hafa viðurkenningu ráð­herra skv. 12. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008.

Foreldrar nemenda yngri en 18 ára samkvæmt reglugerð þessari teljast þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga.

2. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að:

  1. nemendur njóti hæfileika sinna í skólastarfi og öryggis í öllu starfi á vegum skólans,
  2. stuðla að ábyrgð nemenda og áhuga á eigin námi, hegðun og samskiptum með hliðsjón af aldri, þroska og aðstæðum að öðru leyti,
  3. allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag, þar sem öryggi, vellíðan og heilbrigði eru leiðarljós og áhersla er lögð á mannréttindi, jafnrétti og bann við mismunun af öllu tagi,
  4. stuðla að góðu samstarfi og samráði milli skóla og foreldra/forráðamanna allra nemenda, þar sem við á, um nám þeirra, hegðun og samskipti og stuðla að gagnkvæmu trausti allra aðila í skólasamfélaginu, gagnkvæmri virðingu, samábyrgð, kurteislegri framkomu og tillits­semi,
  5. haldið sé uppi námsaga þar sem tekið er tillit til þarfa nemenda, þroska og hæfni þeirra,
  6. hver framhaldsskóli setji sér skólareglur með skýrum viðbrögðum við brotum á reglunum, að úrræði og viðbrögð stuðli að jákvæðri hegðun og miði að því að rækta persónuþroska og hæfni nemenda.

II. KAFLI

Ábyrgð, réttindi og skyldur aðila skólasamfélagsins.

3. gr.

Ábyrgð, réttindi og skyldur starfsfólks skóla.

Starfsfólk skóla skal ávallt bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja nemendum menntun, öryggi, vellíðan og vinnufrið til að þeir geti notið skólagöngu sinnar og náð árangri í námi. Starfsfólki ber að stuðla að jákvæðum skólabrag og starfsanda í öllu skólastarfi og góðri umgengni.

Starfsfólk skal sýna nærgætni og gæta virðingar í framkomu sinni gagnvart nemendum, for­eldrum/forráða­mönnum og samstarfsfólki og gæta þagmælsku, nema þegar um er að ræða til­kynn­ingar­skyldu gagnvart barnaverndarlögum, vegna nemenda yngri en 18 ára. Stjórnendum skóla ber að vinna markvisst að því að stuðla að jákvæðum samskiptum og gagnkvæmu trausti allra í skólanum og í þeirri vinnu skal sérstaklega taka mið af aldri og þroska nemenda. Ef mál koma upp í skólanum sem tengjast óæskilegri hegðun og framkomu nemenda skal fara með slík mál skv. V. kafla reglugerðar þessarar.

Skólastjórnendum og kennurum ber að eiga samstarf við foreldra um hegðun, líðan og samskipti ungmenna þeirra yngri en 18 ára. Starfsfólki skóla ber að taka afstöðu gegn líkamlegu, andlegu, kynferðislegu og félagslegu ofbeldi í skólanum. Ef slík tilvik koma upp skal bregðast við þeim sam­kvæmt stefnu skólans, sbr. III. kafla reglugerðar þessarar.

Skólastjórnendum og kennurum ber að upplýsa foreldra nemenda yngri en 18 ára um brot nemenda á skólareglum.

Einnig skal leitast við að hafa sams konar samstarf við foreldra/forráðamenn nem­enda eldri en 18 ára, þar sem við á, að fengnu samþykki nemendanna.

4. gr.

Ábyrgð, réttindi og skyldur nemenda.

Nemendur skulu fylgja skólareglum þ.m.t. reglum um skólasókn.

Nemendur skulu sækja kennslustundir nema veikindi eða önnur forföll hamli.

Nemendur bera ábyrgð á eigin námi, háttsemi og samskiptum við samnemendur og starfsfólk skóla, þ.m.t. rafrænum samskiptum og netnotkun og skulu sýna nærgætni og gæta virðingar í allri framkomu sinni.

Nemendur eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem þá varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra. Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla og fylgja almennum umgengnisreglum í samskiptum við starfsfólk og samnemendur.

Nemanda skal gefinn kostur á að tjá sig ef fundið er að hegðun hans vegna brota á skólareglum.

5. gr.

Ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra/forráðamanna.

Foreldrar bera ábyrgð á ungmennum sínum að 18 ára aldri.

Foreldrar bera ábyrgð á að gögn sem skipta máli um námsframvindu í framhaldsskólum berist framhaldsskólum við innritun eða þegar það á við.

Foreldrar gæta hagsmuna ungmenna sinna og ber að stuðla að því að þau stundi nám sitt. Foreldrum ber að fylgjast með námsframvindu í samvinnu við þau og kennara. Foreldrar skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi ungmenna sinna, í samráði við kennara og skólastjórnendur.

Foreldrum ber að greina skólanum frá aðstæðum sem gætu haft áhrif á skólagöngu ungmenna þeirra.

Foreldrum ber að vinna að lausn mála í samstarfi við skóla vegna brota ungmenna þeirra á skóla­reglum. Þeim ber ásamt ungmenni að taka þátt í meðferð máls.

Leitast skal við að hafa samstarf við foreldra/forráðamenn nemenda eldri en 18 ára að höfðu sam­ráði við nemandann, um mál sem upp kunna að koma samkvæmt grein þessari.

Gæta skal þagnarskyldu um upplýsingar sem berast skóla á grundvelli þessarar greinar.

III. KAFLI

Jákvæður skólabragur og skólareglur.

6. gr.

Jákvæður skólabragur og starfsandi.

Í framhaldsskólum skal skilgreina í hverju jákvæður skólabragur felist og móta leiðir til að skapa hann og viðhalda honum í öllu starfi á vegum skólans.

Starfsfólk framhaldsskóla, nemendur og foreldrar/forráðamenn, skulu í sameiningu leggja áherslu á að viðhalda góðum starfsanda í skólanum, liðsheild og jákvæðum skólabrag.

Í framhaldsskólum skal fjalla um mál sem kunna að hafa áhrif á skólabrag, þ.m.t. mál sem koma upp utan skólatíma og í rafrænum samskiptum.

Mat á skólabrag skal tengjast öðru lögbundnu innra mati skólans.

7. gr.

Gerð skólareglna og innleiðing.

Í hverjum framhaldsskóla skal setja skólareglur.

Skólameistari hefur forgöngu um og ber ábyrgð á að skólareglur séu settar og þeim fylgt. Reglurnar skulu unnar í samvinnu við skólaráð. Leitast skal við að ná sem víðtækastri sátt um þær í skólanum. Skólameistari hefur þó endanlegt ákvörðunarvald um orðalag skólareglna ef ágreiningur kemur upp.

Skólareglur skulu kynntar öllum nýnemum og foreldrum þeirra. Einnig skulu skólareglurnar kynntar öðrum aðilum skólasamfélagsins og birtar í skólanámskrá.

Skólareglur skal endurskoða reglulega eftir því sem þörf krefur.

8. gr.

Inntak skólareglna.

Skólareglur skulu vera skýrar og afdráttarlausar, í samræmi við framhaldsskólalög og aðalnámskrá framhaldsskóla og í samræmi við réttindi ungmenna að 18 ára aldri samkvæmt samningi Sam­einuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

Við samningu skólareglna skal hafa markmið og efni þessarar reglugerðar að leiðarljósi, ákvæði í aðalnámskrá framhaldsskóla og stjórnsýslulög.

Í skólareglum skal m.a. kveðið á um hegðun og almenna umgengni, samskipti, skólasókn, náms­framvindu, prófareglur, meðferð ágreiningsmála og beitingu viðurlaga.

9. gr.

Starf framhaldsskóla gegn einelti.

Allir skólar skulu hafa heildstæða stefnu fyrir skólann til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu, kynferðislegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Skólar skulu setja sér aðgerðaáætlun gegn einelti með virkri forvarnar- og viðbragðsáætlun til að takast á við eineltismál í skólanum.

Áætlunin skal ná til allrar starfsemi, alls starfsfólks, allra nemenda og foreldra/forráðamanna og skal kveða á um skyldur allra til að vinna gegn einelti með virkum hætti. Áætlunin er unnin í samstarfi allra innan skólans og aðila utan skóla sem tengjast málefnum ungmenna eftir því sem við á. Leggja skal áherslu á virðingu, tillitssemi og samkennd og að tekin sé afstaða gegn einelti. Kveða skal á um ábyrgð á að framfylgja áætluninni með virkum hætti og ber skólameistari ábyrgð á að starfið sé samhæft.

Kanna skal reglulega eðli og umfang eineltis í skólum, kynna niðurstöður og nýta þær til úrbóta.

Aðgerðaáætlun gegn einelti er hluti af skólanámskrá og er kynnt sérstaklega eftir því sem þurfa þykir og skal birt opinberlega.

Foreldrar/forráðamenn, nemendur eða skólar geta óskað eftir aðstoð sérstaks fagráðs sem starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis ef ekki tekst að finna viðunandi lausn innan skóla þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ráðherra skipar í fagráðið og gefur út verklagsreglur um vísun mála til fagráðsins, málsmeðferð og eftirfylgni.

IV. KAFLI

Brot á skólareglum.

10. gr.

Viðbrögð við brotum á skólareglum.

Sýni nemendur af sér óæskilega hegðun og/eða slaka ástundun skal leitast við að koma skólagöngu þeirra í viðunandi horf, með öllum tiltækum leiðum á vegum skólans og stoðþjónustu hans, þar sem taka skal tillit til aðstæðna og þarfa nemenda og stuðla að menntun, alhliða þroska og velferð hvers og eins.

Brjóti nemandi skólareglur skal ræða við hann um eðli brotsins, afleiðingar þess og ábyrgð hans í málinu. Foreldrum nemenda að 18 ára aldri skal ætíð svo fljótt sem auðið er gerð grein fyrir brotum ungmenna þeirra á skólareglum og viðbrögðum skólans við þeim. Hafa skal samráð við þá í samræmi við eðli máls.

Viðbrögð við brotum á skólareglum skulu vera í samræmi við brotið og ávallt skal velja vægasta úrræðið sem er til þess fallið að ná fram settu markmiði. Gæta skal jafnræðis og samræmis í viðbrögðum og taka tillit til aðstæðna hvers og eins. Leggja skal áherslu á að leitað sé eftir samkomulagi og sáttaleiðum.

Viðbrögð skulu vera markviss og til þess fallin að stuðla að jákvæðum skólabrag, bættri hegðun nemenda, bættri námsframvindu, aukinni ábyrgð á eigin námi og miða að því að styrkja sjálfsmynd nemenda, bæði þeirra sem brjóta af sér og þeirra sem brotið er á.

Skólastjórnendur og/eða stoðþjónusta vísa málum til barnaverndaryfirvalda vegna nemenda að 18 ára aldri ef ástæða þykir til.

11. gr.

Líkamlegt inngrip og viðbrögð við áfengis- og vímuefnabrotum.

Starfsfólki skóla er óheimilt að beita líkamlegum refsingum og líkamlegu inngripi í refsingarskyni.

Ef starfsfólk skóla metur það svo að háttsemi nemanda leiði af sér hættu fyrir samnemendur og/eða starfsfólk skóla ber því skylda til að bregðast tafarlaust við, með því að kalla á frekari aðstoð frá öðru starfsfólki eða viðeigandi utanaðkomandi aðila eða eftir atvikum með líkamlegu inngripi til að stöðva nemanda. Líkamlegu inngripi skal aðeins beitt í ítrustu neyð og eingöngu þegar ljóst er að aðrar leiðir duga ekki til að forða nemanda frá því að skaða sig og/eða aðra. Starfsfólki skóla er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Skal þess ávallt gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Láta skal tafarlaust af inngripi er hættu hefur verið afstýrt.

Skólameistari getur synjað nemanda um að sækja skóla tímabundið þegar rökstuddur grunur leikur á að hann sé undir áhrifum vímuefna á skólatíma og/eða stuðli að dreifingu slíkra efna meðal nemenda. Heimilt er að krefjast læknisvottorðs frá nemanda 18 ára og eldri um að hann sé ekki lengur undir áhrifum vímuefna og frá nemanda yngri en 18 ára að fengnu samþykki foreldra hans. Heimilt er að meina nemanda að sækja skóla þar til slík staðfesting liggur fyrir.

Í hverjum framhaldsskóla skulu vera til verklagsreglur unnar af starfsfólki skóla vegna tilvika þar sem nauðsynlegt er að grípa til tafarlausra aðgerða þegar stöðva þarf óásættanlega hegðun nemanda, bregðast við hótunum eða rökstuddur grunur er um að nemandi sé undir áhrifum vímuefna. Í verklagsreglum skal kveðið á um málsmeðferð skv. 12. gr. reglugerðar þessarar. Verklagsreglurnar skulu vera hluti af skólanámskrá.

V. KAFLI

Málsmeðferðarreglur.

12. gr.

Málsmeðferð vegna brota nemenda á skólareglum.

Væg úrræði sem skólar beita til að halda uppi aga og umgengnisvenjum teljast almennt ekki til stjórnvaldsákvarðana og falla því ekki undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Haldi nemandi uppteknum hætti þrátt fyrir undangengna aðvörun og/eða skriflega áminningu og brot hans eru alvarleg má vísa honum tímabundið úr einstöku námsáföngum eða úr skóla, á meðan reynt er að finna lausn á máli hans, að hámarki eina kennsluviku. Ef allar tiltækar leiðir hafa verið reyndar og ekki tekst að finna lausn á máli nemanda er skólameistara heimilt að víkja honum ótímabundið úr skóla.

Við ákvörðun um brottvísun úr einstaka áfanga eða úr skóla skal gæta meginreglna stjórn­sýslu­réttar, þ.m.t. andmælaréttar, meðalhófs, jafnræðisreglu og rannsóknar- og upp­lýsinga­skyldu. Í opinberum framhaldsskólum teljast slíkar ákvarðanir til stjórnvaldsákvarðana og fer því um þær samkvæmt stjórnsýslulögum.

Ávallt skal leita samstarfs við foreldra nemanda yngri en 18 ára um úrlausn máls þegar um brot á skólareglum er að ræða. Nemendum og foreldrum nemenda yngri en 18 ára skal gefinn kostur á að kynna sér gögn sem liggja til grundvallar fyrirhugaðri ákvörðun og koma á framfæri athugasemdum og andmælum, skv. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Skólameistari skal sjá til þess að atvik sem skipta máli vegna úrlausnar mála séu skráð og varðveitt í skólanum sem og ferli máls og ákvarðanir sem teknar eru vegna brota á skólareglum. Atvika­skráning skal fela í sér lýsingu á aðdraganda, atburðinum sjálfum og þar sem það á við, mati á þeirri hættu sem orsakast hefði af athafnaleysi. Skráningin skal fara fram í samræmi við lög um per­sónu­vernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000 og reglugerð um upplýsingaskyldu fram­halds­skóla um skólahald, aðra kerfisbundna skráningu og meðferð persónuupplýsinga um nem­endur, nr. 235/2012.

Nemandi, sem vísað hefur verið ótímabundið úr skóla vegna brota á skólareglum, á rétt á því að stunda nám í öðrum framhaldsskóla skv. 32. gr. laga um framhaldsskóla, hafi hann ekki náð 18 ára aldri.

Nemandi, eldri en 18 ára, sem vísað hefur verið ótímabundið úr skóla vegna brota á skólareglum, á rétt á að sækja um í öðrum skóla og er innritun hans á ábyrgð skólameistara þess skóla.

13. gr.

Kæra til mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Ákvörðun skólameistara opinberra framhaldsskóla skv. 3. mgr. 12. gr. þessarar reglugerðar er kæranleg til ráðuneytisins á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

14. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 6. mgr. 33. gr. a. og 6. mgr. 33. gr. b. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 5. apríl 2016.

Illugi Gunnarsson.

Ásta Magnúsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica