Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 6. mars 2024

200/2023

Reglugerð um veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski.

1. gr. Gildissvið.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til veiða á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski (hér nefndur bláuggatúnfiskur) á samningssvæði Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins (ICCAT), þar með talið hafsvæði utan lögsögu ríkja og innan lögsögu þar sem íslensk skip hafa rétt til veiða samkvæmt samningum eða sérstökum veiðileyfum.

2. gr. Leyfilegur heildarafli.

Á árinu 2024 er íslenskum skipum heimilt að veiða alls 224 tonn af bláuggatúnfiski miðað við afla upp úr sjó. Af þeim heimildum er 212 tonnum úthlutað til veiða með línu og 12 tonnum vegna áætlaðs meðafla íslenskra skipa á bláuggatúnfiski.

3. gr. Leyfi til veiða.

Allar beinar veiðar á bláuggatúnfiski eru óheimilar nema að fengnu leyfi Fiskistofu. Fiskistofu er heimilt að gefa út leyfi til allt að þriggja íslenskra skipa hverju sinni. Fiskistofu er heimilt að setja nánari skilyrði um veiðarnar í leyfin til samræmis við reglur Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins.

Leyfishöfum er heimilt að stunda línuveiðar á tímabilinu 1. ágúst til 31. desember. Línuveiðar eru einungis heimilar á veiðisvæði norðan 42°00,00´ N milli 10°00,00´ V og 45°00,00´ V.

Fiskistofa skal afturkalla útgefin veiðileyfi þegar leyfilegum heildarafla hefur verið náð.

4. gr. Úthlutun leyfa til línuveiða.

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um leyfi til línuveiða á bláuggatúnfiski í atvinnuskyni til eins árs í senn. Skal umsóknartímabil vera frá 1. apríl til og með 1. júní. Heimilt er að endurnýja leyfi samkvæmt umsókn leyfishafa um eitt ár í senn án auglýsingar en þó ekki lengur en til þriggja ára enda mæli áætlun um veiðarnar, árangur veiða og skipulag veiðanna með slíkri framlengingu. Við veitingu leyfa koma einungis til greina skip sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni. Skip skulu vera, að lágmarki, 500 brúttótonn að stærð og skulu hafa fullnægjandi útbúnað til veiðanna og meðhöndlunar bláuggatúnfiskafla.

Í umsókn skal leggja fram áætlun um hvenær stunda á veiðarnar, svo sem um hvaða fiskiskip muni stunda veiðarnar, veiðisókn, hvernig fiskiskipið verður útbúið til veiðanna, áætlaðar löndunarhafnir og ráðstöfun afla.

Fiskistofa skal ákvarða aflamark á hvert skip með hlutfallslega jöfnum hætti af heildaraflaheimildum Íslands eftir að áætlaður meðafli hefur verið dregin frá. Fiskistofa getur heimilað færslu aflamarks á milli þeirra skipa sem hafa leyfi til veiða skv. 1. gr. Verður að tilkynna ráðuneytinu um slíkt sem upplýsir skrifstofu Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins um færslur milli skipa.

Fiskistofa getur fært hluta af aflaheimildum vegna meðafla, ef svigrúm er til þess á seinni stigum veiðitímabils, með hlutfallslegum hætti á hvert skip en aldrei má úthlutun auk skráðs meðafla fara yfir heildaraflaheimildir Íslands hverju sinni. Verður að tilkynna ráðuneytinu um breytta nýtingu meðafla heimilda sem upplýsir skrifstofu Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins um það.

Fyrir 1. júlí skal Fiskistofa senda ráðuneytinu viðeigandi upplýsingar um umsóknir um leyfi og útgefin leyfi, m.a. um skip og aflamark þeirra. Ráðuneytið sendir upplýsingar um skip sem hafa leyfi til veiða til skrifstofu Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins eigi síðar en 15. júlí.

5. gr. Skilyrði leyfa til línuveiða.

Eftir að leyfi skv. 4. gr. er veitt er óheimilt að endurúthluta því eftir 14. júlí, ár hvert, til annars skips, nema skip hafi farist, vélarbilun valdi því að það geti ekki haldið til veiða eða af force majeure ástæðum.

Veiðiheimildir má ekki flytja milli ára.

Þegar skip heldur til veiða á bláuggatúnfiski er því ekki heimilt að stunda aðrar beinar veiðar í þeirri veiðiferð.

Um greiðslu eftirlitskostnaðar vegna veru eftirlitsmanns um borð fer samkvæmt gjaldskrá Fiskistofu.

Heimilt er að setja nánari skilyrði fyrir veiðunum í leyfisbréf, þ.m.t. um lágmarksfjölda sóknardaga að viðlagðri afturköllun leyfis.

6. gr. Bláuggatúnfiskur sem meðafli og tilkynningaskylda.

Íslensk fiskiskip sem ekki hafa leyfi til beinna veiða á bláuggatúnfiski skulu sleppa öllum lífvænlegum túnfiski sem kemur í veiðarfæri skipsins. Skrá skal allan túnfisk sem kemur í veiðarfæri skips og er sleppt. Skip sem fá afla af bláuggatúnfiski er skylt að skrá hann til Fiskistofu áður en honum er landað.

7. gr. Ólögmætur sjávarafli.

Afli umfram leyfilegan afla bláuggatúnfisks á árinu er ólögmætur sjávarafli sem skal seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir. Afli sætir álagningu gjalds samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

8. gr. Skylda til sleppinga á öðrum tegundum.

Skipum sem stunda beinar veiðar á bláuggatúnfiski er skylt að sleppa lifandi afla eftirfarandi tegunda: sjávarskjaldbökum, sleggjuháfum (latína: Spyrnidae), hvítuggaháfum (latína: Carcharihinus longimanus), glyrnuskottháfum (latína: Alopia supercilliosus) og silkiháfum (latína: Carcharhinus falciformis). Sé þess engin kostur að sleppa afla þessara tegunda lifandi er skylt að koma með hann að landi. Halda skal afla þessara fisktegunda aðskildum frá öðrum afla og skal skila honum til Hafrannsóknastofnunar þegar við löndun. Bannað er að selja eða fénýta á annan hátt afla þessara tegunda.

9. gr. Skil aflaupplýsinga.

Skila skal aflaupplýsingum stafrænt til Fiskistofu skv. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

10. gr. Eftirlitsbúnaður og tilkynningar.

Skip sem hafa leyfi til að stunda línuveiðar á bláuggatúnfiski í atvinnuskyni skulu vera búin fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu, hér eftir nefnd eftirlitsstöðin, um staðsetningu, stefnu og hraða viðkomandi skips á klukkustundarfresti.

Skipi er óheimilt er að halda úr höfn til veiða fyrr en starfsmenn eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest til skipstjóra að ofangreindur búnaður starfi eðlilega.

Skip sem stunda línuveiðar í atvinnuskyni á túnfiski skulu tilkynna Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu með 3 vikna fyrirvara um ætlað upphaf veiða.

15 dögum fyrir upphaf veiðitímabils bláuggatúnfisks skal eftirlitsstöð framsenda til skrifstofu ICCAT upplýsingar um staðsetningu skipsins, skulu þær sendingar standa þar til 15 dögum eftir lok veiðitímabils, eða eftir að ráðuneytið hefur tilkynnt um lokun veiða til ICCAT.

Ef búnaður til sjálfvirkra sendinga, sbr. 1. mgr., bilar, skal gert við hann við komu í næstu höfn, þó eigi síðar en að 30 dögum liðnum. Þar til búnaðinum verður komið í lag, skal senda á annan hátt upplýsingar um staðsetningu skipsins á 4 klukkustunda fresti til eftirlitsstöðvarinnar. Einnig skulu tilkynningar skv. 11. gr. innihalda upplýsingar um staðsetningu skipsins.

11. gr. Tilkynningar til eftirlitsstöðvar.

Skip sem stunda línuveiðar á túnfiski í atvinnuskyni skulu senda eftirgreindar tilkynningar á tölvutæku formi úr rafrænni afladagbók skipsins til eftirlitsstöðvarinnar:

Komutilkynning:

Skylt er skipstjóra skips að tilkynna til eftirlitsstöðvarinnar með ekki meira en 12 klukkustunda og að minnsta kosti 6 klukkustunda fyrirvara að það fari inn á viðkomandi samningssvæði til túnfiskveiða. Á þetta við um veiðar innan íslenskrar lögsögu sem og utan. Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
  2. Raðnúmer skeytisins.
  3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "COE" sem komutilkynning.
  4. Kallmerki skipsins.
  5. Staðsetning skipsins í gráðum og heilum mínútum.
  6. Áætlað aflamagn um borð miðað við afla og meðafla upp úr sjó, sundurliðað eftir tegundum.
  7. Dagsetning og tími.

Haldi skip til veiða úr íslenskri höfn skal það tilkynnt eftirlitsstöðinni á sama hátt.

Aflatilkynning:

Dag hvern sem skip er við túnfiskveiðar, skal skipstjóri tilkynna eftirlitsstöðinni um heildarafla síðasta sólarhrings, miðað við afla upp úr sjó, sundurgreindan eftir tegundum. Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
  2. Raðnúmer skeytisins.
  3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "CAT" sem aflatilkynning.
  4. Kallmerki skipsins.
  5. Afli frá síðustu aflatilkynningu í kg, miðað við afla upp úr sjó, sundurliðaður eftir tegundum.
  6. Fjöldi veiðidaga frá upphafi veiða, en frá síðustu aflatilkynningu hafi hún verið send.
  7. Dagsetning og tími.

Lokatilkynning:

Þegar veiðiskip hættir veiðum skal það tilkynnt eftirlitsstöðinni. Jafnframt skal í tilkynningu tilgreina afla frá síðustu aflatilkynningu miðað við afla úr sjó, aðgreindan eftir tegundum og einnig löndunarhöfn eða löndunarstað. Lokatilkynningin skal send eigi síðar en 6 klukkustundum fyrir áætlaðan tíma í löndunarhöfn. Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Kóði viðtakanda: "ISL" fyrir íslensku eftirlitsstöðina.
  2. Raðnúmer skeytisins.
  3. Kóði fyrir tegund skeytisins: "COX" sem lokatilkynning.
  4. Kallmerki skipsins.
  5. Dagsetning og tími.
  6. Afli frá síðustu aflatilkynningu í kg, miðað við afla upp úr sjó, sundurliðaður eftir tegundum.
  7. Fjöldi veiðidaga frá upphafi veiða, en frá síðustu aflatilkynningu hafi hún verið send.
  8. Löndunarhöfn (áætlaður tími og dagsetning þar).
  9. Dagsetning og tími.

12. gr. Leit úr lofti.

Óheimilt er að styðjast við leit úr lofti við veiðar á bláuggatúnfiski.

13. gr. Löndunarhafnir.

Skip skulu landa öllum afla bláuggatúnfisks á Íslandi í fyrir fram ákveðnum höfnum, sem Fiskistofa ákveður.

14. gr. Undirmál.

Skylt er að sleppa lifandi bláuggatúnfiski sem er undir 30 kg að þyngd.

15. gr. Eftirlit um borð.

Fiskiskipi sem hefur leyfi til línuveiða á bláuggatúnfiski í atvinnuskyni er óheimilt að stunda veiðar nema eftirlitsmaður á vegum Fiskistofu sé um borð. Þó er Fiskistofu heimilt að veita undanþágu frá þessu ef eftirlitsmenn eru um borð a.m.k. 20% þess tíma sem skip stundar túnfiskveiðar. Skipstjóra er óheimilt að halda skipinu til túnfiskveiða án eftirlitsmanns um borð, án skriflegrar heimildar Fiskistofu.

Fyrir hverja veiðiferð, eftir að upphaflega hefur verið tilkynnt um upphaf veiða á árinu, sbr. 3. mgr. 9. gr., skal útgerð skips tilkynna Fiskistofu með a.m.k. 7 daga fyrirvara að fyrirhugað sé að halda til veiða.

16. gr. Merkingar.

Öllum bláuggatúnfiski sem veiddur er af íslenskum skipum sem og öllum bláuggatúnfiski sem fluttur er inn til Íslands eða seldur er á íslenskum markaði skal fylgja sérstakt rafrænt rekjanleikavottorð (e. bluefin tuna catch document, e-BCD) sem Fiskistofa gefur út.

Öllum bláuggatúnfiski sem endurútfluttur er frá Íslandi skal fylgja sérstakt rafrænt endurútflutningsvottorð (e. bluefin tuna re-export certificate, e-BFTRC) sem Fiskistofa gefur út.

Óheimilt er að flytja inn, landa, selja eða flytja út bláuggatúnfisk sem ekki fylgir rafrænt rekjanleikavottorð.

17. gr. Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, ákvæðum 15.-21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og ákvæðum VI. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

18. gr. Lagaheimild.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 14. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, ákvæðum 3., 4., 6., 7., 8., 18. og 19. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og ákvæðum 16. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Reglugerð þessi er sett til samræmis við skuldbindingar Íslands vegna aðildar að ICCAT og ber að túlka með hliðsjón af þeim skuldbindingum sem fylgja aðildinni.

Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð um veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski nr. 930/2020.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.