Fara beint í efnið

Prentað þann 2. maí 2024

Stofnreglugerð

1175/2023

Reglugerð um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á ostum og unnum kjötvörum frá Bretlandi.

1. gr.

Fyrir það tímabil sem tilgreint er í 2. gr. úthlutar matvælaráðherra tollkvótum samkvæmt fríverslunarsamningi milli Íslands, Noregs, Liechtenstein og Bretlands, samkvæmt 65. gr. B búvörulaga nr. 99/1993 og 12. gr. tollalaga nr. 88/2005. Reglugerð þessi gildir um innflutning á þeim vörum sem taldar eru upp í 2. gr. frá Bretlandi og með upprunavottorð þaðan.

2. gr.

Ákvæði eftirfarandi töflu gilda um vörumagn, tímabil innflutnings, verð- og magntoll:

Vara Tímabil Vörumagn Verðtollur Magntollur
Úr tollskrárnr. kg % kr./kg
Úr 0406 Ostur og ystingur (*) 01.01. - 31.12.24 11.000 0 0
0406 Ostur og ystingur 01.01. - 31.12.24 19.000 0 0
1602 Annað kjöt, hlutar af dýrum, blóð eða skordýr, unnið eða varið skemmdum 01.01. - 31.12.24 18.300 0 0

(*) Upprunavörur með vernduðum upprunatáknun (VUT) og/eða verndaðri, landfræðilegri merkingu (VLM) sem fellur undir tollskrárlið 0406.

3. gr.

Tollkvótum er úthlutað samkvæmt ákvæðum búvörulaga nr. 99/1993. Tollkvótar eru auglýstir á vefsíðu matvælaráðuneytisins þar sem tilgreindir eru skilmálar og fram koma frekari upplýsingar um framkvæmd úthlutunarinnar.

4. gr.

Berist umsóknir um meira magn innflutnings en auglýstum tollkvóta nemur, skal leita tilboða í tollkvóta vegna viðkomandi vöruliðar. Til þess að tilboð teljist gilt skal senda ráðuneytinu staðfest afrit af ábyrgðaryfirlýsingu. Skal ábyrgðaryfirlýsingin berast frá banka, sparisjóði eða vátryggingafélagi á tölvupóstfang ráðuneytisins mar@mar.is. Í ábyrgðaryfirlýsingunni skal koma fram að viðkomandi ábyrgðarveitandi tryggi að tilboðsgjafi geti staðið við tilboð sitt. Einnig er heimilt í stað ábyrgðaryfirlýsingar að greiða andvirði tollkvóta á reikning fjársýslunnar og senda kvittun til ráðuneytisins.

Umsóknar- og tilboðsferli vegna úthlutunar tollkvótans fer fram með rafrænum hætti á vefkerfinu tollkvoti.is.

Tilboðsgjafi sá er fær úthlutað tollkvóta skal leysa hann til sín með greiðslu andvirðis hans innan sjö daga frá dagsetningu tilkynningar um niðurstöðu útboðs. Úthlutun er ekki framseljanleg.

5. gr.

Berist umsóknir um meira magn innflutnings vara úr vörulið úr 0406(*) en auglýstum tollkvóta nemur, skal ráðherra úthluta tollkvóta vegna vöruliðarins eftir hlutkesti. Hver tilboðsgjafi skal þó að hámarki hljóta 15% af heildarmagni auglýsts tollkvóta ef viðkomandi vara er skráð í samræmi við reglur um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu.

6. gr.

Innflutningur verður því aðeins leyfður að uppfyllt séu ákvæði reglugerðar nr. 1250/2019, um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins, með síðari breytingum.

7. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum skv. 65. og 82. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Með mál út af brotum skal farið að hætti laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 65. gr. B búvörulaga nr. 99/1993, með síðari breytingum. Reglugerðin öðlast þegar gildi og gildir til og með 31. desember 2024. Við gildistöku hennar fellur úr gildi reglugerð nr. 1170/2022 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á ostum og unnum kjötvörum frá Bretlandi.

Matvælaráðuneytinu, 2. nóvember 2023.

Svandís Svavarsdóttir.

Elísabet Anna Jónsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.