Fara beint í efnið

Prentað þann 2. maí 2024

Stofnreglugerð

1111/2023

Reglugerð um Bjargráðasjóð.

I. KAFLI Um sjóðinn.

1. gr.

Bjargráðasjóður er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Heimili og varnarþing hans er í Reykjavík.

2. gr.

Ráðherra skipar þriggja manna stjórn Bjargráðasjóðs til fjögurra ára í senn.

3. gr.

Stjórn Bjargráðasjóðs hefur á hendi stjórn sjóðsins og metur og tekur ákvarðanir um afgreiðslu umsókna og styrkveitinga.

4. gr.

Stjórn Bjargráðasjóðs er heimilt, með samþykki matvælaráðuneytisins, að semja við aðila um að taka að sér umsjón með rekstri sjóðsins eftir sérstökum samningi þar um. Sá aðili ber þá í umboði stjórnar ábyrgð á fyrirsvari fyrir sjóðinn, fjárreiðum, reikningshaldi og uppgjöri hans. Einnig sér hann um að boða stjórnarfundi og undirbýr mál fyrir þá í umboði stjórnarformanns.

5. gr.

Tekjur Bjargráðasjóðs eru árlegt framlag ríkissjóðs eftir því sem nánar er kveðið á um í fjárlögum eða fjáraukalögum, fjármagnstekjur og aðrar tekjur.

II. KAFLI Styrkveitingar.

6. gr.

Hlutverk Bjargráðasjóðs er að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð/styrki til að bæta meiri háttar tjón af völdum náttúruhamfara:

Styrkir eru veittir vegna:

  1. Tjóns á gjaldskyldum fasteignum samkvæmt skilgreiningu laga um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. lög um skráningu og mat fasteigna.
  2. Tjóns á girðingum, túnum og rafmagnslínum er tengjast landbúnaði.
  3. Tjóns á heyi sem notað er við landbúnaðarframleiðslu.
  4. Tjóns vegna uppskerubrests af völdum óvenjulegra kulda, þurrka, óþurrka og kals.

Ekki er bætt tjón sem nýtur almennrar tryggingaverndar eða hægt er að fá bætt með öðrum hætti, sbr. ákvæði laga um Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

Ekki er bætt tjón sem orsakast af ásetningi eða gáleysi eigenda eða umsjónarmanns, eða tjón þar sem eðlilegar varnir voru ekki viðhafðar. Sama á við ef staðsetning þess skemmda var óeðlileg með tilliti til tjónshættu.

7. gr.

Stjórn sjóðsins er heimilt að setja sér nánari vinnureglur um veitingu styrkja. Setji stjórn sjóðsins slíkar reglur skulu þær birtar á heimasíðu sjóðsins. Stjórn getur sett sérstakar reglur um einstaka atburði þegar það á við og skulu þær birtar á heimasíðu sjóðsins.

Stjórn sjóðsins leggur mat á styrkhæfni tjóna og ákveður styrkhlutfall og eigin áhættu tjónþola í tjóni. Stjórn sjóðsins er heimilt að ákveða að styrkhlutfall og eigináhætta sé mismunandi eftir búgreinum og tegundum eigna og taka í því efni m.a. mið af tekjuskiptingu sjóðsins og rekstraráhættu hverrar búgreinar.

Stjórn getur falið þeim aðila sem hefur umsjón með rekstri sjóðsins hverju sinni að leggja fram tillögu fyrir stjórn varðandi afgreiðslu einstakra umsókna. Slíkar tillögur til stjórnar skulu vera í samræmi við þessa reglugerð og ofangreindar vinnureglur um veitingu styrkja.

Styrkveitingar takmarkast við þær fjárhæðir sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni í samræmi við fjárhag og stöðu sjóðsins.

III. KAFLI Umsóknir.

8. gr.

Umsókn um styrk úr Bjargráðasjóði skal berast sjóðnum svo fljótt sem kostur er í kjölfar tjóns, en eigi síðar en innan þriggja mánaða frá því að tjón varð. Umsókn skal vera skrifleg. Heimilt er að skilyrða að umsókn sé skilað í rafrænu umsóknarkerfi eða á eyðublöðum sem sjóðurinn gefur út. Ef vettvangi er spillt eða viðgerðum lokið áður en sjóðnum gefst kostur á að leggja mat á tjónið fellur umsóknin úr gildi.

Í umsókn skal koma fram á hverju tjónið varð og upplýsingar um umfang tjónsins. Sjóðurinn getur krafist fyllri gagna frá umsækjanda sjálfum eða öðrum þeim aðilum sem slíkar upplýsingar geta veitt ef ástæða þykir til.

Umsækjanda skal veittur hæfilegur frestur til að útvega þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að taka afstöðu til styrkumsóknar. Ef umsækjandi veitir sjóðnum ekki umbeðnar upplýsingar fellur umsóknin úr gildi.

IV. KAFLI Fjármál.

9. gr.

Fé Bjargráðasjóðs skal ávaxtað með sem tryggustum og hagkvæmustum hætti samkvæmt nánari ákvörðun stjórnarinnar.

10. gr.

Ársreikningar sjóðsins skulu fullgerðir fyrir febrúarlok ár hvert. Stjórn sjóðsins felur löggiltum endurskoðanda að endurskoða reikninga sjóðsins og skal endurskoðun að jafnaði lokið fyrir 30. apríl ár hvert. Endurskoðaðir og samþykktir ársreikningar skulu sendir ráðherra.

V. KAFLI Gildistaka.

11. gr.

Reglugerð þessi sem samin er af stjórn Bjargráðasjóðs og sett samkvæmt heimild í 15. gr. laga um Bjargráðasjóð nr. 49/2009. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð fyrir Bjargráðasjóð nr. 30/1998.

Matvælaráðuneytinu, 9. október 2023.

Svandís Svavarsdóttir.

Ása Þórhildur Þórðardóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.