Fara beint í efnið

Prentað þann 2. maí 2024

Stofnreglugerð

665/2023

Reglugerð um veiðar á hnúðlaxi.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um veiðar á hnúðlaxi (Oncorhynchus gorbuscha).

2. gr. Leyfi til veiða á hnúðlaxi.

Veiðifélögum og veiðiréttarhöfum, þar sem ekki eru starfandi veiðifélög, er heimilt að veiða hnúðlax með ádráttarnetum árin 2023, 2024 og 2025.

3. gr. Umsóknir.

Fiskistofa auglýsir eftir umsóknum um leyfi til veiða á hnúðlaxi.

Í umsóknum skal koma fram í hvaða ám, vötnum og við hvaða land áformað er að veiða.

4. gr. Málsmeðferð og útgáfa leyfa.

Fiskistofa annast útgáfu leyfa til veiða á hnúðlaxi.

Heimilt er að binda útgáfu leyfa til veiða ákveðnum skilyrðum, m.a. um skýrsluskil, gerð veiðarfæra og veiðitímabil. Leyfi skulu m.a. bundin því skilyrði að allur afli sé skráður og að Fiskistofu verði sendar árlega skýrslur um sókn og afla.

Í leyfi skal koma fram fyrir hvaða ár, vötn, veiðisvæði og tímabil það gildir.

Leyfi til veiða á hnúðlaxi skulu gefin út fyrir hvert almanaksár.

5. gr. Framkvæmd og tilhögun veiða.

Við veiðarnar skal leyfishafi fara eftir lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem gilda um veiðarnar og einnig sérstökum ákvæðum sem sett eru um veiðarnar í leyfinu.

6. gr. Framsal.

Framsal leyfa til veiða á hnúðlaxi samkvæmt þessari reglugerð er óheimilt.

8. gr. Afturköllun leyfa.

Fiskistofa getur afturkallað leyfi sem veitt hefur verið ef leyfishafi uppfyllir ekki skilyrði leyfisins. Endurnýjun leyfa skal vera háð því að skilað hafi verið skýrslu um veiði og veiðisókn síðasta árs sem veiði var stunduð.

9. gr. Eftirlit.

Fiskistofa hefur eftirlit með að veiðar samkvæmt þessari reglugerð séu í samræmi við lög og reglur og getur gripið til aðgerða ef hún telur ástæðu til t.d. vegna brota á reglugerðinni eða ef skilyrði leyfisins eru ekki lengur uppfyllt.

10. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í IV. ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, sbr. lög nr. 46/2023 og öðlast þegar gildi.

Matvælaráðuneytinu, 26. júní 2023.

F. h. r.

Benedikt Árnason.

Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.