Landbúnaðarráðuneyti

123/1994

Reglugerð um verðmiðlunargjald af mjólk - Brottfallin

1. gr.

Innheimta verðmiðlunargjalds.

Landbúnaðarráðherra ákveður upphæð verðmiðlunargjalds af afurðum mjólkur og skal því varið til verkefna skv. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 99/ 1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. breytingu með lögum nr. 129/1993.

Frá 1. júní 1994 skal upphæð gjaldsins vera kr. 0,65 á hvern lítra mjólkur, sem lagður er inn í afurðastöð innan greiðslumarks. Ráðherra tilkynnir breytingar á upphæð verðmiðlunargjalda til Framleiðsluráðs landbúnaðarins og fimmmannanefndar.

Framleiðsluráð landbúnaðarins leggur gjaldið á samkvæmt innvigtunarskýrslum afurðastöðva og innheimtir það mánaðarlega. Gjalddagi er 25. dag næsta mánaðar eftir innvigtun og eindagi 30 dögum síðar.

2. gr.

Skipting tekna milli verkefna.

Framleiðsluráð landbúnaðarins og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) gera tillögu um skiptingu tekna af verðmiðlunargjöldum milli eftirfarandi verkefna:

a) Rekstrarstyrkja til afurðastöðva, sbr. 3. gr.

b) Jöfnunar á f1utningskostnaði frá framleiðanda að afurðastöð, sbr. 4. gr.

c) Til að styrkja flutninga á hráefni og mjólkurvörum milli afurðastöðva, sbr. 5. gr.

Óheimilt er að ráðstafa umfram 85% af árstekjum til verkefna samkvæmt liðum a og b og umfram 25% til verkefna samkvæmt c-lið. Aldrei má ráðstafa meiru en árstekjum af verðmiðlunargjaldi samanlagt til ofangreindra verkefna.

3. gr.

Rekstrarstyrkir til afurðastöðva.

Afurðastöðvar, sem nauðsynlegt er að starfrækja vegna landfræðilegrar einangrunar eða hagkvæmt þykir að starfrækja vegna fjarlægðar frá næstu afurðastöð, geta notið rekstrarstyrkja af innheimtu verðmiðlunarfé, enda sé sýnt fram á þörf fyrir slíka styrki.

Framleiðsluráð landbúnaðarins skal fyrir 1. maí ár hvert gera tillögu til landbúnaðarráðherra um hvaða afurðastöðvar skuli njóta rekstrarstyrkja og um upphæðir styrkjanna samkvæmt eftirfarandi reglum:

1. Rekstrarstyrkur veitist eingöngu afurðastöðvum sem uppfylla ákvæði 64. gr. laga nr. 99/1993 um aðgreiningu bókhalds og fjárreiða afurðastöðva frá öðrum rekstri og ákvæði 3. gr. rg. nr. 46/ 1994 um frágang og endurskoðun ársreikninga fyrir árið 1993.

2. Rekstrarstyrkur getur að hámarki orðið sem nemur áætluðum kostnaði við að flytja þá mjólk sem framleidd er innan greiðslumarks á svæði viðkomandi afurðastöðvar, frá henni að næstliggjandi afurðastöð sem getur tekið við mjólkinni til vinnslu og árlegum flutningskostnaði á seldu magni af nýmjólk, léttmjólk, undanrennu, rjóma, súrmjólk og skyri, að þeirri afurðastöð sem nýtur styrks frá næstliggjandi afurðastöð/afurðastöðvum sem sinnt geta þeirri eftirspurn. Framleiðsluráð metur þann flutningskostnað sem um ræðir og skal fara eftir auglýstum töxtum, tilboðum eða öðrum þeim gögnum sem réttust verða talin.

3. Rekstrarstyrkur skal þó aldrei nema hærri upphæð en framreiknuð verðmiðlun skv. lánskjaravísitölu til viðkomandi afurðastöðvar fyrir árið 1993.

4. Fari samanlögð styrkþörf þeirra afurðastöðva, sem Framleiðsluráð metur styrkhæfar, fram úr því fé sem til ráðstöfunar er, skal lækka styrkina hlutfallslega miðað við reiknað hámark í 2. og 3. tl. þessarar greinar.

5. Greiða skal 80% af þeim rekstrarstyrk sem landbúnaðarráðherra samþykkir til hverrar afurðastöðvar með jöfnum, mánaðarlegum greiðslum frá maí til desember, en ljúka uppgjöri, þegar ársreikningur hefur verið lagður fram, enda sé hann í samræmi við skilyrði í 1. tl. þessarar greinar. Þar til styrktarupphæð hefur verið ákveðin er Framleiðsluráði heimilt að greiða samkvæmt áætlun.

4. gr.

Jöfnun flutningskostnaðar.

Reikna skal hámark flutningsjöfnunar frá framleiðendum til afurðastöðva á eftirfarandi hátt:

1. Fundinn skal meðalkostnaður á hvern lítra við flutning mjólkur að hverri afurðastöð á árinu að frádregnum tekjum vegna annarra flutninga eða þjónustu.

2. Flutningsstyrkur skal því aðeins greiddur að kostnaður á hvern lítra sé meira en 20% yfir meðalflutningskostnaði á landinu. Greiða skal að hámarki 80% af þeim kostnaði sem er umfram 120% af meðalflutningskostnaði á hvern lítra.

3. Fari útreiknuð styrkþörf samkvæmt þessari grein fram úr ráðstöfunarfé eftir skiptingu samkvæmt 2. gr. skal lækka styrkina hlutfallslega jafnt til allra búa.

5. gr.

Styrkir til flutninga milli afurðastöðva.

Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði skulu samkvæmt verkaskiptasamningi meta þörfina fyrir flutninga á hráefni og á tilteknum dagvörum (nýmjólk, léttmjólk, undanrenna, súrmjólk, rjómi og skyr) milli svæða. Flutningar skulu því aðeins styrktir að þeir séu liður í verkaskiptingu milli afurðastöðva sem eykur hagkvæmni mjólkurvinnslunnar í heild.

Ávallt skal leitast við að flutningar séu með sem hagkvæmustum hætti og skulu styrkir miðast við fasta fjárhæð í hvert verkefni. Framleiðsluráð landbúnaðarins ynnir greiðslur af hendi eftir áætlun sem staðfest er af SAM.

Þær afurðastöðvar sem sækja um styrk skulu gera áætlun um vörumagn og tímabil sem millisvæðaflutningar ná yfir.

Heimilt er að greiða sérstaka flutningastyrki samkvæmt samningi til afurðastöðva, sem hafa yfirtekið viðskipti á framleiðslu- og sölusvæðum, þar sem rekstur mjólkurbúa er lagður af.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt heimild í 27. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Landbúnaðarráðuneytið, 3. mars 1994.

Halldór Blöndal.

Jón Höskuldsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica