Landbúnaðarráðuneyti

509/2004

Reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins. - Brottfallin

I. KAFLI
Tilgangur og gildissvið.
1. gr.

Tilgangur reglugerðar þessarar er að hindra að sjúkdómar berist til landsins með innfluttum sláturafurðum, eggjum, mjólkurafurðum og öðrum vörum sem reglugerðin tekur til. Jafnframt að koma í veg fyrir að fluttar verði til landsins hráar afurðir dýra sem fengið hafa vaxtaraukandi efni á eldisskeiðinu.


2. gr.

Reglugerðin gildir um innflutning á hvers konar afurðum dýra og öðrum vörum, sem smitefni geta borist með er valda sjúkdómum í dýrum og mönnum.


II. KAFLI
Varnir gegn dýrasjúkdómum.
3. gr.

Eftirtaldar afurðir dýra og vörur sem geta borið með sér smitefni er valda sjúkdómum í dýrum og mönnum er óheimilt að flytja til landsins samanber þó nánari útlistun í IV. kafla:

a. Hrátt kjöt, unnið sem óunnið, svo og innmat og sláturúrgang.
b. Dýrafóður sem inniheldur:
1. Sjálfdauð dýr, þ. á m. dauðfædd og ófædd dýr (dýrafóstur).
2. Dýr sem slátrað hefur verið vegna útrýmingar dýrasjúkdóma.
3. Dýraúrgang þ. á m. blóð úr dýrum sem við kjötskoðun eru dæmd óhæf vegna smitsjúkdóma.
4. Þá hluta dýra sem slátrað er með eðlilegum hætti, en koma ekki til kjötskoðunar. Þetta gildir þó ekki umhúðir, skinn,blóð og svipaðar afurðir.
5. Kjöt, alifuglakjöt, fisk, villibráð og matvæli gerð úr dýraafurðum sem hafa orðið fyrir skemmdum.
6. Dýr, ferskt kjöt og alifuglakjöt, fisk, villibráð, kjöt- og mjólkurafurðir sem almennt myndu ekki standast kröfur dýralæknayfirvalda til innflutnings.
7. Dýraafurðir og dýraúrgang sem inniheldur leifar af aðskotaefnum sem eru hættuleg mönnum og dýrum.
8. Fisk eða fiskúrgang sem dæmdur hefur verið óhæfur til manneldis vegna smitsjúkdóma.
9. Afurðir úr áhættusömum dýravefjum, svo sem mænum, heilum, hausum og milti úr nautgripum og sauðfé.
10. Afurðir sem mengast hafa eftir hitameðferð.
c. Kjötmjöl, beinamjöl og fóðurvörur unnar úr afurðum eða úrgangi spendýra og fugla.
d. Ull, notaða poka eða aðrar umbúðir, fiður, fjaðrir, dún, stráteppi, strákörfur, og óunnið dýrahár. Undanþegin eru sótthreinsuð hrá skinn, húðir, veiðiminjar og dauð dýr/fuglar sem ætlunin er að stoppa upp enda fylgi vottorð um fullnægjandi sótthreinsun að mati yfirdýralæknis.
e. Ómeðhöndluð egg, eggjaskurn og eggjaafurðir.
f. Ógerilsneydda mjólk og mjólkurafurðir unnar úr ógerilsneyddri mjólk.
g. Hey, hálm, alidýraáburð, gróðurmold, mó og rotmassa, blandað alidýraáburði.
h. Blóð, sermi og aðrar lífrænar vörur úr dýraríkinu, þ.m.t. sýklar, veirur, blóð-, blóðvatns-, frumu-, vefja- og dýraeggjahvítusýni.
i. Notuð reiðtygi og ósótthreinsuð reiðföt, óhreinan fatnað og tuskur svo og búnað sem notaður hefur verið til geymslu og flutninga á dýrum og dýraafurðum.
j. Notaðar landbúnaðarvélar og áhöld, þar með taldar hestakerrur og önnur tæki sem notuð hafa verið í landbúnaði.
k. Notaðan veiðibúnað til stangveiði, nema að undangenginni sótthreinsun.


III. KAFLI
Matvæli og gæludýrafóður.
4. gr.
Soðin eða unnin matvæli.

Innfluttum matvælum sem flokkast í vöruliði 0210, 0401-0408, 1601 og 1602, og eftirfarandi tollaflokka sem innihalda kjöt 1901-2023, 1901-2043, 1902-2021, 1902-2022, 1902-2029, 1902-2041, 1902-2042, 1902-2049, 1902-3021, 1902-3029, 1902-3041, 1902-3049, 1902-4021, 1902-4029, 1904-3001, 1904-9001, 1905-9051, 2004-9006, 2005-9001, 2103-9051, 2103-9052, 2103-9059, 2106-9064, í tollskrá, sbr. viðauka I við tollalög nr. 55/1987, sem hlotið hafa fullnægjandi hitameðferð, skulu fylgja þau vottorð sem hér greinir eftir því sem við á:

a. Opinbert uppruna- og heilbrigðisvottorð.
b. Soðnum sláturafurðum og matvælum, sem ekki eru niðursoðin, fylgi opinbert vottorð, sem staðfestir að varan hafi hlotið hitameðferð, þannig að kjarnhiti hafi náð 72°C í 15 sekúndur, sé það ekki staðfest í uppruna- eða heilbrigðisvottorði, sbr. a-lið, eða hafi hlotið sambærilega meðferð að mati yfirdýralæknis.
c. Mjólk og mjólkurafurðum fylgi opinbert vottorð sem staðfestir að varan sé gerilsneydd eða unnin úr gerilsneyddri mjólk, sé það ekki staðfest í uppruna- og heilbrigðisvottorði, sbr. a-lið, eða hafi hlotið sambærilega meðferð að mati yfirdýralæknis.
d. Eggjum og eggjaafurðum fylgi opinbert vottorð sem staðfestir að varan hafi verið hituð í 65°C í fimm mínútur, sé það ekki staðfest í uppruna- og heilbrigðisvottorði, sbr. a-lið, eða hafi hlotið sambærilega meðferð að mati yfirdýralæknis.
e. Opinbert vottorð sem staðfestir að afurðir séu unnar í afurða-/vinnslustöðvum, viðurkenndum af Evrópusambandinu, aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða bandarískum yfirvöldum, til útflutnings og/eða sölu innan þessara ríkjasambanda.


5. gr.
Hrá matvæli.

Innfluttum matvælum sem flokkast undir vöruliði 0202, 0203, 0204, 0207, 0208, 0210 og 1602 sbr. viðauka I við tollalög nr. 55/1987, og hafa ekki hlotið fullnægjandi hitameðferð, skulu fylgja þau vottorð sem hér greinir:

a. Opinbert uppruna- og heilbrigðisvottorð.
b. Opinbert vottorð sem staðfestir að dýrum, sem afurðirnar eru af, hafi ekki verið gefin vaxtarhvetjandi efni á eldistímanum.
c. Vottorð sem staðfestir að vörurnar hafi verið geymdar við a.m.k. -18°C í einn mánuð fyrir tollafgreiðslu.
d. Opinbert vottorð sem staðfestir að dýrunum, sem afurðirnar eru af, hafi verið slátrað í sláturhúsum og afurðirnar unnar í vinnslustöðvum, viðurkenndum af Evrópusambandinu, aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða bandarískum stjórnvöldum, til útflutnings og/eða sölu innan þessara ríkjasambanda.
e. Opinbert vottorð sem staðfestir að afurðirnar séu lausar við salmonellusýkla.
f. Slátur- og mjólkurafurðir og egg skulu uppfylla ákvæði gildandi reglugerðar um aðskotaefni í matvælum.
g. Varan skal merkt í samræmi við gildandi reglur um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla.


6. gr.
Gæludýrafóður.

Leyfður er innflutningur á gæludýrafóðri sem meðhöndlað hefur verið á eftirfarandi hátt og staðfesting þess efnis kemur fram á viðskiptayfirlýsingu (commercial document) frá EES svæðinu eða vottorði sem ESB viðurkennir þegar um 3ju ríki er að ræða:

a. nagbein úr skinnum eða leðri hafi verið hituð nægilega til að drepa smitandi lífverur (þ.m.t. salmonellu),
b. niðursoðið fóður hafi verið hitað að lágmarki 3.0 í Fc gildi í loftþéttum umbúðum,
c. mjólkurvörur hafi verið gerilsneyddar.
d. annað gæludýrafóður en nefnt er hér að ofan hafi verið hitað upp í kjarnahita a.m.k. 90°C.

Aðfangaeftirlitið fer með eftirlit með ofangreindum staðfestingum og skal innflytjandi leggja þær fram ásamt öðrum skjölum sem krafist er samkvæmt reglugerð nr. 340/2001 um eftirlit með fóðri.


IV. KAFLI
Almenn ákvæði um innflutning.
7. gr.
Innflutningsleyfi.

Landbúnaðarráðherra er heimilt, að fenginni umsögn yfirdýralæknis, að leyfa innflutning á vörum, sem taldar eru upp í 3. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum, enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim er valda sjúkdómum í dýrum og mönnum og þau skilyrði sem sett hafa verið fyrir innflutningnum séu uppfyllt sjá þó 8. gr.

Þegar sótt er um innflutning á hrárri eða ósótthreinsaðri vöru skv. 1. mgr. í fyrsta sinn skal innflytjandi láta landbúnaðarráðuneytinu í té nauðsynlegar upplýsingar um vöruna til athugunar og samþykkis áður en varan er send frá útflutningslandi.

Innflytjandi hrárrar vöru skal alltaf sækja um leyfi til landbúnaðarráðherra og leggja fram, til umsagnar embættis yfirdýralæknis, aðflutningsskýrslu, upplýsingar um uppruna- og framleiðsluland vörunnar, tegund vöru og framleiðanda auk tilskilinna vottorða skv. 5. gr.

Innflytjandi hitameðhöndlaðrar vöru skal alltaf leggja fram, til umsagnar embættis yfirdýralæknis, aðflutningskýrslu, uppruna- og heilbrigðisvottorð ásamt vottorði skv. e-lið 4. gr., auk annarra tilskilinna vottorða skv. b-, c-, og eða d-lið 4. gr.

Innflytjandi gæludýrafóðurs skal alltaf þegar að innflutningur á sér stað leggja fram hjá Aðfangeftirlitinu staðfestingu skv. 6. gr.


8. gr.
Innflutningur notaðra landbúnaðartækja.

Innflytjandi notaðra landbúnaðarvéla og áhalda, þar með taldra hestakerra og annarra tækja sem notuð hafa verið í landbúnaði sbr. j. lið 3. gr. skal alltaf sækja um innflutningsleyfi til landbúnaðarráðherra og skal hann hafa aflað slíks leyfis áður en viðkomandi vörur eru sendar frá útflutningslandi.

Landbúnaðarráðherra getur heimilað innflutning á tækjum sbr. 1. mgr. að fengnum meðmælum yfirdýralæknis enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim sem valdið geta dýrasjúkdómum. Með umsókn um leyfi til innflutnings skal leggja fram til umsagnar yfirdýralæknis upplýsingar um uppruna- og framleiðsluland, tegund, framleiðanda, ásamt opinberu dýralæknisvottorðið um að fullnægjandi hreinsun og sótthreinsun hafi farið fram í útflutningslandi.


9. gr.
Ábyrgð innflytjanda.

Innflytjandi vöru skal sjá til þess að öll nauðsynleg vottorð fylgi vörunni við innflutning og ber hann allan kostnað sem kann að leiða af öflun vottorða og þeim sóttvarnarráðstöfunum sem uppfylla þarf vegna innflutningsins, þ.m.t. nauðsynlegri sýnatöku og rannsóknum sem yfirdýralæknir telur nauðsynlegar.


10. gr.
Alþjóðlegt áhættumat.

Meðmæli yfirdýralæknis varðandi sjúkdómavarnir skulu byggjast á áhættumati, sem m.a. tekur mið af listum OIE (Alþjóða heilbrigðismálastofnun dýra) varðandi A og B sjúkdóma og annarra alþjóðlegra staðla og leiðbeininga. Um framkvæmd þessarar greinar fer eftir ákvæðum samingsins um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.


V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
11. gr.
Ferðamenn með matvæli.

Ferðamenn sem koma með soðin matvæli, þar sem staðfest er á umbúðum, að varan hafi hlotið hitameðferð, eins og áskilið er í b- og c-lið 4. gr., þurfa ekki að framvísa sérstökum vottorðum.

Yfirdýralæknir getur gefið út lista yfir soðin eða unnin matvæli sem sannanlega uppfylla skilyrði til innflutnings vegna fullnægjandi hitameðferðar eða sambærilegrar meðferðar, en bera hins vegar ekki með sér merki um slíka meðferð á umbúðum framleiðanda. Skal þá slíkur listi liggja frammi hjá tollayfirvöldum og vera aðgengilegur á heimasíðu embættis yfirdýralæknis.


12. gr.
Sláturafurðir sem berast með skipum og flugvélum.

Stjórnendur skipa og flugvéla sem koma til landsins með matarleifar sem í eru sláturafurðir skulu sjá til þess að þær séu losaðar í sérstaka lekahelda sorpgáma og síðan eytt samkvæmt fyrirmælum yfirdýralæknis. Sláturafurðir sem fluttar eru inn án heimildar skal brenna eða eyða á annan tryggilegan hátt.


13. gr.
Umflutningur.

Landbúnaðarráðherra getur heimilað umflutning á vörum þeim sem taldar eru upp í 3. gr. enda sé varan flutt úr landi á ný. Skilyrði fyrir slíku leyfi er að varan sé flutt í vandlega lokuðum umbúðum, þar sem innihald er tilgreint og sendingunni fylgi uppruna- og heilbrigðisvottorð, sbr. a-liði 4. og 5. gr.


14. gr.
Viðurlög.

Brot á ákvæðum reglugerðarinnar varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.


15. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim nr. 25/1993, með síðari breytingum, lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr nr. 66/1998, með síðari breytingum, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993, með síðari breytingum. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins nr. 416/2002. Reglugerðin tekur þegar gildi.


Landbúnaðarráðuneytinu, 9. júní 2004.

F. h. r.
Guðmundur B. Helgason.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica