Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 15. júní 2006

343/2004

Reglugerð um viðarumbúðir vara við útflutning.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að þær viðarumbúðir sem notaðar eru við útflutning á vörum frá Íslandi uppfylli kröfur innflutningslands.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi nær yfir viðarumbúðir s.s. vörubretti, trékassa og annan trjávið sem notaður er til að bera, styðja við eða verja vörur í flutningi þeirra á áfangastað. Undanskildar eru umbúðir sem að öllu leyti eru unnar úr trjáviði sem mótaður er með límingu, hitun og pressun s.s. krossviður, spónaplötur, spónn o.fl. Einnig eru undanskildar viðarafurðir eins og sag, tréhálmur, hefilspænir og kurl undir 6 mm á þykkt.

3. gr. Vottun fyrirtækja.

Fyrirtæki sem óska eftir að hljóta vottun til framleiðslu eða meðhöndlunar á viðarumbúðum til útflutnings skulu sækja um það til Landbúnaðarstofnun. Í umsókninni skal koma fram hvort fyrirtækið hyggist sjálft meðhöndla umbúðirnar á þann hátt sem krafist er, skv. 4. gr. eða framleiða umbúðirnar úr trjáviði sem meðhöndlaður hefur verið á viðurkenndan hátt. Í umsókninni skal lýsa aðstöðu fyrirtækisins til hitameðhöndlunar, afkastagetu og hvernig tryggja megi skýra aðgreiningu á meðhöndluðum og ómeðhöndluðum umbúðum.

Tilgreina skal einn ábyrgðarmann innan hvers fyrirtækis sem tryggja skal að farið sé eftir ákvæðum reglugerðarinnar. Sé farið fram á það skal umsækjandi geta framvísað sönnun þess að umrædd meðhöndlun hafi átt sér stað s.s. með útprentun á hitasírita, vottorði frá erlendum plöntueftirlitsaðila og vörureikningum eða viðurkenndri merkingu á trjávöru.

Vottun er veitt til eins til þriggja ára í senn.

4. gr. Viðurkennd meðhöndlun.

Einungis er heimilt að nota trjávið án barkar í umbúðir til útflutnings. Hita þarf umbúðirnar eða þann við er nota á til framleiðslu þeirra þannig að hitinn í innsta kjarna nái að lágmarki 56°C og haldist þannig í minnst 30 mínútur.

Varðandi innfluttan við sem nota á í umbúðir er auk hitameðhöndlunar einnig hægt að viðurkenna svælingu með metylbrómíði í þeim löndum þar sem það er leyft ef það er gert í samræmi við þær leiðbeiningar sem lýst er í viðauka I við hinn alþjóðlega staðal ISPM nr. 15, sbr. 8. gr. Einnig er hægt að viðurkenna aðrar aðferðir sé það staðfest af plöntueftirliti innflutningslandsins að sú aðferð sé fullnægjandi.

Séu bretti eða aðrar viðarumbúðir, sem meðhöndlaðar hafa verið í samræmi við 1. og 2. mgr., lagfærðar með því að bæta inn nýjum ómeðhöndluðum viðarhlutum skal meðhöndla allar umbúðirnar á ný og merkja.

5. gr. Merking

Viðarumbúðir sem hlotið hafa þá meðferð sem tilgreind er í 4. gr., skulu merktar með eftirfarandi merki:

Merking viðarumbúða

Táknið vinstra megin í merkinu er tákn hins alþjóðlega sáttmála um plöntuvernd IPPC: "International Plant Protection Convention".

IS-00: Tveggja stafa ISO tákn fyrir Ísland ásamt útdeildu númeri hins vottaða fyrirtækis.
HT: Hitameðhöndlun ("Heat Treatment") í 56°C í kjarna viðar í 30 mínútur.
DB: Barkarfrítt ("Debarked").

Önnur tákn í neðri línu merkisins gætu verið: KD: Ofnþurrkað ("Kiln Dried") eða MB: metýlbrómíð-meðhöndlað.

Merkið skal setja á tvær gagnstæðar hliðar umbúðanna með brennimerki, stimplun, málun eða sprautun. Nota skal vatnshelda málningu í öðrum litum en rauðum og rauðgulum. Merkið skal vera vel læsilegt.

6. gr. Eftirlit.

Landbúnaðarstofnun hefur eftirlit með að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt. Fyrirtæki sem vottun hafa hlotið skulu framvísa til plöntueftirlitsins upplýsingum um viðskipti með viðarumbúðir eða trjávöru til framleiðslu þeirra sé þess óskað ásamt upplýsingum um hitameðhöndlun.

Skylt er að tilkynna plöntueftirlitinu verði breytingar á aðstöðu fyrirtækisins og möguleikum til að meðhöndla umbúðirnar á fullnægjandi hátt.

Einungis þeim sem hlotið hafa vottun Landbúnaðarstofnun, sbr. 3. gr. er heimilt að merkja viðarumbúðir sínar í samræmi við ákvæði 5. gr.

7. gr. Afturköllun vottunar.

Plöntueftirlitið getur afturkallað vottun sé ekki farið að reglum um hitameðhöndlun og merkingar og þess eigi gætt að vel sé aðgreint milli meðhöndlaðra og ómeðhöndlaðra umbúða. Slíkri ákvörðun má skjóta til úrskurðar landbúnaðarráðuneytisins.

8. gr.

Plöntueftirlitið innheimtir gjald fyrir vottun til framleiðslu og meðhöndlunar á viðarumbúðum til útflutnings, viði til umbúðagerðar og vegna kostnaðar við eftirlit með að ákvæðum reglugerðar þessarar sé fylgt.

Óski útflytjendur eftir sérstöku heilbrigðisvottorði með einstökum sendingum af viðarumbúðum er innheimt sérstakt gjald fyrir hvert útgefið vottorð. Skal gjöldum varið til þess að standa undir kostnaði plöntueftirlitsins við framkvæmd reglugerðar þessarar.

Landbúnaðarráðherra setur gjaldskrá að fengnum tillögum plöntueftirlitsins sem birta skal í B-deild Stjórnartíðinda vegna innheimtu þeirra gjalda sem mælt er fyrir um í reglugerð þessari. Landbúnaðarráðuneytið sker úr ágreiningi um gjaldskyldu ef upp kemur.

9. gr. Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 2. og 3. greinar laga nr. 51/1981 um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum. Stuðst er við hinn alþjóðlega plöntuverndarstaðal ISPM nr. 15 er gefinn var út á vegum FAO í mars árið 2002, "Guidelines for regulating wood packaging material in international trade".

Reglugerðin tekur þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.