Landbúnaðarráðuneyti

1011/2003

Reglugerð um búnað og innra eftirlit í fiskeldisstöðvum. - Brottfallin

Felld brott með:

I. KAFLI
Gildissvið og skilgreiningar.
1. gr.

Reglugerð þessi nær til ferskvatnsfiska sem nytjaðir eru eða kunna að vera nytjaðir á íslensku landgrunni eða á landi með eldi.


2. gr.

Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér segir:

1. Botntóg; tóg í neðsta hluta netpoka sem tengir hliðar og botn saman.
2. Dauðfiskaháfur; háfur sem er hafður á botni netpokans og safnar dauðum fiski.
3. Eldiseining; kví eða eldisker eða þyrping samfastra eða mjög nálægra kvía.
4. Eldisker; ker með rennandi sjó, ferskvatni eða ísöltu vatni þar sem í eru alin eldisdýr.
5. Eldisstöð; starfsstöð í fiskeldi, rekin sem ein heild. Eldisstöð hefur að lágmarki eina eldiseiningu.
6. Festingar; samanstanda af tógi, keðjum, lásum, kósum, lásaplötum og ankerum. Festingar ganga frá floteiningu og niður í botn og halda kvínni á ákveðnum stað.
7. Floteining; sá hluti kvíar sem heldur einingunni á floti.
8. Heilmöskvi; innanmál möskva að viðbættum einum hnút (eða tveimur hálfum).
9. Hjálparbúnaður; fóðrarar, dauðfiskaháfur, ljós og búnaður sjókvíaeldisstöðvar annar en eldiseining og festingar.
10. Hoppnet; net fest ofan á sjólínutóg netpoka.
11. Leggur; hliðar möskva á milli hnúta eða samskeyta. Hver möskvi hefur fjóra leggi.
12. Leysisgarn; garn sem notað er til að sauma saman net í netpoka og til að sauma tóg á netpokana.
13. Lóðrétt tóg (lóðrétt styrktarlína); tóg sem saumað er á pokann lóðrétt frá toppi og niður að botni, til styrkingar á pokanum.
14. Kennialda; er skilgreind sem meðaltal af hæsta þriðjungi af öllum öldum.
15. Kví; netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir undir yfirborði sjávar.
16. Kvíaþyrping; þyrping samfastra eða mjög nálægra kvía.
17. Krosstóg; tóg sem er í framhaldi af lóðrétta tóginu til að styrkja botn netpoka.
18. Netpoki; poki úr næloni eða öðrum efnum sem hleypir vatni í gegnum sig.
19. Netþak; það er lagt ofan á hefðbundinn netpoka og lokar þannig pokanum t.d. í sökkvanlegum kvíum.
20. Sjólínutóg; tóg sem saumað er lárétt ofan á netpokann allan hringinn við sjólínu.
21. Sjókvíaeldi; eldi fisks sem fer fram í kvíum í sjó eða í ísöltu vatni.
22. Sjókvíaeldisstöð; starfsstöð rekin sem ein heild. Getur verið hefðbundin sjókví, sökkvanleg kví eða fljótandi lokuð sjókví með sjódælingu.
23. Teygjanleiki; táknar þann eiginleika garnsins að styttast eftir að teygt hefur verið á því með átaki.
24. Topptóg; tóg efst á hoppneti.
25. Útskilnaðartími; sá tími sem tekur að losa lyf úr holdi fisks eftir lyfjagjöf.
26. ½ möskvi; helmingur af heilmöskva.


II. KAFLI
Framleiðsludagbók.
3. gr.

Í hverri eldisstöð skal haldin sérstök framleiðsludagbók í formi sem veiðimálastjóri gefur út. Heimilt er að færa framleiðsludagbækur á rafrænan hátt enda sé til þess notað forrit sem hlotið hefur samþykki veiðimálastjóra og skráning sé gerð samkvæmt leiðbeiningum veiðimálastjóra. Skal gerð krafa um að unnt sé að rekja allar breytingar sem kunna að verða gerðar á skráningum. Þá getur veiðimálastjóri m.a. gert kröfu um að byggt sé á tilteknum stöðlum.

Þær upplýsingar sem skráðar eru í framleiðsludagbók skal veiðimálastjóra vera heimilt að nota sem eftirlitsgögn og skal eftirlitsmönnum veiðimálastjóra heimill aðgangur að framleiðsludagbókunum. Forsvarsmenn einstakra eldisstöðva eru ábyrgir fyrir færslu bókanna, þ.m.t. að þær séu færðar eins og mælt er fyrir um í viðauka 1. Jafnframt skulu þeir veita aðstoð við að sannreyna upplýsingar sem færðar hafa verið í framleiðsludagbækur.


III. KAFLI
Slysasleppingar.
4. gr.

Óheimilt er að sleppa laxfiskum úr eldiseiningu eða eldisstöð nema með leyfi veiðimálastjóra. Leyfishafa er skylt að viðhafa varúðarráðstafanir til að hindra slysasleppingar vegna eldis eða flutnings á fiski og í eldisstöð skal vera áætlun um aðgerðir til að endurheimta fisk sem sleppur.

Leyfishafi skal sjá til þess að viðbragðsáætlun (viðauki 2) vegna slysasleppingar sé staðsett á eldissvæðinu og kynna starfsmönnum hana. Viðbragðsáætlun vegna slysasleppingar skal innihalda leiðbeiningar um:

a) Hvernig tilkynna skal um slysasleppingu.
b) Hvernig endurheimta skal fisk sem sleppur.
c) Hvernig hindra skal áframhaldandi slysasleppingar.


IV. KAFLI
Búnaður og viðhald sjókvíaeldisstöðvar.
5. gr.

Allur búnaður svo og efni og fyrirkomulag í eldisstöðinni skal vera hannað, smíðað, sett saman, vaktað og haldið við á þann hátt að komið sé í veg fyrir slysasleppingar.

Sjókvíar sem teknar eru í notkun eftir 1. janúar 2004 skulu hafa staðfestingu frá úttektaraðila sem viðurkenndur er af embætti veiðimálastjóra um að búnaðurinn sé hannaður og hafi vottorð um að hann þoli hámarksstraumhraða, ölduhæð og vindstyrk sem vænta má á viðkomandi eldissvæði (viðauki 3).

Fyrir allar sjókvíar og annan búnað sjókvíaeldisstöðvar skal vera til staðar notkunar- og viðhaldshandbók.


6. gr.

Sjóeldiskvíar skulu vera merktar þannig að jaðar eldissvæðis skal afmarka með blikkljósum í samræmi við sérmerkingar Alþjóðavitastofnunarinnar. Ljóseinkenni: Gult leiftur á 3–5 sekúndna bili. Dagmerkingar skulu vera gul flot sem afmarka eldissvæðið. Landfræðileg hnit útmarka eldissvæðis, að legufærum meðtöldum, ásamt gerð merkinga skal tilkynna Siglingastofnun Íslands sem er umsagnaraðili um merkingar mannvirkja á sjó.


7. gr.

Leyfishafi skal vakta, meta og viðhalda eldiseiningum ásamt öðrum búnaði sem tilheyrir eldinu til að hindra slysasleppingar og til að uppgötva og koma tímanlega í veg fyrir að fiskur sleppi.


8. gr.

Skrá skal allt fyrirbyggjandi viðhald og fyrir hvern netpoka skal vera til staðar ferilskráning samkvæmt viðauka 4. Að lágmarki á 20 mánaða fresti skal hreinsa og yfirfara netpoka.


9. gr.

Bátar, sem notaðir eru við daglegan rekstur sjókvíaeldisstöðva skulu vera útbúnir með hlíf/leiðara fyrir skrúfu til að koma í veg fyrir að skrúfublöðin rífi gat á netpokann.


V. KAFLI
Gæðastjórnun fyrir sjókvíaeldisstöðvar.
10. gr.

Innra eftirliti skal komið á í eldisstöðvum sem hefur það að markmiði að koma í veg fyrir slysasleppingar með því að;

a. Koma á fyrirbyggjandi aðgerðum í formi verklagsreglna (viðauki 6), viðhaldsáætlana og þjálfunar starfsmanna (viðauki 7).
b. Koma á virku eftirliti þar sem fram kemur hvað á að vakta, hver á að annast vöktunina, hvenær vöktunin fer fram og hvernig vöktunin er framkvæmd. Við útfærslu á eftirlitinu skal fylgt leiðbeiningum í viðaukum 4 og 5.
c. Skilgreina viðmiðanir fyrir þau eftirlitsatriði sem eru vöktuð.
d. Skilgreina hver er ábyrgur fyrir framkvæmd úrbóta og lýsa aðferðum og aðgerðum sem nauðsynlegar teljast til að leiðrétta frávikið.
e. Skrá allt eftirlit, úrbætur og viðhald, sem tengist innra eftirliti eldisstöðvar og geyma í minnst fimm ár. Allar skráningar skulu dagsettar og undirritaðar af eftirlitsaðila.
f. Sannprófa innra eftirlit eldisstöðvar til að tryggja að það komi að tilætluðum notum (viðauki 8).


11. gr.

Fyrir hvert eldissvæði skal gera áhættumat og meta líkur á að afræningjar, lagnaðarís, rekís, hafís og ísing geti valdið tjóni á búnaði. Ef líkur eru taldar á því skal koma á innra eftirliti skv. 10. gr.


12. gr.

Rekstrarleyfishafi skal gefa út yfirlýsingu um að hann hafi yfirfarið og samþykkt innra eftirlit eldisstöðvar. Veiðimálastjóri skal fara yfir og samþykkja innra eftirlit eldisstöðvar sem byggir á kröfum 10. gr. þessarar reglugerðar.


VI. KAFLI
Búnaður, viðhald og gæðastjórnun fyrir
land- og seiðaeldisstöðvar og sláturaðstöðu.
13. gr.

Í landeldis- og seiðaeldisstöðvum skal hindra slysasleppingar með því að koma fyrir búnaði í frárennsli sem tryggir að fiskur sleppi ekki út úr eldisstöð. Í rekstrarleyfi eldisstöðvar skal vera skilgreining á búnaði til að fanga fisk sem sleppur úr eldiseiningu og um viðhald og eftirlit með búnaðinum.


VII. KAFLI
Flutningur og geymsla á eldisfiski utan eldisstöðva.
14. gr.

Tæki sem notuð eru til flutnings á lifandi eldisfiskum skulu vera þannig gerð að auðvelt sé að þrífa þau og sóttthreinsa og skulu þau hreinsuð og ef með þarf sótthreinsuð fyrir flutning. Ef vatn er notað í landflutningum skulu flutningatækin þannig úr garði gerð að vatn geti ekki lekið út meðan á flutningunum stendur.

Flutning á lifandi eldisfiski á sjó eða vatni skal tilkynna embætti veiðimálastjóra sem hefur eftirlit með flutningnum og gætir þess að flutningurinn sé í samræmi við lög og stjórnvaldsreglur. Veiðimálastjóri skal setja nánari reglur um tilkynningaskyldu og flutning á lifandi eldisfiski.

Flutningsaðili skal útbúa verklagsreglur þar sem fram kemur lýsing á búnaði sem notaður er til flutnings, framkvæmdinni lýst skref fyrir skref og hver ber ábyrgð á einstökum verkþáttum og réttum viðbrögðum ef eitthvað fer úrskeiðis.

Óheimilt er að losa eldisfisk af flutningatæki í sjókvíar eða aðrar geymslueiningar í sjó nema um sé að ræða flutning í eldisstöð sem hlotið hefur rekstrarleyfi veiðimálastjóra og úttekt hafi farið fram á eldisstöðinni i samræmi við 62. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði með síðari breytingum.

Þá er óheimilt að draga sjókvíar með eldisfiski út fyrir starfssvæði eldisstöðvar.


15. gr.

Óheimilt er að geyma eldisfisk í sjókvíum eða öðrum geymslueiningum í sjó sem ekki eru hluti af eldisstöð samkvæmt 62. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði með síðari breytingum.


VIII. KAFLI
Eftirlit.
16. gr.

Veiðimálastjóri hefur eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar og að uppfyllt séu skilyrði sem fram koma í ákvæðum hennar, sbr. 97. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði með síðari breytingum. Veiðimálastjóra er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu að annast framkvæmd eftirlitsins samkvæmt sérstökum samningi en eftirlitið skal þá framkvæmt á vegum veiðimálastjóra og eftir þeim reglum sem hann setur. Veiðimálastjóri setur nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins.


IX. KAFLI
Viðurlög o.fl.
17. gr.

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 76/1970 með síðari breytingum. Um mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.


18. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.

Allir bátar sem notaðir eru við daglegan rekstur sjókvíaeldisstöðva skulu uppfylla skilyrði 9. gr. fyrir 1. júní 2004.

II.

Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á að komið sé á innra eftirliti samkvæmt 10. gr. fyrir 1. júní 2004.


Landbúnaðarráðuneytinu, 29. desember 2003.

F. h. r.
Guðmundur B. Helgason.
Sigríður Norðmann.


VIÐAUKI 1
Framleiðsludagbók.

1. Framleiðsludagbækur, sem ekki eru færðar á rafrænan hátt, skulu vera í tvíriti, innbundnar og með númeruðum síðum. Skal veiðimálastjóri hafa yfirlit yfir síðunúmer í bókum þeim sem ætlaðar eru til notkunar í hverri eldisstöð fyrir sig.

2.

Allt sem fært er í framleiðsludagbók skal vera skýrt og læsilegt með varanlegu letri. Ekki má eyða eða gera á annan hátt ólæsilegt það sem eitt sinn hefur verið í þær fært þótt fyrst hafi verið misfært af vangá. Þurfi að gera breytingu á færslu skal það gert með annarri færslu eða þannig að hin ranga færsla verði áfram vel læsileg að leiðréttingu lokinni.

3.

Heimilt er að færa framleiðsludagbækur á rafrænan hátt enda sé til þess notað forrit sem hlotið hefur samþykki veiðimálastjóra og skráning sé gerð samkvæmt leiðbeiningum veiðimálastjóra. Í rafrænar framleiðsludagbækur skal færa allar upplýsingar sem kveðið er á um í reglugerð þessari. Skal vera unnt að rekja allar breytingar sem kunna að verða gerðar á skráningum. Þá getur veiðimálastjóri m.a. gert kröfu um að byggt sé á tilteknum stöðlum.

4.

Skrá skal eftirfarandi upplýsingar í framleiðsludagbækur:
a. Nafn eldisstöðvar, númer rekstrarleyfis og staðsetningu.
b. Fjölda kvía eða kerja í notkun, ummál og dýpt.
c. Ef eldisfiskur er fluttur í eldisstöðina skal skrá:
I. fjölda einstaklinga,
II. meðallengd, meðalþyngd eða aldur eftir atvikum,
III. uppruna,
IV. flutningstæki.
d. Fjölda og þyngd dauðra fiska sem eru fjarlægðir úr kvíum eða kerjum.
e. Magn og gerð fóðurs sem gefið er.
f. Ef eldisfiskur er fluttur úr eldisstöð skal skrá:
I. fjölda einstaklinga,
II. meðallengd, meðalþyngd eða aldur eftir atvikum,
III. móttakanda,
IV. flutningstæki.
g. Þegar eldisfiski er slátrað skal skrá:
I. fjölda einstaklinga,
II. meðallengd, meðalþyngd eða aldur eftir atvikum,
III. slátrunarstað,
IV. vinnslustöð,
V. flutningstæki á slátrunarstað og/eða vinnslustöð.
h. Bólusetningar og lyfjagjöf.

5.

Að auki ber að færa í framleiðsludagbækur aðrar þær upplýsingar sem kveðið er á um í bókunum sjálfum.

6.

Allar færslur í framleiðsludagbækur skulu vera í samræmi við reglugerð þessa og leiðbeiningar í bókunum sjálfum.

7.

Skylt er að senda útfyllt og undirritað frumrit hverrar síðu framleiðsludagbóka til veiðimálastjóra innan tveggja vikna frá lokum hvers mánaðar.

8.

Skil á framleiðsludagbókum sem skráðar eru á rafrænan hátt skulu framkvæmd samkvæmt ákvörðun veiðimálastjóra.

9.

Framleiðsludagbækur skulu ávallt vera tiltækar í eldisstöð og skulu þær geymdar í a.m.k. tvö ár frá skilum frumrita til veiðimálastjóra.


VIÐAUKI 2
Slysasleppingar.


Fyrstu viðbrögð:

Ef slysaslepping hefur átt sér stað eða rökstuddur grunur leikur á um að fiskur hafi sloppið úr eldiseiningu eða eldisstöð skulu starfsmenn eldisstöðvar strax byrja að leita að orsökum og koma í veg fyrir að meira af fiski sleppi. Eins fljótt og mögulegt er skal hefja veiðar á fiski og tilkynna veiðimálastjóra um slysasleppingu, bæði munnlega og síðan skriflega á þar til gerðum eyðublöðum innan 12 klukkustunda í samræmi við leiðbeiningar á heimasíðu veiðimálastjóra (www.veidimalastjori.is).

Framkvæmd veiða: Samkvæmt lögum nr. 76/1970 um lax og silungsveiði með síðari breytingum er fiskeldisstöð sem missir út eldisfisk, þrátt fyrir friðun á villtum fiski á svæðinu, heimil veiði innan 200 metra frá stöðinni, enda sé það utan netlaga og veiðimálastjóra hafi verið tilkynnt um það. Heimild þessi takmarkast við þrjá sólahringa frá því að fiskur slapp út, ef þetta gerist á göngutíma laxfiska, og skal framkvæmd í samráði við fulltrúa veiðimálastjóra.

Skrifleg skýrsla til veiðimálastjóra: Leyfishafi skal innan viku frá slysasleppingu senda veiðimálastjóra skýrslu þar sem fram komi eftirtalin atriði:

a) Áætluð tímasetning og staðsetning slysasleppingar.
b) Fisktegund, meðalstærð og áætlaður fjöldi fiska sem slapp.
c) Upplýsingar um lyfjanotkun og útskilnaðartíma á eldisfiski sem slapp.
d) Uppruni fisksins, stofn og úr hvaða fiskeldisstöð fiskurinn kom.
e) Hvenær fiskurinn var tekinn inn í eldisstöðina.
f) Orsök eða líkleg orsök slysasleppingar.
g) Greinargerð um árangur af veiðum á eldisfiski sem slapp.
h) Greinargerð um til hvaða fyrirbyggjandi ráðstafana verði gripið svo koma megi í veg fyrir að meira af fiski sleppi.

Eyðublöð fyrir slysasleppingar skulu liggja frammi á skrifstofu veiðimálastjóra og einnig vera aðgengileg á heimasíðu veiðimálastjóra (www.veidimalastjori.is).


VIÐAUKI 3
Sjókvíaeldisstöð.

A – Hönnun og uppsetning á sjókvíaeldisstöð.
1. Áður en ákvörðun er tekin um val á sjókvíum skulu liggja fyrir upplýsingar um umhverfisaðstæður á fyrirhuguðu eldissvæði.
a. Reikna skal út hámarksvind, straum og ölduhæð á 25 ára og 50 ára tímabili með viðurkenndum aðferðum. Framkvæma skal eftirtaldar mælingar í eitt ár eða í minnsta lagi yfir 3 mánaða tímabil yfir vetrarmánuðina:
I. Straummælingar að lágmarki á hálfu dýpi netpokans.
II. Vindhraða á eldissvæðinu eða í næsta nágrenni.
III. Mælingar á ölduhæð á eldissvæðinu.
b. Meta skal líkur á ísingu, lagnaðarís og rekís.
c. Reikna skal út mun á flóði og fjöru ásamt stormflóði.
d. Meta skal líkur á hvort afræningjar finnast á svæðinu sem geta hugsanlega valdið tjóni á búnaði.
e. Afla skal gagna fyrir val á heppilegum sjókvíum og skal það framkvæmt af aðilum sem hafa þekkingu og færni til að framkvæma ofangreindar mælingar og útreikninga.

2.

Við val á sjókví skal liggja fyrir staðfesting frá viðurkenndum úttektaraðila á að búnaðurinn sé hannaður og prófaður fyrir aðstæður sem er að finna á viðkomandi eldisstað. Í því felst að búnaðurinn þoli hámarksstraumhraða, ölduhæð, vindstyrk og ísingu sem vænta má á eldissvæðinu.

3.

Með búnaðinum skal fylgja handbók, sem inniheldur upplýsingar um notkun og viðhald og ef búnaðurinn er ekki samsettur við afhendingu skulu einnig fylgja upplýsingar um samsetningu.

4.

Tryggja skal að botnfestingar skaðist ekki af grjóti og klettum á hafsbotni.

5.

Leyfishafi skal tryggja að við uppsetningu og frágang starfi aðili með nægilega þekkingu við uppsetningu á búnaðinum til að fyrirbyggja slysasleppingu. Sjókví og annar búnaður sem tilheyrir eldinu skal settur saman með það að markmiði að koma í veg fyrir flækjur og núning við netpoka eða hlífðarnet.

6.

Óheimilt er að festa fóðurpramma eða annan þungan búnað við sjókví, sem getur skemmt eða sökkt henni.

B – Hönnun, uppsetning og slitþol á netpoka.
1. Efni í netpokanum:
a. Skal vera úr næloni (polyamíð 6 og 6.6) eða úr öðrum sambærilegum efnum.
b. Við val á efni skal miðað við að það togni að lágmarki um 8% af upphaflegri lengd áður en það slitnar og teygjanleiki sé að lágmarki 4%. Það er þó heimilt að fara út fyrir þessi viðmiðunarmörk ef hægt er að sýna fram á með tilraunum að efnið henti betur í netpoka en nælon.

2.

Styrkur efnis í netpokanum:
a. Styrkur netpoka skal valinn eftir aðstæðum á eldisstað. Kröfum um styrkleika netpoka er skipt í þrjá flokka eftir eldisaðstæðum:
I. Kennialda sem nemur allt að 1,0 metra og/eða 0,3 m/sek straumhraða.
II. Kennialda sem nemur allt að 2,0 metrum og/eða straumhraða upp í 0,5 m/sek.
III. Kennialda meiri en 2,0 metrar og/eða straumhraði meiri en 0,5 m/sek og skal þá fylgja búnaði vottorð sem tilgreinir styrkleika netpokans og skal hann vera hannaður fyrir aðstæður á fyrirhuguðum eldisstað.
b. Í 1. töflu eru netpokar flokkaðir eftir ummáli, dýpi og eldisaðstæðum í styrkleikaflokkana A til E.
c. Í 2. töflu eru viðmið fyrir net og tóg í netpoka fyrir styrkleikaflokkana A til E.
d. Leysisgarnið skal vera minnst einu þráðnúmeri sverara en netið. Ef notaðir eru tveir þræðir, má leysisgarnið vera tveimur númerum grennra en þó aldrei undir 235/8 x 3.

1. tafla - Stærðaflokkun á netpoka.
Ummál netpoka
Allt að 50 m
> 50 m til 60 m
> 60 m til 70 m
> 70 m til 80 m
> 80 m til 90 m
> 90 m til 110 m
> 110 m
Dýpi
I
II
I
II
I
II
I
II
I
II
I
II
I
II
Upp í 5 m
A
B
A
B
> 5 m til 10 m
A
B
A
B
B
C
C
D
> 10 m til 15 m
A
B
B
C
B
C
C
D
D
E
D
E
E
> 15 m til 20 m
B
C
C
D
D
E
D
E
D
E
E
> 20 m til 30 m
D
E
D
E
E
E
> 30 m
E
E
E

A til E ákvarða styrkleikaflokk á netpoka. Dýpi er mælt frá sjólínutógi niður á botntóg.

2. tafla - Styrkleikaflokkar A til E.
Þyngd lóða í andrúmslofti miðast við steypt lóð. Ef notuð eru lóð úr öðrum efnum skal umreikna þyngd þeirra.
Styrkleikaflokkur A Styrkleikaflokkur B Styrkleikaflokkur C
Möskvastærð
mm ½ möskvi
Lágmarks-styrkur í vatni Möskvastærð
mm ½ möskvi
Lágmarks-styrkur í vatni Möskvastærð
mm ½ möskvi
Lágmarks-styrkur í vatni
8-12 31 kg 8-12 39 kg
13-16,5 39 kg 13-16,5 47 kg 13-16,5 55 kg
17-22 47 kg 17-22 63 kg 17-22 71 kg
22,5-31 63 kg 22,5-31 71 kg 22,5-31 79 kg
Sjólínutóg 2500 kg Sjólínutóg 3400 kg Sjólínutóg 3400 kg
Lóðrétt tóg 1100 kg Lóðrétt tóg 1700 kg Lóðrétt tóg 2500 kg
Topptóg 1100 kg Topptóg 2500 kg Topptóg 2500 kg
Botntóg 1700 kg Botntóg 2500 kg Botntóg 2500 kg
Hámarksþyngd á lóði á hvert lóðrétt tóg 50 kg í lofti. Hámarksþyngd á lóði á hvert lóðrétt tóg 60 kg í lofti. Hámarksþyngd á lóði á hvert lóðrétt tóg 75 kg í lofti.


Styrkleikaflokkur D
Styrkleikaflokkur E
Möskvastærð
mm ½ möskvi
Lágmarks-styrkur í vatni Möskvastærð
mm ½ möskvi
Lágmarks-styrkur í vatni
13-16,5 63 kg 13-16,5 71 kg
17-22 79 kg 17-22 95 kg
22,5-31 95 kg 22,5-31 118 kg
Sjólínutóg 4100 kg Sjólínutóg 5000 kg
Lóðrétt tóg 3400 kg Lóðrétt tóg 4100 kg
Botntóg 3400 kg Botntóg 3400 kg
Topptóg 3400 kg Topptóg 3400 kg
Krosstóg 3400 kg Krosstóg 3400 kg
Hámarksþyngd á lóði á hvert lóðrétt tóg 100 kg í lofti. Hámarksþyngd á lóði á hvert lóðrétt tóg 125 kg í lofti.


3. Skurður og samsetning á nethlutum:
a. Við skurð á neti með hnútum skal farið eftir alþjóðlega staðlinum ISO 1532. Við skurð á hnútalausu neti skal farið eftir staðlinum þegar því er hægt að koma við.
b. Nethlutana skal sauma saman og til að koma í veg fyrir að þeir rakni skal sauma í lágmark þriðja möskva þegar saumaður er saman upptöku- eða síðukantur. Þegar saumaður er saman leggkantur skulu teknir lágmark 3 leggir.
c. Alltaf skal hnýtt að í hverjum möskva (hálfbragð). Þegar möskvastærðin er 22,5 mm ½ möskvi eða stærri, skulu í viðbót við hálfbragðið teknar tvær stungur í hvern möskva. Hálfbragð þýðir tvær stungur þar sem seinni stungan hnýtir að. Síðan skal hnýtt rækilega að með 10-12 cm millibili.

4.

Samsetning á netpoka:
a. Á svæðum þar sem vænta má núnings og slits skal styrkja netpokann sérstaklega, t.d. þar sem dauðfiskaháfur liggur niður við botn.
b. Við fellingu á netpokanum skal þess gætt að netið hafi nægilegan slaka og sé jafnt strekkt, þannig að átak frá tógunum dreifist jafnt yfir á netið. Lokið skal við að sauma saman nethlutana áður en sjólínutóg er fest.
c. Tóg skal splæsa með minnst fimm innstungum og samskeyti lóðrétts tógs/sjólínutógs og lóðrétts tógs/botntógs skal festa tryggilega.
d. Uppsetning á netpoka miðast við að átak komi aðallega á sjólínutóg, botntóg og lóðrétt tóg.
e. Að hámarki skulu vera 5 metrar á milli lóðréttra tóga á netpoka.
f. Topptóg, lóðrétt tóg og krosstóg eru saumuð við netpoka með leysisgarni. Saumað skal í hvern möskva og hnýtt að með 10-12 cm millibili. Lágmark 3 stungur í hvert skipti, nema á sjólínutógi, þá lágmark 4 stungur. Þegar saumað er við net sem er 22,5 mm ½ möskvi, eða stærri, skal stungið tvisvar sinnum í hvern möskva. Einnig er hægt að sauma tóg við net með þar til gerðum saumavélum. Til að koma í veg fyrir að endar rakni skal saumað 20 cm yfir það svæði þar sem síðast var endað.
g. Fyrir styrkleikaflokka D og E (2. tafla) skal hafa tvöfalt net á þeim svæðum þar sem mest hætta er á núningi og sliti. Tvöfalt net skal haft á svæðum þar sem lóðrétt tóg og botntóg koma saman, að lágmarki 50 cm í allar áttir frá samskeytum.

5.

Netpoki sem ekki hefur netþak skal hafa sjólínutóg í efri enda sem eingöngu er bundið við floteininguna. Ofan á sjólínutóg skal eingöngu festa hoppnet sem nær minnst einn metra yfir sjávaryfirborðið. Í þeim tilvikum þar sem þarf að setja niður hoppnet vegna ísingar yfir vetrarmánuðina skal sjólínutóg vera vel yfir sjávarborði til að koma í veg fyrir slysasleppingar.

6.

Á netpokanum skal vera nægilegur fjöldi lóða eða þyngingar, jafnt dreift til að netpokinn haldi lögun sinni í sjónum. Þannig skal gengið frá festingu á lóði í netbotninn að átakið komi beint í lóðrétta tógið. Einnig er hægt að þyngja poka með því að hafa blý í botntóginu. Blýtógið saumast þá á sama hátt og venjulegt botntóg.

7.

Möskvastærð skal vera nægilega lítil til að minnsti fiskurinn haldist inni í netpokanum.

8.

Þræðir í netpoka skulu varðir fyrir útfjólubláum geislum. Vörnin skal vera nægileg til að lágmarksstyrkur haldist í 3-4 ár í sólarljósi.


VIÐAUKI 4
Eftirlit með netpoka.

I. hluti – Móttökueftirlit.
Eftirlit:

Við móttöku á netpoka skal farið yfir hvort netpokinn sé í samræmi við pöntun og merkingar og vottorð skoðað.
Við sjósetningu á netpoka sem kemur úr viðgerð er gerð úttekt á þvotti, böðun með gróðurhamlandi efnum og athugað hvort göt eða slit finnist á pokanum.


Viðmið:

a. Netpoki skal uppfylla kröfur í viðauka 3 í reglugerð þessari.
b. Hver netpoki skal merktur með birgðanúmeri sem fest er með varanlegu merki innan eins metra fyrir neðan sjólínutóg á hringlaga netpoka eða á einu horni hans. Netpoki skal einnig merktur framleiðanda og framleiðsluári.
c. Við flutning skal pakka netpoka í umbúðir til að tryggt sé að ekki verði skemmdir á honum við flutning.
d. Með netpoka skal fylgja vottorð frá framleiðanda þar sem fram kemur:
· Nafn framleiðanda, birgðanúmer netpoka og framleiðsluár.
· Stærð netpoka og styrkleikaflokkur.
· Efnisgerð, styrkleiki nets, leysisgarns og tógs sem notað er til að styrkja netpokann.
· Staðfesting á að netpokinn sé unninn samkvæmt pöntun, að hann hafi verið framleiddur eftir viðurkenndum staðli og að haft hafi verið eftirlit með framleiðslunni.
· Tilvísun í notkunar- og viðhaldshandbók.
· Undirskrift forsvarsmanns eldisstöðvar og starfsmanns í gæðaeftirliti.
e. Í notkunar- og viðhaldshandbók skulu koma fram leiðbeiningar um; hvernig festa á netpoka við floteiningu og lóð við netpoka, eftirlit, hreinsun og böðun á netpoka með gróðurhamlandi efnum, meðhöndlun hans við flutning og við hvaða aðstæður skal geyma hann.
f. Ef netpoki er að koma úr viðgerð frá netaverkstæði skulu fylgja með niðurstöður eftirlitsins samkvæmt kröfum í viðauka 4, II. hluta í reglugerð þessari.

Úrbætur:

Ef fram kemur í eftirliti að einhverju sé ábótavant skal netpoki endursendur eða gert við hann og það tilkynnt framleiðanda/netaverkstæði.

Skráning: Við móttöku á nýjum netpoka skal komið á ferilskráningu þar sem niðurstöður móttökueftirlits og aðrar upplýsingar um netpokann eru vistaðar. Niðurstöður eftirlits með netpoka sem er að koma úr viðgerð eru vistaðar í ferilskrá viðkomandi netpoka.

II. hluti – Ofansjávareftirlit.
Eftirlit:

Að lágmarki á 18 mánaða fresti skal gera úttekt á ástandi netpokans af starfsmönnum eldisstöðvar, netaverkstæði eða af öðrum hæfum aðilum. Fylgt skal eftirtöldum leiðbeiningum:

1. Byrjað skal á að framkvæma sjónrænt mat á sliti og götum á netpoka.
2. Mæla skal slitþol möskva á öllum netpokum sem eru eldri en tveggja ára. Tækjabúnaður sem notaður er við slitþolsmælingu skal uppfylla alþjóðlega staðalinn ISO 1806:2002 og kvarðaður minnst einu sinni á ári samkvæmt leiðbeiningum framleiðanda. Við framkvæmd á slitþoli möskva skal fylgja eftirfarandi leiðbeiningum:
a. Mæla skal slitþol möskva jafnt dreift yfir nótina, þrjár mælingar á hoppneti, þrjár á efsta metranum undir sjólínutóg, þrjár á miðju dýpi og þrjár á botni pokans.
b. Mælingu á styrkleika möskva skal framkvæma áður en netpoki er baðaður. Með böðunarefni skal fylgja vottorð sem lýsir þeim breytingum sem eiga sér stað á styrk og eiginleika netmöskva eftir böðun.
c. Þau svæði sem valin eru til sýnatöku skulu valin m.t.t. að þau séu dæmigerð fyrir ástand netpokans í heild sinni. Ef tekið er af viðgerðum svæðum eða netpokinn er settur saman úr mismunandi gerðum af möskvum, skal taka sýni til slitþolsmælingar af möskvum af mismunandi gerð og aldri.
d. Við slitþolsmælingu skal þess gætt að slaki sé á netinu á þeim stað sem mælingin fer fram og þannig komið í veg fyrir að átak sé á möskvana sem geti haft áhrif á niðurstöðurnar.
e. Slitþolsmælinguna er hægt að framkvæma bæði á þurrum og blautum möskvum. Mælingu skal ekki framkvæma á frosnum möskvum.
f. Mælinguna skal framkvæma á einum möskva í einu og átakið skal koma á legginn í möskvanum en ekki í hnút eða samskeyti á hnútalausum möskvum.

Viðmiðanir:

Möskvar í netpokanum skulu uppfylla að lágmarki 70% af slitþoli sem gefið er upp sem viðmiðun í töflu 2 í viðauka 3. Fyrir hoppnet er þó nægilegt að slitþolið sé 65%.

Úrbætur: Ef styrkleiki í hoppneti er undir viðmiðunarmörkum skal skipta um hoppnet. Heimilt er að stytta netpoka ef styrkur möskva er undir viðmiðunarmörkum eingöngu í efstu metrunum. Ef styrkleika netpoka er ábótavant á takmörkuðu svæði vegna slits skal gert við en ef styrkleiki er undir viðmiðunarmörkum yfir stóran hluta netpokans skal honum skipt út.

Skráningar: Niðurstöður sjónmats á sliti og götum á netpoka skal merkja með staðsetningu inn á kort. Slitþolsmælingar skal skrá í viðeigandi reit á sama eyðublað dagsett og undirskrifað af þeim aðila sem framkvæmir eftirlitið. Allar skráningar skulu vistaðar í ferilskrá viðkomandi netpoka.

II.I hluti - Neðansjávareftirlit.

Eftirlit:

Netpoka skal skoða með minnst 90 daga millibili með köfun eða með neðansjávarmyndavél. Neðansjávareftirlit skal einnig framkvæma:

a. Áður en nýr hópur af fiski er settur í eldiseininguna.
b. Eftir meðhöndlun eða uppákomu sem eykur líkur á óhappi, s.s. eftir slæm veður, nótarskipti, flutning á fiski, eftir áhlaup afræningja, skemmdarverk á netpoka eða öðrum búnaði og eftir drátt á kví.
c. Eftir slátrun, flokkun og aðra vinnu þar sem talið er að líkur séu á að netpoki hafi orðið fyrir skemmdum.

Í þeim tilvikum þar sem um er að ræða litla, stutta og létta netpoka er hægt að draga hverja hlið upp í yfirborð til að leita að götum.

Viðmiðanir: Engin göt eða slit á netpoka. Festingar úr netpoka í floteiningu í lagi. Engar flækjur eða núningur festinga eða búnaðar við netpoka.

Úrbætur: Viðgerðir skulu framkvæmdar strax. Ef gat á netpoka er það stórt að talin sé hætta á að fiskur hafi komist út um það skal það tilkynnt veiðimálastjóra og fylgt viðbragðsáætlun eldisstöðvar vegna slysasleppinga.

Skráningar: Niðurstöður eftirlits og úrbætur skulu skráðar í ferilskráningu fyrir viðkomandi netpoka með dagsetningu og undirskrift þess aðila sem framkvæmdi eftirlitið. Fram skal koma staðsetning kvíar, kafari, aðstoðarkafari, sjólýsing/skyggni í sjó, köfunartími og fjöldi kafana. Í þeim tilvikum sem gat á netpoka er það stórt að fiskur kemst út um það skal send skýrsla til veiðimálastjóra samkvæmt viðauka 2 með reglugerð þessari.


VIÐAUKI 5
Eftirlitsveiðar.

Eftirlit:

Eftirlitsveiðar skal stunda á tímabilinu 1. október til og með 1. maí inn á milli kvíaþyrpinga í eldisstöðinni með það að markmiði að uppgötva slysasleppingar. Fyrir hverja kvíaþyrpingu skal nota tvö net, sem eru 25 metra löng og 4 til 6 metrar að dýpt. Val á möskvastærð miðast við þann fisk sem er í kvíaþyrpingum í eldisstöðinni á hverjum tíma. Netin skulu merkt með leyfisnúmeri eldisstöðvarinnar og skal hafa þau í yfirborði sjávar. Miðað skal við að framkvæma eftirlitið alla virka daga, ef veður hamlar ekki eftirlitinu.

Viðmiðanir: Engir laxfiskar í netum.

Úrbætur: Ef laxfiskar veiðast skal það tilkynnt veiðimálastjóra. Með köfun eða neðansjávarmyndatöku skal skoðað hvort gat sé á netpokum. Fiskur skal sendur til veiðimálastjóra til að meta hvort um sé að ræða eldisfisk. Ef gat finnst á netpokanum skal fylgja viðbragðsáætlun eldisstöðvar vegna slysasleppinga.

Skráningar: Niðurstöður eftirlits skal skrá á sérstakt eyðublað og ef um er að ræða slysasleppingu skal skrifa skýrslu til veiðimálastjóra samkvæmt viðauka 2 með þessari reglugerð.


VIÐAUKI 6
Verklagsreglur.

1. Veiðimálastjóri skal gefa út verklagsreglur um viðbrögð við slysasleppingum þar sem fram komi markmið, skilgreining helstu áhættuþátta er orsaka slysasleppingu, hver sé ábyrgur og lýsing á framkvæmd í einstökum þáttum. Þegar það á við skal einnig nota teikningar eða myndir. Í verklagsreglum skal fjalla um eftirfarandi verkþætti:
a. Skipti á netpoka:
· Skilgreining á veðurfarslegum aðstæðum þegar heimilt er að skipta um netpoka.
· Skoðun á hvort netpoki sé of þungur vegna gróðurs og annarra ásæta og hvort líkur séu á að hann rifni við meðhöndlun.
· Skoðun á nýrri nót áður en fiskur er settur í hana til að ganga úr skugga um að engin göt séu á henni og að frágangur á henni sé í lagi (sjá viðauka 4, I. móttökueftirlit).
· Skilgreining á lágmarksfjölda starfsmanna við verkið og verksviði hvers en m.a. skulu nýir starfsmenn teknir með sem aukamenn til að læra rétt handbrögð.
· Leiðbeiningar um lágmarksmöskvastærð miðað við tiltekna fiskstærð.
· Samanburður á möskvastærð á nýjum netpoka og mældri stærð á fiski í gömlu nótinni áður en skipt er um netpoka til að staðreyna að möskvar séu nægilega litlir til að halda fiski inni í pokanum.
· Leiðbeiningar um hvernig á að festa netpoka í flotgrind og lóð í botntóg. Tryggja skal að nótpoki liggi eðlilega í sjó og fyrirbyggja þannig að hann lendi í skrúfu þjónustubáta.
· Neðansjávareftirlit með köfun eða myndatöku þegar lokið hefur verið við að skipta um netpoka.
b. Aðrir verkþættir:
· Hreinsun á netpokum í sjó til að draga úr sliti og álagi netmöskva.
· Losun á dauðum fiski úr netpoka.
· Meðhöndlun á fiski við móttöku, afhendingu, slátrun og flokkun.
· Móttaka á stærri þjónustubátum sem ekki tilheyra daglegum rekstri eldisstöðvarinnar.
· Aðgerðir til að koma í veg fyrir að rekís valdi tjóni á sjókví.
· Aðferðir við að framkvæma drátt á sjókví með lifandi fiski.


VIÐAUKI 7
Þjálfun starfsmanna í sjókvíaeldisstöðvum.

1. Tryggja skal að starfsmenn fái þjálfun sem hefur það að markmiði að hindra slysasleppingar og hafi þekkingu og færni til að grípa strax til viðeigandi ráðstafana ef slysasleppingar eiga sér stað.

2.

Innan árs eftir að starfsmaður hóf störf hjá eldisstöð skal hann hafa sótt námskeið viðurkennt af veiðimálastjóra. Á námskeiðinu skal farið yfir:
a. Tjón sem getur átt sér stað á náttúrulegum laxastofnum við slysasleppingu.
b. Helstu ástæður fyrir slysasleppingum og hvernig best er að koma í veg fyrir þær.
c. Hvaða reglur gilda um veiðar á eldisfiski, sem sleppur úr kví og hvernig framkvæma skal veiðar á þeim.

3.

Öllum starfsmönnum skal kynnt gæðakerfi eldisstöðvar og þær verklagsreglur sem farið er eftir við stjórnun í eldisstöðinni. Á meðan á þjálfun stendur skal nýliði vinna með vönum starfsmanni. Fyrir hvern starfsmann skal útbúin þjálfunarskrá sem inniheldur upplýsingar um:
a. Menntun og námskeið sem starfsmaðurinn hefur tekið.
b. Staðfestingu á að starfsmanninum hafi verið kynnt gæðakerfi eldisstöðvar.
c. Verkþætti sem starfsmaðurinn hefur fengið þjálfun í.
d. Starfsmenn sem hafa fengið þjálfun í framkvæmd eftirlits og hvernig grípa skuli til viðeigandi ráðstafana, ef frávik eiga sér stað.

4.

Í þjálfunarskrá skal koma fram að til staðar sé staðgengill eða staðgenglar fyrir öll störf í stöðinni.


VIÐAUKI 8
Sannprófun.

1. Sannprófa skal innra eftirlit eldisstöðvar að lágmarki einu sinni á ári eða alltaf eftir slysasleppingu og þegar breytingar eiga sér stað á rekstri eldisstöðvarinnar. Við sannprófun eftir slysasleppingu skal vera unnt að sýna fram á að gerðar hafi verið fyrirbyggjandi ráðstafanir til að tryggja að slysaslepping endurtaki sig ekki. Þegar breytingar eru gerðar á búnaði, skipulagi eða stjórnun á eldisstöðinni, skal fara yfir breytingarnar og meta hvort líkur á slysasleppingu hafi aukist.

2.

Í árlegri sannprófun skal fara yfir allar skráningar á innra eftirliti eldisstöðvarinnar í heild sinni og hafa til viðmiðunar eftirtalin atriði:
a. Hvort fyrirbyggjandi ráðstöfunum hafi verið framfylgt:
I. Viðhaldi á eldisstöðinni.
II. Þjálfun starfsmanna.
III. Verklagsreglum.
b. Hvort eftirlit og úrbætur hafi verið framkvæmdar eins og gert er ráð fyrir í innra eftirliti eldisstöðvar.
c. Hvort ástæða sé til að breyta þeim viðmiðunum sem notaðar eru.
d. Hvort fullnægjandi úrbætur hafi verið gerðar þegar farið er yfir athugasemdir sem gerðar hafa verið af eftirlitsmanni veiðimálastjóra.

3.

Í árlegri sannprófun skal framkvæmd ítarleg úttekt á öllum búnaði eldisstöðvarinnar. Við eftirlit með köfun eða neðansjávarmyndatöku skal m.a. haft til hliðsjónar:
a. Hvort festingar séu í lagi.
b. Hvort floteining sé heil.
c. Sannprófun viðhaldsáætlunar eldisstöðvar.

4.

Niðurstöður sannprófunarinnar skulu skráðar og undirskrifaðar af forsvarsmanni eldisstöðvarinnar og gerð skal tímasett úrbótaáætlun fyrir þau atriði sem var ábótavant.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica